1. KAFLI
Hvers vegna er Jesús kallaður kennarinn mikli?
FYRIR meira en tvö þúsund árum fæddist lítill drengur sem var alveg einstakur. Þegar hann óx upp varð hann mesta mikilmenni sem lifað hefur. Á þeim tíma átti fólk hvorki flugvélar né bíla. Netið var ekki til og ekki heldur sjónvarpstæki eða tölvur.
Drengurinn var látinn heita Jesús. Hann varð vitrasti maður sem hefur nokkurn tíma verið uppi á jörðinni. Jesús varð líka besti kennarinn. Hann útskýrði flókin atriði þannig að auðvelt var að skilja þau.
Jesús kenndi fólki hvar sem hann var. Hann kenndi á ströndinni og um borð í bátum. Hann kenndi í heimahúsum og þegar hann var á ferðalagi. Jesús átti ekki bíl og hann ferðaðist ekki heldur með strætisvagni eða járnbrautarlest. Jesús fór fótgangandi á milli staða og kenndi fólki.
Við lærum margt af öðrum. En við getum lært það sem mestu máli skiptir af Jesú, kennaranum mikla. Orð Jesú er að finna í Biblíunni. Þegar við heyrum þessi orð lesin í Biblíunni er alveg eins og Jesús sé að tala við okkur.
Af hverju var Jesús svona góður kennari? Ein ástæðan er sú að hann hafði sjálfur verið nemandi og hann vissi hversu mikilvægt það er að hlusta. En á hvern hlustaði Jesús? Hver kenndi honum? — Það var Guð, faðir hans.
Jesús bjó á himnum hjá Guði áður en hann kom til jarðar sem maður. Þess vegna var hann ólíkur öllum öðrum mönnum því að
enginn maður hefur verið á himnum fyrir fæðingu sína á jörðinni. Á himnum hafði Jesús verið góður sonur sem hlustaði á föður sinn. Þess vegna gat hann kennt fólki það sem hann hafði lært hjá Guði. Þú getur líkt eftir Jesú með því að hlusta á pabba þinn og mömmu.Önnur ástæða fyrir því að Jesús var góður kennari er að honum þótti mjög vænt um fólk. Hann vildi hjálpa fólki að kynnast Guði. Jesú þótti vænt um fullorðið fólk, en honum þótti líka vænt um börn. Og börnum fannst gaman að vera með Jesú af því að hann talaði við þau og hlustaði á þau.
Dag einn komu nokkrir foreldrar með börnin sín til Jesú. En vinir hans héldu að kennarinn mikli væri of upptekinn til að tala við lítil börn. Þess vegna sögðu þeir þeim að fara burt. En hvað sagði Jesús? — Hann sagði: ,Leyfið börnunum að koma til mín, ekki senda þau burt.‘ Já, Jesús vildi að börnin kæmu til sín. Þó að Jesús hafi verið mjög vitur Markús 10:13, 14.
og merkilegur maður gaf hann sér tíma til að kenna börnum. —Veistu af hverju Jesús kenndi börnum og hlustaði á þau? Ein ástæðan er sú að hann vildi gleðja þau með því að segja þeim frá ýmsu um Guð, föður sinn á himnum. Hvernig getur þú glatt aðra? — Með því að segja þeim frá því sem þú hefur lært um Guð.
Einu sinni notaði Jesús lítið barn til að kenna vinum sínum mikilvægan lærdóm. Hann tók barnið og lét það standa mitt á meðal lærisveinanna sem voru fylgjendur hans. Síðan sagði hann að þessir fullorðnu menn þyrftu að breyta sér og verða eins og þetta litla barn.
Hvað átti Jesús við þegar hann sagði þetta? Veistu hvernig fullorðið fólk eða stálpuð börn geta orðið eins og lítil börn? — Lítil börn vita ekki eins mikið og þeir sem eru eldri og þess vegna vilja þau læra. Jesús var því að segja að lærisveinarnir þyrftu að vera auðmjúkir eins og lítil börn. Já, við getum lært margt af öðrum, og við ættum öll að skilja að kenningar Jesú eru mikilvægari en okkar eigin hugmyndir. — Matteus 18:1-5.
Jesús var líka góður kennari af því að hann kunni að vekja áhuga fólks. Útskýringar hans voru einfaldar og skýrar. Hann talaði um fugla og blóm og aðra venjulega hluti til að hjálpa fólki að fá betri skilning á Guði.
Dag einn kom fólk hópum saman til Jesú þar sem hann var uppi í fjallshlíð. Hann settist niður og talaði við fólkið eða hélt ræðu eins og þú getur séð hérna. Þessi ræða er kölluð fjallræðan. Jesús sagði: ,Sjáið fugla himinsins. Þeir sá ekki fræjum. Þeir safna ekki matarbirgðum í hlöður. En Guð á himnum gefur þeim fæðu. Eru þið ekki mikilvægari en þeir?‘
Jesús sagði líka: ,Lærið af liljum vallarins. Þær vaxa án þess að vinna. Sjáið hvað þær eru fallegar. Ríki konungurinn Salómon var ekki einu sinni jafnfallega klæddur og liljur vallarins. Fyrst Guð sér þannig um blómin mun hann þá ekki líka sjá um ykkur?‘ — Matteus 6:25-33.
Skilurðu hvað Jesús var að kenna okkur? — Hann vildi ekki að við hefðum áhyggjur af því hvar við fengjum mat að borða eða föt til að vera í. Guð veit að við þurfum allt þetta. Jesús var ekki að
segja að við ættum að hætta að vinna fyrir mat og fötum. En hann sagði að við ættum að setja Guð framar öðru í lífinu. Ef við gerum það mun Guð sjá til þess að við höfum mat að borða og föt til að vera í. Trúirðu því? —Hvað fannst fólki þegar Jesús var búinn að ljúka máli sínu? — Biblían segir að það hafi verið hissa á því hvernig hann kenndi. Það var mjög gaman að hlusta á hann. Það sem hann sagði hjálpaði fólki að breyta rétt. — Matteus 7:28.
Það er því mjög mikilvægt að við lærum af Jesú. Veistu hvernig við getum gert það? — Það sem hann sagði er skrifað í bók. Veistu hvaða bók það er? — Það er Biblían. Þetta þýðir að við getum hlustað á Jesú með því að fylgjast með því sem við lesum í Biblíunni. Í Biblíunni er meira að segja spennandi saga um það hvernig Guð sjálfur sagði okkur að hlusta á Jesú. Við skulum athuga hvað gerðist.
Dag einn fór Jesús upp á hátt fjall með þrem vinum sínum. Þeir hétu Jakob, Jóhannes og Pétur. Við eigum eftir að læra miklu meira um þessa þrjá menn seinna af því að þeir voru allir góðir vinir Jesú. En við þetta sérstaka tækifæri fór andlit Jesú að skína skært og fötin hans ljómuðu sem ljós eins og þú getur séð á myndinni.
Síðan heyrðu Jesús og vinir hans rödd frá himnum. Röddin sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ (Matteus 17:1-5) Veistu hvaða rödd þetta var? — Þetta var rödd Guðs. Já, það var Guð sem sagði að þeir ættu að hlusta á son sinn.
En hvað með okkur núna? Ætlum við að hlýða Guði og hlusta á son hans, kennarann mikla? — Það ættum við öll að gera. Manstu hvernig við getum gert það? —
Já, við getum hlustað á son Guðs með því að lesa frásögurnar af lífi hans í Biblíunni. Kennarinn mikli hefur frá mörgu stórkostlegu að segja. Það verður gaman fyrir þig að læra um það sem er skrifað í Biblíunni. Og það mun líka gleðja þig ef þú segir vinum þínum frá því góða sem þú lærir.
Ef þig langar til að vita meira um gagnið af því að hlusta á Jesú skaltu opna Biblíuna og lesa Jóhannes 3:16; 8:28-30 og Postulasöguna 4:12.