KAFLI 52
Klæðnaður okkar og útlit skiptir máli
Við höfum öll ákveðna skoðun á því hvernig við viljum klæða okkur og líta út. Ef við fylgjum nokkrum einföldum meginreglum úr Biblíunni getum við glatt Jehóva en um leið klætt okkur eftir eigin smekk. Skoðum fáeinar þeirra.
1. Hvaða meginreglur ættu að stýra klæðavali okkar og útliti?
Við ættum að velja okkur ‚viðeigandi klæðnað, með hógværð og skynsemi‘ og vera hreinleg svo að við sýnum að við ‚elskum Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 2:9, 10) Skoðum þessar fjórar meginreglur: (1) Fötin okkar eiga að vera „viðeigandi“. Eins og þú hefur séð á samkomum hafa vottar Jehóva mismunandi smekk, en klæðaval okkar og hárgreiðslur sýna að við berum virðingu fyrir þeim Guði sem við tilbiðjum. (2) Að klæða sig „með hógværð“ þýðir að vera ekki kynferðislega ögrandi í útliti eða draga of mikla athygli að sjálfum sér. (3) Við sýnum „skynsemi“ með því að fylgja ekki öllum tískubylgjum. (4) Útlit okkar ætti alltaf að endurspegla að við ‚elskum Guð‘ og sýna þannig öðrum að við tilbiðjum hinn sanna Guð. – 1. Korintubréf 10:31.
2. Hvernig getur útlit okkar haft áhrif á trúsystkini okkar?
Við ráðum hverju við klæðumst en við ættum samt að hugsa um hvaða áhrif útlit okkar hefur á aðra. Við gerum okkar besta til að móðga engan heldur „gera það sem er náunganum til góðs og styrkir hann“. – Lestu Rómverjabréfið 15:1, 2.
3. Hvernig getur útlit okkar laðað aðra að sannri tilbeiðslu?
Við reynum alltaf að klæða okkur á viðeigandi hátt, en þegar við förum á samkomur eða í boðunina viljum við gæta sérstaklega að því. Við viljum ekki draga athyglina frá þeim mikilvæga boðskap sem við berum fólki. Við viljum að útlit okkar laði aðra að sannleikanum og „verði kenningu … frelsara okkar, til lofs“. – Títusarbréfið 2:10.
KAFAÐU DÝPRA
Hugleiddu hvernig við getum gengið úr skugga um að föt okkar og útlit hæfi kristnum mönnum.
4. Snyrtilegt útlit sýnir að við berum virðingu fyrir Jehóva
Hver er mikilvægasta ástæðan fyrir því að huga að útlitinu? Lesið Sálm 47:2 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:
-
Hvaða áhrif ætti það að hafa á klæðaburð okkar að við erum fulltrúar Jehóva?
-
Finnst þér ástæða til að huga að útlitinu þegar við sækjum samkomur og boðum trúna? Hvers vegna?
5. Að taka góðar ákvarðanir varðandi klæðnað og útlit
Fötin okkar ættu að vera hrein og hæfa tilefninu, hvort sem þau eru dýr eða ekki. Lesið 1. Korintubréf 10:24 og 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10. Ræðið síðan hvers vegna við ættum að forðast að klæða okkur í föt sem eru …
-
sjúskuð eða of hversdagsleg.
-
þröng, sýna of mikið af líkamanum eða eru kynferðislega ögrandi á annan hátt.
Við erum ekki bundin Móselögunum en þau sýna hvernig Jehóva hugsar. Lesið 5. Mósebók 22:5 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
-
Hvers vegna ættu karlar ekki að klæða sig eins og konur og konur eins og karlar?
Lesið 1. Korintubréf 10:32, 33 og 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:
-
Hvers vegna ætti það að skipta okkur máli hvort útlit okkar hneykslar fólk í söfnuðinum eða í samfélaginu?
-
Hvernig klæðaburður og útlit er vinsælt þar sem þú býrð?
-
Heldurðu að eitthvað af því gæti verið óviðeigandi fyrir þá sem tilbiðja Jehóva? Hvers vegna?
SUMIR SEGJA: „Ég á rétt á að klæða mig eins og mér sýnist.“
-
Ert þú á sama máli? Hvers vegna?
SAMANTEKT
Þegar við tökum góðar ákvarðanir í sambandi við útlit okkar sýnum við að við virðum Jehóva og aðra.
Upprifjun
-
Hvers vegna skipta föt okkar og útlit máli fyrir Jehóva?
-
Nefndu nokkrar meginreglur sem geta hjálpað okkur að taka ákvarðanir í sambandi við útlit okkar.
-
Hvernig getur útlit okkar haft áhrif á það hvernig aðrir líta á sanna tilbeiðslu?
KANNAÐU
Sjáðu hvaða skilaboð þú gætir verið að senda með fatavali þínu.
Kynntu þér hvers vegna er gott að hugsa sig vel um áður en maður ákveður hvort maður fær sér húðflúr.
Skoðaðu fleiri meginreglur sem geta hjálpað okkur að taka ákvarðanir.
„Heiðrar þú Guð með klæðaburði þínum?“ (Varðturninn september 2016)
Hvernig lærði kona sem vildi þóknast Guði að sætta sig við það hvernig aðrir völdu að klæða sig?
„Klæðnaður og útlit var það sem hindraði mig“ (Grein úr Vaknið!)