Er það í alvöru svo slæmt að spila upp á peninga?
Ungt fólk spyr . . .
Er það í alvöru svo slæmt að spila upp á peninga?
ANDREW og Julian, annar tólf ára og hinn tíu, voru loksins úr sjónmáli foreldra sinna. Fjölskyldan var á ferðalagi með skipi og drengirnir voru hugfangnir af hinum ýmsu fjárhættuspilakössum um borð. Maður, sem var að spila þar, veitti forvitni þeirra athygli og gaf hvorum fyrir sig mynt til að þeir gætu reynt spilakassana sjálfir. Vandinn var bara sá að foreldrar drengjanna höfðu lagt blátt bann við að þeir kæmu nærri þeim.
En Andrew og Julian ákváðu að taka áhættuna. Með varnaðarorð foreldranna ómandi í eyrum sér spiluðu þeir á kassann — og tvöfölduðu peningana sína! Þá spiluðu þeir aftur og horfðu svo dolfallnir á alla peningana sem streymdu út úr kassanum! ‚Hvernig getur þetta verið svona hættulegt?‘ hugsuðu þeir með sér. ‚Það er svo auðvelt að græða peninga svona! Er það í alvöru svona slæmt að spila upp á peninga?‘
Eins og margir unglingar í löndum þar sem fjárhættuspil eru algeng áttu Andrew og Julian erfitt með að sjá nokkuð skaðlegt við þau. Það er skiljanlegt þegar litið er á fordæmi sumra fullorðinna á þessu sviði. Margir bæði spila fjárhættuspil og koma fram með trúverðugar afsakanir til að réttlæta ávana sinn. Þeir segja til dæmis að fjárhættuspil láti í rauninni margt gott af sér leiða og benda á að hluti ágóðans af sumum happdrættum renni til verðugra málefna. (En það eru ámóta skynsamleg rök og þau að gjöf frá eiturlyfjabarón til góðgerðarmála réttlæti fíkniefnasölu!) Aðrir halda því svo fram að fjárhættuspil séu skaðlaus skemmtun og gæði lífið dálitlum spenningi sem það megi vel við.
Á Bretlandi og Írlandi, sem og öðrum löndum, hafa þúsundir unglinga ánetjast fjárhættuspilum. Og vonin um að græða mikla peninga án þess að leggja mikið á sig til þess getur hæglega höfðað nokkuð til þín.
Fjárhættuspil — hinar huldu hættur
Hvað sem því líður stafar ungu fólki veruleg hætta af því að spila um peninga. Fréttamenn tala um „spilasjúklinga“ og „þann hrylling sem fjárhættuspil getur haft í för með sér þegar saklaus leikur þróast yfir í áráttu sem getur breytt manneskju í dauðyfli.“ Að því er fram kemur í breskri heimildarmynd, The Buzz, geta fjárhættuspil meðal barna „leitt til skróps, ofbeldis, fjárkúgunar og þjófnaðar, spilaáráttu og vændis og, í verstu tilfellum, til sjálfsvígs eða sjálfsvígstilraunar.“ Eftirfarandi frásögur sanna að fjárhættuspil geta í raun valdið stórskaða.
„Ég byrjaði að spila fjárhættuspil þegar ég var um það bil 11 ára,“ segir Adrian. „Ég fór
með frændum mínum tveim á hundaveðhlaup. Í byrjun var ég býsna heppinn og vann oft.“ Hvaða áhrif hafði það á Adrian? „Ég hikaði ekki við að spinna upp sögu til að segja pabba — ljúga að honum — til að hafa út úr honum peninga,“ segir hann, „og sem táningur var ég farinn að stela hiklaust úr peningakassanum í búðinni hans pabba til að fjármagna spilaástríðuna.“Adrian bendir á önnur óæskileg áhrif. „Maður verður auðveldlega iðjuleysingi,“ segir hann, „vegna þess að það sem maður getur þénað með heiðarlegri vinnu virðast smámunir í samanburði við það sem maður heldur sig geta unnið í fjárhættuspili.“ — Samanber Orðskviðina 13:4; Prédikarann 2:24.
Róbert (nafninu er breytt) byrjaði að spila fjárhættuspil 12 ára. Hann bendir á aðra hættu: „Maður verður óskaplega hjátrúarfullur.“ Hann heldur áfram: „Faðir minn var með spilakassa í búðinni okkar. Ég vissi nákvæmlega hvernig þeir verkuðu, en þó reyndi ég í hjátrú minni ýmislegt til að hafa áhrif á útkomuna, svo sem að ýta á hnappinn á vissan hátt eða láta vinningsféð liggja um tíma í hólfinu. Sumir meira að segja töluðu við vélarnar.“ Já, margir fjárhættuspilarar verða óafvitandi hjátrúarfullir dýrkendur lukkugyðjunnar — og það fordæmir Guð. — Jesaja 65:11.
Spilafíkn
Önnur lævís hætta er sú að tilhneigingin til að spila fjárhættuspil verði að hreinni áráttu, ástríðu eða fíkn. „Ár hvert leita foreldrar yfir 2000 barna undir 16 ára aldri með þau til samtakanna Gamblers Anonymous [samtök til aðstoðar spilasjúkum], og sá fjöldi, sem nú leitar til samtakanna . . . á Bretlandi er aðeins talið smábrot [spilasjúklinganna].“ (The Buzz) Hversu ánetjuð eru börnin? Í skýrslu sagði: „Eftir að þau hafa ánetjast eru þau knúin til að spila, hvort sem þau vinna eða tapa.“
Róbert minnist þess að hafa séð konu eyða 90 pundum (um 9000 ÍSK) á hverjum degi í spilakassa. Ungur fjárhættuspilari varð svo örvæntingarfullur að hann reyndi að myrða móður sína til að komast yfir peninga til að fóðra spilakassana! Paddy, sem byrjaði að spila fjárhættuspil ungur að árum, var jafnófær um að hafa hemil á spilafíkn sinni. „Ég ólst upp í fjölskyldu sem stundaði fjárhættuspil,“ segir hann. „Ég spilaði og veðjaði á hvað sem bauðst. Þegar ég varð fullorðinn og kvæntist sóaði ég þeim peningum, sem hefðu átt að fara í mat handa konu minni og börnum, í fjárhættuspilum og að lokum reyndi ég að svipta mig lífi.“
Spilakassarnir eru lokkandi
Fjárhættuspil, hvaða nafni sem það nefnist,
getur haft svona hræðilegar afleiðingar, en ungu fólki stafar hvað mest hætta af spilakössunum. Þeir eru „núna álitnir sterkasta freisting ungra fjárhættuspilara,“ sagði tímaritið Journal of Gambling Behavior vorið 1989. Þessir spilakassar, réttilega nefndir „einhenti ræninginn,“ eru „lævís og lokkandi tæki,“ segir The Buzz. „Því meira sem menn spila, þeim mun líklegra er að þá langi til að spila.“Er nokkurt vit í því að spila fjárhættuspil, þó lokkandi sé, þegar þannig er gengið frá vinningslíkunum að tryggt sé að spilarinn tapi nálega alltaf meiru en hann vinnur? Tímaritið Young People Now lýsti vinningslíkunum þannig: „‚Á gulli skal fífl ginna,‘ segir máltækið. Það gera spilakassarnir. . . . [ef] maður lætur 10 pund í kassann hirðir hann að meðaltali 7 pund og skilar 3 aftur.“
Engin furða er að Mark Griffiths, sem vinnur að rannsóknum á áhrifum fjárhættuspila á ungt fólk, segir: „Eina leiðin til að græða peninga á spilakassa er að eiga hann sjálfur.“ Finnst þér það skynsamlegt að leggja þig niður við svona fánýta iðju?
En spilakassarnir eru á snjallan hátt hannaðir þannig að þig langi til að halda áfram að spila þegar þú ert byrjaður. Hvernig? Með því að sýna þrjár línur með ávaxtamyndum en ekki aðeins línuna sem hjólið stansar á. Tímaritið Young People Now skýrir það þannig: „Auk línunnar, sem vélin stansar á, eru línurnar fyrir ofan og neðan sýndar til að gefa spilaranum þá tálsýn að hann hafði ‚rétt misst af vinningi‘ og hvetja hann þannig til að reyna aftur.“ Í augum spilarans líta tvö vinningstákn og hið þriðja, sem ekki veitir vinning, út eins og hann hafi ‚næstum unnið‘ og hvetja hann til að freista gæfunnar aftur — og svo aftur og aftur.
En þetta er dæmigert fyrir þá atvinnustarfsemi sem blómstrar kringum fjárhættuspil. Framleiðendur hanna spilakassa og leiki þannig að spilarinn fái þá tálhugmynd að hann hafi ekki tapað heldur næstum unnið! Það munaði engu að þú ynnir! Þessi hugmynd kemur mönnum til að halda áfram að spila vegna þess spennings sem fylgir því að fá næstum „vinning.“ Þegar blikkandi ljós og dáleiðandi hljóð bætast við má gera sér nokkra grein fyrir þeim sterka sálfræðilega þrýstingi sem beitt er til að lokka fólk til að spila — og halda áfram að spila — og halda áfram að tapa.
Taktu rétta ákvörðun
Besta leiðin til að forðast það að verða spilafíkill er því sú að byrja aldrei að spila upp á peninga. Forðastu það í hvers konar mynd sem er, jafnvel þótt upphæðin, sem spilað er um, sé sáralítil. Oft hefur ævilöng spilafíkn byrjað með því að spila um smápeninga. Og ef þér er boðið upp á að spila fjárhættuspil skaltu hugleiða meginregluna sem Jesús Kristur kom fram með í Matteusi 7:17: „Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.“
Hugleiddu málið: Hvaða áhrif hafa fjárhættuspil í raun á fólk? Hjálpa þau fólki að bera ávexti andans svo sem gleði, frið og sjálfstjórn, eða kalla þau fram deilur, reiðiköst og ágirnd? (Galatabréfið 5:19-23) Mundu að Guð fordæmir ágirnd. Aðeins einn ágirndarverknaður getur gert þig ámælisverðan í augum hans. Spyrðu þig hvort fjárhættuspilarar séu viðeigandi félagsskapur fyrir kristin ungmenni. (1. Korintubréf 15:33) Mundu að „allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þjóna ekki fjárhættuspil greinilega tilgangi Satans djöfulsins? Hví skyldir þú þá láta lokka þig út í slíkt?
Þegar írska landshappdrættið hóf göngu sína var það snarlega uppnefnt bjánaskattur! Það segir allt sem segja þarf. Hver vill láta hafa sig að ginningarfífli og ræna sig fjármunum, sem hann þarfnast, með því að láta lokka sig út í draumaheim fjárhættuspilarans? Til allrar hamingju gerðu Andrew og Julian (sem nefndir voru í byrjun) sér grein fyrir því í tæka tíð að fjárhættuspil er fáránlegur leikur. Þeim er fullljóst hverjar hætturnar eru og forðast þær. „Það er hvort eð er margt í lífinu sem er meira virði en að sóa peningunum sínum í fjárhættuspil,“ segja þeir.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Það er auðvelt að ánetjast þótt aðeins sé spilað upp á smáar fjárhæðir.