Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Tímamót fyrir Sameinuðu þjóðirnar?

„Sameinuðu þjóðirnar verða kannski aldrei samar eftir umhverfisráðstefnuna,“ sagði Charles Petit sem skrifar um vísindi í San Fransisco Chronicle. Hann bætti við: „Alþjóðasamtökin virðast nú loksins vera að ná þeim þroska sem þeim var ætlaður er stofnskrá þeirra var undirrituð fyrir 47 árum í San Fransisco.“ Umhverfisráðstefnan, sem haldin var að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna í Rio de Jeneiro í Brasilíu í júní 1992, var tilraun til að taka á sumum þeirra umhverfis­vandamála sem heimurinn á í, en mörg þeirra eru greinilega umfangsmeiri en svo að einstök ríki ráði við þau. Hilary French hjá Worldwatch-stofnuninni sagði: „Þjóðir heims eru í raun að afsala sér hluta af fullveldi sínu í hendur alþjóðasamtökunum og eru þar með byrjaðar að skapa nýja, alþjóðlega stjórn umhverfismála.“

Elsta bakaríið?

Í grennd við egypsku píramídana hafa fornleifafræðingar fundið það sem vera kann elsta bakarí í heimi, að því er kemur fram í frétt frá Associated Press. Talið er að bakaríið hafi séð verkamönnum, sem unnu að byggingu píramídanna, fyrir brauði. Mark Lehner, egyptalandsfræðingur og einn af stjórnendum uppgraftarins, segir: „Við erum að tala um gríðarstóra byggingu, nógu stóra til að baka brauð handa 30.000 manns á dag.“ Lehner telur að vinnuaðstæður í bakaríinu hljóti að hafa verið hrikalegar; hitinn kæfandi og þykkur, svartur reykur yfir öllu. „Þessi herbergi hljóta að hafa verið eins og næturhiminn í rigningu,“ segir hann. „Við höfum grafið gegnum eitt og hálft fet af kolsvartri, uppsafnaðri ösku.“ Bakaríið er talið vera frá þeim tíma er píramídarnir voru í byggingu.

Sársaukafull tónlist

„Lækkaðu!“ Hversu oft hafa ekki argir foreldrar hrópað þessa skipun til barna sinna þegar þeim hefur þótt nóg um hávaðann í hljómtækjunum. Mörgum unglingum finnst þeir ekki geta notið tónlistarinnar nema þeir finni fyrir taktinum. Hávær tónlist hefur oft verið sett í samband við heyrnarbilun, en samkvæmt frétt í kanadíska blaðinu Globe and Mail er eyrnasuða líka algeng afleiðing. Eyrnasuða er „suð, glymur, smellir eða hvinur inni í höfðinu, yfirleitt fyrir báðum eyrum. En þessi orð nægja hvergi nærri til að lýsa hljóðinu,“ segir blaðið. Eftir að eyrnasuða er byrjuð „hefur maður aldrei [framar] frið og ró,“ segir Elizabeth Eayrs sem er framkvæmdastjóri Eyrnasuðusamtaka Kanada. Þeir sem nota heyrnartól og skrúfa svo hátt upp í tækjunum að aðrir heyra eru í sérstakri hættu. Oft spilla þeir alvarlega hæfni sinni til að njóta tónlistar eða heyra nokkur önnur hljóð síðar á ævinni.

Japanir langlífastir

Japanir eru langlífastir allra þjóða samkvæmt nýjustu tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Núna eru meðallífslíkur jap­anskra kvenna 82,5 ár en karla 76,2 ár. Lífslíkur kvenna eru næstlengstar í Frakklandi, 81,5 ár og Sviss er í þriðja sæti með 81,0 ár. Lífslíkur karla eru næstlengstar á Íslandi, 75,4 ár en Grikkland er í þriðja sæti með 74,3 ár. Í tölfræðiárbók stofnunarinnar, sem er 350 blaðsíður að stærð, er að finna ýmsar aðrar athyglisverðar upplýsingar. Frjósemi kvenna er mest í Rúanda þar sem hver kona eignast að meðaltali 8,3 börn. Sjálfsmorð eru sjaldgæfust á Bahamaeyjum, 1,3 fyrir hverja 100.000 íbúa en algengust í Ungverjalandi, 38,2 á hverja 100.000 íbúa. Banaslys í umferðinni eru tíðust í litlu Suður-Ameríkuríki, Súrínam, 33,5 á hverja 100.000 íbúa en fátíðust á Möltu þar sem eru aðeins 1,6 banaslys í umferðinni á hverja 100.000 íbúa.

Nígería gerir manntal

Þann 20. mars 1992 slógu öll helstu dagblöð Nígeríu upp sömu tölu í fyrirsögnum — 88,5 milljónir. Þessi tala, 88.514.501 ef við viljum vera nákvæmir, var sögð vera heildaríbúatala Nígeríu samkvæmt manntali í nóvember 1991. Niðurstöður manntalsins komu á óvart að tvennu leyti. Í fyrsta lagi var skipting kynjanna ólík því sem er hjá mörgum þjóðum því að karlmenn voru lítið eitt fleiri en konur. Í öðru lagi reyndust Nígeríumenn langt innan við þær 100 til 120 milljónir sem talið var út frá spá sem byggð var á síðasta manntali frá 1963. En þótt íbúatalan reyndist yfir 20 af hundraði lægri en almennt hafði verið álitið eru Nígeríumenn eftir sem áður fjölmennasta þjóð Afríku.

„Mikil tortíming“

Jurta- og dýrategundir skipta milljónum. Vísindamenn áætluðu einu sinni að út í gegnum sögu jarðar hafi innan við tíu tegundir dáið út á ári hverju af völdum sjúkdóma, fæðuskorts og ófullnægjandi aðlögunarhæfni. Að sögn upplýsingadeildar Sameinuðu þjóðanna telja vísindamenn að útrýming tegundanna sé hundruð eða jafnvel þúsundum sinnum hraðari núna. Árið 1970 var áætlað að ein tegund dæi út á dag. Árið 1990 var hraðinn kominn upp í eina tegund á klukkustund. Árið 1992 varð ein tegund aldauða á 12 mínútna fresti. Meginorsökin er sú að náttúrleg heimkynni tegundanna hverfa sökum skógaeyðingar, stækkandi borga, aukins búskapar og loft- og vatnsmengunar. Margir umhverfisfræðingar segja að „mikil tortíming“ standi yfir á reikistjörnunni jörð. Dr. Mostafa Tolba, framkvæmdastjóri umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna, segir: „Ef Charles Darwin væri uppi núna myndi hann vafalaust beina rannsóknum sínum að útrýmingu tegundanna en ekki uppruna.“

Erlend aðstoð — hver fær hvað?

Hafa fátækir mikið gagn af erlendri aðstoð? Að því er segir í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, Human Development Report 1992, renna aðeins 27 af hundraði erlendrar aðstoðar til þeirra tíu landa þar sem 72 af hundraði fátækustu íbúa jarðar búa. Ríkustu 40 prósent af íbúum þróunarlandanna fá yfir tvöfalda þá aðstoð sem fátækustu 40 prósentin fá. Þjóðir Suðaustur-Asíu, þar sem nálega helmingur fátækustu íbúa jarðar býr, fá sem svarar 5 bandaríkjadölum á mann í aðstoð. Ríki Miðausturlanda, þar sem þjóðartekur á mann eru þrefalt hærri en í Suðaustur-Asíu, fá sem svarar 55 bandaríkjadölum á mann. Skýrslan bætir við að ríki, sem eyða miklu fé til hermála, fái tvöfalt meiri aðstoð en þau ríki sem eyða hóflegu fé til hermála. Minnst fé (um 7 prósent aðstoðar frá einstökum ríkjum og 10 prósent aðstoðar sem er frá fleiri ríkjum komin) rennur til frumþarfa — til menntamála og heilsugæslu, til að tryggja heilnæmt drykkjarvatn og hreinlæti, til að takmarka fjölskyldustærð og bæta viðurværi.

Umframmjólk hellt niður

Þrátt fyrir alvarlegan matvælaskort hafa mjólkurbú í Suður-Afríku hellt niður milljónum lítra af mjólk undanfarin fimm ár. Yfirstjórn mjólkurbúanna leggur gjald á mjólkurbúin og hefði átt að gera ráðstafanir til að dreifa umframmjólkinni. Úr því að hún hefur ekki gert það spyr einn af yfirmönnum Samtaka suður-afrískra mjólkurdreifenda: „Hvað getum við gert? Við verðum að hella henni niður. Það er engin fjárhagsleg skynsemi í því að spilla okkar eigin mörkuðum með því að gefa mjólkina eða borga fyrir að láta fjarlægja hana.“ Aðrir aðilar hafa á hinn bóginn átalið þessa sóun. Ráð aldraðra segir að mjólkinni sé hellt niður „á sama tíma og milljónir aldraðra Suður-Afríkubúa hafa varla efni á brýnustu lífsnauðsynjum.“

Æfing fyrir heilann

„Heilbrigður heili.“ Þetta eru kjörorð herferðar í Finnlandi sem ætlað er að leggja áherslu á notkun heilans. Forsendurnar eru einfaldar. Því meir sem við notum heilann — með því að íhuga, upphugsa og læra eitthvað nýtt — þeim mun betur starfar hann. „Heilinn býr yfir endalausri hæfni til að leysa vandamál, en því miður notar maðurinn að meðaltali aðeins tíunda hluta af hæfni hans,“ segir Juhani Juntunen sem er framkvæmdastjóri herferðarinnar, en hann starfar sem heilasérfræðingur og spítalastjóri. „Settu heilann í gang og lærðu nýja hluti, þá ræður þú yfir meira hugarafli,“ hvetur hann. Honum gremst það að margir skuli stilla unglingunum á stall en vanmeta hæfni eldra fólks, því hann álítur að heilinn starfi að sumu leyti betur hjá eldra fólki en ungu. „Það er engin tilviljun að gamlir jálkar skuli gegna háu stöðunum,“ segir Juntunen. „Heilinn er kannski tæki sem hrörnar en gamla fólkið er leiknara en unga fólkið í að beita honum.“

Viktoríuvatn í hættu

Viktoríuvatn í Afríku, annað stærsta ferskvatnsstöðuvatn í heimi, er að dauða komið sökum súrefnisskorts, að mati sumra vísindamanna. Svo er að sjá sem mikil gróska í þörungagróðri á vatnsbotninum sé að eyða súrefni úr vatninu. Hver er orsökin? Í einu orði sagt maðurinn, með eyðingu skóga, akuryrkju og offjölgun sinni. Þörungarnir dafna á miklu magni næringarefna sem er í afrennsli af landi, skolpi og viðarreyk. Þar við bætist að fyrir 30 árum ákváðu yfirmenn fiskveiða að efla fiskveiðar með því að flytja Nílar­aborra í vatnið. Aborrinn dafnaði og fiskveiðar jukust eins og áformað hafði verið. Nílaraborrinn át hins vegar smáfiska sem höfðu lengi haldið jafnvægi í vatninu með því að nærast á þörungagróðrinum. Yfir helmingur þessara smáfiskategunda er horfinn. Núna kann aborrinn einnig að vera í hættu sökum ofveiði og súrefnisþurrðar. Um 30 milljónir manna byggja afkomu sína á fiskveiðum í Viktoríuvatni.

Bilið milli ríkra og fátækra breikkar

Bilið milli ríkra og fátækra hefur tvöfaldast síðastliðin 30 ár, að því er segir í Human Development Report 1992 sem gefið er út af Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Árið 1960 var ríkasti fimmtungur jarðarbúa 30 sinnum ríkari en fátækasti fimmtungurinn, miðað við þjóða­meðaltöl. Árið 1989 var munurinn næstum sextugfaldur. Á einstaklingsgrundvelli er ríkasti milljarður jarðarbúa að minnsta kosti 150 sinnum betur settur en fátækasti milljarðurinn.