Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

25. KAFLI

Geta þeir sem eru vondir breytt sér?

Geta þeir sem eru vondir breytt sér?

VÆRI ekki gaman ef allir gerðu það sem er gott? — En enginn gerir alltaf gott. Veistu af hverju við gerum stundum það sem er slæmt, jafnvel þótt við viljum vera góð? — Það er af því að við erum öll fædd syndug. En sumir gera margt mjög slæmt. Þeir hata annað fólk og meiða það viljandi. Heldurðu að þeir geti breytt sér og lært að vera góðir? —

Sjáðu unga manninn á myndinni sem passar yfirhafnir hinna meðan þeir kasta grjóti í Stefán. Hann heitir Sál á hebresku, en rómverska nafnið hans er Páll. Hann er ánægður að mennirnir skuli taka Stefán af lífi en Stefán er lærisveinn kennarans mikla. Við skulum athuga af hverju Sál gerir svona slæma hluti.

Sál tilheyrir trúflokki Gyðinga sem kallast farísear. Farísearnir nota orð Guðs en þeir taka meira mark á kenningum sumra trúarleiðtoga sinna. Þetta er ástæðan fyrir því að Sál er svona vondur.

Sál er viðstaddur þegar Stefán er handtekinn í Jerúsalem. Stefán er leiddur fyrir dómstól og sumir dómararnir eru farísear. En Stefán er óhræddur jafnvel þótt þeir segi margt slæmt um hann. Hann er hugrakkur og vitnar strax fyrir dómurunum um Jehóva Guð og Jesú.

En dómararnir eru ekki hrifnir af því sem þeir heyra. Þeir vita nú þegar mikið um Jesú af því að það voru þeir sem höfðu látið taka hann af lífi stuttu áður. Seinna reisti Jehóva Jesú upp frá dauðum og tók hann upp til himna á ný. En dómararnir breyta sér ekki heldur berjast gegn lærisveinum Jesú.

Dómararnir grípa í Stefán. Þeir fara með hann út fyrir borgina, slá hann niður og kasta í hann grjóti. Eins og þú sérð á myndinni er Sál á staðnum og fylgist með þessu. Honum finnst rétt að Stefán sé tekinn af lífi.

Af hverju finnst Sál rétt að taka Stefán af lífi?

Veistu af hverju Sál hugsaði svona? — Af því að hann hafði verið farísei alla ævi og honum fannst kenningar farísea vera réttar. Hann tók sér þessa menn til fyrirmyndar og þess vegna gerði hann eins og þeir. — Postulasagan 7:54-60.

En hvað gerir Sál eftir að Stefán hefur verið líflátinn? — Hann reynir að finna alla aðra lærisveina Jesú. Hann veður inn á heimili þeirra, dregur út bæði karla og konur og lætur varpa þeim í fangelsi. Margir lærisveinar neyðast til að yfirgefa Jerúsalem en þeir hætta samt ekki að prédika um Jesú. — Postulasagan 8:1-4.

Þetta verður til þess að Sál hatar lærisveina Jesú enn meira. Hann fer því til Kaífasar æðsta prests og fær leyfi til að handtaka kristið fólk í borginni Damaskus. Hann vill taka fólkið til fanga og flytja það til Jerúsalem og láta refsa því. En þegar hann er á leiðinni til Damaskus gerist ótrúlegur atburður.

Hver er að tala við Sál og hvað segir hann honum að gera?

Skyndilega leiftrar ljós frá himni og rödd segir: „Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“ Þetta er Jesús að tala frá himnum. Ljósið er svo skært að Sál verður blindur og fólkið sem er með honum verður að leiða hann til Damaskus.

Þremur dögum seinna birtist Jesús einum lærisveini í sýn. Hann heitir Ananías og býr í Damaskus. Jesús segir honum að heimsækja Sál, gefa honum sjónina aftur og tala við hann. Sál tekur við sannleikanum um Jesú þegar Ananías talar við hann. Hann fær sjónina aftur. Líf hans gerbreytist og hann verður dyggur þjónn Guðs. — Postulasagan 9:1-22.

Skilurðu núna af hverju Sál gerði svona margt slæmt? — Það var af því að honum hafði verið kennt það sem er rangt. Hann fylgdi mönnum sem voru ekki trúfastir Guði og tilheyrði hópi fólks sem tók skoðanir manna fram yfir orð Guðs. En af hverju breytir Sál um lífsstefnu og fer að gera gott jafnvel þótt aðrir farísear haldi áfram að berjast gegn Guði? — Það er af því að Sál hatar ekki sannleikann í raun og veru. Þegar honum er bent á hvað sé rétt er hann tilbúinn til að fara eftir því.

Veistu fyrir hvað Sál varð seinna þekktur? — Já, hann varð þekktur fyrir að vera postuli Jesú og var kallaður Páll postuli. Þú manst kannski líka að Páll skrifaði fleiri bækur í Biblíunni en nokkur annar.

Margir geta breytt sér eins og Sál. En það er ekki auðvelt vegna þess að það er til andavera sem er stöðugt að reyna að fá fólk til að gera það sem er rangt. Veistu hver það er? — Jesús ræddi um þessa andaveru þegar hann birtist Sál á veginum til Damaskus. Hann talaði við Sál frá himnum og sagði: ,Ég sendi þig til að opna augu fólks, til að snúa því frá myrkri til ljóss og frá valdi Satans til Guðs.‘ — Postulasagan 26:17, 18.

Já, það er Satan djöfullinn sem reynir að fá alla til að gera það sem er rangt. Finnst þér stundum erfitt að gera það sem er rétt? — Okkur finnst það öllum. Satan gerir okkur erfitt fyrir. En það er líka önnur ástæða fyrir því að það er ekki alltaf auðvelt að gera rétt. Veistu hver hún er? — Hún er sú að við erum öll fædd syndug.

Þessi synd er ástæðan fyrir því að okkur finnst oft auðveldara að gera rangt en rétt. En hvað verðum við þá að gera? — Já, við verðum að leggja hart að okkur til að gera það sem er rétt. Ef við gerum það getum við verið viss um að Jesús hjálpar okkur af því að honum þykir vænt um okkur.

Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann að honum þótti vænt um fólk sem hafði áður gert ýmislegt slæmt en breytti sér síðan. Hann vissi hvað það var erfitt fyrir þetta fólk að breyta sér. Það voru til dæmis til konur sem höfðu kynmök við marga menn. Þetta var auðvitað rangt. Biblían kallar þessar konur skækjur eða vændiskonur.

Af hverju fyrirgaf Jesús konunni sem hafði gert margt slæmt?

Einu sinni frétti slík kona af Jesú og kom til hans þegar hann var heima hjá farísea. Hún vætti fætur hans með tárum sínum, þurrkaði þá með hárinu og hellti smyrslum á þá. Hún var mjög leið vegna synda sinna og þess vegna fyrirgaf Jesús henni. En faríseanum fannst konan ekki eiga skilið að fá fyrirgefningu. — Lúkas 7:36-50.

Veistu hvað Jesús sagði við nokkra farísea? — Hann sagði: ,Skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki.‘ (Matteus 21:31) Jesús sagði þetta af því að skækjurnar trúðu honum og þær breyttu sér og hættu að gera það sem var rangt. En farísearnir héldu áfram að vera vondir við lærisveina Jesú.

Ef við gerum eitthvað sem Biblían segir að sé slæmt ættum við að vilja breyta okkur. Þegar við lærum hvað Jehóva vill að við gerum ættum við að vera tilbúin til að gera það. Þá verður Jehóva ánægður með okkur og veitir okkur eilíft líf.

Lesum saman nokkra ritningarstaði sem hjálpa okkur að forðast það sem er slæmt. Sálmur 119:9-11; Orðskviðirnir 3:5-7 og 12:15.