Ert þú ástríkt foreldri?
Ert þú ástríkt foreldri?
ELSKAR þú börnin þín? Ert þú stoltur af þeim? Finnst þér hvert og eitt þeirra vera sérstakur, einstæður og ómissandi einstaklingur? Flestir foreldrar hugsa þannig. En segir þú börnum þínum að þér sé þannig innanbrjósts? Hrósar þú þeim sérstaklega þegar þeim ferst eitthvað vel úr hendi? Og lætur þú í ljós hlýju þína á aðra vegu — með blíðlegum leik, uppörvandi snertingu og ástríku faðmlagi?
„En ég er bara ekki þannig,“ andmæla sumir. „Ég ber ekki tilfinningarnar utan á mér.“ Að vísu er ekki öllum lagið að tjá tilfinningar sínar opinskátt. Hins vegar getur það skipt meira máli en þig grunar að sýna börnunum þínum hlýju.
Hópur vísindamanna fylgdi nýverið eftir rannsóknum frá 1951 sem náðu til 400 barna í leikskóla. Þeir fundu athyglisverð einkenni meðal þeirra 94 karla og kvenna sem þeim tókst að hafa uppi á. Að sögn The New York Times hafði þeim börnum, sem áttu ástríka foreldra, að jafnaði farnast betur á fullorðinsárunum en hinum. Að jafnaði bjuggu þessir einstaklingar í góðu hjónabandi, áttu veluppalin börn, höfðu ánægju af starfi sínu og áttu góð vináttutengsl við aðra. Dr. Carol Franz, sem stýrði rannsókninni, sagði í viðtali við blaðið að þeir hafi „sýnt merki sálrænnar vellíðanar, höfðu ánægju af lífinu og voru sæmilega sáttir við líf sitt.“
Carol Franz uppgötvaði á hinn bóginn að „þeir sem áttu kaldlynda og fráhrindandi foreldra höfðu átt mun erfiðara uppdráttar síðar á ævinni á öllum sviðum — í starfi, félagslegri aðlögun og sálrænni líðan.“ Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að skortur á hlýju frá foreldrunum gæti jafnvel er til lengdar lætur verið skaðlegri fyrir börnin en skilnaður foreldra, alkóhólismi eða fátækt.
Þetta ætti ekki að koma einlægum biblíunemendum á óvart. Þeim er vel kunnugt hvernig Jesús kom fram við börn. Hann mat þau mikils, laðaði þau að sér og sýndi þeim ástúð sína. (Markús 10:13-16; Lúkas 9:46-48; 18:15-17) Að sjálfsögðu var hann einungis að líkja eftir himneskum föður sínum að þessu leyti — honum sem er faðir föðurlausra. (Sálmur 68:6) Jehóva er hinn fullkomni faðir, og til allrar hamingju fyrir þá sem elska hann getur hann bætt upp hvaðeina sem ófullkomna foreldra skortir. — 2. Korintubréf 6:18.