Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

4. KAFLI

„Sjáðu, ljónið af ættkvísl Júda“

„Sjáðu, ljónið af ættkvísl Júda“

„Ég er hann.“

1–3. Í hvaða hættu lendir Jesús og hvernig bregst hann við?

 STÓR hópur manna er að leita Jesú til að taka hann höndum. Þeir eru vopnaðir sverðum og bareflum og hermenn eru meðal þeirra. Það er rétt eins og þeir stjórnist af einhverju illu afli þar sem þeir þramma eftir dimmum götum Jerúsalem, yfir Kedrondal og að Olíufjallinu. Það er fullt tungl en mennirnir bera blys og lampa. Þurfa þeir að lýsa sér leið af því að það er skýjað? Eða búast þeir við að maðurinn sem þeir leita feli sig í skugga næturinnar? Eitt er víst: Þeir sem halda að Jesús hlaupi óttasleginn í felur þekkja hann ekki vel.

2 Jesús veit af hættunni sem nálgast jafnt og þétt en hann stendur kyrr og bíður átekta. Mennirnir koma nær. Júdas, sem verið hafði í hópi nánustu vina hans, er fremstur í flokki. Hann gengur að fyrrverandi meistara sínum, heilsar honum með hræsni og kyssir hann. Jesús heldur stillingu sinni þótt Júdas svíki hann blygðunarlaust í hendur óvina. Síðan gengur hann fram fyrir hópinn og spyr: „Að hverjum leitið þið?“ „Jesú frá Nasaret,“ svara þeir.

3 Flestir hefðu kiknað af ótta andspænis vopnuðum mannfjölda sem þessum. Kannski býst hópurinn við að Jesús geri það. En hann guggnar hvorki né leggur á flótta né reynir að ljúga sig út úr vandanum. Hann svarar einfaldlega: „Ég er hann.“ Svo rólegur er hann í fasi og svo hugrakkur að mennirnir eru forviða. Þeir hopa og falla til jarðar. – Jóhannes 18:1–6; Matteus 26:45–50; Markús 14:41–46.

4–6. (a) Við hvað er syni Guðs líkt og af hverju? (b) Á hvaða þrjá vegu sýndi Jesús hugrekki?

4 Hvernig gat Jesús haldið stillingu sinni og sýnt fullkomna sjálfstjórn andspænis þessari miklu hættu? Svarið er að hann var einstaklega hugrakkur. Það er fátt í fari leiðtoga sem kallar fram jafn mikla aðdáun og er eins mikilvægt og hugrekki. Enginn maður hefur staðið jafnfætis Jesú að þessu leyti, hvað þá skarað fram úr honum. Í kaflanum á undan kom fram hve hógvær og auðmjúkur Jesús var. Hann var réttilega kallaður „lamb“. (Jóhannes 1:29) En hugrekki hans er tilefni þess að hann er einnig nefndur gerólíku nafni. Í Biblíunni segir um son Guðs: „Sjáðu, ljónið af ættkvísl Júda.“ – Opinberunarbókin 5:5.

5 Ljónið er oft sett í samband við hugrekki. Hefurðu einhvern tíma staðið augliti til auglitis við fullvaxið karlljón? Hafirðu gert það var það sennilega í dýragarði og þú varst óhultur vegna þess að dýrið var innilokað í búri. Engu að síður getur ljónið virkað dálítið ógnvekjandi. Þegar þú horfir á þetta stóra og sterka dýr og það horfir fast á móti er erfitt að ímynda sér að það leggi nokkurn tíma óttaslegið á flótta. Í Biblíunni er talað um að ljónið sé ‚sterkast allra dýra og hopi ekki fyrir neinum‘. (Orðskviðirnir 30:30) Slíkt er hugrekki Jesú Krists.

6 Við skulum nú kanna hvernig Jesús sýndi hugrekki ljónsins á þrjá vegu: með því að verja sannleikann, styðja réttlætið og vera staðfastur í mótlæti. Við könnum líka hvernig við getum öll líkt eftir hugrekki Jesú, hvort sem við erum hugrökk að eðlisfari eða ekki.

Hann varði sannleikann af hugrekki

7–9. (a) Hvað átti sér stað þegar Jesús var 12 ára og af hverju hefði verið eðlilegt að vera óöruggur við þessar aðstæður? (b) Hvernig sýndi Jesús hugrekki í samskiptum við kennarana í musterinu?

7 Það kostar oft hugrekki að verja sannleikann í heimi sem er undir stjórn Satans, ‚föður lyginnar‘. (Jóhannes 8:44;14:30) Jesús beið ekki fram á fullorðinsaldur með að taka slíka afstöðu. Þegar hann var 12 ára varð hann viðskila við foreldra sína eftir páskahátíðina í Jerúsalem. Í þrjá daga leituðu Jósef og María örvæntingarfull að drengnum. Þau fundu hann loks í musterinu. Og hvað var hann að gera þar? „Hann sat meðal kennaranna, hlustaði á þá og spurði þá spurninga.“ (Lúkas 2:41–50) Við hvaða aðstæður fóru þessar umræður fram?

8 Sagnfræðingar segja að sumir af helstu trúarleiðtogum þjóðarinnar hafi dvalið um tíma í musterinu eftir hátíðir og kennt í einum af hinum rúmgóðu forsölum sem þar voru. Fólk sat við fætur þeirra, hlustaði á þá og spurði spurninga. Kennararnir voru lærðir menn. Þeir voru vel lesnir í Móselögunum og sömuleiðis í ótal erfðavenjum og flóknum lögum sem menn höfðu safnað saman á löngum tíma. Hvernig ætli þér hefði verið innanbrjósts ef þú hefðir setið á meðal þeirra? Hefðirðu verið óöruggur? Það hefði verið ósköp eðlilegt. Og hvað þá ef þú hefðir ekki verið nema 12 ára! Börn og unglingar eru oft feimin. (Jeremía 1:6) Sum reyna allt hvað þau geta til að draga ekki að sér athygli kennara í skólanum. Þau eru dauðhrædd við að kennarinn taki þau upp, óttast að vekja athygli, verða vandræðaleg eða gera sig að athlægi.

9 En þarna situr Jesús óttalaus mitt á meðal þessara lærðu manna og spyr þá í þaula. Og hann lætur ekki þar við sitja. Frásagan segir: „Allir sem heyrðu til hans voru steinhissa á skilningi hans og svörum.“ (Lúkas 2:47) Biblían getur þess ekki hvað hann sagði við þetta tækifæri en það er næsta víst að hann þuldi ekki upp rangar hugmyndir sem margir þessara trúarkennara aðhylltust. (1. Pétursbréf 2:22) Hann varði sannleikann í orði Guðs, og áheyrendur hans voru vafalaust forviða að heyra 12 ára dreng tjá sig af slíkum skilningi og hugrekki.

Mörg kristin ungmenni segja öðrum óttalaust frá trú sinni.

10. Hvernig líkja kristin ungmenni eftir hugrekki Jesú?

10 Fjöldi kristinna ungmenna fetar í fótspor Jesú nú á dögum. Þau eru auðvitað ekki fullkomin eins og Jesús var. En þau bíða ekki fram á fullorðinsárin, frekar en hann, áður en þau fara að verja sannleikann. Þau bera kurteislega fram spurningar, hlusta og segja síðan frá sannleikanum, bæði í skólanum og í bænum þar sem þau búa. (1. Pétursbréf 3:15) Sem heild hafa þessi ungmenni hjálpað bekkjarfélögum, kennurum og nágrönnum að gerast fylgjendur Krists. Hugrekki þeirra hlýtur að gleðja Jehóva. Í orði hans er slíkum börnum og unglingum líkt við daggardropana sem eru allt í senn hressandi, fallegir og óteljandi. – Sálmur 110:3.

11, 12. Hvernig varði Jesús sannleikann af hugrekki sem fulltíða maður?

11 Sem fulltíða maður varði Jesús sannleikann æ ofan í æ af hugrekki. Þjónusta hans hófst meira að segja með átökum sem margir myndu eflaust kalla ógnvekjandi. Hann stóð augliti til auglitis við Satan, voldugasta og hættulegasta óvin Jehóva. En nú var Jesús ekki erkiengillinn voldugi heldur bara maður af holdi og blóði. Hann vísaði Satan engu að síður á bug og hrakti orð hans þegar hann rangfærði hina innblásnu Ritningu. Viðskiptum þeirra lauk þegar Jesús skipaði honum djarfmannlega: „Farðu burt, Satan!“ – Matteus 4:2–11.

12 Þar með gaf Jesús tóninn fyrir þjónustu sína. Hann varði orð föður síns djarflega þegar aðrir reyndu að rangsnúa því eða misbeita. Óheiðarleiki í trúmálum var ekki síður útbreiddur þá en nú. Jesús sagði trúarleiðtogum samtíðarinnar: „Þannig ógildið þið orð Guðs með erfikenningum ykkar sem þið hafið látið ganga mann fram af manni.“ (Markús 7:13) Almenningur bar mikla lotningu fyrir þessum mönnum en Jesús fordæmdi þá óttalaust sem blinda leiðtoga og hræsnara. a (Matteus 23:13, 16) Hvernig getum við líkt eftir hugrekki hans að þessu leyti?

13. Hvað þurfum við að hafa hugfast en hvað getum við samt gert?

13 Við höfum auðvitað hugfast að við getum hvorki lesið hjörtu manna líkt og Jesús né höfum við það vald sem hann hafði til að dæma. Hins vegar getum við líkt eftir því hvernig hann varði sannleikann djarfmannlega. Með því að fletta ofan af trúarlegum ósannindum – þeim lygum sem oft er haldið fram varðandi Guð, orð hans og fyrirætlun – skínum við eins og ljós í heimi sem er myrkvaður áróðri Satans. (Matteus 5:14; Opinberunarbókin 12:9, 10) Við hjálpum fólki að losa sig úr fjötrum falskenninga sem fylla hjörtu þess ótta og óhugnaði og skaða samband þess við Guð. Það er einstakt að fá að sjá loforð Jesú rætast: „Sannleikurinn veitir ykkur frelsi.“ – Jóhannes 8:32.

Hann studdi réttlætið af hugrekki

14, 15. (a) Nefndu dæmi um hvernig Jesús boðaði réttlæti. (b) Hvaða fordóma virti Jesús að vettugi þegar hann talaði við samverska konu?

14 Í Biblíunni var spáð að Messías myndi „boða þjóðunum hvað réttlæti er“. (Matteus 12:18; Jesaja 42:1) Jesús gerði það sannarlega þegar hann var hér á jörð. Hann var alltaf réttsýnn og óhlutdrægur í samskiptum við fólk, og þurfti mikið hugrekki til. Hann hafnaði til dæmis alfarið óbiblíulegum fordómum og umburðarleysi sem var afar útbreitt meðal samtíðarmanna hans.

15 Lærisveinar Jesú furðuðu sig á því að hann skyldi tala við samverska konu við brunninn í Síkar. Af hverju? Gyðingar á þeim tíma fyrirlitu almennt Samverja og átti það sér langa sögu. (Esrabók 4:4) Sumir rabbínar litu auk þess niður á konur. Í reglum rabbína, sem voru skrásettar síðar meir, var karlmönnum ráðlagt að tala ekki við konur, og þar var jafnvel gefið í skyn að konur væru óverðugar þess að fá kennslu í lögmáli Guðs. Samverskar konur voru álitnar óhreinar öðrum konum fremur. Jesús virti þessa ranglátu fordóma að vettugi og kenndi samversku konunni fyrir opnum tjöldum og lifði hún þó siðlausu lífi. Hann sagði henni meira að segja að hann væri Messías. – Jóhannes 4:5–27.

16. Af hverju þurfa kristnir menn á hugrekki að halda til að vera lausir við fordóma?

16 Hefurðu einhvern tíma verið meðal fólks sem haldið er stækum fordómum? Það hæðist kannski með fyrirlitningu að fólki af annarri þjóð eða kynþætti, talar niðrandi um hitt kynið eða lítur niður á fólk sem er lægra sett í þjóðfélaginu eða býr við lakari efnahag. Fylgjendur Krists taka ekki undir ógeðfelldar skoðanir af þessu tagi heldur leggja hart að sér að uppræta alla fordóma úr hjörtum sér. (Postulasagan 10:34) Við þurfum öll að byggja upp hugrekki til að vera réttlát á þessu sviði.

17. Hvað gerði Jesús í musterinu og hvers vegna?

17 Jesús barðist einnig hugrakkur fyrir hreinleika þjóðar Guðs og tilbeiðslunnar á honum. Skömmu eftir að hann hóf þjónustu sína gekk hann inn á musterissvæðið í Jerúsalem og honum blöskraði að sjá kaupmenn og víxlara stunda viðskipti sín þar. Hann fylltist réttlátri reiði og rak þessa ágjörnu menn út af svæðinu með söluvarning sinn. (Jóhannes 2:13–17) Hann endurtók leikinn síðar, skömmu áður en hann lauk þjónustu sinni á jörð. (Markús 11:15–18) Hann aflaði sér örugglega voldugra óvina með því að gera þetta en hikaði samt ekki. Hvers vegna? Allt frá barnæsku hafði hann kallaði musterið hús föður síns – og hann meinti það. (Lúkas 2:49) Að spilla hinni hreinu tilbeiðslu sem fór þar fram var ranglæti sem hann gat aldrei sætt sig við. Kostgæfnin veitti honum þann kjark sem til þurfti.

18. Hvernig geta kristnir menn sýnt það hugrekki sem þarf til að verja hreinleika safnaðarins?

18 Fylgjendum Krists nú á tímum er sömuleiðis ákaflega annt um að þjónar Guðs séu hreinir og tilbeiðsla þeirra sé það líka. Þeir horfa ekki í hina áttina ef þeir verða vitni að því að trúbróðir eða trúsystir gera sig sek um alvarlega synd heldur sýna þann kjark að láta í sér heyra. (1. Korintubréf 1:11) Þeir fullvissa sig um að öldungar safnaðarins fái að vita af málinu. Öldungarnir geta hjálpað þeim sem hafa skaðað samband sitt við Guð og geta sömuleiðis gert það sem gera þarf til að sauðir Jehóva geti staðið hreinir frammi fyrir honum. – Jakobsbréfið 5:14, 15.

19, 20. (a) Hvaða ranglæti var útbreitt á dögum Jesú og hvað var reynt að fá hann til að gera? (b) Af hverju neita fylgjendur Krists að blanda sér í stjórnmál og ofbeldi og hvaða umbun hafa þeir hlotið?

19 Ber að skilja þetta svo að Jesús hafi barist gegn óréttlæti í heiminum almennt? Óneitanlega var margs konar ranglæti allt um kring. Heimaland hans var undir erlendri stjórn. Rómverjar kúguðu Gyðinga með öflugu herliði, lögðu þunga skatta á þá og skiptu sér jafnvel af trúarsiðum þeirra. Margir vildu eðlilega að Jesús blandaði sér í stjórnmál samtímans. (Jóhannes 6:14, 15) Enn og aftur þurfti hann að sýna hugrekki.

20 Jesús benti á að ríki sitt væri ekki af þessum heimi. Með fordæmi sínu kenndi hann fylgjendum sínum að halda sig utan við pólitísk átök samtímans og einbeita sér að því að boða fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs. (Jóhannes 17:16; 18:36) Hann kenndi þeim mikilvægan lærdóm varðandi hlutleysi þegar mannfjöldinn kom til að handtaka hann. Pétur stökk þá fram, sveiflaði sverði sínu hvatvíslega og særði mann. Það er auðvelt að setja sig í spor Péturs. Hafi einhvern tíma virst réttlætanlegt að beita ofbeldi var það þessa nótt þegar ráðist var á son Guðs alsaklausan. En Jesús notaði þetta tækifæri til að leggja fylgjendum sínum á jörð lífsreglur sem þeir áttu að fylgja allt fram á okkar daga. Hann sagði: „Stingdu sverðinu aftur í slíðrin því að allir sem bregða sverði munu falla fyrir sverði.“ (Matteus 26:51–54) Til að vera friðsamir þurftu fylgjendur Krists á þeim tíma að vera hugrakkir ekki síður en fylgjendur hans nú á dögum. Þar sem þjónar Guðs eru hlutlausir hafa þeir ekki tekið þátt í styrjöldum, blóðsúthellingum, uppþotum eða svipuðum ofbeldisverkum sem hafa verið í algleymingi á okkar tímum. Svo er hugrekki þeirra fyrir að þakka að þeir hafa hreinan skjöld að þessu leyti.

Hann var hugrakkur gagnvart andstæðingum

21, 22. (a) Hvaða hjálp fékk Jesús áður en hann gekk í gegnum erfiðustu prófraun ævinnar? (b) Hvernig reyndist Jesús hugrakkur allt til enda?

21 Sonur Jehóva vissi löngu fyrir fram að hann myndi mæta harðri mótspyrnu hér á jörð. (Jesaja 50:4–7) Oft var lífi hans ógnað og náði það hámarki með atvikinu sem lýst var í byrjun kaflans. Hvernig varðveitti Jesús hugrekki sitt andspænis öllum þessum hættum? Rétt áður en mannfjöldinn kom til að handtaka hann bað hann ákaft til Jehóva. Og hvað gerði Jehóva? Hann bænheyrði Jesú, að sögn Biblíunnar. (Hebreabréfið 5:7) Jehóva sendi engil af himni til að styrkja hugrakkan son sinn. – Lúkas 22:42, 43.

22 Rétt eftir að engillinn hafði styrkt Jesú sagði hann við postulana: „Standið upp, förum.“ (Matteus 26:46) Orð hans vitna um mikið hugrekki. „Förum,“ sagði hann, vitandi að hann myndi biðja mannfjöldann að þyrma vinum sínum, að félagar hans myndu yfirgefa hann og leggja á flótta og að hann myndi þurfa að þola erfiðustu prófraun ævinnar einsamall. Einn gekk hann gegnum ólögleg og ranglát réttarhöld, hann var hæddur og pyntaður og dó síðan kvalafullum dauða. En aldrei brást honum hugrekkið.

23. Hvers vegna var það ekki fífldirfska af hálfu Jesú að bregðast við með þeim hætti sem hann gerði?

23 Var þetta fífldirfska af hálfu Jesú? Nei, fífldirfska á ekkert skylt við hugrekki. Jesús kenndi fylgjendum sínum að vera varkárir og sýna þá skynsemi að forðast hættur til að geta haldið áfram að gera vilja Guðs. (Matteus 4:12; 10:16) Í þessu tilfelli vissi Jesús hins vegar að það var engin undankomuleið. Hann vissi hvað vilji Guðs fól í sér og var staðráðinn í að varðveita ráðvendni sína. Eina leiðin var því sú að horfast einbeittur í augu við prófraunirnar.

Vottar Jehóva hafa sýnt mikið hugrekki í ofsóknum.

24. Af hverju megum við treysta því að við getum verið hugrökk í öllum þeim prófraunum sem kunna að verða á vegi okkar?

24 Hversu oft hafa ekki fylgjendur Jesú fetað óttalaust í fótspor meistara síns. Margir hafa verið staðfastir þrátt fyrir háð og spott, ofsóknir, handtökur, fangavist, pyntingar og jafnvel dauða. Hvaðan fá ófullkomnir menn slíkt hugrekki? Það kemur ekki bara innan frá heldur fá fylgjendur Jesú hjálp að ofan rétt eins og hann sjálfur. (Filippíbréfið 4:13) Þú skalt því ekki óttast framtíðina. Vertu staðráðinn í að vera ráðvandur, þá mun Jehóva veita þér það hugrekki sem þú þarft á að halda. Haltu áfram að sækja styrk og kraft í fordæmi leiðtoga okkar, Jesú, sem sagði: „Verið hugrakkir. Ég hef sigrað heiminn.“ – Jóhannes 16:33.

a Sagnfræðingar benda á að svipuð lotning hafi verið borin fyrir gröfum rabbína og fyrir gröfum spámanna og ættfeðra.