En er það ósvikið?
En er það ósvikið?
Það sem einn getur búið til getur annar falsað. Það sem þér er boðið getur litið út fyrir að vera nákvæmlega það sem þú vilt eignast. En er varan ekta? Stundum hefur verið gripið til býsna róttækra aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir sölu svikinnar vöru. Þýskur veitingamaður á 14. öld var hengdur fyrir að selja lélegt vín sem ósvikið Rüdesheimer-vin. Á Bretlandi voru yfir 300 manns hengdir fyrir svik og falsanir á 140 ára tímabili fram til ársins 1832. Árið 1597 voru tveir gullsmiðir negldir á eyrunum upp á gapastokkinn fyrir að falsa merkingar á gullhúðuðum varningi.
„Söfnunaræðið hefur skapað paradís fyrir óheiðarlega kaupmenn,“ segir Mark Jones sem vann að sýningu Breska þjóðminjasafnsins er hét „Fölsunarlistin.“ Jafnvel þeir sem best ættu að þekkja til hafa látið blekkjast. Hinn „steingerði“ Piltdown-maður var til dæmis fölsun sem blekkti vísindaheiminn um langt árabil. „Dagbækur“ Hitlers eru talandi dæmi um hæfni falsaranna til að blekkja jafnvel þá sem ættu að vita betur.
„Mesti vaxtarbroddur falsaranna um þessar mundir er stórfelld vörufölsun undir kunnum vörumerkjum,“ segir Mark Jones. Til dæmis var áætlað að á bilinu 10.000 til 15.000 eftirlíkingar af Apple tölvum hafi verið seldar í Bandaríkjunum í hverjum mánuði árið 1987. Nýlega komst upp um stórfellda fölsun á Waterford-kristalvörum og höfðu falsararnir velt jafnvirði hátt í tveggja milljarða íslenskra króna. „Eftirlíkingar af frægustu kristalvörum í heimi voru framleiddar í verksmiðju í afskekktu þorpi í Frakklandi,“ sagði breska blaðið The Sunday Times.
Þessi kynslóð er sólgin í munaðarvörur. Vincent Carratu, gamalreyndur baráttumaður í stríðinu gegn fölsurum, segir að þeir sem falsi verslunarvöru „framleiði fölsk Chanel-ilmvötn, skipti á morgun yfir í falsaðar Fila-sportskyrtur og taki síðar að flytja inn falsaða Dunlop-tennisspaða.“ Falsarinn býr til hvaðeina sem neytandinn ágirnist. En breskur samstarfshópur gegn vörufölsun aðvarar að „allt of oft sé úr, sem selt er á ‚kostaboð‘ fyrir 50 pund [um 5000 krónur] aðeins 5 punda [500] króna virði.“
Lifshættulegar eftirlíkingar
Anti-Counterfeiting News bendir einnig á annað vandamál, það er að segja hættuna á að kaupa óvandaða vöru: „Óvandaðar vörur stofna öryggi neytandans í hættu.“ Hversu alvarleg ógnun er þetta? Trademark World nefnir eftirfarandi dæmi: „Fjórtán flugslys og að minnsta kosti tvö dauðaslys hafa verið rakin til falsaðra flugvélahluta.“ Breska neytendaráðið afhjúpaði hvernig þúsundir raftengla, sem ekki stóðust gæðakröfur, og falsaðar hemladælur með lélegum gúmmíþéttihringjum komustu inn á markaðinn. „Allt slíkt getur verið hættulegt fyrir neytandann,“ sagði blaðið.
Ófyrirleitnastir eru þeir sem falsa lyf. „Allt að 70% allra lyfja, sem seld eru sums staðar í Afríku, eru fölsuð,“ að sögn hins breska samstarfshóps gegn vörufölsun. Í Nígeríu hafa fundist augndropar sem innihalda ekkert efni er hefur lækningaáhrif og voru gerðir úr menguðu vatni. Þeir hefðu getað valdið blindu. „Ef fólk þarf að nota ‚sýklalyf,‘ sem innihalda engin sýklalyf, hlýtur það að hafa dauðsföll í för með sér, og þá er fölsunin orðin fjöldamorð,“ sagði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin árið 1987.
Jafnvel peningaseðlar geta verið falsaðir. Fyrir ekki ýkja löngu voru á einu ári gerðar upptækar í heiminum 110 milljónir Bandaríkjadollara í fölsuðum dollaraseðlum. Falsaðir 100 dollara seðlar, sem voru í umferð á Írlandi, voru svo vel gerðir „að 155 voru teknir góðir og gildir í öllum helstu bönkum,“ að sögn The Irish Times.
Hvað er hægt að gera til að vernda sjálfan sig gegn eftirlíkingum og fölsunum? Sérfræðingur í neytendamálum segir að „vel upplýstur neytandi sé besta vörnin.“ Hann bætir við: „Ef eitthvað virðist of gott til að geta verið satt er það sennilega rétt.“