Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

18. KAFLI

Skírn og samband þitt við Guð

Skírn og samband þitt við Guð
  • Hvernig fer kristin skírn fram?

  • Hvað þarftu að gera til að geta látið skírast?

  • Hvernig vígist maður Guði?

  • Hvaða sérstök ástæða er til að láta skírast?

1. Af hverju vildi eþíópskur hirðmaður láta skírast?

„HÉR er vatn, hvað hamlar mér að skírast?“ spurði eþíópskur hirðmaður á fyrstu öld. Kristinn maður, sem hét Filippus, hafði sýnt honum fram á að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías. Þessi skilningur, sem eþíópski maðurinn fékk á Ritningunni, snart hann djúpt og hann beið ekki boðanna heldur fór eftir því sem hann hafði lært. Hann vildi láta skírast. — Postulasagan 8:26-36.

2. Af hverju ættirðu að hugsa alvarlega um að láta skírast?

2 Ef þú hefur farið vandlega yfir alla kaflana hér á undan með hjálp einhvers af vottum Jehóva getur verið að þér finnist tímabært að spyrja: „Hvað hamlar mér að skírast?“ Þú ert búinn að kynna þér loforð Biblíunnar um eilíft líf í paradís. (Lúkas 23:43; Opinberunarbókin 21:3, 4) Þú veist hvað verður um fólk við dauðann og hefur lært um upprisuvonina. (Prédikarinn 9:5; Jóhannes 5:28, 29) Sennilega hefurðu sótt safnaðarsamkomur hjá Vottum Jehóva og hefur séð með eigin augum hvernig þeir iðka sanna trú. (Jóhannes 13:35) Síðast en ekki síst ertu trúlega farinn að mynda persónuleg tengsl við Jehóva Guð.

3. (a) Hvað sagði Jesús fylgjendum sínum að gera? (b) Hvernig fer kristin skírn fram?

3 Hvernig geturðu sýnt að þú viljir þjóna Guði? Jesús sagði fylgjendum sínum: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá.“ (Matteus 28:19) Hann gaf fordæmið með því að láta sjálfur skírast í vatni. Hann lét ekki aðeins dreypa á sig vatni eða ausa því á höfuð sér. (Matteus 3:16) Gríska sagnorðið, sem er þýtt „skíra“, er dregið af sögn sem merkir „að dýfa“ þannig að kristin skírn er fólgin í algerri niðurdýfingu í vatn.

4. Hvað gefum við til kynna með því að láta skírast?

4 Allir sem vilja eiga samband við Jehóva þurfa að skírast í vatni. Skírn er opinbert merki um að þú viljir þjóna honum. Hún sýnir að þú hefur yndi af því að gera vilja hans. (Sálmur 40:8, 9) En áður en þú getur látið skírast þarftu að stíga viss skref.

ÞEKKING OG TRÚ ERU NAUÐSYNLEG

5. (a) Hvert er fyrsta skrefið í átt til skírnar? (b) Af hverju er mikilvægt að sækja safnaðarsamkomur?

5 Þú ert að stíga fyrsta skrefið núna með því að afla þér þekkingar á Jehóva Guði og Jesú Kristi, ef til vill með kerfisbundnu biblíunámi. (Lestu Jóhannes 17:3.) En þú átt margt ólært enn þá. Kristna menn langar til að „fyllast þekkingu á vilja Guðs“. (Kólossubréfið 1:9) Safnaðarsamkomur Votta Jehóva eru mjög góð leið til þess. Það er mikilvægt að sækja samkomurnar reglulega því að þannig eykurðu þekkingu þína á Guði. — Hebreabréfið 10:24, 25.

Nákvæm þekking á orði Guðs er mikilvægur undanfari skírnar.

6. Hve mikil biblíuþekking er nauðsynleg til að geta látið skírast?

6 Þú þarft auðvitað ekki að þekkja Biblíuna spjaldanna á milli til að geta látið skírast. Eþíópski hirðmaðurinn hafði vissa þekkingu á Ritningunni en hann þurfti að fá aðstoð til að skilja ákveðna hluta hennar. (Postulasagan 8:30, 31) Þú átt líka margt ólært og reyndar geturðu haldið endalaust áfram að fræðast um Guð. (Prédikarinn 3:11) En áður en þú getur látið skírast þarftu að minnsta kosti að þekkja og viðurkenna undirstöðukenningar Biblíunnar. (Hebreabréfið 5:12) Til dæmis þarftu að þekkja og viðurkenna sannleikann um það sem gerist við dauðann og um mikilvægi ríkis Guðs og nafns hans.

7. Hvaða áhrif ætti biblíunám að hafa á þig?

7 Þekking nægir auðvitað ekki ein sér því að „án trúar er ógerlegt að þóknast“ Guði. (Hebreabréfið 11:6) Sagt er frá því í Biblíunni að allmargir Korintumenn hafi ‚tekið trú og látið skírast‘ eftir að hafa hlustað á boðskap kristninnar. (Postulasagan 18:8) Nám í Biblíunni ætti sömuleiðis að veita þér þá trú að hún sé innblásið orð Guðs. Biblíunám ætti að hjálpa þér að treysta á loforð Guðs og á hjálpræðið sem er fólgið í fórn Jesú. — Jósúabók 23:14; Postulasagan 4:12; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

AÐ SEGJA ÖÐRUM FRÁ SANNLEIKA BIBLÍUNNAR

8. Hvað vekur löngun með þér til að segja öðrum frá því sem þú ert að læra?

8 Þegar trúin vex í hjarta þér kemstu að raun um að það er erfitt annað en að segja frá því sem þú ert að læra. (Jeremía 20:9) Þú finnur sterka löngun hjá þér til að segja öðrum frá Guði og fyrirætlunum hans. — Lestu 2. Korintubréf 4:13.

Trúin ætti að vera þér hvöt til að segja öðrum frá því sem þú hefur lært.

9, 10. (a) Hverjum geturðu byrjað á að segja frá sannleika Biblíunnar? (b) Hvað ættirðu að gera ef þig langar til að taka þátt í skipulögðu boðunarstarfi Votta Jehóva?

9 Þú gætir byrjað á því að segja ættingjum, vinum, nágrönnum og vinnufélögum frá sannleika Biblíunnar en gerðu það með háttvísi. Þegar fram líða stundir langar þig trúlega til að taka þátt í skipulögðu boðunarstarfi votta Jehóva. Þegar þar að kemur geturðu rætt málið við vottinn sem er að leiðbeina þér við biblíunámið. Ef allt bendir til þess að þú uppfyllir hæfniskröfurnar munu tveir af öldungum safnaðarins skjóta á fundi með þér og leiðbeinanda þínum.

10 Þessi fundur býður upp á tækifæri fyrir þig til að kynnast betur sumum af öldungum safnaðarins sem hafa það hlutverk að gæta hjarðar Guðs. (Postulasagan 20:28; 1. Pétursbréf 5:2, 3) Ef öldungarnir komast að raun um að þú skilur undirstöðukenningar Biblíunnar og trúir þeim, lifir í samræmi við meginreglur Guðs og langar í einlægni til að verða vottur Jehóva, þá láta þeir þig vita að þú sért hæfur til að taka þátt í að boða fagnaðarerindið meðal almennings sem óskírður boðberi.

11. Hvaða breytingar gætu sumir þurft að gera til að verða hæfir til að boða fagnaðarerindið meðal almennings?

11 Það gæti hins vegar komið á daginn að þú þurfir að gera einhverjar breytingar á venjum þínum eða líferni til að fá að taka þátt í boðunarstarfi meðal almennings. Þú gætir til dæmis þurft að hætta einhverju sem þú hefur haldið leyndu fyrir öðrum. Áður en menn óska eftir að gerast óskírðir boðberar verða þeir að leggja af alvarlegar syndir eins og kynferðislegt siðleysi, drykkjuskap eða fíkniefnaneyslu. — Lestu 1. Korintubréf 6:9, 10; Galatabréfið 5:19-21.

IÐRUN OG SINNASKIPTI

12. Af hverju er nauðsynlegt að iðrast?

12 Fleira þarf að gera áður en maður getur látið skírast. Pétur postuli sagði: „Gjörið . . . iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar.“ (Postulasagan 3:19) Iðrun er fólgin í því að sjá einlæglega eftir einhverju sem maður hefur gert. Iðrun er auðvitað viðeigandi ef maður hefur lifað siðlausu lífi, en hún er líka nauðsynleg þó að maður hafi lifað fremur hreinu lífi. Ástæðan er sú að allir menn eru syndugir og þurfa fyrirgefningu Guðs. (Rómverjabréfið 3:23; 5:12) Þú þekktir ekki vilja Guðs áður en þú fórst að kynna þér Biblíuna þannig að þú gast ekki lifað í samræmi við vilja hans að öllu leyti. Þess vegna er nauðsynlegt að iðrast.

13. Hvað eru sinnaskipti?

13 Samfara iðruninni þarftu að ‚snúa þér‘, taka sinnaskiptum. Það er ekki nóg að sjá eftir því sem maður hefur gert heldur þarf maður að hafna fyrra líferni og vera staðráðinn í að gera eftirleiðis það sem er rétt. Iðrunin og sinnaskiptin þurfa að eiga sér stað áður en maður lætur skírast.

AÐ VÍGJAST GUÐI

14. Hvað annað þarftu að gera áður en þú lætur skírst?

14 Áður en þú lætur skírast þarftu að stíga annað mikilvægt skref. Þú þarft að vígjast Jehóva Guði.

Hefurðu vígt þig Guði í bæn?

15, 16. Hvað merkir það að vígjast Guði og af hvaða hvötum gera menn það?

15 Þegar þú vígir þig Jehóva Guði í einlægri bæn lofar þú að veita honum óskipta hollustu að eilífu. (5. Mósebók 6:15) En af hverju skyldi mann langa til þess? Lýsum því með dæmi. Segjum að maður sé að draga sig eftir konu. Því nánar sem hann kynnist henni og góðum eiginleikum hennar, þeim mun sterkar laðast hann að henni. Að endingu spyr hann eðli málsins samkvæmt hvort hún vilji giftast sér. Vissulega fylgir því ýmiss konar ábyrgð að skuldbinda sig en ástin knýr hann til að stíga þetta mikilvæga skref.

16 Þegar þú kynnist Jehóva og ferð að elska hann langar þig til að þjóna honum skilyrðislaust. Þú vilt ekki setja tilbeiðslu þinni nein takmörk. Sá sem vill fylgja syni Guðs, Jesú Kristi, þarf að ‚afneita sjálfum sér‘. (Markús 8:34) Við afneitum okkur með því að gæta þess að persónulegar langanir og markmið standi ekki í veginum fyrir því að við hlýðum Guði í hvívetna. Áður en þú getur látið skírast þarftu með öðrum orðum að hafa það meginmarkmið í lífinu að gera vilja Guðs. — Lestu 1. Pétursbréf 4:2.

VERTU EKKI HRÆDDUR UM AÐ ÞÚ BREGÐIST

17. Af hverju hika sumir við að vígjast Guði?

17 Sumir hika við að vígjast Jehóva vegna þess að þeir treysta sér ekki til að stíga svona alvarlegt skref. Kannski veigra þeir sér við að vera ábyrgir gagnvart honum sem vígðir kristnir menn. Þeir hugsa með sér að best sé að vígja sig ekki Jehóva vegna þess að þeir óttast að þeir kunni að bregðast honum og valda honum vonbrigðum.

18. Hvað getur verið þér hvöt til að vígjast Jehóva?

18 Þegar þú lærir að elska Jehóva fer þig að langa til að vígjast honum og þú vilt gera þitt besta til að halda vígsluheitið. (Prédikarinn 5:3) Eftir að hafa vígst Guði viltu auðvitað ‚hegða þér eins og honum er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt‘. (Kólossubréfið 1:10) Þar sem þú elskar hann finnst þér ekki erfitt að gera vilja hans. Þú ert eflaust sammála Jóhannesi postula sem skrifaði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

19. Af hverju þarftu ekki að vera hræddur við að vígjast Guði?

19 Þú þarft ekki að vera fullkominn til að vígjast Guði. Hann þekkir takmörk þín og ætlast aldrei til meira af þér en þú getur gert. (Sálmur 103:14) Hann vill að þér gangi allt í haginn og mun því styðja þig og styrkja. (Lestu Jesaja 41:10.) Þú getur verið viss um að Jehóva ‚gerir stigu þína slétta‘ ef þú treystir honum af öllu hjarta. — Orðskviðirnir 3:5, 6.

LÁTTU SKÍRAST TIL TÁKNS UM VÍGSLU ÞÍNA

20. Af hverju er það ekki einkamál að maður hafi vígt sig Guði?

20 Þér finnst kannski auðveldara að vígjast Jehóva í bæn eftir að hafa hugleitt efni þessa kafla. Allir sem elska Guð í raun og sannleika þurfa að ‚játa til hjálpræðis‘. (Rómverjabréfið 10:10) Hvernig fer maður að því?

Skírn táknar að maður deyi sinni fyrri lífsstefnu og lifni til að gera vilja Guðs.

21, 22. Hvernig er hægt að játa trú sína?

21 Láttu umsjónarmann öldungaráðsins í söfnuðinum þínum vita að þig langi til að láta skírast. Hann gerir þá ráðstafanir til þess að öldungar í söfnuðinum hitti þig til að fara yfir allmargar spurningar um undirstöðukenningar Biblíunnar. Ef öldungarnir telja þig hæfan láta þeir þig vita að þú megir skírast við fyrsta tækifæri. * Áður en skírnin fer fram er yfirleitt flutt ræða um merkingu hennar og síðan biður ræðumaðurinn þá sem ætla að skírast að svara tveim einföldum spurningum. Það er ein leið til að játa trú sína.

22 Skírnin er opinbert merki þess að maður hafi vígt sig Jehóva Guði og sé nú vottur hans. Með niðurdýfingu í vatn sýnir skírnþeginn opinberlega að hann hafi vígt sig Jehóva.

MERKING SKÍRNARINNAR

23. Hvað merkir það að skírast „í nafni föður, sonar og heilags anda“?

23 Jesús sagði að lærisveinar sínir yrðu skírðir „í nafni föður, sonar og heilags anda“. (Matteus 28:19) Þetta merkir að skírnþeginn viðurkennir yfirráð Jehóva Guðs og Jesú Krists. (Sálmur 83:19; Matteus 28:18) Hann viðurkennir einnig hlutverk og starfsemi heilags anda Guðs sem er starfskraftur hans. — Galatabréfið 5:22, 23; 2. Pétursbréf 1:21.

24, 25. (a) Hvað táknar skírnin? (b) Hvaða spurningu þarf að svara?

24 Skírnin er samt annað og meira en bað. Hún er mjög mikilvægt tákn. Að fara á kaf í vatnið táknar að maður sé dáinn sinni fyrri lífsstefnu. Þegar manni er lyft upp úr vatninu er það tákn þess að maður sé lifnaður til að gera vilja Guðs. Og hafðu hugfast að fólk vígist Jehóva Guði, en ekki einhverju verki, málstað, mönnum eða söfnuði. Vígsla og skírn eru upphaf að mjög náinni vináttu við Guð — að innilegu sambandi við hann. — Sálmur 25:14.

25 Skírn er ekki trygging fyrir hjálpræði. „Vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta,“ skrifaði Páll postuli. (Filippíbréfið 2:12) Skírn er aðeins byrjunin. Hvernig geturðu varðveitt sjálfan þig áfram í kærleika Guðs? Svarið er að finna í síðasta kafla bókarinnar.

^ gr. 21 Skírn er fastur liður á mótum sem Vottar Jehóva halda á hverju ári.