Postulasagan 15:1–41

  • Deilur í Antíokkíu um umskurð (1, 2)

  • Farið með málið til Jerúsalem (3–5)

  • Öldungarnir og postularnir koma saman (6–21)

  • Bréf frá hinu stjórnandi ráði (22–29)

    • Haldið ykkur frá blóði (28, 29)

  • Bréfið hvatti söfnuðina (30–35)

  • Leiðir skilja með Páli og Barnabasi (36–41)

15  Nú komu nokkrir menn ofan frá Júdeu og fóru að kenna bræðrunum: „Þið getið ekki bjargast nema þið látið umskerast eins og Móselögin kveða á um.“+  Eftir að Páll og Barnabas höfðu deilt og rökrætt töluvert við þá var ákveðið að Páll, Barnabas og nokkrir hinna færu upp til Jerúsalem+ á fund postulanna og öldunganna vegna þessa máls.*  Söfnuðurinn fylgdi mönnunum áleiðis og síðan héldu þeir áfram um Fönikíu og Samaríu og sögðu ítarlega frá hvernig fólk af þjóðunum hefði snúist til trúar. Bræðurnir og systurnar urðu öll mjög glöð að heyra það.  Þegar þeir komu til Jerúsalem tóku söfnuðurinn, postularnir og öldungarnir vel á móti þeim og þeir sögðu frá öllu sem Guð hafði látið þá gera.  En sumir úr flokki* farísea sem höfðu tekið trú stóðu á fætur og sögðu: „Það er nauðsynlegt að umskera þá og fyrirskipa þeim að halda lög Móse.“+  Postularnir og öldungarnir komu því saman til að líta á þetta mál.  Eftir miklar og heitar umræður* stóð Pétur upp og sagði við þá: „Menn, bræður, þið vitið vel að Guð valdi mig í upphafi úr ykkar hópi til að fólk af þjóðunum fengi að heyra fagnaðarboðskapinn og trúa.+  Guð, sem þekkir hjörtun,+ sýndi að hann viðurkenndi þetta fólk með því að gefa því heilagan anda,+ rétt eins og okkur.  Og hann gerði alls engan greinarmun á því og okkur+ heldur hreinsaði hjörtu þess með trúnni.+ 10  Hvers vegna reynið þið þá Guð með því að leggja ok á herðar lærisveinunum+ sem hvorki forfeður okkar né við gátum borið?+ 11  Við trúum hins vegar að við björgumst vegna einstakrar góðvildar Drottins Jesú+ á sama hátt og þeir.“+ 12  Nú þagnaði allur hópurinn og hlustaði á Barnabas og Pál segja frá þeim mörgu táknum og undrum sem Guð hafði látið þá gera meðal þjóðanna. 13  Þegar þeir höfðu lokið máli sínu sagði Jakob: „Menn, bræður, hlustið á mig. 14  Símeon*+ hefur greint ítarlega frá hvernig Guð sneri sér að þjóðunum í fyrsta sinn og valdi úr hópi þeirra fólk til að bera nafn sitt.+ 15  Það er í samræmi við orð spámannanna þar sem stendur: 16  ‚Eftir þetta sný ég aftur og endurreisi hið fallna hús* Davíðs. Ég reisi það úr rústum og geri það upp 17  þannig að þeir sem eftir eru geti leitað Jehóva* af heilum hug ásamt fólki af öllum þjóðum, fólki sem ber nafn mitt, segir Jehóva,* hann sem gerir þetta,+ 18  og það er kunnugt frá fornu fari.‘+ 19  Ég tel* því að ekki skuli íþyngja fólki af þjóðunum sem snýr sér til Guðs+ 20  heldur skrifa því að það skuli halda sig frá öllu sem er óhreint af völdum skurðgoða,+ frá kynferðislegu siðleysi,*+ frá kjöti af köfnuðum* dýrum og frá blóði.+ 21  Frá fornu fari hefur það sem Móse skrifaði verið boðað í hverri borg því að það er lesið upp í samkunduhúsum á hverjum hvíldardegi.“+ 22  Postularnir og öldungarnir ákváðu þá ásamt öllum söfnuðinum að velja menn úr sínum hópi og senda þá með Páli og Barnabasi til Antíokkíu. Þeir sendu Júdas, sem var kallaður Barsabbas, og Sílas+ en þeir voru forystumenn meðal bræðranna. 23  Þeir skrifuðu eftirfarandi bréf og sendu með þeim: „Postularnir og öldungarnir, bræður ykkar, heilsa bræðrunum í Antíokkíu,+ Sýrlandi og Kilikíu sem eru af þjóðunum. 24  Við höfum heyrt að nokkrir af okkur hafi komið og gert ykkur órótt með tali sínu+ og reynt að koma ykkur úr jafnvægi, án þess að við hefðum gefið nokkur fyrirmæli um það. 25  Við höfum því ákveðið einróma að velja menn og senda til ykkar ásamt ástkærum bræðrum okkar, þeim Barnabasi og Páli, 26  mönnum sem hafa hætt lífi sínu vegna nafns Drottins okkar Jesú Krists.+ 27  Við sendum með þeim þá Júdas og Sílas til að þeir geti flutt ykkur munnlega hið sama.+ 28  Það er niðurstaða heilags anda+ og okkar að leggja ekki frekari byrðar á ykkur en þetta sem er nauðsynlegt: 29  að þið haldið ykkur frá því sem hefur verið fórnað skurðgoðum,+ blóði,+ kjöti af köfnuðum* dýrum+ og kynferðislegu siðleysi.*+ Ef þið forðist þetta vegnar ykkur vel. Verið sælir.“ 30  Mennirnir voru nú sendir af stað og komu niður til Antíokkíu. Þar kölluðu þeir saman alla lærisveinana og afhentu þeim bréfið. 31  Þeir lásu það og glöddust yfir þessari hvatningu. 32  Þar sem Júdas og Sílas voru einnig spámenn fluttu þeir margar ræður og hvöttu þannig bræðurna og systurnar og styrktu þau.+ 33  Eftir að þeir höfðu verið þar um tíma sendu bræðurnir þá aftur til baka og óskuðu þeim góðrar ferðar. 34 * —— 35  En Páll og Barnabas héldu kyrru fyrir í Antíokkíu og kenndu og boðuðu fagnaðarboðskapinn, orð Jehóva,* ásamt mörgum öðrum. 36  Nokkrum dögum síðar sagði Páll við Barnabas: „Förum nú* aftur og heimsækjum trúsystkini okkar í öllum borgunum þar sem við höfum boðað orð Jehóva* og sjáum hvernig þau hafa það.“+ 37  Barnabas var ákveðinn í að taka með Jóhannes sem var kallaður Markús.+ 38  Páll var hins vegar ekki hlynntur því að taka hann með þar sem hann hafði yfirgefið þá í Pamfýlíu og ekki haldið verkinu áfram með þeim.+ 39  Þeir rifust svo harkalega um þetta að leiðir þeirra skildu. Barnabas+ tók Markús með sér og sigldi til Kýpur 40  en Páll kaus sér Sílas og hélt af stað eftir að bræðurnir höfðu beðið Jehóva* að gæta hans og sýna honum einstaka góðvild sína.+ 41  Hann fór um Sýrland og Kilikíu og styrkti söfnuðina.

Neðanmáls

Eða „ágreinings“.
Eða „sértrúarflokki“.
Eða „miklar deilur“.
Það er, Pétur.
Eða „tjald; skýli“.
Eða „úrskurða“.
Eða „óblóðguðum“.
Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.
Eða „óblóðguðum“.
Á grísku pornei′a. Sjá orðaskýringar.
Eða hugsanl. „fyrir alla muni“.