Hvað segir Biblían um hungursneyðir nú á dögum?
„Ekkert hungur“ var markmið þjóðarleiðtoga til að leysa eitt stærsta vandamál mannkynsins – að sjá öllum jarðarbúum fyrir fæðu. a En verður heimurinn einhvern tíma laus við hungur? Hvað segir Biblían?
Biblían sagði fyrir hungursneyðir á okkar tímum
Í Biblíunni er spáð að hungursneyðir myndu verða á okkar dögum, á tímabili sem kallast ‚síðustu dagar‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Það er ekki Guð sem ber ábyrgð á hungursneyðum en hann varaði við þeim. (Jakobsbréfið 1:13) Skoðum tvo spádóma í Biblíunni.
„Það verða hungursneyðir … á einum stað eftir annan.“ (Matteus 24:7) Þessi spádómur sagði fyrir að það yrðu víða hallæri. Í nýlegri frétt frá þeim sem rannsaka framleiðslu og dreifingu matvæla segir: Staðan í heiminum í sambandi við hungursneyðir, næringarskort og fæðuöryggi hefur versnað. b Hundruð milljóna manna í mörgum löndum skortir fæðu. Því miður dregur það marga til dauða.
„Ég sá svartan hest og sá sem sat á honum hélt á vogarskálum í hendinni.“ (Opinberunarbókin 6:5) Í þessum spádómi tákna hesturinn og sá sem á honum situr hungursneyðir á síðustu dögunum. c Vogarskálarnar í höndum reiðmannsins tákna hvernig þarf að skammta takmarka fæðu. (Opinberunarbókin 6:6) Þetta er nákvæm lýsing á alþjóðlegum fæðuvanda nú á dögum þegar milljarðar manna hafa ekki aðgang að eða efni á næringarríkum mat.
Hvernig verður bundinn endi á hungursneyðir?
Sérfræðingar segja að jörðin gefi af sér meiri fæðu en þarf til að brauðfæða alla jarðarbúa. Hvað er þá að? Og hvað segir Biblían að skapari okkar, Jehóva, d muni gera til að leysa þessi vandamál?
Vandmál: Ríkisstjórnir geta ekki útrýmt fátækt og ójöfnuði sem viðheldur hungri í heiminum.
Lausn: Fullkomin ríkisstjórn, Guðsríki, kemur í stað ófullkominna ríkisstjórna manna. (Daníel 2:44; Matteus 6:10) Nú á dögum á margt fátækt fólk í erfiðleikum með að kaupa mat en undir stjórn Guðsríkis verður breyting á því. Biblían segir um Jesú Krist, konung Guðsríkis: „Hann bjargar hinum fátæka sem hrópar á hjálp, hinum bágstadda og þeim sem enginn hjálpar … Gnóttir korns verða á jörðinni, jafnvel á fjallatindunum vex það í ríkum mæli.“ – Sálmur 72:12, 16.
Vandamál: Stríð hafa í för með sér eyðileggingu og efnahagslegan óstöðugleika sem gerir fólki erfitt fyrir að verða sér út um nauðsynlega fæðu.
Lausn: „[Jehóva] stöðvar stríð um alla jörð. Hann brýtur bogann, mölvar spjótið, brennir stríðsvagna í eldi.“ (Sálmur 46:9) Guð mun eyðileggja stríðsvopn og taka þá úr umferð sem standa á bak við stríð. Fyrir vikið munu allir búa við fæðuöryggi. Biblían lofar: ‚Hinn réttláti blómstrar og friðurinn verður allsráðandi‘. – Sálmur 72:7.
Vandamál: Öfgar í veðri og náttúruhamfarir eyðileggja uppskerur og drepa búfénað.
Lausn: Guð mun stjórna náttúruöflum jarðarinnar þannig að aðstæður verða góðar til matvælaframleiðslu. Biblían segir: „[Jehóva] stillir storminn og öldur hafsins lægir … Hann breytir eyðimörkinni í sefgrónar tjarnir og lætur uppsprettur myndast í þurru landi. Hann lætur hina hungruðu setjast þar að … Þeir sá í akra og planta víngarða sem gefa ríkulega uppskeru.“ – Sálmur 107:29, 35–37.
Vandamál: Gráðugir og spilltir menn framleiða óhollan mat eða koma í veg fyrir að matur komist til þeirra sem þurfa hann.
Lausn: Guðsríki mun losa mannkynið við alla sem eru óheiðarlegir og spilltir. (Sálmur 37:10, 11; Jesaja 61:8) Biblían lýsir Jehóva Guði þannig: „Hann sem tryggir þeim réttlæti sem hafa verið sviknir, hann sem gefur hungruðum brauð.“ – Sálmur 146:7.
Vandamál: Einum þriðja hluta matar er hent eða hann týnist á hverju ári.
Lausn: Í Guðsríki verður góð umsjón með matarbirgðum. Þegar Jesús var á jörðinni forðaðist hann matarsóun. Hann gaf til dæmis meira en 5.000 manns að borða fyrir kraftaverk. Síðar sagði hann lærisveinum sínum: „Safnið leifunum saman svo að ekkert fari til spillis.“ – Jóhannes 6:5–13.
Guðsríki mun uppræta það sem veldur hungri og fyrir vikið munu allir fá næga góða og holla fæðu. (Jesaja 25:6) Sjá greinina „Hvenær mun ríki Guðs fara með stjórn yfir jörðinni?“ til að sjá hvenær Guðsríki kemur þessu til leiðar.
a Sjálfbærnismarkmið sem öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu árið 2015 og gilda til ársins 2030.
b Sameiginleg skýrsla Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðasjóðs um þróun landbúnaðar, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
c Hægt er að lesa meira um riddarana fjóra í greininni „Riddararnir fjórir – hverjir eru þeir?“
d Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?“