Síðari Konungabók 12:1–21
12 Á sjöunda stjórnarári Jehú+ varð Jóas+ konungur og hann ríkti í 40 ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba.+
2 Jóas gerði það sem var rétt í augum Jehóva allan þann tíma sem Jójada prestur leiðbeindi honum.
3 En fórnarhæðirnar+ fengu að standa og fólkið hélt áfram að færa fórnir og láta fórnarreyk stíga upp á hæðunum.
4 Jóas sagði við prestana: „Takið alla peningana sem eru færðir að helgigjöf+ í húsi Jehóva: það sem hverjum og einum er skylt að greiða,+ peningana frá þeim sem hafa unnið heit og peningana sem hver og einn gefur til húss Jehóva af fúsum og frjálsum vilja.+
5 Prestarnir skulu sjálfir taka við peningunum frá þeim sem gefa þá* og nota þá til viðgerða á húsinu hvar sem skemmdir* finnast.“+
6 En á 23. stjórnarári Jóasar konungs höfðu prestarnir ekki enn gert við skemmdirnar á húsinu.+
7 Jóas konungur kallaði þá á Jójada+ prest og hina prestana og sagði við þá: „Hvers vegna gerið þið ekki við skemmdirnar á húsinu? Takið ekki lengur við neinum peningum nema þeir séu notaðir til viðgerða á húsinu.“+
8 Prestarnir samþykktu að þeir skyldu hvorki taka við meiri peningum af fólkinu né bera ábyrgð á því að gera við húsið.
9 Jójada prestur tók nú kistu,+ boraði gat á lokið og kom henni fyrir við hliðina á altarinu, hægra megin þegar gengið er inn í hús Jehóva. Prestarnir sem voru dyraverðir lögðu í hana alla peningana sem komið var með í hús Jehóva.+
10 Í hvert skipti sem þeir sáu að það var komið mikið af peningum í kistuna komu ritari konungs og æðstipresturinn, söfnuðu saman peningunum* sem gefnir höfðu verið til húss Jehóva og töldu þá.+
11 Þegar peningarnir höfðu verið taldir létu þeir þá í hendur þeirra sem höfðu umsjón með vinnunni í húsi Jehóva. Þeir notuðu þá síðan til að greiða trésmiðunum og byggingarverkamönnunum sem unnu við hús Jehóva+
12 og einnig múrurunum og steinhöggvurunum. Auk þess notuðu þeir peningana til að kaupa timbur og tilhöggna steina til að gera við skemmdirnar á húsi Jehóva og til að standa straum af öllum öðrum kostnaði við viðgerðirnar.
13 En peningarnir sem komið var með í hús Jehóva voru ekki notaðir til að gera silfurker, skarklippur, skálar, lúðra+ né nokkra gripi úr gulli eða silfri fyrir hús Jehóva.+
14 Peningarnir voru fengnir þeim sem unnu við verkið og þeir notuðu þá til að gera við hús Jehóva.
15 Mennirnir sem fengu peningana til að greiða verkamönnunum þurftu ekki að gera grein fyrir fénu því að þeim var treystandi.+
16 En peningarnir fyrir sektarfórnir+ og syndafórnir runnu ekki til húss Jehóva heldur komu í hlut prestanna.+
17 Um þetta leyti hélt Hasael+ Sýrlandskonungur upp eftir til að herja á Gat.+ Hann vann borgina og bjó sig síðan undir að ráðast á Jerúsalem.+
18 Þá tók Jóas Júdakonungur allar helgigjafirnar sem forfeður hans, þeir Jósafat, Jóram og Ahasía Júdakonungar, höfðu helgað. Hann tók auk þess sínar eigin helgigjafir og allt gullið sem var í fjárhirslunum í húsi Jehóva og konungshöllinni og sendi það til Hasaels Sýrlandskonungs.+ Þá hætti hann við að ráðast á Jerúsalem.
19 Það sem er ósagt af sögu Jóasar og öllu sem hann gerði er skráð í bókinni um sögu Júdakonunga.
20 En þjónar Jóasar gerðu samsæri gegn honum+ og drápu hann í Millóhúsinu*+ við veginn niður til Silla.
21 Það voru þeir Jósakar Símeatsson og Jósabad Sómersson þjónar hans sem drápu hann.+ Hann var jarðaður hjá forfeðrum sínum í Davíðsborg og Amasía sonur hans varð konungur eftir hann.+
Neðanmáls
^ Eða „frá kunningjum sínum“.
^ Eða „sprungur“.
^ Eða „lögðu peningana í poka“. Orðrétt „bundu saman peningana“.
^ Eða „Bet Milló“.