Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Vottar Jehóva frá Sovétríkjunum — bjartari tímar í vændum“

„Vottar Jehóva frá Sovétríkjunum — bjartari tímar í vændum“

„Vottar Jehóva frá Sovétríkjunum — bjartari tímar í vændum“

ÞANNIG hljóðaði fyrirsögn í dagblaðinu The Warsaw Voice þann 19. ágúst 1990, en það er gefið út á enskri tungu í Póllandi. Greinarhöfundur, Anna Dubrawska, fjallaði þar um mót votta Jehóva í Varsjá í ágúst 1990, en það bar einkunnarorðin „Hið hreina tungumál.“ Hún átti viðtöl við votta frá Sovétríkjunum sem sumir hverjir höfðu setið í 15 ár í fangelsi og vinnubúðum vegna trúarskoðana sinna. Núna lögðu þeir mikla áherslu á hinar jákvæðu breytingar sem væru að eiga sér stað í landi þeirra.

Grigor Goríatsjek, byggingaverkamaður frá Krím, sem var alinn upp sem vottur, var í 15 ár í útlegð í Síberíu. Hann sagði: „Við búumst við að betri tímar séu í vændum.“ Annar vottur, Anton Pohanítsj, sagði: „Það eru runnir upp betri tímar nú þegar. Núna get ég borið boðskap okkar óhindrað hús úr húsi en það var ógerlegt áður.“

Dubrawska hefur eftir Ígor Tsjerní, 17 ára votti frá Kákasus: „Í 70 ár hefur fólk, einkum unga fólkið, verið dregið burt frá Guði af svo miklum krafti að það vill núna snúa til hans aftur af jafnmiklum krafti, eða að minnsta kosti heyra eitthvað um hann til að byrja með.“

Pólska blaðið Dziennik Wieczorny (Kvöldblað) hafði, undir titlinum Rardość braci (Gleði bræðranna), eftir starfsmanni Zawisza leikvangsins í Bydgoszcz: „Ég er stórhrifinn af hinu hreina málfari og góðum mannasiðum unga fólksins.“

Zofia Uszynska sagði um mótið í pólska dagblaðinu Trybuna undir yfirskriftinni Głosiciele Królestwa (Boðberar Guðsríkis): „Á einum og sama hálftímanum var mér boðin hressing og kaffi tíu sinnum. Fimm sinnum bauðst einhver til að víkja úr sæti fyrir mig. Í fjóra daga samfleytt tóku yfir 30.000 manns þátt í [trúar]hátíð á Dziesieciolecia-leikvanginum í Varsjá. Þarna voru konur komnar að barnsburði og fjölskyldur með ung börn, fullvaxta og á unglingsaldri. Sá yngsti, sem var skírður, var 11 ára, sá elsti næstum áttræður.“

Greinin hélt áfram: „Nokkur þúsund Rússar [í raun réttri yfir 16.000] komu til samkomunnar þetta árið. Síðasta ár voru þeir 6000. Rússneskir landamæraverðir hleyptu öllum langferðabílunum í gegn án þess að þeir þyrftu að bíða í margra kílómetra langri röð eftir skoðun. Mótsgestir komu hvaðanæva að úr Sovétríkjunum: frá Vladivostok, Khabarovsk, Vorkúta. Sumir sátu fjóra eða fimm daga í járnbrautarlest.“

Sama dagblað hefur eftir Ívan N. Grevníak: „Ég sá ranglætið sem páfar og prestar gerðu sig seka um og ég leitaði að heiðarleika.“ Frásagan heldur áfram: „Hann sá að hjá vottum Jehóva fóru saman orð og athafnir.“ Síðan bætti Ívan við: „Ég þakka Guði fyrir að hann skyldi leyfa mér að kynnast sannleikanum.“

Dagblaðið Trybuna segir að Ívan sé öldungur í söfnuðinum í Lvov, þar sem séu „þrettán söfnuðir og yfir 2000 trúaðir. . . .“ ‚Þjóðernisandi ríkir í öllum trúarhópum alls staðar. Hann fyrirfinnst hins vegar ekki meðal trúbræðra minna,‘ segir Grevníak.

Þessi eining var auðsæ á móti votta Jehóva í Varsjá þar sem dagskráin var flutt samtímis á pólsku og rússnesku á mismunandi stöðum á leikvanginum. Þar vottaði hvergi fyrir ósamlyndi manna af ólíku þjóðerni.

Zofia Uszynska var líka stórhrifin af því skipulagi sem sá yfir 35.000 mótsgestum fyrir húsnæði, fæði og jafnvel læknishjálp. Hún sagði: „Ég hef aldrei áður tekið þátt í svona ánægjulegri og vingjarnlegri fjöldasamkomu.“

Pólska dagblaðið Sztandar Młodych (Hermerki æskunnar) lét eftirfarandi orð falla um það starf sem unnið var til að búa leikvanginn undir svona marga gesti: „Fylgjendur Jehóva . . . unnu eins og félagsleg þjónustustofnun að því að endursmíða bekki, gera upp ganga og salerni og hreinsa grasflötina. Þeir lögðu fram fé til mótshaldsins úr eigin vasa. Vottar Jehóva sáu um 22.000 gestum fyrir gistingu á einkaheimilum, létu sovéskum borgurum í té fæði og húsnæði og ráku eigin læknisþjónustu.“

Víst er að vottar Jehóva eiga nú þegar „bjartari tíma“ í Austur-Evrópu, og það er bæn þeirra að þeir muni bráðlega hljóta lagalega viðurkenningu í Tékkóslóvakíu, Albaníu, Búlgaríu og Sovétríkjunum, eins og þeir hafa nú nýverið hlotið í löndum svo sem Rúmeníu, Ungverjalandi og Póllandi. — 2. Þessaloníkubréf 3:1; 1. Tímóteusarbréf 2:1, 2.

[Myndir á blaðsíðu 25]

Sovéskir vottar á mótinu „Hið hreina tungumál“ í Varsjá, þeirra á meðal skírnþegar, rússneskur ræðumaður (að ofan ásamt innfelldu myndunum), dagskrá og sovéskir mótsgestir hjá langferðabifreiðunum.