Síðara bréfið til Korintumanna 4:1–18
4 Þar sem Guð hefur í miskunn sinni falið okkur þessa þjónustu gefumst við ekki upp.
2 En við höfum hafnað skammarlegu leynimakki og beitum ekki klækjum eða fölsum orð Guðs.+ Með því að birta sannleikann setjum við öllum mönnum gott fordæmi og höfðum til samvisku þeirra frammi fyrir Guði.+
3 Ef fagnaðarboðskapurinn sem við boðum er hulinn er hann hulinn þeim sem farast.
4 Guð þessa heims*+ hefur blindað huga hinna vantrúuðu+ til að þeir sjái ekki ljósið+ frá hinum dýrlega fagnaðarboðskap um Krist sem er eftirmynd Guðs.+
5 Boðun okkar snýst ekki um sjálfa okkur heldur um að Jesús Kristur sé Drottinn og að hans vegna séum við þjónar ykkar.
6 Það var Guð sem sagði: „Ljósið skal skína úr myrkri.“+ Hann hefur látið það skína frá andliti Krists á hjörtu okkar til að upplýsa þau+ með hinni dýrlegu þekkingu á sér.
7 En við geymum þennan fjársjóð+ í leirkerum+ þannig að augljóst sé að krafturinn sem er ofar mannlegum mætti komi frá Guði en ekki sjálfum okkur.+
8 Við erum aðþrengdir á allar hliðar en ekki innikróaðir, við erum ráðvilltir en ekki úrræðalausir með öllu.*+
9 Við erum ofsóttir en ekki yfirgefnir,+ við erum slegnir niður en tortímumst þó ekki.+
10 Við eigum sífellt á hættu að vera líflátnir eins og Jesús+ þannig að augljóst verði á líkama okkar hvernig Jesús lifði.
11 Já, vegna Jesú blasir dauðinn sífellt við okkur sem lifum,+ til að augljóst verði á dauðlegum líkama okkar hvernig Jesús lifði.
12 Þannig er dauðinn að verki í okkur en lífið í ykkur.
13 Við höfum þess konar trú sem skrifað er um: „Ég trúði, þess vegna talaði ég.“+ Við trúum líka og þess vegna tölum við.
14 Við vitum að hann sem reisti Jesú upp mun líka reisa okkur upp á sama hátt og Jesú og leiða okkur fram ásamt ykkur.+
15 Allt gerist þetta ykkar vegna til að góðvild Guðs streymi fram í æ ríkari mæli þegar margir fleiri þakka Guði, en það er honum til dýrðar.+
16 Þess vegna gefumst við ekki upp. Jafnvel þótt okkar ytri maður hrörni endurnýjast okkar innri maður dag frá degi.
17 Erfiðleikarnir* standa stutt og eru léttbærir en þeir veita okkur dýrð sem er engu lík* og er eilíf.+
18 Við horfum ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega+ því að hið sýnilega er tímabundið en hið ósýnilega eilíft.
Neðanmáls
^ Eða „þessarar aldar“. Sjá orðaskýringar, „heimsskipan“.
^ Eða hugsanl. „ekki örvæntingarfullir“.
^ Eða „Prófraunirnar“.
^ Orðrétt „vegur sífellt þyngra“.