Horft á heiminn
Horft á heiminn
Syndaskrá prestanna
Ástralska sjónvarpið sýndi fyrir nokkru heimildarmynd sem hét „Svikin miklu.“ Í myndinni var því haldið fram að 15 af hundraði presta í Ástralíu hefðu gerst sekir um siðferðisbrot, allt frá kynferðislegri misnotkun barna til þess að nauðga konum í sókninni. Á næstu klukkustundum eftir útendinguna voru símalínur rauðglóandi hjá ýmsum miðstöðvum og samtökum er aðstoða fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar. Margir þeirra sem hringdu sögðust hafa haldið kynferðisafbrotinu leyndu í mörg ár. Kona sagðist hafa haldið því leyndu í 40 ár að hún hafi verið misnotuð kynferðislega sem barn! Önnur sagði að eftir að presturinn hennar hefði misnotað hana kynferðislega sem barn hefði hann hótað henni helvítisvist ef hún vogaði sér að segja nokkrum frá þessu. Talsmenn ýmissa kirkjufélaga sögðu töluna 15 af hundraði of háa en viðurkenndu að kynferðisafbrot presta væru alvarlegt vandamál.
Börn velja sjónvarpið
Flestum börnum þykir bóklestur of erfiður fyrir sig. Það var niðurstaða könnunar sem þýska tímaritið Eltern lét gera meðal 1960 skólanema á aldrinum 8 til 15 ára. Flest börnin kusu frekar að horfa á sjónvarp en lesa bækur. Dagblaðið Schweinfurter Tagblatt sagði um könnunina að 64 af hundraði kysu frekar að horfa á sjónvarpið og að það sem börnin vildu helst lesa væri sjónvarpsvísinn með dagskrá sjónvarpsstöðvanna. Fjórtán ára krakki sló fram þeirri kenningu að það hlyti að vera meðfæddur eiginleiki manna að horfa á sjónvarpið því að lestur væri krefjandi athöfn sem þyrfti að læra.
Húsdýraafbrigðum fækkar
Margar tegundir húsdýra eru í útrýmingarhættu, að sögn Parísarblaðsins Le Figaro. Frá aldamótum hefur húsdýrategundum í Evrópu fækkað um helming og þriðjungur þeirra, sem eftir eru, gæti horfið innan tíðar. Sú meginstefna hefur verið í nútímalandbúnaði að einbeita sér að ræktun afurðamestu húsdýrategundanna sem gefa mest í aðra hönd. Sömu stefnu gætir í þróunarlöndunum. Eftir því sem fleiri afbrigðum nautgripa, svína og alifugla er leyft að deyja út fækkar þeim dýrategundum sem mannkynið á afkomu sína undir. Vísindamenn óttast að samfara sífellt fábreyttari arfgerð húsdýra aukist verulega hættan á að nýir sjúkdómar geti þurrkað út stóran hluta af húsdýrum jarðar.
Herskár heimur
Orðin „ný heimsskipan“ hafa verið mikið notuð síðustu misseri til að lýsa hinu breytta pólitíska andrúmslofti í heiminum. Orðin hafa yfirleitt jákvætt inntak og eru sett í samband við þessar nýju kringumstæður og þær friðarhorfur sem menn telja þær boða. Tímaritið Asiaweek dró fyrir nokkru upp raunsærri mynd af heimsástandinu undir fyrirsögninni „nýja heimsskipanin“. Tímaritið birti lista yfir 100 ríki eftir herstærð þeirra. Efst á listanum var Kína með 2.300.000 manna her, Indland og Norður-Kórea komu næst með um 1.000.000 manna her hvort. Um 30 ríki státa af her sem telst í hundruðum þúsunda. Neðst á listanum var Búrkína Fasó með 7000 manna her. Samanlagt eru yfir 15.000.000 hermanna í öllum þeim herjum sem Asiaweek taldi upp!
‚Nýr óstöðugleiki‘
Hefur hið nýfundna trúfrelsi í Austur-Evrópu stuðlað að friði og samheldni í þeirri stjórnmálaólgu sem þar ríkir? „Rómversk- og grísk-kaþólsku kirkjunar í Rúmeníu, Úkraínu og meðfram austurlandamærum Póllands eru að berjast um eignarréttinn yfir kirkjunum,“ segir franska dagblaðið Le Monde. Blaðið bætir við: „En deilurnar eru á vissan hátt mjög órökréttar. . . . Þessar vísbendingar um að trúarbragðastríð sé nú aftur í uppsiglingu í Evrópu og Kákasus leggst ofan á alla þjóðernisólguna og skapar nýjan óstöðugleika sem boðar ekkert gott.“
Vopnasala blómstrar
„Vopnasala er í miklum uppgangi um heim allan,“ segir breska tímaritið New Scientist. Hvað stuðlar að þessari líflegu verslun? Chris Smith, sem stundar rannsóknir á vopnasölu í heiminum, segir að fall Sovétríkjanna og óstöðugleikinn, sem skapaðist kringum Persaflóastríðið, hafi aukið framboð og eftirspurn eftir mörgum ódýrum, notuðum
vopnum í Miðausturlöndum og Austur-Evrópu. Smith og Andrew Ross við háskóla sjóhersins í Bandaríkjunum segja að mestan ugg veki sú þróun að „þjóðir þriðja heimsins séu orðnar mikilvægir vopnasalar.“Alnæmi fjölgar munaðarlausum
Munaðarleysingjahæli í Manicaland-héraði í Simbabve eru að yfirfyllast af börnum sem hafa misst foreldra sína af völdum alnæmis. Aðeins í því héraði eru ‚um 47.000 börn yngri en 14 ára sem hafa misst foreldra sína úr sjúkdómum tengdum alnæmi,‘ segir dagblaðið The Star í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Af þessum börnum hafa um 10 af hundraði misst báða foreldra sína. Dagblaðið sagði að samkvæmt könnun á vegum heilbrigðisráðuneytisins væru ‚börn, sem misst hefðu foreldra sína af völdum alnæmis, á 29,9 af hundraði 294 heimila sem valin voru af handahófi.‘
Hættuleg seinkun
Skrifstofufólk, sem situr klukkustundum saman og rýnir í tölvuskjá, er „hættulegt sjálfu sér og öðrum þegar það ekur að kvöld- og næturlagi,“ segir prófessor Paul Cook við Brunel-háskóla í Lundúnum. Lundúnablaðið Daily Telegraph segir að eftir tíu ára rannsóknir á náttblindu hafi prófessor Cook uppgötvað að það tæki fólk, sem starði á tölvuskjá nokkrar klukkustundir á dag, 120 millisekúndur að senda upplýsingar til heilans. Það er nífalt lengri tími en eðlilegt er! Þótt þessi seinkun hlífi heilanum við ofreynslu af völdum upplýsingamagnsins á tölvuskjánum getur hún dregið úr viðbragðsflýti ökumanns að kvöld- og næturlagi þegar dimmt er.
Alkóhólismi kostar sitt
Alkóhólismi kostar sitt. Hann er bæði alkóhólistanum og þjóðfélaginu dýrkeyptur á marga vegu, meðal annars sökum aukins heilbrigðiskostnaðar, sundraðra heimila, slysa og dauðsfalla. Hins vegar er oft horft fram hjá því hve miklum peningum alkóhólistinn raunverulega eyðir í áfengi. Að sögn Parísarblaðsins Le Monde sýndi könnun í Frakklandi að alkóhólisti eyðir að meðaltali yfir 3000 frönkum (30.000 ÍSK) á mánuði til áfengiskaupa. Enn fremur leiddi könnunin í ljós að dæmigerður alkóhólisti eyðir um helmingi tekna fjölskyldunnar í áfengi — og þeir sem búa einir allt upp í 80 af hundraði. Eftir algert bindindi í eitt ár höfðu nálega allir alkóhólistarnir, sem þátt tóku í könnuninni, aukið almenn lífsgæði sín. Þeir borðuðu betur og klæddu sig betur en áður. Helmingur þeirra gat meira að segja lagt fyrir peninga.
Hættulegt blóð
Japanir, sem hafa þegið blóðgjöf, fá nú ekki lengur að gefa blóð. Hvers vegna? Japanski Rauði krossinn segir ástæðuna „tíð lifrarbólgusmit af C-stofni,“ að sögn dagblaðsins The Daily Yomiuri. Blaðið segir að smittíðni af völdum fólks, sem hefur þegið blóðgjöf, sé 8,31 af hundraði, um 12 sinnum hærri en af völdum þeirra sem aldrei hafa þegið blóð. Japan er fyrsta landið sem tekur þá stefnu að hafna blóði sem hættulegu vegna þess eins að það er komið frá fólki sem hefur þegið blóðgjöf.
Dvínandi trúhneigð
Trúin skiptir miklu minna máli í lífi flestra Evrópubúa en fjölskyldan, vinnan og afþreying, að sögn dagblaðsins La Croix sem er kaþólskt og gefið út í París. Blaðið segir frá niðurstöðum nýlegrar könnunar sem gerð var meðal 20 Evrópuþjóða og náði til gildismats og trúarlífs manna. „Hefðbundnar trúarskoðanir, svo og áhrif kirkjunnar á daglegt líf, eru á undanhaldi,“ sagði blaðið. Að sögn þeirra sem gerðu rannsóknina má „skýra dvínandi þýðingu trúarinnar með því að kirkjunum hafi bersýnilega mistekist að hjálpa fólki að takast á við sín daglegu vandamál.“ La Croix segir að enda þótt þorri manna hafni hefðbundnum kenningum kirkjunnar segist yfir helmingur manna í þessum 20 löndum, að Svíþjóð undanskilinni, trúa á Guð.
Reglan í alheiminum
Paul Davies, prófessor í fræðilegri eðlisfræði við háskólann í Newcastle upon Tyne á Englandi, hefur, af vísindamanni að vera, sett fram mjög umdeild sjónarmið í nýrri bók sinni, The Mind of God. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að tilvera mannsins stafi ekki af duttlungum örlaganna heldur sé „okkur sannarlega ætlað að vera hér.“ Hann segir: „Vísindastörf mín hafa styrkt meir og meir þá sannfæringu mína að hinn efnislegi alheimur sé settur saman af svo undraverðu hugviti að það sé ekki hægt að viðurkenna það sem staðreynd og ekkert meira. Mér virðist sem það hljóti að vera einhver djúptækari skýring. Hvort við viljum kalla þessa djúptækari skýringu ‚Guð‘ er skilgreiningar- eða smekksatriði.“