Stjórnaðu sjónvarpinu, annars stjórnar það þér
Stjórnaðu sjónvarpinu, annars stjórnar það þér
SJÓNVARPIÐ býður upp á stórkostlega möguleika. Þegar bandaríski sjónvarpsiðnaðurinn var að telja þróunarlöndin á að koma sér upp sjónvarpi brá hann upp mynd af eins konar draumalandi þar sem sjónvarpið myndi breyta heilu löndunum í skólastofur og jafnvel afskekktustu héruð gætu stillt á fræðsluþætti um mikilvæg mál, svo sem búskapartækni, jarðvegsvernd og takmörkun barneigna. Börnin gætu lært eðlis- og efnafræði og notið góðs af menningarlegu efni er myndi víkka sjóndeildarhring þeirra.
Slíkar hugsýnir fuku auðvitað að mestu leyti út í veður og vind er sjónvarpið hélt innreið sína undir áhrifavaldi viðskiptalífsins — en þó ekki alveg. Formaður Fjölmiðlaráðs bandarísku alríkisstjórnarinnar, Newton Minow, sem kallaði sjónvarpið „víðáttumikla auðn“ í ræðu sem hann hélt árið 1961, viðurkenndi í sömu ræðu að sjónvarpið hefði líka afrekað miklu á sumum sviðum og miðlað ágætu skemmtiefni.
Það er enn í fullu gildi. Fréttaútsendingar sjónvarps upplýsa okkur um það sem er að gerast í heiminum. Náttúrulífsmyndir sjónvarps leyfa okkur að sjá margt sem við kynnum aldrei að sjá að öðrum kosti: undurfagurt flug kólibrífuglsins sem í hægmynd virðist synda gegnum loftið, eða hinn undarlega dans blómanna í beði sem virðast stökkva upp úr moldinni með miklu litskrúði þegar vöxturinn er kvikmyndaður þannig að hægt er að sýna hann á styttri tíma en hann á sér stað í veruleikanum. Þá eru ónefndir menningarviðburðir svo sem ballet, sinfóníutónleikar og óperutónleikar. Og ekki má gleyma leikritum, kvikmyndum og öðru efni — sumu djúpsæju og athyglisverðu, öðru einfaldlega skemmtilegu.
Þá er að nefna fræðsluefni handa börnum. Bandaríska geðheilbrigðisstofnunin skýrir frá því að börn geti, með sama hætti og þau geta lært árásarhneigð af ofbeldi í sjónvarpinu, líka lært umhyggju, vingjarnleik og sjálfstjórn af góðum fordæmum sem birtast á skjánum. Fræðsluþættir um viðbrögð við neyðarástandi hafa meira að segja bjargað lífi barna. Vance Packard segir því í bók sinni Our Endangered Children: „Það eru sennilega óþarflega harkaleg viðbrögð þegar hrjáðir eða óbeitarfullir
foreldrar loka sjónvarpstækið inni í geymslu, nema þeir ráði alls ekkert við börnin sín.“Hafðu stjórn á því
Hvort heldur börn eða fullorðnir eiga í hlut er aðalatriðið auðvitað að hafa stjórn á því hve mikið er horft á sjónvarpið. Höfum við stjórn á sjónvarpinu eða hefur það stjórn á okkur? Eins og Vance Packard nefnir eiga sumir aðeins um eitt að velja til að hafa stjórn á sjónvarpsnotkun sinni — losa sig við það. Margir hafa þó fundið aðrar leiðir til að hafa stjórn á því hve mikið þeir horfa á sjónvarpið og notfæra sér jafnframt kosti þess. Hér fara á eftir nokkrar tillögur.
✔ Haltu nákvæma skrá í eina til tvær vikur yfir sjónvarpsnotkun fjölskyldu þinnar. Leggðu saman stundafjöldann í lok tímabilsins og spyrðu þig hvort sjónvarpið sé þess virði að eyða svona miklum tíma í það.
✔ Veldu hvað þú horfir á í sjónvarpinu — horfðu ekki bara á sjónvarpið. Skoðaðu sjónvarpsdagskrána áður en þú kveikir á tækinu til að athuga hvort það sé eitthvað í sjónvarpinu sem er þess virði að horfa á.
✔ Taktu frá ákveðinn tíma handa fjölskyldunni til að ræða saman og vera saman.
✔ Sumir sérfræðingar vara við því að börnum eða unglingum sé leyft að hafa eigið sjónvarpstæki í herberginu sínu. Þá getur verið erfiðara fyrir foreldrana að líta eftir því hvað börnin horfa á.
✔ Myndbandstæki getur komið að gagni ef þú hefur efni á. Með því að leigja góð myndbönd eða taka upp gott efni úr sjónvarpinu og horfa á það þegar hentar getur þú notað myndbandstækið til að stjórna því hvaða efni er í sjónvarpinu og hvenær kveikt er á því. Þó er aðgátar þörf. Ef ekki er höfð stjórn á notkun myndbandstækisins getur það komið fólki til að sitja enn lengur við skjáinn eða jafnvel freistað sumra í fjölskyldunni til að horfa á siðlaus myndbönd.
Hver er kennari þinn?
Maðurinn er nánast lærdómsvél. Skilningarvit okkar drekka í sig upplýsingar og senda heilanum upplýsingaflóð sem nemur yfir 100.000.000 upplýsingabita á sekúndu hverri. Að einhverju marki getum við haft áhrif á hvaða upplýsingum við nærum skilningarvitin á. Eins og saga sjónvarpsins sýnir glögglega getur hugur og andi mannsins jafnauðveldlega spillst af því sem hann sér og líkaminn getur mengast af því sem við etum eða drekkum.
Hvernig getum við fræðst um umheiminn? Hvaða upplýsingaheimild munum við velja okkur? Hver eða hvað verður kennari okkar? Orð Jesú Krists eru mjög umhugsunarverð í þessu sambandi: „Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans.“ (Lúkas 6:40) Ef við eyðum of miklum tíma með sjónvarpinu sem kennara okkar, þá getur svo farið að við byrjum að líkja eftir því — að aðhyllast þau lífsgildi og lífsstaðla sem það færir fram. Eins og Orðskviðirnir 13:20 orða það: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“
Jafnvel þegar sjónvarpið kemur ekki með heimskar eða siðlausar persónur heim í stofu til okkar vantar í það mjög svo mikilvægt atriði. Sáralítið af því sem birtist á sjónvarpsskjánum fullnægir einu sinni í smáum mæli sameiginlegri þörf allra manna: hinni andlegu þörf. Sjónvarpið getur sýnt okkur ágætlega hve sorglega illa er fyrir heiminum komið, en hvað segir það okkur um orsökina fyrir því að menn geta ekki stjórnað sjálfum sér? Það getur sýnt okkur ágætlega fegurð sköpunarverksins, en hvað gerir það til að draga okkur nær skapara okkar? Það getur farið með okkur til allra heimshorna, en getur það sagt okkur hvort mönnum muni nokkurn tíma auðnast að búa þar í friði?
Enginn „gluggi heimsins“ er fullkominn nema hann svari þessum þýðingarmiklu spurningum. Það er einmitt það sem gerir Biblíuna svona verðmæta. Hún er „gluggi heimsins“ eins og hann horfir við frá skapara okkar séð. Biblían er gerð til að hjálpa okkur að skilja tilgang okkar í lífinu og gefa okkur trygga framtíðarvon. Hún inniheldur fullnægjandi svör við örðugustu spurningum lífsins. Þessi svör bíða þess að þú lesir þau af síðum Biblíunnar — og það er hrífandi lestur.
En hvernig finnum við tíma til þess ef við höfum ekki stjórn á sjónvarpinu?