Horft á heiminn
Horft á heiminn
Berklar aftur í vexti
Berklar eru í vexti á heimsmælikvarða að því er segir í franska blaðinu Le Monde. Núna látast nálega þrjár milljónir manna úr berklum ár hvert. Berklar höfðu verið á undanhaldi um áratuga skeið og frammámenn á sviði heilbrigðismála spáðu, sumir hverjir, að sjúkdómurinn yrði nánast upprættur undir lok aldarinnar. Núna ganga hins vegar 20 milljónir manna í heiminum með virka berkla og 8 milljónir nýrra tilfella eru skráð ár hvert. Enda þótt þriðjungur jarðarbúa sé talinn bera bakteríuna, sem veldur berklum, munu fæstir fá sjúkdóminn nema ónæmiskerfi líkamans skaddist með einhverjum hætti. Þetta stökk, sem nú er orðið í fjölda berklatilfella, er sagt standa í beinu sambandi við útbreiðslu eyðniveirunnar, vegna þess að eyðnisjúklingar hafa sáralítið viðnám gegn berklum og geta hæglega breitt þennan smitsjúkdóm út til annarra.
Biblíuþýðingar
Með viðbót fjögurra nýrra tungumála árið 1990 er Biblían nú fáanleg í heild sinni á 318 tungumálum og mállýskum, að sögn dr. Johns D. Ericksons, aðalritara Sameinuðu biblíufélaganna. Nýju tungumálin eru chimborazo quichua, sem talað er í Ekvador, rongmei naga sem talað er á Indlandi og raná dusun og kayan sem bæði eru töluð í Malasíu. Biblían er nú gefin út, að hluta eða í heild, á 1946 tungumálum og hefur fjölgað um 18 frá árinu á undan.
Var hún dýrlingur?
Það er spurning sem rómversk-kaþólska kirkjan stendur núna frammi fyrir varðandi Ísabellu drottningu I sem réði ríkjum á Spáni á 15. öld. Að sögn franska dagblaðsins Le Monde er komin af stað hreyfing innan kirkjunnar í þá átt að páfi úrskurði Ísabellu komna í samfélag hinna blessuðu sem er fyrsta skrefið í þá átt að taka hana í dýrlingatölu. Ísabella er kunn fyrir stuðning sinn við landkönnunarferðir Kristófers Kólumbusar sem leiddu til þess að Evrópumenn fundu Ameríku árið 1492. Meðan Páfagarður fjallar um bænarskrá þess efnis að hann úrskurði Ísabellu komna í samfélag hinna blessuðu eru í umferð flugrit er lýsa henni sem hinni ákjósanlegustu fyrirmynd unglinga, mæðra og jafnvel þjóðhöfðingja. Gyðingar og múslímar eru hins vegar ævareiðir. Það var nefnilega í stjórnartíð Ísabellu og manns hennar að hinum grimma, spænska rannsóknarrétti var komið á laggirnar og hundruð þúsunda Gyðinga og múslíma urðu annaðhvort að játast undir kristna trú eða fara í útlegð. Þúsundir þeirra voru pyndaðir og brenndir á báli.
Mál í útrýmingarhættu
Nálega helmingur hinna 6000 tungumála heims eru „dauðadæmd innan næstu 75 til 100 ára,“ að sögn tímaritsins Science. Þetta stafar af því að engin börn tala lengur þessi tungumál. Auk þess eru 45 af hundraði tungumála heims til viðbótar í útrýmingarhættu vegna þess að þeir hópar, sem tala þau, hverfa eða renna saman við aðra hópa. Þá eru aðeins 300 tungumál eftir sem talist geta óhult — 5 af hundraði þeirra sem nú eru. The Linguistic Society of America, sem kom fram með þessar tölur á ársfundi sínum fyrr á þessu ári, fjallaði um leiðir til að bjarga þeim tungumálum sem eru í útrýmingarhættu. Ein lausnin, sem stungið var upp á, var að „koma á fót málstöðvum þar sem börnum yrðu kennd þau tungumál, sem eru í hættu, og þau hvött til að nota þau.“
Fiskunnendur
„Japanir elska sushi,“ segir í vikuritinu Asiaweek. „Þeir borða fimmfalt meiri fisk á mann en Bandaríkjamenn og nærri áttfalt meiri en Indónesíumenn.“ Til að fullnægja þessari ást veiða Japanir um 11,5 milljónir tonna af fiski á ári á djúpsævi og við strendurnar, sækja 250.000 tonn til viðbótar í ár og fiskeldisstöðvar og flytja síðan inn 2 milljónir tonna í ofanálag. Sovétmenn eru næstmestu fiskneytendur í heimi með 11,2 milljónir tonna og Kínverjar eru í þriðja sæti með 9,4 milljónir tonna. Kínverjar eru stærstu framleiðendur ferksvatnsfiskjar í heimi og rækta hann aðallega í litlum tjörnum úti á landsbyggðinni. Bandaríkjamenn eru mesta fiskútflutningsþjóð heims og flytja jafnframt inn mest af fiski á eftir Japönum. Tímaritið segir um eina vinsæla fisktegund, sardínur: „Margar tegundir smáfiskjar geta kallast sardínur. Hið einkennandi bragð kemur úr kryddjurtum og olíu.“
Hungur þótt nægur sé maturinn
„Rannsóknir Alþjóðabankans sýna að hungur hefur vaxið á síðustu árum, einkum í Rómönsku Ameríku,“ sagði franski hagfræðingurinn Jacques Chonchol á málþingi sem haldið var í São Paulo í Brasilíu. Þótt kjörorð þingsins væri „Hungursneyð — áskorun tíunda áratugarins,“ var ekki að heyra að mikil von væri handa þeim 1.116.000.000 jarðarbúa sem taldir eru vannærðir. „Sérfræðingar ábyrgjast að vandamálið stafi ekki af matvælaskorti,“ að því er segir í
O Estado de S. Paulo. „Heimurinn framleiðir næg matvæli til að brauðfæða sína 5,3 milljarða íbúa. Fólk hefur hins vegar ekki ráð á að kaupa mat.“ Hvers vegna? Að því er sagt er hefur hugrið færst í aukana vegna niðurskurðar á félagslegri aðstoð sem rekja má til samningaviðræðna um erlendar skuldir. Chonchol segir hungrið einnig hafa versnað samhliða þéttbýlismyndun.Hitamet
Loftslagsfræðingurinn James Hansen var svo sannfærður um að gróðurhúsaáhrifanna væri nú þegar farið að gæta í hækkandi andrúmsloftshita jarðar, að hann veðjaði við aðra loftslagsfræðinga um að sett yrði hitamet minnst eitt af þrem fyrstu árum tíunda áratugarins. Hann hefði ekki getað verið fljótari að vinna veðmálið. Samkvæmt þrem óháðum mælingakerfum var árið 1990 heitasta ár sem sögur fara af. Eigi að síður telja flestir loftslagsfræðingar enn of snemmt að fullyrða að rekja megi hitametið til gróðurhúsaáhrifanna. Þeir segja að eitt ár nægi ekki til að sanna eitt né neitt. Hansen samsinnir því en heldur því eigi að síður fram að á ferðinni sé þróun sem hafi tryggt honum næsta öruggan sigur í veðmálinu. Að sögn tímaritsins Science segir hann að nú sé orðið mjög erfitt fyrir andrúmsloftið að kólna niður „vegna þess að gróðurhúsalofttegundir þrýsti fast á í átt til heitara loftslags.“
Sjálfsmorð í Noregi
Að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hefur sjálfsmorðstíðnin í Noregi fjórfaldast síðastliðin 30 ár. Nálega 14 af hverjum 100.000 Norðmönnum á aldinum 15 til 24 ára fyrirfara sér nú sem stendur. Óslóarblaðið Aftenposten segir að um 15 af hundraði ungra sjúklinga, sem liggja á spítala í iðnaðarbænum Gjørvik, séu þar vegna sjálfsmorðstilraunar. Blaðið nefnir að Norðmenn séu nú auðugasta þjóð Norðurlanda. Auðurinn virðist þó ekki hafa skapað hamingju heldur kann hann að hafa aukið á almenna örvæntingarkennd manna. Aftenposten hefur eftir talsmanni sjúkrahúss: „Vera kann að við höfum kastað fyrir borð umhyggju okkar fyrir öðrum, til að geta einbeitt okkur að peningum og efnislegum hlutum.“
Lífshættulegir lífshættir
Hægt er að koma í veg fyrir helming allra dauðsfalla með því að breyta um lífshætti, að því er dr. Ivan Gyarfas, yfirmaður hjarta- og æðasjúkdómadeildar hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, segir. Lungnakrabbamein, hár blóðþrýstingur, hjartaáfall og heilablæðing veldur 70 til 80 af hundraði allra dauðsfalla meðal iðnríkja heims. Þessir sjúkdómar eru oft tengdir óheilnæmum ávönum svo sem tóbaksreykingum, óviturlegu mataræði og ónógri hreyfingu — lífsháttum þeirra sem kallaðir eru auðugir. En Parísarblaðið International Herald Tribune skýrir frá því að þessir „lífsháttasjúkdómar“ valdi nú um 40 til 50 af hundraði allra dauðsfalla í þróunarlöndunum einnig. Svo þverstæðukennt sem það er virðast þeir lífshættir, sem almennt eru álitnir aðalsmerki efnahagsframfara, standa í beinu sambandi við helstu dauðaorsakirnar um heim allan.
Árás á Pál
Bandarískur biskupakirkjubiskup, John S. Spong, gaf út bók nýlega þar sem hann heldur því fram að Páll postuli hafi verið kynvilltur. Spong hefur lengi verið umdeildur maður. Á áttunda áratugnum barðist hann fyrir því að konur fengju að vígjast til prests. Á níunda áratugnum hvatti hann presta til að blessa sambúð kynvilltra og vígði kynvilling til prests. Að sögn The New York Times vonast Spong til þess að hann geti, með því að kenna að Páll hafi verið kynvilltur, „látið kynvilltum líða betur innan biskupakirkjunnar og laðað að fólk sem yfirgaf kirkjuna af því að því fannst hún vera dauðadæmd stofnun rígbundin forneskjulegum hugsunarhætti.“ Dagblaðið bendir hins vegar á að „ritsmíðin um Pál hafi verið gagnrýnd úr öllum áttum, jafnt af vinum sem óvinum, frjálslyndum sem íhaldssömum, mótmælendum sem kaþólskum.“ Eitt það furðulegasta við málflutning Spongs er að hann stendur á því fastara en fótunum að niðurstöður hans séu byggðar á „alvarlegum biblíurannsóknum.“
Vottarnir hljóta lagalega viðurkenningu í Mósambík
Prédikunarstarf votta Jehóva hefur hlotið lagalega viðurkenningu í ríkinu Mósambík í Suðaustur-Afríku. Í bréfi frá dómsmálaráðuneyti landsins, dagsettu þann 11. febrúar 1991, segir: „Vottar Jehóva njóta allra réttinda og trygginga, sem kveðið er á um í stjórnarskrá Lýðveldisins Mósambík, til jafns við önnur trúfélög.“ Bréfið var undirritað af yfirmanni trúmála þar í landi. Þeir 5235 vottar, sem skýrðu frá þátttöku í því að prédika boðskap Biblíunnar í janúar síðastliðnum, tóku þessum fréttum með miklum fögnuði. Þeir 13.971, sem viðstaddir voru þrjú umdæmismót undir einkunnarorðunum „Hið hreina tungumál“ er nýlega voru haldin í Mósambík, voru líka þakklátir fyrir þessa opinberu viðurkenningu. Á mótinu létu 357 skírast.
Góð tíðindi frá Sovétríkjunum
Þann 28. mars 1991 afhenti dómsmálaráðherra fulltrúum votta Jehóva skjal sem veitir þeir lagalega viðurkenningu í Sovétríkjunum.