Að missa vinnuna – biblíumeginreglur sem geta hjálpað þér
Það getur tekið sinn toll að missa vinnuna, ekki bara fjárhagslega heldur líka tilfinningalega. Það getur auk þess haft áhrif á fjölskyldulífið. Eftirfarandi tillögur sem byggjast á sígildum meginreglum Biblíunnar geta hjálpað þér.
Talaðu við aðra um hvernig þér líður.
Hvað segir Biblían? „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni.“ – Orðskviðirnir 17:17.
Eftir að hafa misst vinnuna verður þú kannski dapur, reiður eða ráðvilltur. Þér gæti hreinlega fundist þú vera misheppnaður. Þegar þú segir ættingjum eða nánum vinum frá tilfinningum þínum geta þeir veitt þér stuðning. Þeir geta líka gefið þér góð ráð sem hjálpa þér að finna nýja vinnu.
Forðastu óhóflegar áhyggjur.
Hvað segir Biblían? „Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum því að morgundeginum fylgja sínar áhyggjur.“ – Matteus 6:34.
Í Biblíunni erum við hvött til að skipuleggja fram í tímann. (Orðskviðirnir 21:5) En við fáum líka þá hvatningu að forðast óhóflegar áhyggjur varðandi framtíðina. Annars höfum við kannski áhyggjur af því sem gerist aldrei. Það er betra að taka einn dag í einu.
Í Biblíunni er að finna enn meiri visku um það hvernig hægt sé að takast á við streitu. Nánari upplýsingar er að finna í greininni „Að takast á við streitu“.
Gerðu nauðsynlegar breytingar á eyðslu.
Hvað segir Biblían? ,Ég hef uppgötvað þann leyndardóm að ég get búið við allsnægtir eða skort.‘ – Filippíbréfið 4:12.
Lagaðu þig að aðstæðum þínum núna. Það merkir að breyta eyðsluvenjum þínum svo þú getir lifað af því sem þú hefur yfir að ráða. Passaðu þig á því að stofna ekki til óþarfa skulda. – Orðskviðirnir 22:7.
Nánari upplýsingar um hvernig þú getur lagað þig að fjárhagsaðstæðum þínum er að finna í greininni „Hvernig er hægt að komast af með minna?“.
Notaðu tímann skynsamlega.
Hvað segir Biblían? „Verið vitur … og notið tímann sem best.“ – Kólossubréfið 4:5.
Þótt þú hafir ekki á dagskrá þinni að fara í vinnu skaltu halda áfram að nota tíma þinn vel. Það hjálpar þér að hafa reglu á lífinu og eykur sjálfsvirðingu þína.
Lagaðu þig að aðstæðunum.
Hvað segir Biblían? „Af allri erfiðisvinnu hlýst ávinningur.“ – Orðskviðirnir 14:23.
Vertu tilbúinn að vinna vinnu sem þú hefur ekki unnið áður. Þú gætir þurft að þiggja vinnu sem virðist ekki mikilvæg eða er verr launuð en vinnan sem þú hafðir.
Gefstu ekki upp.
Hvað segir Biblían? „Sáðu korni þínu að morgni og láttu ekki hendur þínar hvílast fyrr en að kvöldi því að þú veist ekki hvað mun heppnast.“ – Prédikarinn 11:6.
Haltu áfram að leita að vinnu. Láttu það berast meðal fólks. Talaðu við ættingja, kunningja, fyrrverandi vinnufélaga og nágranna. Athugaðu hjá ráðningarstofum, skoðaðu atvinnuauglýsingar og auglýsingar eftir starfsmönnum á heimasíðum fyrirtækja. Vertu viðbúinn því að fara í mörg atvinnuviðtöl og að fylla út margar atvinnuumsóknir áður en þú færð vinnu.