Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

34. KAFLI

Hvað gerist þegar fólk deyr?

Hvað gerist þegar fólk deyr?

ÞÚ VEIST líklega að fólk eldist, veikist og deyr. Og stundum deyja börn. En ættirðu að óttast dauðann eða dáið fólk? — Veistu hvað gerist við dauðann? —

Enginn núlifandi maður hefur dáið og síðan lifnað við til að segja okkur frá því sem gerðist. En þegar Jesús, kennarinn mikli, var á jörðinni gerðist það að maður dó og lifnaði aftur við. Ef við lesum um þennan mann getum við komist að því hvað verður um þá sem deyja. Maðurinn var vinur Jesú og bjó í Betaníu sem er lítill bær skammt frá Jerúsalem. Hann hét Lasarus og átti tvær systur sem hétu Marta og María. Núna skulum við heyra hvað Biblían segir um hann.

Dag einn verður Lasarus mjög veikur. Jesús er langt í burtu þegar það gerist. Marta og María senda því sendiboða til að segja Jesú frá því að bróðir þeirra sé veikur. Þetta gera þær vegna þess að þær vita að Jesús getur læknað hann. Jesús er ekki læknir en hann hefur fengið kraft frá Guði til að lækna alls konar veikindi. — Matteus 15:30, 31.

En Lasarus deyr af veikindum sínum áður en Jesús kemst til hans. Jesús segir lærisveinunum að Lasarus sé sofandi og að hann ætli sjálfur að vekja hann. Lærisveinarnir skilja ekki hvað hann á við með þessu. Þess vegna segir Jesús berum orðum: „Lasarus er dáinn.“ Hvað segir þetta okkur um dauðann? — Já, þetta segir okkur að dauðinn sé eins og svefn sem er svo djúpur að mann dreymir ekki einu sinni.

Jesús kemur til að hitta Mörtu og Maríu. Vinir systranna eru hjá þeim til að hugga þær af því að bróðir þeirra er dáinn. Marta fer á móti Jesú þegar hún fréttir að hann sé á leiðinni. Stuttu seinna gerir María það sama. María er mjög sorgmædd og grætur og fellur við fætur Jesú. Þeir sem eru henni samferða gráta líka.

Kennarinn mikli spyr fólkið hvar það hafi látið Lasarus. Fólkið leiðir Jesú þá að helli þar sem Lasarus er jarðsettur. Þegar Jesús sér alla gráta fer hann líka að gráta. Hann veit hversu sárt er að missa ástvin í dauðann.

Stór steinn stendur fyrir hellisopinu. „Takið steininn frá!“ segir Jesús. Ætti fólkið að gera það? — Mörtu líst ekkert á það. Hún segir: „Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“

En Jesús segir við hana: „Sagði ég þér ekki: ,Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs‘?“ Með þessu er Jesús að segja að Marta eigi eftir að sjá nokkuð sem verður Guði til lofs. Hvað ætlar Jesús að gera? Þegar steinninn er færður frá biður hann upphátt til Jehóva. Síðan kallar hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Ætli hann komi út? Getur hann það? —

Getur þú vakið sofandi manneskju? — Já, ef þú kallar hátt vaknar hún. En geturðu vakið þann sem sefur dauðasvefni? — Nei, það er ekki hægt. Sá sem er dáinn heyrir ekki þó að þú kallir og þá skiptir engu máli hversu hátt þú kallar. Hvorki ég, þú né nokkur annar á jörðinni getur vakið þá sem eru dánir.

Hvað gerði Jesús fyrir Lasarus?

En Jesús er ólíkur okkur. Hann hefur einstakan kraft frá Guði svo að hið ótrúlega gerist þegar hann kallar á Lasarus. Maðurinn, sem hefur verið dáinn í fjóra daga, kemur út úr hellinum! Hann er lifnaður við! Hann getur andað, talað og gengið á ný! Já, Jesús reisir Lasarus upp frá dauðum. — Jóhannes 11:1-44.

Hugsaðu þig nú um: Hvað varð um Lasarus þegar hann dó? Fór einhver hluti af honum — sál eða andi — burt úr líkamanum til að búa annars staðar? Fór sál Lasarusar til himna? Var hann í fjóra daga hjá Guði og englunum? —

Nei, eins og þú manst sagði Jesús að Lasarus væri sofandi. Hvernig er svefninn? Veistu nokkuð hvað gerist í kringum þig þegar þú ert í fastasvefni? — Þegar þú vaknar veistu ekki hversu lengi þú hefur sofið fyrr en þú lítur á klukkuna.

Það er eins með þá sem eru dánir. Þeir vita ekki neitt. Þeir finna ekki fyrir neinu. Þeir geta ekkert gert. Þannig var komið fyrir Lasarusi á meðan hann var dáinn. Sá sem er dáinn man ekki eftir neinu því að dauðinn er eins og djúpur svefn. „Hinir dauðu vita ekki neitt,“ segir Biblían. — Prédikarinn 9:5, 10.

Í hvernig ástandi var Lasarus á meðan hann var dáinn?

En veltu líka öðru fyrir þér: Heldurðu að Lasarus hefði ekki sagt frá því ef hann hefði verið þessa fjóra daga á himnum? — Og ef hann hefði verið á svona yndislegum stað, heldurðu þá að Jesús hefði þvingað hann til að koma aftur til jarðarinnar? — Auðvitað ekki!

Margir segja samt að við höfum sál og að hún lifi áfram eftir að líkaminn deyr. Þeir segja að sál Lasarusar hafi verið lifandi einhvers staðar. En það er ekki það sem Biblían segir. Hún segir að Guð hafi skapað manninn Adam sem „lifandi sál“. Adam var sem sagt sál. Biblían segir líka að Adam hafi dáið þegar hann syndgaði. Hann, það er að segja sálin, dó og varð aftur að mold. Biblían segir líka að allir afkomendur Adams hafi fengið synd og dauða í arf. — 1. Mósebók 2:7; 3:17-19; 4. Mósebók 6:6; Rómverjabréfið 5:12.

Það er því ljóst að við höfum ekki einhverja sál sem er óháð líkamanum heldur erum við sálir. Og þar sem mennirnir hafa erft syndina frá Adam, fyrsta manninum, segir Biblían að ,sú sálin, sem syndgar, skuli deyja‘. — Esekíel 18:4.

Hvers vegna þurfum við ekki að vera hrædd við hina dánu?

Sumir eru hræddir við dáið fólk. Þeir koma ekki nálægt kirkjugörðum vegna þess að þeir halda að sálir hinna dánu séu óháðar líkamanum og geti því gert þeim illt sem eru lifandi. En geta hinir dánu gert okkur mein? — Nei, auðvitað ekki.

Sumir trúa því jafnvel að hinir dánu geti komið aftur sem andar og heimsótt fólk. Þess vegna bera þeir fram mat fyrir hina dánu. Þeir sem gera slíkt trúa ekki því sem Guð segir um hina dánu. Ef við hins vegar trúum því sem Guð segir erum við ekki hrædd við hina dánu. Og með því að hlýða Guði getum við sýnt að við erum honum innilega þakklát fyrir lífið.

En heldurðu að Guð ætli að reisa upp börn sem hafa dáið? Skyldi hann langa til þess? Við skulum ræða um það í næsta kafla.

Lesum meira í Biblíunni um sálina og ástand hinna dánu í Sálmi 115:17; 146:3, 4 og Jósúabók 11:11.