Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐAUKI

Hvað er dómsdagur?

Hvað er dómsdagur?

HVERNIG sérðu dómsdag fyrir þér? Margir ímynda sér hann þannig að milljarðar sálna séu leiddar hver af annarri fyrir hásæti Guðs og fái þar sinn dóm. Sumar hljóti himneska sælu að launum en aðrar verði dæmdar til eilífra kvala. Biblían dregur upp allt aðra mynd af þessu tímabili. Hún lýsir dómsdegi ekki sem tíma ógnar og skelfingar heldur tíma vonar og endurreisnar.

Við getum lesið lýsingu Jóhannesar postula á dómsdegi í Opinberunarbókinni 20:11, 12. Þar stendur: „Ég sá mikið hvítt hásæti og þann, sem í því sat. Og fyrir ásjónu hans hvarf himinn og jörð og þeirra sá engan stað. Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.“ Hver er dómarinn sem situr þarna?

Jehóva Guð er æðsti dómari mannkyns. Hann hefur hins vegar falið öðrum að fella sjálfa dómana. Páll postuli segir í Postulasögunni 17:31 að Guð hafi „sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi“. Þessi dómari er hinn upprisni Jesús Kristur. (Jóhannes 5:22) En hvenær hefst dómsdagur og hve langur er hann?

Í Opinberunarbókinni kemur fram að dómsdagur hefjist eftir Harmagedónstríðið þegar kerfi Satans verður eytt. * (Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:19–20:3) Eftir Harmagedón verða Satan og illu andarnir fangelsaðir í undirdjúpi í þúsund ár. Þessi þúsund ár munu 144.000 samerfingjar Krists gegna hlutverki dómara og ríkja með honum. (Opinberunarbókin 14:1-3; 20:1-4; Rómverjabréfið 8:17) Dómsdagur er ekki bara einn sólarhringur þar sem allir eru dæmdir með hraði heldur er hann þúsund ára langur.

Á þessum þúsund árum mun Jesús Kristur „dæma . . . lifendur og dauða“. (2. Tímóteusarbréf 4:1) „Lifendur“ eru „mikill múgur“ manna sem lifir af Harmagedónstríðið. (Opinberunarbókin 7:9-17) Jóhannes postuli sá einnig „þá dauðu . . . standa frammi fyrir hásætinu“ þar sem dómurinn fer fram. Eins og Jesús lofaði munu „þeir, sem í gröfunum eru . . . heyra raust hans og ganga fram“ þegar þeir verða reistir upp frá dauðum. (Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15) En eftir hverju verða allir dæmdir?

Í sýn Jóhannesar postula segir: „Bókum var lokið upp . . . og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.“ Geyma þessar bækur upplýsingar um verk manna í fortíðinni? Nei, dómurinn verður ekki byggður á verkum manna fyrir dauðann. Hvernig vitum við það? Biblían segir: „Sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.“ (Rómverjabréfið 6:7) Menn eru sem sagt með hreinan skjöld þegar þeir rísa upp frá dauðum. Bækurnar hljóta því að innihalda frekari upplýsingar um kröfur Guðs. Til að lifa að eilífu þurfa bæði hinir upprisnu og þeir sem lifa af Harmagedón að hlýða boðorðum Guðs, þar á meðal nýjum fyrirmælum sem hann kann að gefa á þessum þúsund árum. Fólk verður dæmt á grundvelli þess sem það gerir meðan dómsdagurinn stendur yfir.

Á dómsdegi fá milljarðar manna tækifæri í fyrsta sinn til að kynnast vilja Guðs og laga sig að honum. Það hefur í för með sér umfangsmikið fræðslustarf og „þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti“. (Jesaja 26:9) Ekki vilja þó allir laga sig að vilja Guðs. Í Jesaja 26:10 segir: „Sé hinum óguðlegu sýnd vægð, læra þeir eigi réttlæti. Þá fremja þeir órétt í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja, og gefa ekki gætur að hátign Drottins.“ Óguðlegir menn verða líflátnir fyrir fullt og allt á dómsdegi. — Jesaja 65:20.

Þegar dómsdegi lýkur eru eftirlifandi menn orðnir fullkomnir og eru því ‚lifnaðir‘ að fullu. (Opinberunarbókin 20:5) Á dómsdegi endurheimtir mannkynið með öðrum orðum fullkomleikann sem það hafði í upphafi. (1. Korintubréf 15:24-28) Þá fer fram lokapróf. Satan verður sleppt úr fangelsinu og hann fær þá að gera síðustu tilraun til að afvegaleiða mannkynið. (Opinberunarbókin 20:3, 7-10) Þeir sem standa gegn honum fá að sjá fyrirheit Biblíunnar í Sálmi 37:29 rætast að fullu: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Já, dómsdagur verður til blessunar fyrir alla trúfasta menn.

^ gr. 1 Finna má upplýsingar um Harmagedón í Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 594-95, 1037-38 og bæklingnum Haltu vöku þinni, bls. 12-19. Bæði ritin eru gefin út af Vottum Jehóva.