Síðari Konungabók 11:1–21
11 Þegar Atalía+ móðir Ahasía sá að sonur hennar var dáinn+ lét hún til skarar skríða og útrýmdi allri konungsættinni.+
2 En Jóseba, dóttir Jórams konungs og systir Ahasía, laumaðist til að taka Jóas+ Ahasíason úr hópi konungssonanna sem átti að drepa og faldi hann og fóstru hans í einu af svefnherbergjunum. Þannig tókst að leyna honum fyrir Atalíu svo að hann var ekki drepinn.
3 Hann var í felum hjá henni í húsi Jehóva í sex ár, meðan Atalía ríkti yfir landinu.
4 Á sjöunda árinu sendi Jójada eftir hundraðshöfðingjunum sem voru yfirmenn konunglegu lífvarðanna* og hallarvarðanna*+ og lét þá koma til sín í hús Jehóva. Hann gerði samning* við þá og lét þá staðfesta hann með eiði í húsi Jehóva. Síðan sýndi hann þeim son konungs+
5 og gaf þeim þessi fyrirmæli: „Gerið þetta: Þriðjungur ykkar sem eruð á vakt á hvíldardaginn skal standa vörð um konungshöllina,+
6 þriðjungur skal vera við Grunnhliðið og þriðjungur við hliðið bak við hallarverðina. Þið skuluð skiptast á að standa vörð um húsið.*
7 Flokkarnir tveir sem eru ekki á vakt á hvíldardaginn eiga að standa vörð um hús Jehóva til að vernda konunginn.
8 Þið skuluð slá hring um konunginn, allir með vopn í hendi. Ef einhver reynir að ryðjast í gegnum raðirnar skal drepa hann. Haldið ykkur hjá konunginum hvert sem hann fer.“*
9 Hundraðshöfðingjarnir+ gerðu allt sem Jójada prestur fyrirskipaði. Þeir sóttu menn sína, bæði þá sem voru á vakt á hvíldardeginum og hina sem voru það ekki, og komu síðan til Jójada prests.+
10 Presturinn lét hundraðshöfðingjana hafa spjótin og kringlóttu skildina sem Davíð konungur hafði átt og voru í húsi Jehóva.
11 Hallarverðirnir+ tóku sér stöðu með vopn í hendi frá suðurhlið hússins til norðurhliðar þess, við altarið+ og við húsið, allt í kringum konung.
12 Síðan leiddi Jójada konungssoninn+ út og setti á hann kórónuna og vitnisburðinn.*+ Þeir gerðu hann að konungi og smurðu hann, klöppuðu saman lófunum og hrópuðu: „Lengi lifi konungurinn!“+
13 Þegar Atalía heyrði hávaðann í fólkinu sem hljóp um fór hún þegar í stað til húss Jehóva þar sem mannfjöldinn hafði safnast saman.+
14 Þar sá hún konunginn standa við súluna eins og venja var.+ Hún sá höfðingjana og lúðrablásarana+ standa hjá konungi og alla landsmenn fagna og blása í lúðra. Þá reif Atalía föt sín og hrópaði: „Samsæri! Samsæri!“
15 En Jójada prestur gaf hundraðshöfðingjunum,+ yfirmönnum hersins, þessi fyrirmæli: „Leiðið hana burt frá liðinu og drepið með sverði hvern þann sem fylgir henni!“ En presturinn hafði áður sagt: „Drepið hana ekki í húsi Jehóva.“
16 Síðan gripu þeir hana og þegar hún var komin þangað sem hestarnir ganga inn til konungshallarinnar+ var hún drepin.
17 Jójada gerði síðan sáttmála milli Jehóva og konungsins og þjóðarinnar+ um að hún skyldi áfram vera þjóð Jehóva. Hann gerði einnig sáttmála milli konungsins og þjóðarinnar.+
18 Því næst fóru allir landsmenn til musteris* Baals og rifu niður ölturu hans,+ mölbrutu líkneski hans+ og drápu Baalsprestinn Mattan+ fyrir framan ölturun.
Jójada prestur skipaði síðan menn til að hafa umsjón með húsi Jehóva.+
19 Hann safnaði saman hundraðshöfðingjunum,+ konunglegu lífvörðunum,* hallarvörðunum+ og öllum landsmönnum og saman fylgdu þeir konungi niður frá húsi Jehóva. Þeir gengu til konungshallarinnar gegnum hlið hallarvarðanna og konungurinn settist í hásæti konunganna.+
20 Allir íbúar landsins fögnuðu og friður og ró ríkti í borginni því að Atalía hafði verið drepin með sverði við konungshöllina.
21 Jóas+ var sjö ára þegar hann varð konungur.+
Neðanmáls
^ Orðrétt „Kareanna“.
^ Orðrétt „hlauparanna“.
^ Eða „sáttmála“.
^ Eða „musterið“.
^ Orðrétt „þegar hann fer út og þegar hann kemur inn“.
^ Hugsanlega bókrolla með lögum Guðs.
^ Orðrétt „húss“.
^ Orðrétt „Kareunum“.