Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

8. KAFLI

Andaverur eru æðri en við

Andaverur eru æðri en við

ÞÚ ERT örugglega sammála því að sumir eru æðri eða meiri og sterkari en þú og ég. Geturðu nefnt einhvern sem er æðri en við? — Jehóva Guð er okkur æðri. En hvað um son hans, kennarann mikla? Er hann æðri en við? — Já, auðvitað.

Jesús var á himnum með Guði. Hann var andasonur hans, það er að segja engill. Skapaði Guð aðra engla? — Já, hann skapaði margar milljónir engla. Þessir englar eru líka æðri og sterkari en við. — Hebreabréfið 1:7; Daníel 7:10.

Manstu hvað engillinn hét sem talaði við Maríu? — Hann hét Gabríel. Hann sagði Maríu að hún gengi með barn Guðs. Guð flutti líf Jesú, andasonar síns, í móðurkvið Maríu svo að hann gæti fæðst sem barn á jörðinni. — Lúkas 1:26, 27.

Hvað hafa Jósef og María líklega sagt Jesú?

Trúirðu að þetta kraftaverk hafi átt sér stað? Trúirðu að Jesús hafi verið með Guði á himnum? — Jesús sagðist hafa verið með honum á himnum. Hvernig vissi hann það? Þegar hann var lítill hefur María líklega sagt honum frá því sem Gabríel sagði. Og Jósef hefur sennilega sagt Jesú að Guð væri raunverulegur faðir hans.

Þegar Jesús lét skírast talaði Guð meira að segja frá himnum og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur.“ (Matteus 3:17) Og nóttina fyrir dauða sinn bað Jesús til föður síns: „Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.“ (Jóhannes 17:5) Já, Jesús bað um að fá að vera aftur með Guði á himnum. Hvernig gæti það gerst? — Jehóva Guð yrði að gera hann aftur að ósýnilegri andaveru eða engli.

Mig langar til að spyrja þig mikilvægrar spurningar. Heldurðu að allir englar séu góðir? — Einu sinni voru þeir allir góðir vegna þess að Jehóva skapaði þá, og allt sem hann skapar er gott. En síðan snerist einn engillinn á móti Guð. Hvernig gerðist það?

Til að fá svar við því verðum við að skoða söguna um fyrstu hjónin sem Guð skapaði, þau Adam og Evu. Sumir segja að þessi saga sé bara ævintýri. En kennarinn mikli vissi að hún var sönn.

Þegar Guð skapaði Adam og Evu lét hann þau í fallegan garð sem hét Eden. Þetta var paradísargarður. Þau hefðu getað búið að eilífu í paradís og eignast mörg börn og stóra fjölskyldu. En þau þurftu að læra eitt sem var mikilvægt. Við höfum áður talað um það. Reynum nú að rifja það upp.

Hvað þurftu Adam og Eva að gera til að fá að lifa að eilífu í paradís?

Jehóva sagði Adam og Evu að þau mættu borða eins mikið og þau vildu af ávöxtum trjánna í garðinum. En af einu tré máttu þau ekki borða. Guð sagði þeim hvað myndi gerast ef þau gerðu það. Hann sagði: ,Þið munuð vissulega deyja.‘ (1. Mósebók 2:17) Hvað þurftu Adam og Eva að læra? —

Þau þurftu að læra að hlýða. Já, líf okkar er undir því komið að við hlýðum Jehóva Guði! Það var ekki nóg fyrir Adam og Evu að segjast ætla að hlýða Guði. Þau þurftu að sýna hlýðni með verkum sínum. Með því að hlýða Guði hefðu þau sýnt að þau elskuðu hann og vildu hafa hann sem stjórnanda. Þá hefðu þau getað lifað að eilífu í paradís. En hvað myndi það sýna ef þau borðuðu ávöxt af trénu? —

Það myndi sýna að þau væru ekki þakklát fyrir það sem Guð hafði gefið þeim. Hefðir þú hlýtt Jehóva ef þú hefðir verið í þeirra sporum? — Adam og Eva gerðu það í fyrstu. En síðan kom andavera og blekkti Evu og fékk hana til að óhlýðnast Jehóva. Hver var þessi andavera? —

Hver lét höggorminn tala við Evu?

Biblían segir að höggormur eða slanga hafi talað við Evu. En þú veist að höggormar geta ekki talað. Hvernig gat höggormurinn þá talað við Evu? — Það var engill sem lét líta út fyrir að höggormurinn væri að tala. En í rauninni var það hann sjálfur sem talaði. Hann var farinn að hugsa um það sem var rangt. Engillinn vildi fá Adam og Evu til að tilbiðja sig. Hann vildi að þau hlýddu sér. Hann vildi fá stöðu Guðs.

Þess vegna kveikti þessi vondi engill rangar hugmyndir hjá Evu. Hann lét eins og höggormur væri að tala og sagði við hana: ,Guð sagði ykkur ekki satt. Þið munuð ekki deyja þótt þið borðið ávöxt af trénu. Þið verðið vitur eins og Guð.‘ Hefðir þú trúað því sem röddin sagði? —

Evu fór að langa í það sem Guð hafði ekki leyft henni að fá. Hún borðaði ávöxt af trénu sem þeim hafði verið bannað að borða af. Síðan gaf hún Adam líka ávöxt. Adam trúði ekki orðum höggormsins en löngunin til að vera með Evu var sterkari en kærleikurinn til Guðs. Þess vegna borðaði hann líka ávöxt af trénu. — 1. Mósebók 3:1-6; 1. Tímóteusarbréf 2:14.

Hvaða afleiðingar hafði þetta? — Adam og Eva urðu ófullkomin, gömul og dóu. Þar sem þau voru ófullkomin urðu öll börnin þeirra líka ófullkomin og urðu með tímanum gömul og dóu að lokum. Guð laug ekki! Lífið er undir því komið að hlýða honum. (Rómverjabréfið 5:12) Biblían segir að engillinn, sem laug að Evu, heiti Satan djöfullinn og aðrir vondir englar séu kallaðir illir andar. — Jakobsbréfið 2:19; Opinberunarbókin 12:9.

Hvað kom fyrir Adam og Evu þegar þau óhlýðnuðust Guði?

Skilurðu núna hvers vegna góði engillinn, sem Guð hafði skapað, varð vondur? — Það gerðist vegna þess að hann fór að hugsa um það sem var rangt. Hann vildi verða fremri öllum öðrum. Hann vissi að Guð hafði sagt Adam og Evu að eignast börn og hann vildi fá þau öll til að tilbiðja sig. Satan vill fá alla til að óhlýðnast Jehóva. Þess vegna reynir hann að koma röngum hugsunum inn hjá okkur. — Jakobsbréfið 1:13-15.

Satan segir að enginn elski Jehóva í raun og veru. Hann segir að þú og ég elskum ekki Guð og að við viljum í rauninni ekki gera það sem hann segir. Hann segir að við hlýðum Jehóva aðeins þegar allt gengur vel hjá okkur. Hefur Satan rétt fyrir sér? Erum við þannig?

Kennarinn mikli sagði að Satan væri lygari! Jesús hlýddi Jehóva og sannaði þannig að hann elskaði hann í raun og veru. Og Jesús hlýddi honum ekki bara þegar það var auðvelt. Hann gerði það alltaf, jafnvel þótt aðrir gerðu honum það erfitt. Hann var Jehóva trúr allt til dauða. Þess vegna reisti Guð hann upp til eilífs lífs.

Hver heldurðu að sé versti óvinur okkar? — Já, það er Satan djöfullinn. Geturðu séð hann? — Nei, auðvitað ekki. En við vitum að hann er til og að hann er æðri og máttugri en við. En hver er æðri en Satan? — Jehóva Guð er honum æðri. Þess vegna vitum við að Guð getur verndað okkur.