Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er skírlífi eðlilegt?

Er skírlífi eðlilegt?

Ungt fólk spyr . . .

Er skírlífi eðlilegt?

‚Amar eitthvað að þér í dag, Jane?‘ spurði læknirinn vingjarnlega.

‚Læknir,‘ svaraði hún hikandi, ‚það eru svo margar stelpur í skólanum að tala um það að taka getnaðarvarnarpillur og fara alla leið. Er eitthvað að mér fyrst ég hef ekki kynmök?‘ — What Shall We Tell the Kids? eftir dr. Bennett Olshaker.

MEYDÓMUR. Hér áður fyrr þótti það heiður að vera hrein mey. Núna virðast margir unglingar líta á það sem skömm, óeðlilegt ástand, kvilla sem beri að „lækna“ svo skjótt sem kostur er.

Það kemur ekki á óvart að unglingsstúlkur skuli fórna meydómi sínum og piltar sveindómi í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr. Til dæmis leiddi könnun meðal þýskra unglinga árið 1983 í ljós að aðeins 9 af hundraði 15 ára stúlkna og 4 af hundraði 15 ára pilta höfðu haft kynmök. Árið 1989 voru tölurnar komnar upp í 25 og 20 af hundraði! Þróunin stefnir í sömu átt alls staðar í heiminum.

En hvað hefur komið óorði á það meðal unglinga að varðveita hreinleika sinn? Unglingar allra kynslóða hafa þurft að kljást við hinar sterku tilfinningar sem kvikna á gelgjuskeiðinu. Þeir unglingar, sem eru að alast upp núna, búa hins vegar í heimi sem hefur gefið þeim litla eða enga siðferðilega handleiðslu. Hópur kristinna öldunga í einu Evrópulandi segir: „Þrátt fyrir trúarlegt yfirbragð er þetta í meginatriðum siðblint þjóðfélag. Siðlaust kynlíf er umborið sem ‚mannlegur veikleiki.‘ Börn alast upp hjá foreldrum sem eru ekki í hjónabandi. Auglýsingar með kynferðislegu ívafi eru verri hér en í nokkru öðru landi á Vesturlöndum.“

Unglingar í þróunarlöndunum verða líka fyrir sterkum menningar- og efnahagsáhrifum sem hvetja til lauslætis. ‚Ef ungur maður hefur ekki kynmök,‘ er sagt í varnaðartón við unglinga í einu Afríkuríki, ‚þá veiklast líkami hans.‘ Sú trú er jafnalgeng að ‚stúlka hafi ekki kynnst lífinu fyrr en hún hefur átt kynmök við strák.‘

Útbreitt atvinnuleysi og fátækt getur auk þess valdið því að stúlka veigri sér við að hafna kröfu tilvonandi vinnuveitanda um að hafa kynmök við hann. Kennarar geta átt til að heimta að nemandi eigi við hann kynmök í skiptum fyrir lágmarkseinkunn. Það er meira að segja ekki óalgengt að fátæk stúlka bjóði kynmök í skiptum fyrir nauðþurftir — jafnvel fyrir sápustykki! „Það að eiga kynmök er talið sambærilegt við að fá sér að drekka eða borða,“ er sagt um ástandið í einu þróunarlandanna.

Þrýstingur jafnaldranna

Þrýstingur jafnaldranna er þó sérstaklega áhrifamikill. Unglingur, sem hefur aldrei haft kynmök, má búast við því að verða fórnarlamb látlausrar stríðni og áreitni. Og ef þú ert einn votta Jehóva er hugsanlegt að þú verðir sérstaklega fyrir barðinu á slíku. Jafnaldrar þínir geta átt til að segja þér að þér sért ekki sannur karlmaður eða kona nema þú hafir haft kynmök. Þeir halda því kannski fram að það sé góð hugmynd að öðlast dálitla „reynslu“ fyrir hjónaband. Eins er hugsanlegt að þeir reyni að þylja upp fyrir þér sögur af alls kyns kynlífsævintýrum.

„Sally var símasandi um það hve stórkostlegt það væri að eiga kynmök við strákinn sem hún var með,“ sagði ung kona. „Hún taldi mér líka trú um að ég væri að fara á mis við einhvern mesta unað lífsins.“ Margir unglingar gera sér ekki grein fyrir því að „það er mjög algengt að táningar gorti, ýki eða ljúgi til um kynlífsreynslu sína,“ og láta slíkar sögur hafa áhrif á sig. (Coping With Teenage Depression eftir Kathleen McCoy) María, ung kona sem fórnaði meydómi sínum í siðlausum kynmökum, segir: „Mér fannst vera þrýst á mig og ég þráði mjög heitt að njóta viðurkenningar. Jafnvel þótt ég vissi að það væri rangt langaði mig til að vera eins og allar hinar — að eiga kærasta.“

Þannig hafa milljónir unglinga gleypt áróður heimsins og látið telja sér trú um að þeir séu afbrigðilegir ef þeir hafi ekki kynmök, og að kynmök séu lítið annað en skaðlaus skemmtun. Hreinir sveinar og hreinar meyjar eru því nánast í útrýmingarhættu meðal unglinga.

Viðhorf Guðs til skírlífis

Það eru hins vegar ákveðin atriði í sambandi við kynlíf fyrir hjónaband sem unglingarnir tala lítið um. María segir: „Eftir á var ég miður mín og skammaðist mín. Ég hataði sjálfa mig og ég hataði strákinn sem ég var með.“ Slíkar tilfinningar eru langtum dæmigerðari en flestir unglingar vilja viðurkenna. Gleymdu öllum ýkjusögunum sem þú heyrir frá kunningjunum. Í raunveruleikanum er kynlíf fyrir hjónaband oft niðurlægjandi lífsreynsla og sársaukafullt tilfinningalega — og afleiðingarnar stórskaðlegar!

Þetta ætti ekki að koma þér á óvart því að kynlíf fyrir hjónaband verður ekki rétt í augum Guðs þótt heimurinn líti á það sem heilbrigt og eðlilegt. Jesús Kristur minnir okkur á að ‚það sem er hátt að dómi manna sé viðurstyggð í augum Guðs.‘ (Lúkas 16:15) Guð hefur sinn eign mælikvarða á það hvað sé boðlegt hátterni. „Það er vilji Guðs,“ segir Biblían, „að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi, að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri . . . Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar.“ — 1. Þessaloníkubréf 4:3-7.

Frá sjónarhóli Guðs er það að ungur maður varðveiti sveindóm sinn og ung kona meydóm sinn ekki bara eðlilegt heldur hreint og heilagt! Í Ísrael til forna nutu stúlkur, sem voru hreinar meyjar, virðingarverðrar stöðu. Lögmálið verndaði þær gegn kynferðislegri misnotkun. (5. Mósebók 22:19, 28, 29) Og meydómur og sveindómur nýtur enn virðingar meðal sannkristinna manna. Kristna söfnuðinum er líkt við „hreina mey“ vegna siðferðilegs hreinleika síns. — 2. Korintubréf 11:2; Opinberunarbókin 21:9.

Hvergi hvetur Biblían unglinga til að líta á hreinleika sinn sem bölvun. Páll postuli sagði þvert á móti að ‚sá sem væri staðfastur í hjarta sínu að varðveita sveindóm sinn [með því að vera einhleypur] geri vel. Þannig geri sá einnig vel sem gefur sveindóm sinn í hjónaband en sá sem gefur hann ekki hjónaband gerir betur.‘ a Páll var ekki að fordæma heiðvirð kynmök milli hjóna heldur að benda á að kristinn maður, sem kýs að varðveita sveindóm sinn eða meydóm með því að vera einhleypur geti þar með ‚varðveitt óbifanlega fastheldni við Drottin, truflunarlaust.‘ — 1. Korintubréf 7:25, 33-38, NW.

Það að hafa aldrei haft kynmök er því ekki skammarlegt fyrir kristið ungmenni heldur vitnisburður um ráðvendni þess gagnvart Guði. Það er að vísu ekki auðvelt að halda sér hreinum; það kostar töluverða sjálfstjórn, en Biblían fullvissar okkur um að ‚boðorð Guðs séu ekki þung.‘ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Sálmaritarinn segir: „Fyrirmæli [Jehóva] eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð [Jehóva] eru skír, hýrga augun.“ (Sálmur 19:9) Það er alltaf heilbrigt og til góðs að fylgja þeim vegi sem Guð varðar.

‚Synd á móti eigin líkama‘

Aftur á móti segir Biblían í 1. Korintubréfi 6:18: „Saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama.“ Hvað sem vinsælar þjóðsögur segja er ekkert sem bendir til þess að það sé skaðlegt líkamanum að halda sér frá kynlífi. Það er þvert á móti kynlífið sem hefur líkamlegar hættur í för með sér! Þekktur læknir segir: „Tíðni samræðissjúkdóma mun halda áfram að aukast nema hægt sé að beita áhrifaríkum aðferðum gegn þeim, og aukin tíðni þeirra upp á síðkastið stafar að hluta til af auknu kynlífi meðal ungs fólks.“ — Current Controversies in Marriage and Family.

Þungunum meðal unglingsstúlkna hefur einnig fjölgað stórum vegna lauslætis unglinga. Í Bandaríkjunum endar helmingur þessara þungana með fósturláti eða fóstureyðingu. Þá er að nefna tilfinningatjónið sem siðlaust kynlíf getur valdið. „Eftir að hann var búinn að fá það sem hann var alltaf að sækjast eftir lét hann mig flakka,“ segir Diana. Orð Páls eru dagsönn: kynlíf fyrir hjónaband er ‚synd á móti eigin líkama.‘

Saurlifnaður ‚gerir öðrum líka rangt til og gengur á rétt þeirra.‘ (1. Þessaloníkubréf 4:6) Þó ekki sé annað rænir hann aðra manneskju réttinum til að ganga siðferðilega hreinn í hjónaband. Maki hennar í framtíðinni er líka rændur þeim rétti sínum að eignast óspjallaðan lífsförunaut.

Bókin Why Wait Till Marriage? kemur með þessa umhugsunarverðu athugasemd: „Eftir fyrstu reynslu þína af kynlífi ertu ekki lengur hrein mey eða hreinn sveinn. . . . Þú getur valið aðeins einu sinni.“ Veldu rétt. Láttu ekki áróður heimsins telja þér trú um að eitthvað sé að þér ef þú heldur þig við staðla Biblíunnar. Það er ekki undarlegt eða afbrigðilegt að varðveita hreinleika sinn. Það er siðlaust kynlíf sem er niðurlægjandi, spillandi og skaðlegt. Með því að halda þér óspjölluðum verndar þú heilsu þína, tilfinningalega vellíðan og, það sem mikilvægast er, samband þitt við Guð.

[Neðanmáls]

a Gríska orðið, sem hér er þýtt „sveindómur,“ er notað bæði um konur og karla.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Það er mikið gortað og mörgu logið þegar menn segja frá kynlífsafrekum sínum.