Það er hægt að sigrast á vandanum
Það er hægt að sigrast á vandanum
„Við eigum um tvennt að velja: Að hætta drykkjunni og ná okkur eða halda áfram að drekka og deyja.“ — Alkóhólisti á batavegi.
ÍMYNDAÐU þér að þú vaknir skyndilega að næturlagi og uppgötvir að það sé kviknað í hjá þér. Andartaki síðar berst hjálp og eldurinn er slökktur. Gætir þú farið inn til þín á eftir eins og ekkert hefði í skorist? Auðvitað ekki. Húsið er stórskemmt og það þarfnast viðgerðar og endurnýjunar áður en hægt er að lifa þar eðlilegu lífi á nýjan leik.
Ofdrykkjumaðurinnn stendur frammi fyrir svipaðri áskorun þegar hann hefur göngu sína eftir bataveginum. Áfengið hefur lagt líf hans í rúst, ef til vill um margra ára skeið. Núna er hann orðinn bindindismaður. „Eldurinn“ er slökktur en viðhorf, lífshættir og hegðun alkóhólistans þarfnast viðgerðar og endurnýjunar ef hann á að halda bindindinu áfram. Eftirfarandi tillögur geta hjálpað alkóhólistanum að halda bindindið það sem eftir er.
1. Þekktu óvininn
Biblían segir að girndir holdsins ‚heyji stríð gegn sálinni.‘ (1. Pétursbréf 2:11) Gríska orðið, sem þýtt er ‚að heyja stríð,‘ merkir bókstaflega „að gegna herþjónustu“ og felur í sér hugmyndina um hernað sem skilur eftir rjúkandi rústir. — Samanber Rómverjabréfið 7:23-25.
Líkt og sérhver góður hermaður tekur sér tíma til að rannsaka baráttuaðferðir óvinarins verður ofdrykkjumaðurinn að fræða sjálfan sig um eðli áfengisfíknarinnar og kynna sér hvernig hann eyðileggur ofdrykkjumanninn og þá sem eru honum nákomnir. a — Hebreabréfið 5:14.
2. Breyttu drykkjunni og hugsunarhættinum
„Bindindi felur í sér að losa sig bæði við flöskuna og barnið,“ segir læknir. Það þarf með öðrum orðum að breyta bæði drykkjunni og hinum innri manni.
Biblían gefur þessi viturlegu ráð: „Takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins.“ (Rómverjabréfið 12:2) ‚Afklæðist hinum gamla manni með gjörðum hans.‘ (Kólossubréfið 3:9) Ef hátternið breytist en persónuleikinn ekki fer alkóhólistinn einungis yfir í aðra skaðlega fíkn — eða snýr sér aftur að þeirri gömlu.
3. Eignastu skilningsríkan trúnaðarvin
Orðskviður í Biblíunni segir: „Sá sem einangrar sig leitar sinnar eigingjörnu þrár; hann illskast við öllu sem hyggilegt er.“ (Orðskviðirnir 18:1, NW) Jafnvel þótt alkóhólistinn haldi sér frá áfengi hættir honum til að reyna að finna boðlegar ástæður fyrir röngu hátterni. Þess vegna þarf hann að eiga að skilningsríkan en ákveðinn trúnaðarvin (stundum nefndur trúnaðarmaður eða leiðbeinandi). Það hefur ýmsa kosti að trúnaðarvinurinn sé sjálfur alkóhólisti á batavegi sem hefur náð góðum tökum á þeim áskorunum sem fylgja algeru bindindi. (Samanber Orðskviðina 27:17.) Slíkur trúnaðarvinur ætti að virða trúarsannfæringu alkóhólistans og verður að vera fórnfús og alltaf reiðubúinn að veita honum stuðning. — Orðsviðirnir 17:17.
4. Vertu þolinmóður
Batinn kemur smám saman. Það tekur tíma fyrir alkóhólistann að endurbyggja líf sitt. Það getur verið við fjárhagsörðugleika að glíma, spennu á vinnustað eða ringulreið á heimilinu. Þótt alkóhólistinn hætti að drekka merkir það ekki að öll vandamál hverfi út í veður og vind. Alkóhólisti Sálmur 55:23.
á batavegi getur í fyrstu verið mjög kvíðinn að horfast í augu við lífið án þess að geta ‚leyst vandamálin‘ með því að grípa til flöskunnar. Þegar slíkar áhyggjur virðast yfirþyrmandi ætti alkóhólisti á batavegi að muna eftir hughreystandi orðum sálmaritarans: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ —5. Eignastu heilnæma félaga
Ofdrykkjumaðurinn ætti að spyrja sjálfan sig í hreinskilni: ‚Styðja félagar mínir mig í bindindinu eða tala þeir í sífellu um „hina gömlu góðu daga“ og láta mér finnast sem ég sé að missa af einhverju?‘ Orðskviðirnir 18:24 segja: „Til eru félagar sem eru fúsir til að brjóta hver annan, en til er vinur sem er tryggari en bróðir.“ Það þarf dómgreind til að sjá hverjir eru sannir vinir og hverjir geta verið skaðlegur félagsskapur.
6. Forðastu oftraust
„Mér líður alveg stórkostlega — mig langar ekki einu sinni til að drekka lengur!“ Alkóhólisti sem segir eitthvað í þessa veru ofmetur framfarir sínar og vanmetur áfengisfíknina. Byrjunarhrifningin yfir því að hafa náð tökum á vandanum, stundum kölluð að vera á bleiku skýi, er skammvinn. „Reyndu að sjá hlutina í réttu jafnvægi,“ ráðleggur bókin Willpower’s Not Enough. „Ef þú gerir það ekki ertu að falli kominn og það er hátt fall ofan af skýi.“ — Samanber Orðskviðina 16:18.
7. Gættu þín að taka ekki upp aðra áráttu
Margir hætta að drekka en taka í staðinn upp óeðlilegar matarvenjur, vinnuáráttu, spilafíkn eða því um líkt. ‚Er nokkuð athugavert við það? Ég er þó að minnsta kosti ekki að drekka,‘ segir alkóhólisti á batavegi við sjálfan sig. Að vísu getur verið heilnæmt að láta reyna á líkamann, en þegar eitthvert efni eða athöfn er notuð til að svæfa tilfinningarnar vekur það aðeins falska og skammvinna öryggiskennd.
8. Aðlagaðu þig nýju hlutverki í fjölskyldunni
Margir ofdrykkjumenn spilla afturbata sínum þegar þeim fer að ganga vel! Hvers vegna? Einfaldlega vegna þess að það er ný reynsla að vera ódrukkinn. Alkóhólistinn getur fundið hina gömlu lífshætti toga í sig. Auk þess kemur hann óróa á fjölskyldulífið þegar hann hættir að drekka. Þess vegna verða allir í fjölskyldunni að breyta hlutverki sínu. „Það verður að henda handriti fjölskylduleikritsins í heild sinni og skrifa nýtt í staðinn,“ segir í bæklingnum Recovery for the Whole Family. Það er því ekki af tilefnislausu sem afturbati drykkjusjúklings er sagður málefni allrar fjölskyldunnar. — Samanber 1. Korintubréf 12:26.
9. Gættu þess að falla ekki aftur
Oftraust, óheilnæmur félagsskapur, önnur árátta og aukin einangrun geta allt verið áfangar á fallbrautinni. Talaðu opinskátt við trúnaðarvin um sérhverja slíka tilhneigingu.
Alkóhólisti á batavegi segir: „Allir alkóhólistar hætta að drekka. Sumir okkar eru svo heppnir að hætta meðan þeir eru enn á lífi.“
[Neðanmáls]
a Meðferðarstöðvar, spítalar og endurhæfingaraðilar geta látið slíkar upplýsingar í té. Vaknið! beitir sér ekki fyrir neinni sérstakri meðferð umfram aðra. Þeir sem þrá að lifa eftir meginreglum Biblíunnar vilja að sjálfsögðu gæta þess að bendla sig ekki við starfsemi þar sem þeir þyrftu að slaka á afstöðu sinni með meginreglum Biblíunnar. Sá sem er vottur Jehóva getur fundið hjálplegar leiðbeiningar í Varðturninum (enskri útgáfu) þann 1. maí 1983, bls. 8-11.
[Rammi á blaðsíðu 7]
Ef þú kemst ekki hjá að taka lyf
Öll lyf, sem innihalda vínanda, geta valdið því að löngunin blossar upp á ný og komið alkóhólistanum út á fallbraut.
Dr. James W. Smith segir: „Það er ekki óvenjulegt að aðkóhólisti falli eftir margra ára bindindi vegna þess að hann tók hóstasaft sem innihélt vínanda.“ Alkóhólistinn er næmur fyrir öllum róandi lyfjum. Ef róandi lyf eru bráðnauðsynleg ætti alkóhólistinn að . . .
1. leita upplýsinga hjá lyfjafræðingi um hugsanlega hættu.
2. hafa samband við trúnaðarvin og hringja til hans, er mögulegt er, áður en hver skammtur er tekinn.
3. skrifa hjá sér hvern einasta skammt sem hann tekur.
4. hætta notkun lyfsins eins fljótt og auðið er.
5. farga öllum ónotuðum lyfjum þegar réttmætri notkun er lokið.