Esterarbók 1:1–22

  • Veisla Ahasverusar konungs í Súsa (1–9)

  • Vastí drottning neitar að hlýða (10–12)

  • Konungur ráðfærir sig við vitra menn (13–20)

  • Konungur sendir út tilskipun (21, 22)

1  Þessir atburðir gerðust á dögum Ahasverusar* konungs, það er Ahasverusar sem ríkti yfir 127 skattlöndum,+ frá Indlandi til Eþíópíu,*  meðan hann sat í hásæti í virkisborginni* Súsa.+  Á þriðja stjórnarári sínu bauð hann öllum höfðingjum sínum og þjónum til veislu. Hershöfðingjar Persíu+ og Medíu,+ tignarmennirnir og höfðingjar skattlandanna komu saman hjá honum.  Hann sýndi þeim auðæfi síns mikla ríkis og dýrðarljóma tignar sinnar dögum saman, alls 180 daga.  Eftir það hélt konungur veislu í sjö daga í forgarði hallar sinnar handa öllum sem voru í virkisborginni* Súsa, jafnt háum sem lágum.  Þar héngu tjöld úr líni, fínni bómull og bláu efni sem voru fest í silfurhringi með böndum úr fínu efni og purpuralitri ull. Þar voru marmarasúlur og legubekkir úr gulli og silfri á gólfi lögðu dílóttum steini, marmara, perlumóður og svörtum marmara.  Vín var borið fram í gullbikurum* og engir tveir bikarar voru eins. Nóg var til af konunglegu víni eins og sæmir konungi.  Sú regla gilti að víni var ekki haldið að mönnum* því að konungur hafði skipað þjónum hallarinnar að virða skyldi óskir gestanna.  Vastí+ drottning hélt líka veislu handa konunum í konungshúsi* Ahasverusar. 10  Á sjöunda degi, þegar konungur var glaður og kátur af víni, kallaði hann á sjö hirðmenn sem voru einkaþjónar hans, þá Mehúman, Bista, Harbóna,+ Bigta, Abagta, Setar og Karkas, 11  og skipaði þeim að sækja Vastí drottningu, prýdda konunglegum höfuðbúnaði.* Hann vildi sýna fólkinu og höfðingjunum fegurð hennar því að hún var mjög fögur. 12  En Vastí drottning neitaði að hlýða skipun konungs sem hirðmennirnir fluttu henni. Konungur brást reiður við og bræðin sauð í honum. 13  Konungur talaði við vitra menn sem höfðu þekkingu á eldri málum.* (Þannig voru mál konungs lögð fyrir þá sem þekktu vel til laga og réttar. 14  Nánustu ráðgjafar hans voru Karsena, Setar, Admata, Tarsis, Meres, Marsena og Memúkan, sjö höfðingjar+ Persa og Meda sem höfðu aðgang að konungi og skipuðu æðstu embætti í ríkinu.) 15  Konungur spurði: „Hvað segja lögin að gert skuli við Vastí drottningu? Hún hefur ekki hlýtt skipun Ahasverusar konungs sem hirðmennirnir fluttu henni.“ 16  Memúkan svaraði í áheyrn konungs og höfðingjanna: „Vastí drottning hefur ekki aðeins brotið gegn konungi+ heldur líka gegn öllum höfðingjum og öllum þjóðum í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs. 17  Allar konur munu frétta af því sem drottningin gerði og þær munu fyrirlíta eiginmenn sína og segja: ‚Ahasverus konungur skipaði að Vastí drottning skyldi leidd fyrir hann en hún neitaði að koma.‘ 18  Strax í dag munu hefðarkonur Persíu og Medíu sem frétta hvað drottningin gerði tala við eiginmenn sína á sama hátt. Það mun valda mikilli fyrirlitningu og gremju. 19  Ef konungi þykir það við hæfi þá gefi hann út konunglega tilskipun sem skráð verði í lög Persíu og Medíu svo að hún verði ekki felld úr gildi.+ Láttu skrá að Vastí megi aldrei framar ganga fyrir Ahasverus konung og veittu konu sem er betri en hún drottningartign í hennar stað. 20  Þegar menn heyra tilskipun konungs í öllu hans víðlenda ríki munu allar konur sýna eiginmönnum sínum virðingu, jafnt háum sem lágum.“ 21  Konungi og höfðingjunum leist vel á þessa tillögu og konungur gerði eins og Memúkan lagði til. 22  Hann sendi bréf til allra skattlandanna,+ til hvers skattlands með letri þess og til hverrar þjóðar á tungumáli hennar, þess efnis að hver maður skyldi vera húsbóndi* á sínu heimili og tala mál sinnar eigin þjóðar.

Neðanmáls

Talinn vera Xerxes fyrsti, sonur Daríusar mikla (Daríusar Hystaspis).
Eða „Kúss“.
Eða „höllinni“.
Eða „höllinni“.
Eða „gullílátum“.
Eða „að allir máttu drekka eins og þeir vildu“.
Eða „konungshöll“.
Eða „vefjarhetti“.
Eða „á málarekstri“.
Eða „höfðingi“.