HM í knattspyrnu — íþrótt eða styrjöld?
HM í knattspyrnu — íþrótt eða styrjöld?
Eftir fréttaritara Vaknið! á Ítalíu
ALLUR heimurinn einblíndi á knattspyrnu. Frá 8. júní til 8. júlí 1990 voru augu hundruða milljóna manna límd við sjónvarpsskjáinn til að einblína á mesta viðburð ársins — heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem haldin var á Ítalíu. Samanlagt horfðu 30.000.000.000 manna á leikina 52 — en það svarar til sexfaldrar íbúatölu jarðar!
Þessi heimsviðburður í sjónvarpinu var mögulegur vegna einstæðrar hátækniskipulagningar — sjónvarpsmiðstöðvar sem þjónaði 147 sjónvarpsstöðvum frá 118 þjóðum, með 180 sjónvarpsmyndavélum, 38 upptökueiningum og 1500 tæknimönnum. Á þeim 12 knattspyrnuleikvöngum, þar sem keppnin fór fram, komu auk þess saman 2.515.000 áhorfendur og 6000 blaðamenn úr
öllum heimshornum. En tölurnar segja þó ekki alla söguna. Bæði rithöfundar, félagsfræðingar, sálfræðingar, listamenn og jafnvel guðfræðingar lögðu sitt af mörkum til að lýsa þessum risavaxna „flótta frá veruleikanum“ eins og sumir köllu þennan viðburð.En stuðlaði heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu að aukinni samheldni og íþróttaanda á alþjóðavettvangi? Megnaði sú knattspyrnuástríða, sem sameinaði milljónir manna fyrir framan sjónvarpsskjáinn þessa 30 daga, að víkja úr vegi þjóðernislegri óvináttu þeirra? Reyndist knattspyrnan vera sameiningarafl milli manna?
Íþrótt eða styrjöld?
Við skulum virða fyrir okkur aðeins eitt atriði sem er dæmigert fyrir svo marga íþróttaviðburði nútímans — ofbeldi. Ofbeldi er algengur viðburður í tengslum við knattspyrnukappleiki — á vellinum, áhorfendapöllunum og utan leikvangsins. Sálfræðingar, félagsfræðingar og blaðamenn eru á einu máli um að í heimi þar sem ofbeldi er jafnríkur þáttur og nú er séu íþróttir engin undantekning. Siðferðisverðmæti, sem eru undirstaða mannlegs samfélags, eru fótum troðin miskunnarlaust. Þótt reynt sé að hvítþvo nútímaíþróttir af því ofbeldi sem einkennir þær, með orðtökum svo sem: „Íþróttir eru heiðarleg átök,“ „vináttuandi“ og „bræðralag,“ hafa menn ekki erindi sem erfiði.
Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu var þar engin undantekning. Nokkrum dögum áður en keppnin hófst heyrðust uggvænlegar fréttir. Átján dögum áður en blásið var til fysta leiks stóð þessi fyrirsögn á forsíðu dagblaðsins La Repubblica: „Ofbeldisfullir knattspyrnuaðdáendur vekja ótta og ferðamenn yfirgefa Ítalíu.“ Mestur uggur var þó út af þeim hópi enskra knattspyrnuunnenda sem er illræmdur út um alla Evrópu fyrir skemmdarverk sín, bæði fyrir leiki, eftir og meðan á þeim stendur, en þeir eru nefndir „hooligans“ á enskri tungu. a
Þann 1. júní 1990 braut Tórínódagblaðið La Stampa til mergjar orsakir ofbeldis á leikvöngunum og ruddaskapar skemmdarvarganna. Þar sagði: „Hjá knattspyrnuættflokknum dugir ekkert hálfkák. Andstæðingar eru ekki lengur bara andstæðingar heldur ‚óvinir‘; átök eru ekki undantekning heldur regla og þau verða að vera hörð, eins hörð og frekast er kostur.“ Hvers vegna? „‚Vegna þess að við hötum hver annan,‘ svöruðu nokkrir skemmdarvargar frá Bologna.“ Félagsfræðingurinn Antonio Roversi reyndi að skýra rökfræðina að baki slíku hatri á þennan hátt: „Krakkarnir á leikvanginum eru haldin ‚hirðingjasóttinni.‘ Þeir sem eru þannig haldnir líta á óvini vina sinna sem sína óvini og vini óvina sinna sem sína óvini, og öfugt; vinir vina þeirra eru vinir og óvinir óvina þeirra eru vinir.“
Hatur, ofbeldi, samkeppni, skemmdarfýsn — „hirðingjasóttin“ var byrjuð að sýna sig. Þótt boltanum hefði enn ekki verið sparkað í heimsmeistarakeppninni lá stríð í loftinu. Þrátt fyrir það undirbjuggu Ítalir sig fyrir keppnina í hátíðaskapi.
Blessun páfa
Jafnvel páfinn, sem er ekki vanur að láta sig vanta þegar hægt er að ná eyrum margra, heimsótti „musteri“ heimsmeistarakeppninnar, hinn endurnýjaða Ólympíuleikvang í Róm, og blessaði hann. Hann sagði: „Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu er íþróttahátíð, en hún getur líka orðið samstöðuhátíð meðal þjóða heims.“ Hann bætti því við að alvarlegar hættur blasi við nútímaíþróttum sem þær þurfi að forðast, svo sem lyfjanotkun, svik og ofbeldi, nánast sjúkleg fíkn í fjárhagslegan ávinning og óhófleg áhersla á það að láta á sér bera. Hann lét í ljós þá von „að sú viðleitni og þær fórnir, sem færðar yrðu, geri ‚Ítalíu 90‘ að vettvangi bræðralags meðal samborgara ykkar og meðal allra manna.“ Jesúítinn Paride Di Luca, sem er fyrrverandi knattspyrnumaður, endurómaði tilfinningar páfa í ‚bæn knattspyrnuunnenda‘ er hann sagði: „Kom þú, Guð minn, og horfðu á heimsmeistarakeppnina.“
En reyndist heimsmeistarakeppnin mikil hátíð? Ætli Guð alheimsins hafi sýnt henni áhuga? Við skulum beina athygli okkar að heimi íþróttanna eins og hann er og þeim lífsgildum sem hann heldur á lofti.
Skemmdarvargarnir
Vegna skemmdarvarganna ríkti nálega umsátursástand í borgum svo sem Cagliari og Tórínó allt frá fyrsta þætti keppninnar. Hér fara á eftir nokkrar glefsur úr fyrirsögnum dagblaða: „Hernaðarástand á Rimini“; „Stríð brýst út í Cagliari“; „Ofbeldi í Tórínó: Þjóðverji og Breti stungnir með hnífi“; „Átök milli enskra, þýskra og ítalskra knattspyrnuunnenda“; „Ákall borgarstjóra Tórínó: Forðið okkur frá enskum knattspyrnuunnendum“; „Átök milli öfgamanna nótt eftir nótt. Borgarstjóri segir Tórínómenn vera hina raunverulegu skemmdarvarga.“ Hér kemur annað óhugnanlegt dæmi: „‚Að stinga andstæðinginn á hol‘ — handbók hins fullkomna skemmdarvargs, útgefin á Englandi.“ Þessar blaðafyrirsagnir nægja til að gefa allskýra mynd af ástandinu. En í rauninni er þetta ástand aðeins eðlilegur ávöxtur þjóðfélags sem nærist á ofbeldi.
Þessi mikli íþróttaviðburður átti ekki ánægjuleg endalok. Er Argentínumenn með hetju sína, Maradona, sigruðu ítalska liðið í úrslitaleiknum flautuðu ítölsku áhorfendurnir á þá í fyrirlitningarskyni og eyðilögðu þar með hátíðarblæ lokakeppninnar. Þetta júlíkvöld ríkti enginn „sannur íþróttaandi“ á Ólympíuleikvanginum; „musteri“ heimsmeistarakeppninnar var vanhelgað. Dagblaðið Il Tempo sagði þann 10. júlí 1990: „Úti á vellinum svívirtu þeir leikinn — á áhorfendapöllunum spilltu þeir orðstír íþróttarinnar.“
Þetta voru sorgleg endalok viðburðar sem sumir höfðu vonast til að myndi breyta heiminum í landamæralaust „heimsþorp“ í að minnsta kosti 30 daga. En ef knattspyrna getur ekki komið á friði, hvorki utan vallar né innan, er þá raunhæft að ímynda sér að hún geti haft áhrif á friðarhorfurnar í heiminum?
Öfgalaust viðhorf til knattspyrnu
La Stampa prísaði knattspyrnuna sem „helgan arf ævafornrar baráttu, sem tákn hins óútreiknanlega, sem kjarna allra íþróttakappleikja.“ Hvernig ætti samviskusamur kristinn maður að líta á knattspyrnu miðað við þennan þankagang? Já, hvernig ber kristnum manni að líta á atvinnuíþróttir yfirleitt?
„Þeir sem elska ekki knattspyrnu fara á mis við eitthvað í lífinu,“ er haft eftir Bertrand Russell. Að sjálfsögðu getur það verið bæði skemmtilegt og heilnæmt að leika knattspyrnu eða stunda einhverjar aðrar íþróttir, einkum ef haft er í huga hve margir eru kyrrsetumenn. En ber að skilja það svo að engar hættur séu tengdar íþróttum?
Biblían segir: „Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.“ (Galatabréfið 5:26) Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu dró skýrt fram í dagsljósið hvernig ofbeldi og það viðhorf að sigra hvað sem það kostar haldast í hendur. Þetta er hin neikvæða hlið allra atvinnuíþrótta. Til að forðast slík „holdsins verk“ verða kristnir menn, bæði sem þátttakendur og áhorfendur, að gæta að því hvaða anda þeir tileinka sér og einkanlega að forðast samkeppnisandann. (Galatabréfið 5:19-21) Munum orð skáldsins sem orti: „Er dómarinn mikli merkir við nafn þitt, þá merkir hann ekki hvort þú sigraðir eða tapaðir heldur hvernig þú spilaðir.“
Annað, sem ekki má horfa fram hjá, er tíminn sem íþróttaiðkunin tekur. Ert þú einn þeirra milljóna manna sem sitja og einblína á skjáinn klukkustundum saman þegar íþróttir eru á dagskrá? Berðu þann tíma saman við tímann sem þú notar til líkamsræktar. Þarna skiptir miklu máli að finna rétt jafnvægi. Það felur í sér að gefa sér tíma til útivistar og afþreyingar, án þess þó að afrækja hin andlegu hugðarefni sem mikilvægari eru. Páll postuli gaf hinum unga Tímóteusi ráð sem hafa enn meira gildi nú en þá: „Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:8.
[Neðanmáls]
a Ein skýring á uppruna orðsins „hooligan“ hljóðar svo: „Maður nefndur Patrick Hooligan sem gekk um meðal samborgara sinna, rændi þá og rak stundum roknahögg.“ — A Dictionary of Slang and Unconventional English eftir Eric Partridge.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 27]
Ljósmynd: Argenzia Giuliani