Hvers vegna að rannsaka Biblíuna?
Sjónarmið Biblíunnar
Hvers vegna að rannsaka Biblíuna?
ÞAÐ er töluvert afrek að lesa Biblíuna spjaldanna á milli. Hefur þú gert það einu sinni eða kannski nokkrum sinnum? Margir hafa gert það og eru réttilega stoltir af. Að finna sér tíma til að lesa Biblíuna ætti að vera ofarlega — ef ekki efst — á forgangslista okkar í lífinu. Til hvers? Til að þekkja undirstöðuatriði útbreiddustu bókar mannkynssögunnar, einu bókarinnar sem segist réttilega vera innblásin af Guði. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
En það er hægt að gera meira en aðeins að lesa Biblíuna og þekkja innviði hennar í stórum dráttum. Langar þig til að þóknast Guði og hafa fullt gagn af kenningum þessarar helgu bókar? Fylgdu þá ráðinu sem Páll postuli gaf hinum unga Tímóteusi: „Ver þú . . . kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna. Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós. Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:13, 15, 16.
Að íhuga þannig kenningar Biblíunnar og sökkva sér niður í þær er meira en aðeins að lesa Ritninguna eina. Það eitt að lesa Biblíuna er í sjálfu sér engin trygging fyrir því að maður geti notað þær upplýsingar sem hann aflar sér, ekkert frekar en það að lesa bók um mannsheilann gerir hann hæfan til að starfa sem heilaskurðlæknir. Þess vegna skaltu taka eftir ráðleggingum Páls til Tímóteusar í framhaldinu: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:15.
Opnar nýjar skilningsvíddir
Það kostar nám að læra að fara fagmannlega með orð Guðs. Með því að rannsaka Biblíuna nákvæmlega, íhuga hvað hún segir, skilja merkingu þess, lesa ritningargreinar í samhengi og skilja sögu hennar geta mönnum opnast óvæntar víddir skilnings og innsæis. Þá byrja menn að hafa persónulegt gagn af orði Guðs.
Við skulum taka dæmi sem sýnir að við getum þurf að lesa ritningargrein í samhengi til að skilja merkingu hennar. Í Postulasögunni 17:11 lesum við um menn í grísku borginni Beroju sem var skammt frá Þessaloníku: „Þeir voru veglyndari þar en í Þessaloníku. Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.“
Við fyrstu sýn gæti okkur dottið í hug að kristnir menn í Beroju
hafi verið námfúsari en kristnir menn í Þessaloníku. En taktu eftir að í 10. versi 17. kafla Postulasögunnar er sagt að Páll og Sílas hafi gengið „inn í samkunduhús Gyðinga“ til að prédika orð Guðs, þegar þeir komu til Beroju. Og 12. versið segir að „margir þeirra,“ það er að segja Gyðinganna, hafi ‚tekið trú.‘ Þetta vers hjálpar okkur að komast að annarri niðurstöðu. Hin helga frásaga segir okkur að það sé ekki verið að bera saman kristna menn í þessum tveim borgum heldur Gyðingana þar.Og tókstu eftir hvað það var sem gerði Berojumenn veglyndari en Þessaloníkumenn? Þeir rannsökuðu Ritninguna með ákefð. Prófessor Archibald Thomas Robertson segir um þessi orð í Word Pictures in the New Testament: „Páll útlistaði Ritninguna daglega eins og í Þessaloníku, en Berojumenn rannsökuðu (anakrino sem merkir að sigta upp og niður, framkvæma vandvirknislega og nákvæma rannsókn eins og réttarrannsókn . . . ) Ritninguna sjálfir, í stað þess að bregðast ókvæða við hinni nýju túlkun hans.“ Rannsókn þeirra var ekki yfirborðsleg. Þessir Gyðingar í Beroju brutu hlutina til mergjar í þeim tilgangi að staðfesta að það sem Páll og Sílas voru að kenna þeim út frá Ritningunni, um Jesú sem hinn löngu fyrirheitna Messías, væri satt.
Til að fylgja fordæmi Berojumanna til forna er því mikilvægt ekki aðeins að lesa orð Guðs heldur líka að rannsaka það — „rannsaka vandlega Ritningarnar“ — til að skilja merkingu þess sem sagt er. (NW) Þannig getum við metið Biblíuna betur að verðleikum og við getum líka orðið, eins og Tímóteus, færir um ‚bæði að gera sjálfa okkur hólpna og áheyrendur okkar.‘ Hvers vegna? Vegna þess að auk þess að lesa Ritninguna höfum við numið hana til að geta framfylgt hlýðnir því sem við höfum lært. — Orðskviðirnir 3:1-6.
Geymir rétt siðferðisgildi og spádóma
Við skulum athuga tvær aðrar ástæður fyrir því að rannsaka Biblíuna. Engin bók jafnast á við Biblíuna í því að veita mönnum rétt siðferðisgildi og verðmætamat. Fyrir mörgum árum sagði bandarískur sérfræðingur í fræðslumálum: „Ég álít að þekking á Biblíunni án háskólamenntunar sé verðmætari en háskólamenntun án Biblíunnar.“ Eigir þú að eignast þann fjársjóð sem biblíuþekking er þarf markmið þitt með því að nema Ritninguna að vera það að fara eftir lífsreglum hennar og kenningum í daglegu lífi, þannig að hún geti gert þig að betri manni, manni sem „fer rétt með orð sannleikans.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:15; Orðskviðirnir 2:1-22.
Auk þess er á síðum hennar að finna spádóma innblásna af Guði sem hafa nú þegar uppfyllst og aðra sem eru að uppfyllast á okkar öld. Rannsókn á spádómum Biblíunnar auðveldar mönnum að skilja hvað það ástand, sem nú er í heiminum, merkir — stríð, hungur, upplausn fjölskyldunnar, ofbeldisglæpir — og hvernig megi forðast það að láta áhyggjur út af þeim heltaka sig. (Lúkas 21:10, 11, 25-28) Þannig upplýsa svör Guðs við vandamálum daglegs lífs okkur, svör sem leiða í ljós hvar við stöndum í straumi tímans og hvernig við getum gert farsælar framtíðaráætlanir. Þessi svör berast okkur fyrir milligöngu hóps sem nefndur er ‚hinn trúi og hyggni þjónn,‘ og notar hann Biblíufélagið Varðturninn sem útgáfufélag sitt. — Matteus 24:45-47; 2. Pétursbréf 1:19.
Sálmur 119:105 segir: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ Þess vegna eru þeir sem rannsaka reglulega þau vísdómsorð, sem er að finna í Biblíunni, og fara eftir þeim, í hópi þeirra manna sem skilja vilja Guðs og tilgang og hafa í reynd ljós til að vísa sér veg í daglegu lífi gegnum syndafen nútímans.