7. KAFLI
Jesús var þolgóður
1–3. (a) Lýstu sálarangist Jesú í Getsemanegarðinum. Af hverju leið honum svona? (b) Hvað má segja um þolgæði Jesú og hvaða spurningar vakna?
ÁLAGIÐ er gríðarlegt. Aldrei fyrr hefur Jesús liðið slíka angist og sálarkvöl. Hann á aðeins nokkrar klukkustundir eftir ólifaðar hér á jörð. Hann fer ásamt postulunum á kunnuglegan stað, í Getsemanegarðinn. Þeir hafa oft hist þar áður. En núna þarf hann að vera einn um stund. Hann gengur spölkorn inn í garðinn, frá postulunum, krýpur á kné og biður til Guðs. Svo ákaft biðst hann fyrir og svo angistarfullur er hann að sviti hans er ‚eins og blóðdropar sem falla á jörðina‘. – Lúkas 22:39–44.
2 Af hverju líður Jesú svona? Vissulega veit hann að innan skamms á hann eftir að líða óbærilegar kvalir en það er ekki ástæðan fyrir sálarangist hans. Það eru miklu mikilvægari mál sem hvíla á honum. Honum er ákaflega annt um nafn föður síns og hann veit að framtíð mannkyns er undir því komin að hann reynist trúr. Hann veit hve mikilvægt er að sýna þolgæði. Ef hann brygðist núna myndi hann setja smánarblett á nafn Jehóva. En Jesús bregst ekki. Maðurinn sem sýndi þolgæði öllum öðrum fremur hrópar sigri hrósandi síðar þennan sama dag, rétt áður en hann gefur upp andann: „Því er lokið.“ – Jóhannes 19:30.
3 Biblían hvetur okkur til að íhuga vel hvernig Jesús sýndi þolgæði. (Hebreabréfið 12:1–3) Ýmsar mikilvægar spurningar koma upp í hugann: Hvaða prófraunir þurfti Jesús að þola? Hvað gerði honum kleift að standast þær? Hvernig getum við líkt eftir dæmi hans? En áður en við lítum nánar á þessar spurningar skulum við kanna hvað þolgæði er.
Hvað er þolgæði?
4, 5. (a) Hvað er þolgæði? (b) Hvernig má lýsa með dæmi að þolgæði er meira en að ganga gegnum óhjákvæmilega erfiðleika?
4 Af og til þurfum við öll að „þola ýmsar prófraunir“. (1. Pétursbréf 1:6) Er sjálfgefið að við séum þolgóð ef við verðum fyrir prófraun? Nei, gríska nafnorðið sem merkir ‚þolgæði‘ felur í sér ‚að vera úthaldsgóður eða þrautseigur í erfiðleikum‘. Fræðimaður segir um það þolgæði sem biblíuritararnir tala um: „Það er það eðlisfar sem gerir manninum kleift að halda út, ekki með því að sætta sig einfaldlega við orðinn hlut heldur með eldheitri von … Það er sá eiginleiki sem gerir manni fært að standa í fæturna þegar á móti blæs. Það er sú dyggð sem getur breytt erfiðustu prófraun í vegsemd vegna þess að handan sársaukans sér hún markið.“
5 Að vera þolgóður er ekki einfaldlega fólgið í því að ganga gegnum óhjákvæmilega erfiðleika. Í biblíulegum skilningi er þolgæði sama og að vera staðfastur og varðveita rétt hugarfar og von í prófraunum. Lýsum þessu með dæmi: Tveir menn sitja í fangelsi. Aðbúnaður beggja er svipaður en þeir eru fangelsaðir af mjög ólíkum orsökum. Annar er venjulegur afbrotamaður sem afplánar dóm sinn með ólund af því að hann á ekki annarra kosta völ. Hinn er sannkristinn og situr í fangelsi vegna trúar sinnar. Hann ber höfuðið hátt og er jákvæður í lund vegna þess að hann lítur á stöðu sína sem tækifæri til að sýna trúarstaðfestu. Afbrotamaðurinn verður tæplega talinn dæmi um mann sem sýnir þolgæði en hinn kristni er aftur á móti prýðisdæmi um mann sem hefur þennan ágæta eiginleika til að bera. – Jakobsbréfið 1:2–4.
6. Hvernig þroskum við með okkur þolgæði?
6 Við verðum að vera þolgóð til að hljóta hjálpræði. (Matteus 24:13) En þolgæðið er ekki meðfætt heldur þurfum við að tileinka okkur það. Hvernig? „Raunir leiða af sér þolgæði,“ segir í Rómverjabréfinu 5:3. Ef við viljum í alvöru þroska með okkur þolgæði megum við ekki veigra okkur óttaslegin við öllum trúarprófraunum. Við þurfum að horfast einbeitt í augu við þær. Þolgæðið þroskast þegar við sigrumst dag frá degi á prófraunum, stórum sem smáum. Hver raun sem við stöndumst styrkir okkur fyrir þá næstu. En við byggjum auðvitað ekki upp þolgæði af eigin rammleik heldur þurfum við að ‚reiða okkur á máttinn sem Guð gefur‘. (1. Pétursbréf 4:11) Jehóva hefur gefið okkur bestu hjálp sem völ er á til að gera okkur kleift að vera staðföst – fordæmi sonar síns. Lítum nánar á fullkomið þolgæði Jesú.
Þolraunir Jesú
7, 8. Hvað mátti Jesús þola síðustu stundirnar sem hann lifði hér á jörð?
7 Jesús mátti þola alls konar ranglæti og grimmd síðustu stundirnar sem hann lifði hér á jörð. Hugsaðu þér vonbrigði hans og þá auðmýkingu sem hann varð fyrir, auk hins gríðarlega andlega álags sem hann mátti þola kvöldið áður en hann dó. Nákominn félagi sveik hann, nánustu vinir yfirgáfu hann og síðan var réttað yfir honum með ólöglegum hætti þar sem dómarar við æðsta trúardómstól landsins hæddust að honum, hræktu á hann og slógu hann með hnefunum. En í gegnum allt þetta sýndi hann mikinn styrk og hljóða reisn. – Matteus 26:46–49, 56, 59–68.
8 Jesús varð að þola ógurlegar kvalir síðustu stundirnar fyrir dauða sinn. Hann var húðstrýktur sem olli að sögn „löngum og djúpum svöðusárum og töluverðum blóðmissi“. Hann var staurfestur en það var aftökuaðferð sem olli „hægfara dauða með sem mestum kvölum og sársauka“. Hugsaðu þér sársaukann sem fylgdi því þegar stórir gaddar voru reknir gegnum úlnliði hans og fætur til að festa hann á staurinn. (Jóhannes 19:1, 16–18) Ímyndaðu þér sársaukann sem hlýtur að hafa níst hann þegar staurinn var reistur, líkami hans hékk á nöglunum og bakið, sem var eitt flakandi sár, nuddaðist við staurinn. Og munum að þessar ægilegu kvalir bættust við andlega álagið sem lýst var í byrjun kaflans.
9. Hvað er fólgið í því að taka kvalastaur sinn og fylgja Jesú?
9 Hvað getum við þurft að þola sem fylgjendur Krists? Jesús sagði: „Sá sem vill fylgja mér … taki kvalastaur sinn og fylgi mér.“ (Matteus 16:24) Kvalastaurinn er notaður hér í táknrænni merkingu um þjáningar, skömm eða jafnvel dauða. Það er ekki auðveld lífsstefna að fylgja Kristi. Við skerum okkur úr fjöldanum vegna þess að við lifum eftir kristnum meginreglum. Heimurinn hatar okkur af því að við tilheyrum honum ekki. (Jóhannes 15:18–20; 1. Pétursbréf 4:4) Við erum samt sem áður reiðubúin að taka kvalastaur okkar; já, við erum tilbúin til að þjást, jafnvel deyja, frekar en að hætta að fylgja Jesú, fyrirmynd okkar. – 2. Tímóteusarbréf 3:12.
10–12. (a) Hvers vegna reyndi ófullkomleiki annarra á þolgæði Jesú? (b) Nefndu sumt af því sem reyndi á Jesú.
10 Í starfi sínu hér á jörð varð Jesús fyrir ýmsum prófraunum sem rekja mátti til ófullkomleika annarra. Við munum að Jehóva notaði hann sem ‚listasmið‘ þegar hann skapaði jörðina og lífið á henni. (Orðskviðirnir 8:22–31) Jesús vissi þess vegna hvað Jehóva ætlaðist fyrir með mennina: Þeir áttu að endurspegla eiginleika hans og lifa við fullkomna heilsu. (1. Mósebók 1:26–28) Meðan Jesús var hér á jörð horfði hann upp á sorglegar afleiðingar syndarinnar frá öðrum sjónarhóli. Nú var hann maður, gæddur mannlegum tilfinningum og kenndum. Það hlýtur að hafa tekið hann sárt að sjá hve fjarlægir mennirnir voru orðnir fullkomleikanum sem Adam og Eva höfðu í upphafi. Hér reyndi því á þolgæði Jesú. Myndi hann missa kjarkinn, gefast upp og hugsa sem svo að mannkyninu væri ekki viðbjargandi? Lítum nánar á málið.
11 Sinnuleysi Gyðinga tók svo á Jesú að hann grét að öðrum ásjáandi. En lét hann tómlæti þeirra draga úr kostgæfni sinni? Hætti hann að prédika? Nei, „hann kenndi … daglega í musterinu“. (Lúkas 19:41–44, 47) Hann var „miður sín“ yfir kaldlyndi faríseanna sem fylgdust vandlega með hvort hann myndi lækna mann nokkurn á hvíldardegi. Lét hann þessa sjálfbirgingslegu andstæðinga draga úr sér kjarkinn? Nei, hann hikaði ekki við að lækna manninn – og það í sjálfu samkunduhúsinu! – Markús 3:1–5.
12 Veikleikar nánustu lærisveina Jesú hljóta einnig að hafa reynst honum þungir í skauti. Eins og fram kom í 3. kafla voru þeir sífellt að hugsa um eigin frama. (Matteus 20:20–24; Lúkas 9:46) Jesús benti þeim oftar en einu sinni á nauðsyn þess að vera lítillátir. (Matteus 18:1–6; 20:25–28) En þeir voru lengi að taka það til sín. Síðasta kvöldið sem hann var með þeim fóru þeir meira að segja að „rífast um hver þeirra væri talinn mestur“. (Lúkas 22:24) Var Jesú nóg boðið? Hugsaði hann sem svo að þeim væri ekki viðbjargandi? Nei, hann var alltaf þolinmóður, jákvæður og vongóður. Hann sá hið góða í fari þeirra. Hann vissi að innst inni elskuðu þeir Jehóva og þráðu heitt að gera vilja hans. – Lúkas 22:25–27.
13. Hvaða prófraunir gætu orðið á vegi okkar, líkt og hjá Jesú?
13 Við gætum orðið fyrir prófraunum af svipuðu tagi og Jesús. Við hittum kannski fólk sem er áhugalaust gagnvart fagnaðarboðskapnum um ríkið eða jafnvel andsnúið honum. Látum við neikvæð viðbrögð annarra draga úr okkur þrótt eða höldum við áfram að prédika af brennandi áhuga? (Títusarbréfið 2:14) Ófullkomleiki trúsystkina okkar gæti sömuleiðis reynt á okkur. Einhver særir okkur ef til vill með hugsunarlausum orðum eða verkum. (Orðskviðirnir 12:18) Látum við ófullkomleika annarra verða til þess að við gefumst upp á þeim eða höldum við áfram að umbera galla þeirra? Horfum við á hið góða í fari þeirra? – Kólossubréfið 3:13.
Hvers vegna var Jesús þolgóður?
14. Nefndu tvennt sem hjálpaði Jesú að vera staðfastur.
14 Hvað hjálpaði Jesú að vera staðfastur og ráðvandur, þrátt fyrir alla þá vanvirðu, vonbrigði og þjáningar sem urðu á vegi hans? Það var tvennt öðru fremur. Í fyrsta lagi treysti hann á Jehóva „sem veitir þolgæði“. (Rómverjabréfið 15:5) Í öðru lagi horfði hann fram á veginn og einbeitti sér að því sem myndi hljótast af þolgæði hans. Lítum nánar á þetta tvennt.
15, 16. (a) Hvernig sjáum við að Jesús treysti ekki á eigin kraft til að vera þolgóður? (b) Hvaða traust bar Jesús til föður síns og hvers vegna?
15 Þótt Jesús væri fullkominn sonur Guðs treysti hann ekki á eigin kraft til að vera þolgóður. Hann leitaði til föður síns á himnum og bað hann að veita sér styrk. Páll postuli skrifaði: „Kristur [bar] fram innilegar bænir og beiðnir með áköllum og tárum fyrir hann sem var fær um að bjarga honum frá dauða.“ (Hebreabréfið 5:7) Við tökum eftir að Jesús bar ekki aðeins fram beiðnir heldur líka innilegar bænir. Gríska orðið sem þýtt er „innilegar bænir“ lýsir afar einlægri og ákafri bæn eða ákalli um hjálp. Fleirtala orðsins gefur til kynna að Jesús hafi sárbænt Jehóva um þetta oftar en einu sinni. Í Getsemanegarðinum bað hann til dæmis margsinnis og ákaft til Guðs. – Matteus 26:36–44.
16 Jesús treysti fullkomlega að faðirinn á himnum myndi bænheyra hann því að hann vissi að hann „heyrir bænir“. (Sálmur 65:2) Áður en frumgetinn sonur Guðs kom til jarðar hafði hann séð hvernig Guð bregst við bænum dyggra dýrkenda sinna. Hann hafði til dæmis orðið vitni að því á himnum hvernig Jehóva sendi engil til að svara innilegri bæn Daníels spámanns, jafnvel áður en Daníel hafði lokið bæninni. (Daníel 9:20, 21) Hlaut þá ekki faðirinn að heyra bæn eingetins sonar síns þegar hann úthellti hjarta sínu „með áköllum og tárum“? Jehóva bænheyrði son sinn og sendi engil til að styrkja hann svo að hann stæðist eldraunina. – Lúkas 22:43.
17. Af hverju ættum við að leita til Jehóva um hjálp til að vera þolgóð og hvernig getum við gert það?
17 Til að vera þolgóð verðum við líka að treysta á Jehóva „sem gefur [okkur] kraft“. (Filippíbréfið 4:13) Fyrst fullkomnum syni Guðs fannst hann þurfa að sárbæna Guð um hjálp þurfum við þess ekki síður. Við gætum þurft að ákalla Jehóva margsinnis, líkt og Jesús. (Matteus 7:7) Við búumst reyndar ekki við því að engill verði sendur til okkar en einu getum við treyst: Kærleiksríkur Guð á himnum bregst við bænum dyggra þjóna sinna sem ‚ákalla hann og biðja til hans nótt og dag‘. (1. Tímóteusarbréf 5:5) Jehóva bænheyrir okkur þegar við biðjum hann í einlægni að veita okkur visku, hugrekki og styrk til að vera þolgóð í hvaða prófraunum sem verða á vegi okkar, hvort heldur það eru veikindi, ástvinamissir eða ofsóknir af hendi andstæðinga. – 2. Korintubréf 4:7–11; Jakobsbréfið 1:5.
18. Hvernig horfði Jesús lengra en til þjáninganna sem biðu hans?
18 Hitt sem hjálpaði Jesú að vera þolgóður var að hann horfði fram á veginn, lengra en til þjáninganna sem voru fram undan. Biblían segir um hann: „Vegna gleðinnar sem hann átti í vændum þraukaði hann á kvalastaur.“ (Hebreabréfið 12:2) Jesús er glöggt dæmi um það hvernig von, gleði og þolgæði vinna saman. Það mætti lýsa því þannig í hnotskurn: Von stuðlar að gleði og gleðin að þolgæði. (Rómverjabréfið 15:13; Kólossubréfið 1:11) Jesús vissi að hann myndi áorka miklu með trúfesti sinni. Hann myndi stuðla að því að upphefja drottinvald föður síns og geta endurleyst mannkynið úr fjötrum syndar og dauða. Hann átti enn fremur þá von að fá að ríkja sem konungur og verða æðstiprestur til blessunar hlýðnum mönnum. (Matteus 20:28; Hebreabréfið 7:23–26) Jesús hafði óumræðilega gleði af því að einbeita sér að því sem hann myndi áorka og að voninni sem hann hafði. Gleðin hjálpaði honum síðan að vera þolgóður.
19. Hvernig getum við látið von, gleði og þolgæði vinna saman þegar við lendum í trúarprófraunum?
19 Við þurfum, líkt og Jesús, að láta von, gleði og þolgæði vinna saman í okkar þágu. „Gleðjist í voninni. Verið þolgóð í erfiðleikum,“ sagði Páll postuli. (Rómverjabréfið 12:12) Ert þú að ganga í gegnum erfiða trúarprófraun? Horfðu þá fyrir alla muni fram á veginn. Misstu ekki sjónar á því hvernig þú getur verið nafni Jehóva til lofs með því að vera þolgóður. Hafðu alltaf í sjónmáli hina dýrlegu von um það sem Guðsríki mun koma til leiðar. Sjáðu sjálfan þig fyrir þér í nýjum heimi Guðs og ímyndaðu þér hvernig það verður að búa í paradís. Jehóva hefur lofað að upphefja drottinvald sitt, afmá illskuna af jörðinni og útrýma sjúkdómum og dauða. Með því að sjá þetta fyrir þér fyllirðu hjartað gleði og gleðin getur hjálpað þér að halda út hvaða prófraunir sem kunna að verða á vegi þínum. Þegar við sjáum fyrir okkur hvernig þessi von verður að veruleika standa sérhverjar þjáningar þessa heimskerfis ‚stutt og eru léttbærar‘ í samanburði. – 2. Korintubréf 4:17.
Fetum í fótspor hans
20, 21. Hvers væntir Jehóva af okkur og hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?
20 Jesús vissi að það yrði engan veginn auðvelt að vera fylgjandi hans. Það myndi útheimta þolgæði. (Jóhannes 15:20) Hann var reiðubúinn að ganga á undan með góðu fordæmi því að hann vissi að þannig myndi hann vera öðrum til styrktar. (Jóhannes 16:33) Fordæmi Jesú var auðvitað fullkomið en við erum langt frá því að vera fullkomin. Hvers væntir Jehóva af okkur? Pétur segir: „Kristur þjáðist fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til að þið skylduð feta náið í fótspor hans.“ (1. Pétursbréf 2:21) Jesús er okkur fyrirmynd til eftirbreytni með þolgæði sínu í prófraunum. a Það má líkja þolgæði hans við „fótspor“ sem hann skildi eftir sig. Við getum fetað nokkuð vel í fótspor hans þó að okkur takist ekki að gera það fullkomlega.
21 Við skulum því vera staðráðin í að fylgja fordæmi Jesú sem best við getum. Gleymum aldrei að því nákvæmar sem við fetum í fótspor Jesú, þeim mun betur erum við undir það búin að vera þolgóð „allt til enda“, hvort sem það er endir þessa gamla heimskerfis eða lífs okkar þar. Við vitum ekki hvort verður á undan en eitt vitum við: Jehóva mun umbuna okkur um alla eilífð ef við erum þolgóð. – Matteus 24:13.
a Gríska orðið sem þýtt er „fyrirmynd“ merkir bókstaflega ‚að skrifa fyrir neðan‘. Pétur postuli er eini ritari Grísku ritninganna sem notar þetta orð en það er sagt merkja „‚forskrift‘ í skriftarbók barns, fullkomin fyrirmynd að skrifstöfum sem barnið á að líkja eftir eins nákvæmlega og það getur“.