Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

42. KAFLI

Af hverju þurfum við að vinna?

Af hverju þurfum við að vinna?

HVORT finnst þér skemmtilegra, að vinna eða leika þér? — Það er alls ekki neitt rangt við það að leika sér. Biblían talar um að Jerúsalem hafi verið ,full af drengjum og stúlkum sem léku sér þar á torgunum‘. — Sakaría 8:5.

Kennaranum mikla fannst gaman að horfa á börn leika sér. Áður en hann kom til jarðarinnar sagði hann: ,Þá stóð ég við hliðina á Guði sem verkstjóri, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma.‘ Hér er sagt að Jesús hafi verið verkstjóri sem sýnir að hann vann með Jehóva á himnum. Þegar hann var þar sagði hann: ,Ég hafði yndi af mannanna börnum.‘ Já, eins og við höfum áður lesið sýndi kennarinn mikli fólki mikinn áhuga, þar á meðal börnum. — Orðskviðirnir 8:30, 31.

Hverju hafði kennarinn mikli gaman af áður en hann kom til jarðarinnar?

Heldurðu að Jesús hafi leikið sér þegar hann var barn? — Alveg örugglega. En vann hann líka á jörðinni fyrst hann hafði verið verkstjóri á himnum? — Jesús var kallaður „sonur smiðsins“, en hann var líka kallaður „smiðurinn“. Hvað segir það okkur? — Það segir okkur að Jósef, fósturfaðir Jesú, hafi kennt honum smíði. Þess vegna varð Jesús líka smiður. — Matteus 13:55; Markús 6:3.

Hvernig smiður var Jesús? — Fyrst hann var verkstjóri á himnum hlýtur hann að hafa verið mjög fær í því sem hann gerði þar. Heldurðu ekki að hann hafi þá orðið góður smiður á jörðinni? — Það hefur örugglega verið erfitt starf að vera smiður á þeim tíma. Jesús hefur líklega þurft að fella tré og búta það niður, bera timbrið heim og smíða úr því borð, bekki og ýmislegt annað.

Heldurðu að Jesús hafi haft ánægju af þessari vinnu? — Fyndist þér ekki gaman að geta búið til góða stóla og borð og aðra hluti sem fólk notar? — Biblían segir að það sé gott að hafa ánægju af því sem maður gerir. Vinna veitir okkur vissa gleði sem við njótum ekki þegar við leikum okkur. — Prédikarinn 3:22.

Vinna er holl bæði fyrir huga og líkama. Mörg börn sitja bara og horfa á sjónvarpið eða spila tölvuleiki. Þau fitna og verða máttlítil, og eru í rauninni ekki ánægð. Þau gleðja ekki heldur aðra. Hvað þurfum við að gera til að vera ánægð? —

Við lærðum í 17. kafla að það er ánægjulegt að gefa og hjálpa öðrum. (Postulasagan 20:35) Biblían kallar Jehóva ,hinn sæla Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Við lesum líka í Orðskviðunum að Jesús hafi ,leikið sér fyrir augliti Guðs alla tíma‘. Hvers vegna var Jesús svona ánægður? — Hann svaraði því að hluta til þegar hann sagði: „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.“ — Jóhannes 5:17.

Jesús vann ekki alltaf sem smiður þegar hann var á jörðinni. Jehóva Guð ætlaði honum sérstakt verkefni. Veistu hvað það var? — Jesús sagði: ,Ég á að flytja fagnaðarerindið um ríki Guðs því að ég var sendur til þess.‘ (Lúkas 4:43) Þegar Jesús prédikaði fyrir fólki trúðu sumir honum og sögðu öðrum frá því sem hann sagði, alveg eins og samverska konan sem þú sérð hérna á myndinni. — Jóhannes 4:7-15, 27-30.

Hvaða tvenns konar vinnu vann Jesús hérna á jörðinni?

Hvað fannst Jesú um þetta verkefni? Heldurðu að hann hafi viljað taka það að sér? — Jesús sagði: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Finnst þér gaman að borða uppáhaldsmatinn þinn? — Það ætti að gefa þér góða hugmynd um hve mikla ánægju Jesús hafði af því að leysa af hendi verkefnið sem Guð fékk honum.

Guð skapaði okkur þannig að okkur fyndist gaman að læra að vinna. Hann segir að það sé gjöf frá sér að maðurinn skuli hafa ánægju af því að vinna. Ef við lærum að vinna þegar við erum ung verður líf okkar ánægjulegra. — Prédikarinn 5:18.

Það þýðir auðvitað ekki að börn geti gert það sama og fullorðnir. En við getum samt öll lagt okkar af mörkum. Foreldrar þínir fara kannski í vinnuna á hverjum degi svo að fjölskyldan geti haft nóg að borða og átt þak yfir höfuðið. Og þú veist örugglega að það er margt sem þarf að gera á heimilinu til að halda því hreinu og snyrtilegu.

Hvernig geturðu hjálpað til á heimilinu svo að allir í fjölskyldunni njóti góðs af? — Þú getur lagt á borð, vaskað upp, farið út með ruslið, tekið til í herberginu þínu og sett leikföngin á sinn stað. Kannski gerirðu eitthvað af þessu nú þegar. Ef þú gerir þetta kemur það fjölskyldunni að miklu gagni og er henni til ánægju.

Hvers vegna er mikilvægt að taka til eftir sig þegar maður er búinn að leika sér?

Við skulum skoða hvers vegna þessi verk geta verið gagnleg. Leikföng á að setja á sinn stað þegar búið er að leika með þau. Af hverju er það mikilvægt? — Af því að þá verður heimilið snyrtilegt og það getur komið í veg fyrir slys. Ef þú tekur ekki saman leikföngin getur mamma þín stigið á þau og dottið og meitt sig einn daginn þegar hún kemur heim með fullt fangið. Hún gæti jafnvel þurft að fara á spítala. Væri það ekki hræðilegt? — Það er því gott og gagnlegt að taka til eftir sig þegar maður er búinn að leika sér.

Börn hafa líka önnur verkefni. Til dæmis þurfa þau að læra heima. Í skólanum lærirðu að lesa. Sumum börnum finnst gaman að lesa en öðrum finnst það erfitt. En þótt það virðist vera erfitt til að byrja með er gaman fyrir þig að vera vel læs. Þú getur lært margt skemmtilegt ef þú kannt að lesa. Þú getur jafnvel lesið bók Guðs, Biblíuna. Er þá ekki gott og gagnlegt að læra vel heima? —

Sumir reyna að komast hjá því að vinna. Kannski þekkirðu einhvern sem gerir það. En fyrst Guð skapaði okkur til að vinna verðum við að læra að njóta þess. Fannst kennaranum mikla gaman að vinna? — Já, honum fannst það vera eins og að borða uppáhaldsmatinn sinn. En hvaða vinnu var hann að tala um? — Hann var að tala um það að segja öðrum frá Jehóva Guði og hvernig þeir gætu fengið eilíft líf.

Það er tvennt sem þú getur gert til að hafa gaman af vinnu. Þú getur spurt þig: „Af hverju er þessi vinna nauðsynleg?“ Það er auðveldara að gera eitthvað ef þú veist af hverju það er mikilvægt. Og hvort sem vinnan er mikil eða lítil skaltu alltaf skila af þér góðu verki. Ef þú gerir það muntu hafa gaman af því að vinna, alveg eins og kennarinn mikli.

Biblían getur hjálpað okkur að verða dugleg að vinna. Lestu það sem stendur í Orðskviðunum 10:4; 22:29; Prédikaranum 3:12, 13 og Kólossubréfinu 3:23.