Horft á heiminn
Horft á heiminn
Lifrarbólga og líffæraflutningar
Lifrarbólga af C-stofni, sem getur verið banvænn sjúkdómur, hefur bæst á listann yfir þá sjúkdóma sem borist geta manna í milli við líffæraflutninga, og sá listi lengist jafnt og þétt. Á listanum eru aðrar tegundir lifrarbólgu eða gulu, eyðni og cytomegaloveirusýking. Þessar uppgötvanir, sem birtar hafa verið í The New England Journal of Medicine, skýra kannski hvers vegna það fylgja svona margir langvinnir lifrarsjúkdómar í kjölfar líffæraígræðslna. Athuganir hafa sýnt að af 29 líffæraþegum, sem fengu líffæri úr fólki með lifrarbólgu af C-stofni, fengu 14 lifrarbólgu af C-stofni og 6 dóu. Vísindamennirnir telja að í flestum tilfellum eigi ekki að leyfa fólki, sem gengur með lifrarbólguveiru af C-stofni, að gefa líffæri.
Lýbískt fljót gert af mannahöndum
„Úlfaldar, sem ganga hina ævafornu kaupmannaleið frá eyðimerkurvinjunum í Vestur-Lýbíu til strandborgarinnar Benghasí, hafa nú nýtt kennileiti sér til leiðsagnar að taka mið af,“ segir í tímaritinu New Scientist. „Um meira en þúsund kílómetra veg fylgja þeir vatnsleiðslu sem er nógu víð til að aka mætti bifreið inni í henni.“ Þetta gervifljót, sem er næstum jafnlangt Rín, hefur verið stærsta byggingarframkvæmd í heimi síðastliðin sjö ár. Leiðslan flytur 2 milljónir tonna af vatni á dag frá brunnum í Sirte, langt inni í landi, til bújarða við ströndina sem hafa eytt upp öllu tiltæku jarðvatni. Enn eru fjórir áfangar ógerðir af risavöxnu vatnsleiðsluneti yfir þvera Lýbíu. Kostnaðurinn við að flytja vatnið undan Sahara til strandar er óheyrilegur. Sums staðar þarf að dæla vatninu yfir 100 metra háar hæðir. Verkfræðingar óttast að brunnarnir gangi til þurrðar innan 50 ára. Vatnafræðingurinn Tony Allen kallar þessa framkvæmd „daumóra — það er brjálæði að nota allt þetta vatn, sem aldrei er hægt að endurnýja, til landbúnaðar.“
Rotturnar fleiri en fólkið
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að rotturnar í São Paulo í Brasilíu séu um 70 milljónir talsins, það er að segja nokkrar rottur á hvern íbúa, að því er segir í dagblaðinu Journal da Tarde. Afleiðingin er sú að þegar flóð verða í borginni eru sjúkdómar svo sem mjógyrmasótt, sem berst með rottuþvagi, algengir. „Ef baráttan gegn rottunum byggðist eingöngu á eitri yrði afar einfalt að útrýma þeim,“ segir Minekazu Matsuo sem er yfirmaður meindýraeyðingar São Paulo. En þegar nóg er til af vatni og æti kemur eitur að litlum notum því að rotturnar éta það ekki. Matsuo segir að til að drepa rotturnar sé nauðsynlegt að losna við sorpið sem þær nærast á.
Vísindamenn uppteknir af „ísmanninum“
Tveir þýskir ferðalangar fundu, sér til undrunar, djúpfryst lík í jökli nálægt landamærum Austurríkis og Ítalíu í september síðastliðnum. Þetta mannslík hefur verið kallað heillegasti „forsögulegi“ maðurinn sem fundist hefur í Evrópu. Líkið hefur verið nefnt „Simulaun-maðurinn“ eftir jöklinum þar sem það fannst. Sumir af „leyndardómum líksins eru nú byrjaðir að koma fram í dagsljósið, eftir miklar rannsóknir,“ að sögn dagblaðsins Süddeutsche Zeitung. „Ísmaðurinn“ hafði með sér föt, vopn til veiða og bakpoka með trégrind. Vísindamenn notuðu þessa muni til að aldursgreina hann sem um það bil 4000 ára gamlan. Athygli vekur að föt hans voru vandaðri og verkfærin flóknari en margir sérfræðingar hefðu getað ímyndað sér.
New York verst
Árið 1990 var New Yorkborg, annað árið í röð, efst á lista 25 stærstu borga Bandaríkjanna með flest rán. Samkvæmt ársskýrslu Bandarísku alríkislögreglunnar voru kærð 100.280 rán til lögreglunnar í New York árið 1990 og hafa aldrei verið fleiri. Það svarar til þess að 1 af hverjum 73 borgarbúum hafi verið rændur á árinu. Næstar í röðinni á eftir New York voru Chicago, Baltimore, Detroit, New Orleans, Washington, Dallas, Boston og Los Angeles — hver um sig yfir meðaltíðni borganna 25 sem er 9,7 rán á hverja 1000 borgarbúa. Þótt framin hafi verið 2262 manndráp árið 1990 í New York hrapaði hún niður í tíunda sæti hvað varðar tíðni miðað við íbúatölu, með 30,9 á hverja 100.000 íbúa. Efst á listanum var Washington, D.C., með 77,8 manndráp á hverja 100.000 íbúa. Að því er segir í skýrslunni voru notuð skotvopn í 3 morðum af hverjum 5.
Strandmengun í Asíu
Mengun við strendur er vaxandi áhyggjuefni manna í Asíu og á Kyrrahafi, að sögn tímaritsins
Asiaweek. Charles Birkeland, sjávarlíffræðingur á Guam, sagði í viðtali við tímaritið að frá miðjum áttunda áratugnum hafi sífellt fleiri þurft að leggjast inn á spítala vegna neyslu eitraðs skelfiskjar eða látist af þeim sökum. Skelfiskurinn virðist taka upp eiturefni er hann nærist á lífverum sem aftur nærast á mengunarefnum. Og hvaðan eru mengunarefnin komin? Að sögn Asiaweek beinist grunurinn fyrst og fremst að yfirborðsvatni með miklu af næringarefnum sem rennur út í sjó þegar regnskógarnir eru felldir.Spíritistar í vanda
Zé Arigó, andamiðill er lést árið 1971 og sagðist tala fyrir anda sem kallaðist ‚doktor Fritz,‘ á sér nú 13 arftaka í Brasilíu sem telja sig vera talsmenn ‚doktors Fritz.‘ Að sögn tímaritsins Veja setja þessir mörgu miðlar ‚doktors Fritz‘ hinar 6,9 milljónir spíritista í Brasilíu í nokkurn vanda. Haft er eftir forseta samtaka spíritista i São Paulo: „Fræðilega er hugsanlegt að andi geti líkamnast í fleiri en einum einstaklingi. Við höllumst þó að því að ‚doktor Fritzarnir‘ séu of margir.“ En Veja segir: „Spíritismi er mjög dreifð hreyfing og hefur ekkert fastmótað valdakerfi, og hún hefur ekkert vald til að benda á hver taki raunverulega við boðum frá doktor Fritz og hverjir séu bara að þykjast.“ Spíritisminn er þó ekkert vandamál fyrir þá sem leita sér fræðslu í Biblíunni. Hún fordæmir spíritisma í sérhverri mynd. — 5. Mósebók 18:10-12.
‚Siðferðileg fáfræði‘
Uppeldisfræðingar eru sammála um að ‚siðferðilega fáfróðum‘ börnum fari fjölgandi í nútímasamfélagi. Að sögn Burle Summers, formanns Samtaka um siðferðisfræðslu í Ontario í Kanada, er því haldið á lofti fyrir börnum sem þýðingarmiklum lífsgildum „að komast áfram, fá skjóta stöðuhækkun, hafa betur en aðrir.“ Hann sagði að það væri „ekki talið jafnmikilvægt að þjóna öðrum, virða aðra, láta sér annt um aðra.“
Eitrun af völdum plágueyða
Ár hvert verða um 25 milljónir manna í þróunarlöndunum fyrir eitrun af völdum plágueyða (skordýraeiturs, illgresiseiturs) og 20.000 manns deyja af þeirra völdum. Þetta kemur fram í tímaritinu New African. Efnaframleiðendur losa sig við hættulega plágueyða í fátæku löndunum þar sem bændur gera sér ekki grein fyrir hættunni og yfirvöld geta ekki fylgst nægilega vel með innflutningi. New African segir að svissneskur efnaframleiðandi hafi nýverið viðurkennt að hafa selt Tansaníu 450.000 lítra af skordýraeitri sem innihélt DDT. Notkun þessa stórhættulega efnis hefur verið bönnuð eða sætir ströngum takmörkunum í 45 löndum. Í sveitahéruðum Gana er DDT stundum notað til fiskveiða. Efninu er hellt í árnar og fiskurinn drepst svo að hægt er að tína hann upp. Fiskurinn, sem inniheldur virkt eitur, er síðan notaður til matar.
Hættuleg sólbrúnka
Tíðni húðkrabbameins meðal Kanadamanna „hefur aukist um 235 prósent á síðastliðnum átta árum,“ að sögn dagblaðsins The Toronto Star. Nýjar hagskýrslur sýna að 1 af hverjum 7 Kanadamönnum muni fá húðkrabbamein einhvern tíma á ævinni. Samtök kanadískra húðsjúkdómafræðinga kenna fyrst og fremst sólinni um. Dr. Gary Sibbald, sem er húðsjúkdómafræðingur, fullyrðir að „einn sólbruni með vessablöðrum tvöfaldi hættuna á húðkrabba.“ Hann bætir við: „Sólbrúnka er ekki hraustleikamerki heldur húðskaðamerki.“ Að sögn dagblaðsins The Globe and Mail getur sólbrúnka haft í för með sér „hrukkur, bletti, sár og húðkrabbamein.“ Mælt var með að fólk noti góðan sólvarnaráburð, hlífðarföt eða forðist að vera óvarið í sólinni milli klukkan tíu að morgni og þrjú síðdegis.
Kynvilltir guðfræðingar
Í guðfræðideild háskólans í Helsinki starfa samtök kynvilltra stúdenta. Um 20 stúdentar hafa tekið þátt í starfi hópsins sem kallar sig Kynhverfa guðfræðinema. Þetta kemur fram í Kotimaa sem er útbreitt kirkjurit í Finnlandi. Talsmaður hópsins segir að í Finnlandi séu hlutfallslega jafnmargir kynhverfir einstaklingar meðal guðfræðinga og embættismanna kirkjunnar eins og meðal almennings. Ekki er vitað um nákvæmt hlutfall en giskað er á 4 til 10 af hundraði. Guðfræðinemarnir mótmæla því að finnska kirkjan skuli ekki hafa fallist á að vígja til prests þá sem játa kynvillu sína opinberlega.
Sjónvarp og kólesteról
Börn sem sitja langtímum saman við sjónvarpið eru ekki aðeins að gera huga sínum ógagn heldur einnig æðum. Í nýlegri rannsókn, sem náði til 1000 ungmenna undir tvítugu, kom í ljós að börnum, sem horfðu á sjónvarp í tvær til fjórar stundir á dag, hætti til að hafa mun meira kólesteról í blóði en þeim sem horfðu minna á sjónvarp. Að sögn tímaritsins Pevention, sem fjallar um heilbrigðismál, segir dr. Kurt V. Gold við University of California-Irvine að „hátt kólesterólstig á þetta ungum aldri geti aukið hættuna á hjartasjúkdómum snemma á ævinni.“ Dr. Gold bætir við að „setur við sjónvarpið sameini marga þekkta áhættuþætti. Að lokum sitji menn kannski allan daginn og borði of mikið af sjoppufæði og hreyfi sig ekki nægilega mikið.“