Þraut nemandans
Pétur hreyfir sig órólega á stólnum og fær hnút í magann. Kennarinn, kona sem hann ber virðingu fyrir, er nýbúinn að lýsa hvernig Charles Darwin og þróunarkenning hans urðu vísindunum til framdráttar og frelsuðu mannkynið úr fjötrum hjátrúar. Og nú biður hún nemendurna um að tjá skoðun sína á málinu.
Pétur á við vanda að glíma. Foreldrar hans hafa kennt honum að Guð hafi skapað jörðina og allt sem á henni lifir. Þeir segja að hægt sé að treysta frásögn Biblíunnar af sköpuninni og að þróunarkenningin sé ekki annað en kenning – sem ekki eigi við rök að styðjast. Kennari Péturs og foreldrar vilja öll vel. En hverjum á Pétur að trúa?
Þessar aðstæður koma upp í þúsundum kennslustofa um heim allan á hverju ári. Hvað geta nemendur eins og Pétur gert? Við erum eflaust sammála um að þeir þurfi að fá tækifæri til að komast að eigin niðurstöðu. Þeir þurfa að skoða rökin fyrir þróun og sköpun og ákveða síðan hverju þeir ætla að trúa.
Biblían varar reyndar við því að trúa í blindni því sem aðrir kenna. „Einfaldur maður trúir öllu,“ segir biblíuritari, „en skynsamur maður íhugar hvert skref.“ (Orðskviðirnir 14:15) Biblían hvetur okkur til að beita skynseminni og fá sannanir fyrir því sem okkur er kennt. – Rómverjabréfið 12:1, 2.
Þessi bæklingur er ekki gefinn út til að styðja trúarhópa sem vilja að sköpun sé kennd í skólum. Markmiðið er að skoða fullyrðingar þeirra sem kenna að lífið hafi kviknað af sjálfu sér og staðhæfa að sköpunarsaga Biblíunnar sé bara goðsögn.
Við ætlum að einbeita okkur að frumunni því að hún er grundvallareining lífsins. Við förum yfir ýmsar merkilegar staðreyndir um uppbyggingu frumunnar. Þú færð líka tækifæri til að brjóta til mergjar þær forsendur sem menn gefa sér varðandi þróunarkenninguna.
Fyrr eða síðar þurfum við öll að taka afstöðu til þess hvort lífið hafi verið skapað eða hvort það hafi þróast. Þú hefur líklega velt þessu alvarlega fyrir þér áður. Í þessum bæklingi er bent á nokkrar staðreyndir sem hafa sannfært marga um að lífið hafi verið skapað.