Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getur fjölskyldan hjálpað?

Hvernig getur fjölskyldan hjálpað?

Hvernig getur fjölskyldan hjálpað?

„Fyrst fær maðurinn sér drykk, svo fær drykkurinn sér drykk, og að síðustu nær drykkurinn tökum á manninum.“ — Austurlenskur málsháttur.

ÞÚ ERT á gangi í útjaðri mýrlendis. Skyldilega lætur jörðin undan og á andartaki ert þú sokkinn í kviksyndi. Því harðar sem þú berst um, þeim mun dýpra sekkur þú.

Áfengisfíknin gleypir alla fjölskylduna á mjög svo svipaðan hátt. Kona alkóhólistans reynir í örvæntingu að breyta manni sínum. a Knúin af ást hefur hún í hótunum við hann en hann heldur áfram að drekka. Hún felur áfengið en hann kaupir meira. Hún felur peningana hans en hann slær lán hjá vini sínum. Hún höfðar til ástar hans á fjölskyldunni, lífinu, jafnvel Guði — en allt kemur fyrir ekki. Því harðar sem hún berst um, þeim mun dýpra sekkur öll fjölskyldan í kviksyndi alkóhólismans. Eigi fjölskyldan að geta hjálpað ofdrykkjumanninum verður hún að skilja eðli áfengisfíknarinnar. Hún þarf að vita hvers vegna sumar „lausnir“ eru nánast gagnslausar og læra hvaða aðferðir duga.

Alkóhólismi er meira en ölvun. Alkóhólismi er langvinnt drykkjuvandamál sem einkennist af því að drykkjumaðurinn er upptekinn af áfenginu og missir stjórn á neyslunni. Flestir sérfræðingar eru sammála um að alkóhólismi sé ólæknandi en hins vegar er hægt að halda honum í skefjum með ævilöngu bindindi. — Samanber Matteus 5:29.

Að sumu leyti má líkja aðstöðu alkóhólistans við aðstöðu manns með sykursýki. Hinn sykursjúki getur ekki breytt því að hann er sykursjúkur, en hins vegar getur hann unnið með líkama sínum með því að forðast sykur. Á sama hátt getur alkólhólisti ekki breytt því hvernig líkami hans bregst við áfengi en hann getur hegðað sér í samræmi við veilu sína með því að taka upp algert bindindi.

En það er hægara sagt en gert. Ofdrykkjumaðurinn er blindaður vegna afneitunar. ‚Ég er ekki svo slæmur.‘ ‚Fjölskyldan kemur mér til að drekka.‘ ‚Hver myndi ekki drekka sem hefði svona vinnuveitanda?‘ Réttlæting hans er oft svo sannfærandi að öll fjölskyldan tekur þátt í afneituninni með honum. ‚Pabbi ykkar þarf að slaka á eftir erfiðan dag.‘ ‚Pabbi verður að drekka af því að hann þarf að þola svo mikið nöldur í mömmu.‘ Undir engum kringumstæðum opinbera þau leyndarmál fjölskyldunnar: Pabbi er alkóhólisti. „Það er eina leiðin fyrir þau til að hanga saman,“ segir dr. Susan Forward. „Lygar, afsakanir og leyndarmál eru jafnalgengar og andrúmsloftið á þessum heimilum.“

Fjölskyldan getur ekki dregið ofdrykkjumanninn upp úr kviksyndinu nema hún komist fyrst upp úr því sjálf. Sumir kynnu að andmæla því og segja: ‚Það er alkóhólistinn sem þarfnast hjálpar, ekki ég.‘ En hugleiddu málið. Að hve miklu leyti eru tilfinningar þínar og hátterni tengd hegðun alkóhólistans? Hve oft vekur hann með þér reiði, kvíða, vonbrigði eða ótta með hátterni sínu? Hve oft ert þú heima að annast ofdrykkjumanninn þegar þú ættir að vera að gera eitthvað mikilvægara? Þegar þeir í fjölskyldunni, sem ekki eru alkóhólistar, stíga markviss skref í þá átt að bæta líf sitt getur hugsast að alkóhólistinn geri slíkt hið sama.

Hættu að láta skella skuldinni á þig. Ofdrykkjumanðurinn segir kannski: ‚Ef þú kæmir betur fram við mig þyrfti ég ekki að drekka.‘ „Alkóhólistinn þarf að láta þig halda áfram að trúa þessu þannig að hann geti látið þig bera ábyrgð á drykkjuskap sínum,“ segir ráðgjafinn Toby Rice Drews. Láttu hann ekki blekkja þig. Alkóhólistinn er ekki aðeins háður áfengi heldur líka fólki sem tekur afneitun hans trúanlega. Fjölskyldan getur þannig óafvitandi viðhaldið drykkjuskap ofdrykkjumannsins.

Orðskviður í Biblíunni, sem fjallar um það að missa stjórn á skapi sínu, getur átt jafnvel við þetta mál: „Láttu hann taka afleiðingunum. Ef þú bjargar honum einu sinni úr vandræðum þarftu að gera það aftur.“ (Orðskviðirnir 19:19, Today’s English Version) Láttu alkóhólistann hringja sjálfan í vinnuveitanda sinn til að segja honum að hann komist ekki í vinnuna, láttu hann sjálfan um að komast á fætur og láttu hann sjálfan þrífa upp spýjuna eftir sig. Ef fjölskyldan gerir það fyrir hann er hún einungis að hjálpa honum að drekka sig í hel.

Leitaðu hjálpar. Það er erfitt og kannski jafnvel ómögulegt fyrir fjölskyldumeðlim að ná sér upp úr kviksyndinu af eigin rammleik. Þú þarfnast stuðnings. Reiddu þig á stuðning vina sem hvorki taka undir afneitun alkóhólistans eða láta þig einan um að spjara þig.

Það er mjög gleðilegt ef alkóhólistinn fellst á að leita hjálpar, en það er þó aðeins upphaf bataferlisins. Hægt er að ná tökum á hinni líkamlegu áfengisánauð á nokkrum dögum með afeitrun, en það er miklum mun erfiðara ná tökum á hinni sálrænu ánetjun.

[Neðanmáls]

a Þótt hér sé talað um alkóhólistann í karlkyni eiga sömu meginreglur að sjálfsögðu við um konur sem eru alkóhólistar.

[Rammi á blaðsíðu 5]

Einkenni alkóhólistans

Er fjarhuga: Alkóhólistinn bíður óþreyjufullur eftir því að gera farið að drekka. Þegar hann er ekki að drekka áfengi eða hann að hugsa um áfengi.

Missir stjórnina: Hann drekkur gjarnan oftar eða á öðrum tímum en hann ætlar sér, óháð því hve fastur ásetningur hans var.

Er ósveigjanlegur: Lífsreglur sem hann setur sér („Ég drekk aldrei einn,“ „aldrei í vinnunni“ og svo framvegis) eru ekkert annað en felubúningur hinnar raunverulegu lífsreglu alkóhólistans: „Láttu ekkert standa í vegi fyrir því að ég geti drukkið.“

Þol: Óvenjumikið áfengisþol er engin blessun — oft er það eitt af fyrstu merkjum áfengisfíknar.

Neikvæðar afleiðingar: Eðlilegar lífsvenjur setja ekki fjölskyldulíf, atvinnu og heilsu á annan endann. Alkóhólisminn gerir það hins vegar. — Orðskviðirnir 23:29-35.

Afneitun: Alkóhólistinn réttlætir, gerir lítið úr og afsakar hátterni sitt.