Getur stríð nokkurn tíma verið réttlátt?
Getur stríð nokkurn tíma verið réttlátt?
Í ALDANNA rás hefur kristna heiminum orðið tíðrætt um „réttlátt stríð.“ Á síðastliðnu ári birti tímaritið Time lista yfir sex meginskilyrði sem guðfræðingar telja að stríð þurfi að uppfylla til að geta talist „réttlátt.“ Mannkynssagan ber því vitni að engin þeirra styrjalda, sem kristni heimurinn hefur stutt, hefur uppfyllt þessi skilyrði.
Harmagedón, stríðið sem Guð hefur lofað að heyja gegn þessu spillta heimskerfi, uppfyllir hins vegar allar kröfur guðfræðinganna.
„Það er háð fyrir ‚réttlátum málstað‘ svo sem til sjálfsvarnar eða til að yfirbuga ill öfl.“ Harmagedón mun eyða algerlega þeim illa heimi sem Satan djöfullinn er guð yfir. Þannig má segja að „Trúr og Sannur“ herforingi Guðs, Kristur Jesús, ‚dæmi og berjist með réttvísi.‘ — Opinberunarbókin 19:11; 2. Korintubréf 4:4.
„Því er lýst yfir og það háð af ‚hæfu yfirvaldi.‘“ Harmagedón er greinilega kallað ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ — það er hans stríð. Hver getur verið hæfara yfirvald en sjálfur skapari alheimsins? — Opinberunarbókin 16:14; sjá einnig 11:17, 18; samanber Jesaja 36:10.
„Það er ‚örþrifaráð‘ eftir að friðsamlegar leiðir hafa verið reyndar til þrautar.‘ Skaparinn hefur nú um þúsundir ára hvatt mannkynið — jafnvel sárbænt það um að „sættast við Guð“ og ‚þjóna Jehóva með ótta.‘ Með því að daufheyrast við friðarviðleitni og varnaðarorðum Guðs í 6000 ár á skaparinn ekki annars úrkosti en að leggja út í stríð. — 2. Korintubréf 5:20; Sálmur 2:2, 10-12.
„Það er að minnsta kosti ‚sennilegt‘ að sigur vinnist.“ Hugleiddu hverjir standa á vígvellinum. Annars vegar er sameinaður herafli þessa heims með öllum sínum ógnvekjandi vopnabúnaði. Hins vegar er skapari alheimsins. Eitt af smærri sköpunarverkum hans, sólin, er firnastór kjarnaofn þar sem verða svo öflugar kjarnorkusprengingar að jafnvel þótt þjóðirnar sprengdu öll sín kjarnorkuvopn í einu lagi á sama stað yrði það eins og hvissandi eldspýta í samanburði. Jehóva ræður yfir öllum hinum öflugu kröftum sköpunarverksins sem mun tryggja að stríð hans verði farsællega til lykta leitt. — Jesaja 40:15; 54:17.
„Ávinningurinn er þyngri á metunum en tjónið sem það veldur.“ Reyndu að ímynda þér framtíð án þess að Guð heyi stríð sitt við Harmagedón. Mannkynið stefnir rakleiðis í átt til sjálfstortímingar. Fengi maðurinn að ráða sér sjálfur, hve lengi myndi það þá taka hann að leggja jörðina í rúst og hverfa með skömm — aldauða síðastur í langri röð tegunda sem hann hefur útrýmt? Verður það kjarnorkubál sem stendur eina dagstund eða fáeinir áratugir vaxandi mengunar? Hvort heldur yrði er mannkynið dauðadæmt ef Guð skerst ekki í leikinn. Hugleiddu hins vegar hið góða sem Hamagedón heitir að áorka — friðsama framtíð guðrækins mannkyns hér á jörð þar sem hvorki verður mengun, stríð, fátækt, sjúkdómar né einu sinni dauði. Guð lofar: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.“ — Opinberunarbókin 21:3-5.
„Það ‚gerir greinarmun‘ á fólki — forðast eftir megni að vinna óbreyttum borgurum tjón.“ Harmagedón velur úr þá sem tortímast. „Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar.“ — Sálmur 37:9.
Allir þeir sem hafa áhuga á að lifa af þetta réttláta stríð þurfa að rannsaka orð Guðs persónulega til að kynna sér á hvaða grundvelli þeir geti ‚vonað á Jehóva.‘