Óheppilegar aðferðir til að breyta sér
Óheppilegar aðferðir til að breyta sér
HVERNIG er hægt að breyta atferlismynstri sem búið er að móta? Hvar getur þú leitað hjálpar til þess og hvaða aðferðum er hægt að beita til að ná fram varanlegri breytingu til batnaðar?
Við skulum byrja á því að skoða nokkrar öfgafullar aðferðir sem notaðar eru nú á dögum.
Pólitískur þrýstingur
Milljónir manna búa við stjórnarfar þar sem reynt er að stýra hugsjónum fólks og hegðunarreglum. Slíkar stjórnir beita valdi sínu til að koma fram breytingum — sumar með kænsku, aðrar með valdi. Sumar beita heilaþvottaraðferðum, oft samhliða ógnunum, fangelsun og pyndingum. Með yfirráðum yfir fjölmiðlum og menntamálum leitast þær við að víkja úr vegi áður viðteknum hugmyndum og gróðursetja í staðinn þær sem ríkjandi valdastétt vill koma á. Allt andóf er bælt niður með valdi. Hver sá sem reynist ófús til að þiggja „endurmenntun“ á yfir höfði sér ógnvekjandi meðferð sem oft brýtur hann algerlega niður.
Geðskurðaðgerð og rafreiting
Vitað er um vissar heilastöðvar sem hafa áhrif á ákveðið skap og atferli. Með geðskurðaðgerð eru fjarlægðir eða eyðilagðir vissir heilavefir í viðkomandi hluta heilans. Eftir slíkt brottnám getur sá hluti heilans aldrei starfað á ný og hvert það atferli, sem hann stýrir, hverfur.
Sagt er að gerðar hafi verið þúsundir slíkra aðgerða, einkum á fólki með afbrigðilega og hættulega kynhegðun. Hjá sumum hefur verið komið fyrir rafskautum inni í heilanum og með því að hleypa straumi á má örva eða stöðva starfsemi ákveðinna heilastöðva. Þessi aðferð er nefnd rafreiting. Því er haldið fram að þannig sé breytt þeim taugaboðum sem sá hluti heilans stýrir.
Lyf
Lyf eru mikið notuð við geðlækningar og oft er þeirra þörf. Til eru lyf sem róa, lyf sem svæfa, lyf sem örva og lyf sem bæta úr efnamisvægi í heilanum. Þá eru einnig til lyf sem hafa verið notuð til refsingar í fangelsum og öðrum refsistofnunum. Apómorfín og Anectín eru tvö þessara lyfja.
Apómorfín hefur verið gefið föngum þegar hegðun þeirra hefur talist óviðunandi. Það veldur heiftarlegri ógleði og uppköstum. Fanganum er sagt að honum verði gefið meira Apómorfín ef hann hegðar sér illa á nýjan leik. Þetta er stundum kallað óbeitarmeðferð. Anactín veldur asma- og köfnunartilfinningu. Fanginn heldur að hann sé að deyja. Ef hann hegðar sér illa aftur fær hann meira Anactín.
Eru þetta aðferðir sem þú myndir nota til að breyta atferlismynstri þínu?
Flestar ofannefndra aðferða ganga gegn frjálsum vilja mannsins. Þær felast í því að þeir sem fara með vald yfir öðrum reyna að hafa áhrif á þá, án þess þó að þeir beri alltaf hag þeirra fyrir brjósti. Eru pólitísk öfl að hugsa um hag sjálfra sín eða einstaklingsins? Hver heldur á skurðhnífnum þegar gerð er geðskurðaðgerð? Hver er með fingur á hnappnum þegar beitt er rafreitingu? Hversu varanleg áhrif hefur óbeitarmeðferð? Er hægt að treysta þeim sem stýrir meðferðinni?
Við skulum líta á boðlegri aðferðir.