Síðari Konungabók 9:1–37

  • Jehú smurður til konungs yfir Ísrael (1–13)

  • Jehú drepur Jóram og Ahasía (14–29)

  • Jesebel drepin; hundar éta hold hennar (30–37)

9  Elísa spámaður kallaði nú á einn af sonum spámannanna og sagði við hann: „Bittu upp kyrtilinn um mittið og flýttu þér til Ramót í Gíleað+ með þessa olíuflösku.  Þegar þú kemur þangað skaltu leita að Jehú,+ syni Jósafats Nimsísonar. Gakktu til hans og biddu hann að standa upp frá bræðrum sínum. Farðu síðan með hann inn í innsta herbergið.  Þar skaltu taka olíuflöskuna, hella úr henni á höfuð hans og segja: ‚Jehóva segir: „Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.“‘+ Opnaðu síðan dyrnar og forðaðu þér eins fljótt og þú getur.“  Þjónn spámannsins lagði þá af stað til Ramót í Gíleað.  Þegar hann kom þangað sátu hershöfðingjarnir þar saman. Hann sagði: „Ég er með skilaboð til þín, hershöfðingi.“ Jehú spurði: „Til hvers okkar?“ „Til þín, hershöfðingi,“ svaraði hann.  Jehú stóð þá upp og fór inn í húsið. Þjónninn hellti olíu á höfuð hans og sagði: „Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Ég smyr þig til konungs yfir þjóð Jehóva, yfir Ísrael.+  Þú átt að útrýma ætt Akabs herra þíns. Þannig kem ég fram hefndum fyrir blóð þjóna minna, spámannanna, og allra þjóna Jehóva sem hafa fallið fyrir hendi Jesebelar.+  Öll ætt Akabs verður þurrkuð út. Ég ætla að tortíma öllum karlmönnum* af ætt Akabs, jafnvel hinum vesælu og veikburða í Ísrael.+  Ég fer með ætt Akabs eins og ætt Jeróbóams+ Nebatssonar og ætt Basa+ Ahíasonar. 10  Hundar munu éta Jesebel á landareign Jesreel+ og enginn mun jarða hana.‘“ Síðan opnaði hann dyrnar og forðaði sér burt.+ 11  Þegar Jehú kom aftur út til hinna hershöfðingja konungs spurðu þeir hann: „Er allt í lagi? Hvað vildi þessi vitfirringur þér?“ Hann svaraði: „Þið vitið hvernig svona menn eru og hvernig þeir tala.“ 12  En þeir sögðu: „Þú ert ekki að segja sannleikann. Segðu okkur hvað hann sagði.“ Jehú sagði þeim þá hvað maðurinn hafði sagt og að hann hefði lýst yfir: „Jehóva segir: ‚Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.‘“+ 13  Þá flýttu þeir sér að taka yfirhafnir sínar og leggja þær á berar tröppurnar frammi fyrir honum.+ Síðan blésu þeir í horn og sögðu: „Jehú er orðinn konungur!“+ 14  Í kjölfarið gerði Jehú,+ sonur Jósafats Nimsísonar, samsæri gegn Jóram. Jóram hafði verið við Ramót í Gíleað+ ásamt öllum Ísrael að verjast árásum Hasaels+ Sýrlandskonungs. 15  Jóram konungur sneri síðar aftur til Jesreel+ til að láta sárin gróa sem Sýrlendingar höfðu veitt honum þegar hann barðist við Hasael Sýrlandskonung.+ Jehú sagði: „Ef þið standið með mér látið þá engan sleppa úr borginni svo að hann geti ekki farið og sagt frá þessu í Jesreel.“ 16  Síðan steig Jehú upp í vagn sinn og hélt til Jesreel þar sem Jóram lá særður. Ahasía Júdakonungur hafði líka farið niður eftir til að heimsækja Jóram. 17  Þegar varðmaðurinn sem stóð uppi í turninum í Jesreel sá Jehú nálgast ásamt fjölmennu liði sagði hann: „Ég sé hóp manna.“ Jóram sagði: „Sendu riddara á móti honum til að spyrja hvort þeir komi með friði.“ 18  Þá fór riddari á móti honum og sagði: „Konungurinn spyr: ‚Komið þið með friði?‘“ Jehú svaraði: „Hvað veist þú um frið? Fylgdu mér.“ Nú tilkynnti varðmaðurinn: „Sendiboðinn er kominn til þeirra en snýr ekki aftur.“ 19  Þá sendi hann annan riddara sem kom til þeirra og sagði: „Konungurinn spyr: ‚Komið þið með friði?‘“ Jehú svaraði: „Hvað veist þú um frið? Fylgdu mér.“ 20  Varðmaðurinn tilkynnti: „Hann er kominn til þeirra en snýr ekki aftur. Leiðtogi þeirra ekur eins og Jehú sonarsonur* Nimsí. Hann ekur eins og brjálæðingur.“ 21  „Spennið hesta fyrir vagninn,“ sagði Jóram. Þá var spennt fyrir vagn hans. Jóram Ísraelskonungur og Ahasía+ Júdakonungur óku nú hvor í sínum vagni á móti Jehú og mættu honum á landareign Nabóts+ frá Jesreel. 22  Þegar Jóram kom auga á Jehú spurði hann: „Kemurðu með friði, Jehú?“ En hann svaraði: „Hvernig getur verið friður á meðan Jesebel+ móðir þín stundar vændi* og alls konar galdra?“+ 23  Þá sneri Jóram vagninum við, lagði á flótta og sagði við Ahasía: „Þetta er gildra, Ahasía!“ 24  Jehú greip þá boga sinn og skaut Jóram milli herðanna. Örin gekk í gegnum hjartað og hann hneig niður í vagninum. 25  Jehú sagði við Bídkar liðsforingja sinn: „Taktu hann og fleygðu honum á akur Nabóts frá Jesreel.+ Manstu þegar þú og ég ókum saman* á eftir Akab föður hans og Jehóva kvað upp þennan dóm yfir honum:+ 26  ‚„Ég sá blóð Nabóts+ og blóð sona hans í gær,“ segir Jehóva, „og þú mátt vera viss um að ég læt þig gjalda þess+ á þessum akri,“ segir Jehóva.‘ Taktu hann því og fleygðu honum á akurinn eins og Jehóva hefur sagt.“+ 27  Þegar Ahasía+ Júdakonungur sá þetta flúði hann í átt að garðhúsinu. (Seinna elti Jehú hann og sagði: „Drepið hann líka!“ Þeir særðu hann þegar hann var í vagni sínum á leið upp til Gúr sem er við Jibleam.+ En hann náði að flýja til Megiddó og dó þar. 28  Þjónar hans fluttu hann síðan í vagni til Jerúsalem og jörðuðu hann í gröf hans hjá forfeðrum hans í Davíðsborg.+ 29  Ahasía+ hafði orðið konungur yfir Júda á 11. stjórnarári Jórams Akabssonar.) 30  Þegar Jesebel+ frétti að Jehú væri kominn til Jesreel+ málaði hún sig um augun með svörtum farða,* skreytti höfuð sitt og leit niður út um gluggann. 31  Þegar Jehú kom í gegnum borgarhliðið sagði hún: „Fór vel fyrir Simrí sem drap herra sinn?“+ 32  Hann leit upp í gluggann og spurði: „Hver er með mér? Hver?“+ Tveir eða þrír hirðmenn litu þá út til hans. 33  „Kastið henni niður!“ hrópaði hann. Þeir köstuðu henni niður og blóð hennar slettist á vegginn og hestana og hann lét hestana traðka á henni. 34  Hann gekk inn, át og drakk og sagði síðan: „Sjáið til þess að þessi bölvaða kona verði jörðuð. Hún er nú konungsdóttir þrátt fyrir allt.“+ 35  En þegar þeir fóru til að jarða hana fundu þeir ekkert af henni nema hauskúpuna, fæturna og hendurnar.+ 36  Þeir sneru aftur og sögðu Jehú frá þessu. Þá sagði hann: „Nú hefur það ræst sem Jehóva sagði+ fyrir milligöngu þjóns síns, Elía frá Tisbe: ‚Á landareign Jesreel munu hundar éta hold Jesebelar.+ 37  Lík Jesebelar mun liggja eins og tað á túni á landareign Jesreel svo að enginn geti sagt: „Þetta er Jesebel.“‘“

Neðanmáls

Orðrétt „öllum sem pissa utan í vegg“. Niðrandi hebreskt orðasamband notað um karlmenn.
Orðrétt „sonur“.
Eða „hjáguðadýrkun“.
Orðrétt „ókum tvíeykjum“.
Eða „augnskugga“.