Mótunarárin — þegar börnin þarfnast þín mest
Mótunarárin — þegar börnin þarfnast þín mest
BÖRN eru kölluð ‚gjöf frá Jehóva.‘ Þau eru sögð vera eins og „teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.“ (Sálmur 127:3; 128:3) Foreldrar eru hvattir til að ‚ala börn sín upp með aga og umvöndun Jehóva.‘ — Efesusbréfið 6:4.
Til að olíutré geti borið góðan ávöxt þarf að móta það meðan það er ‚eins og teinungar umhverfis borð þitt.‘ Tréð vex eins og hinn ungi teinungur er beygður. Ef þú vilt að börnin þín gangi á Guðs vegi er best að byrja fræðsluna sem fyrst. „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ (Orðskviðirnir 22:6; 2. Tímóteusarbréf 3:15) Heili smábarnsins drekkur í sig upplýsingar á ógnarhraða, langtum hraðar en hann á eftir að gera nokkurn tíma síðar á ævinni. Fyrstu æviárin eru því kjörinn tími fyrir þig til að gera þitt besta fyrir börnin.
Masaru Ibuka, stofnandi Sony-fyrirtækisins, skrifaði bók sem hét Kindergarten Is Too Late! (Það er of seint í forskólanum) a Á bókarkápu stóð: „Barnið þitt býr yfir mestri námsgetu fyrstu tvö eða þrjú æviárin. Bíddu þess vegna ekki . . . það er of seint í forskólanum.“
Í formálsorðum bókarinnar segir Glenn Doman, forstöðumaður bandarísku Mannræktarstofnunarinnar, að það séu „engar byltingarkenndar yfirlýsingar gefnar í hinni ágætu og mildu bók Ibuka. Hann kemur einfaldlega fram með þá hugmynd að lítil börn búi yfir hæfni til að læra næstum hvað sem er meðan þau eru lítil. Hann varpar því fram að síðar á ævinni geti þau með herkjum, eða jafnvel alls ekki, lært það sem þau læri án nokkurrar meðvitaðrar viðleitni þegar þau eru tveggja, þriggja eða fjögurra ára gömul. Hann segir að börn læri leikandi létt það sem fullorðnir læri með erfiðismunum. Hann heldur því fram að það sem fullorðnir læra löturhægt læri lítil börn næstum á ofsahraða. Hann segir að fullorðnir forðist stundum að læra en lítil börn vilji frekar læra en borða.“
Ástæðan, sem Ibuka tilgreinir fyrir því að það sé of seint að byrja í forskóla, er sú að þá séu bestu lærdómsár barnsins að baki. En ástæðan er líka önnur. Nú er svo komið að siðferðishrunið nær allt niður í forskólann og áður en barnið fer þangað verða foreldrarnir að innprenta því sterka siðferðisvitund til að vernda það gegn spillingu.
Þessi þörf kemur vel fram í frásögn foreldra sex ára drengs sem var nýbyrjaður í forskóla. „Fyrstu vikuna í skólanum abbaðist annar drengur upp á hann kynferðislega á þeim 15 mínútum sem ferðin með skólavagninum tekur. Þetta hélt áfram í nokkra daga. Þetta var ekki neinn barnaleikur eða læknisleikur heldur óeðlilegt hátterni sem ekki var hægt að villast á.
Foreldrar margra barnanna, sem eru í bekk með syni okkar, taka þau með sér að sjá kvikmyndir sem sýna kynlíf og ofbeldi. Kannski álíta foreldrarnir öruggara að hafa þau meðferðis en að skilja þau eftir í vafasamri umsjá barnapíu. Sum barnanna horfa á kvikmyndir, sem eru bannaðar börnum, í kapalsjónvarpi eða af myndböndum sem foreldrar þeirra eiga heima.
Dag einn átti sér stað hneykslanlegur atburður á okkar eigin heimili sem minnti okkur óþyrmilega á mikilvægi þess að innræta syni okkar góðar siðferðisreglur á mótunarskeiðinu. Við vorum með nokkra fullorðna gesti hjá okkur og ásamt þeim var fjögurra ára telpa. Hún og sonur okkar, sem hafði verið innprentað að kynlíf væri aðeins fyrir fullorðið fólk sem væri hjón, voru í leikherberginu hans. Hún vildi leika það að þau ‚væru saman‘ og sagði að hann ætti að leggjast. Hann gerði það í sakleysi sínu en þá lagðist hún ofan á hann. Hann varð hræddur og hrópaði: ‚Þetta er bara fyrir hjón!‘ Þegar hann sleit sig lausan og hljóp út úr herberginu kallaði hún á eftir honum: ‚Ekki segja neinum!‘“ — SamanberHér fara á eftir nokkrar glefsur er lýsa því sem er að gerast bæði í miðbæjum og útborgum borga víða um lönd — atburðir sem ætti að skýla börnum fyrir allt frá blautu barnsbeini.
Tveir sjö ára drengir voru ákærðir fyrir að nauðga sex ára stúlku á almenningssalerni. Þrír drengir, sex, sjö og níu ára, misnotuðu sex ára stúlku kynferðislega. Átta ára drengur hafði kynvillumök við dreng sem var í forskóla. Ellefu ára drengur var ákærður fyrir að nauðga tveggja ára telpu. Sumir sérfræðingar halda því fram að oft hafi börn, sem fremja slík kynferðisafbrot, sjálf verið misnotuð kynferðislega á unga aldri.
Sú var að minnsta kosti raunin með einn dreng. Tvítug frænka hans notaði hann við munnmök meðan hann var lítið barn. Hann sætti þessari kynferðislegu misnotkun frá eins og hálfs árs aldri til tveggja og hálfs. Tveim eða þrem árum síðar var hann farinn að áreita litlar stúlkur kynferðislega. Hann hélt þessu háttarlagi áfram er hann hóf skólagöngu og var rekinn úr skóla strax í fyrsta bekk og aftur í öðrum bekk.
Fræðslan þarf að byrja snemma
Láti foreldrar undir höfuð leggjast að fræða börnin og aga á mótunarárunum eru þeir þar með að undirbúa jarðveginn fyrir afbrot sem geta síðan verið undanfari alvarlegri glæpa, svo sem skemmdarverka, innbrota og morða. Hér fylgja nokkur dæmi:
Þrír sex ára krakkar umturnuðu heimili leikfélaga síns og ollu stórskemmdum í næstum öllum herbergjum þess. Níu ára skemmdarvargur var ákærður fyrir refsivert tjón auk innbrota, að ógna öðrum dreng með hnífi og kveikja í hári telpu. Tveir 11 ára drengir ráku níu millimetra skammbyssu upp í 10 ára dreng og rændu úrinu hans. Tíu ára strákur skaut sjö ára stúlku til bana út af deilu um myndbandsleik. Annar tíu ára strákur skaut leikfélaga sinn og faldi svo líkið undir húsinu. Fimm ára snáði hrinti smábarni ofan af sjöttu hæð í stigagangi svo að það beið bana. Ásamt tveim unglingum rændi 13 ára strákur 7 ára dreng í þeim tilgangi að hafa peninga af fjölskyldu hans en áður en þeir hringdu til foreldranna til að krefjast lausnargjalds voru þeir búnir að grafa drenginn lifandi.
Að síðustu skulum við svo nefna óaldarflokka unglinga sem bera ýmiss konar skotvopn og heyja götubardaga og drepa ekki bara hver annan heldur líka saklaus börn og fullorðna
sem eru svo óheppnir að lenda í kúlnahríðinni. Þeir valda ótta og skelfingu í mörgum hverfum stórborganna — aðeins á Los Angelessvæðinu er „vitað um yfir 800 flokka með ríflega 100.000 unglingum.“ (Seventeen, ágúst 1991) Margir koma frá sundruðum heimilum. Óaldarflokkurinn verður fjölskylda þeirra. Margir hafna í fangelsi. Margir hafna í gröfinni. Eftirfarandi glefsur úr þrem bréfum skrifuðum í fangelsi eru dæmigerðar.Í fyrsta bréfinu segir: ‚Ég sit í unglingafangelsi fyrir ránstilraun. Við vorum fjórir. Löggan kom. Tveir af strákunum hlupu í aðra áttina, ég og félagi minn í hina, en ekki nógu hratt til komast undan lögguhundunum. Þegar ég slepp út vona ég að einhvern tíma rætist úr mér. Mér fannst alltaf erfitt að ganga í skóla og fá góðar einkunnir en þú lendir, vinur, í engu eins erfiðu og að afplána fangelsisdóm!‘
Í öðru bréfi stóð: ‚Ég var aðeins átta ára þegar ég kom frá Mexíkó. Ég var kominn í óaldarflokk þegar ég var 12 ára og 15 ára var ég kominn í þetta upp fyrir haus. Ég gerði mikið af því að skjóta á fólk úr bíl. Ég var alltaf með byssuna tiltæka. Ég varð fyrir skoti 16 ára gamall og dó næstum. Og ég þakka Drottni að hann skyldi ekki vilja mig þá vegna þess að ég var alls ekki tilbúinn að fara til hans. Ég er með skotgöt í báðum fótleggjum. Ég vil eindregið ráðleggja þér að koma ekki nærri óaldarflokki, annars fer fyrir þér eins og mér: einn og yfirgefinn og lemstraður í fangelsi!‘
Í þriðja bréfinu segir: ‚Ég hef verið kunnur félagi í óaldarflokki síðan ég var 11 ára. Ég hef verið stunginn fjórum sinnum, orðið þrisvar fyrir skoti og verið lúbarinn og settur í fangelsi svo oft að ég hef ekki tölu á því. Það eina sem ég á eftir er að deyja, en ég hef átt von á því síðan ég var 13 ára og nú er ég 16. Ég er að afplána átta mánaða dóm núna og ég verð ábyggilega dauður eftir tvö ár. Maður getur komist hjá þessu öllu með því að ganga aldrei í óaldarflokk.‘
Gríptu tækifærið meðan það gefst
Þessi dæmi eru að sjálfsögðu ekki nefnd til að halda því fram að börnin hljóti óhjákvæmilega að leiðast út á glapstigu sé uppeldi þeirra ekki sinnt sem skyldi á mótunarárunum. Ljóst er þó að það getur leitt til óæskilegrar hegðunar sem getur síðan stigmagnast upp í misferli, og sé ekki gripið í taumana getur slíkt misferli áður en varir leitt þau út á alvarlega glæpabraut, í fangelsi eða jafnvel út í dauðann.
Það er mun auðveldara að stöðva slíkar tilhneigingar í börnum sínum áður en þau komast á unglingsaldur en eftir. Tíminn til að hefjast handa er í rauninni áður en þau ná skólaaldri, á þessu mótunarskeiði þegar þú hefur þau að mestu leyti út af fyrir þig, áður en utanaðkomandi áhrif eru farin að keppa við þig um athygli þeirra. Ef þú hefur ekki átt náin tengsl við þau frá blautu barnsbeini er óvíst að þau leyfi þér að komast nærri sér á táningaárunum. Þá gætir þú uppgötvað að félagarnir séu komnir í staðinn fyrir þig. Þær ráðleggirnar sem foreldrar fá eru því þessar: Vanrækið ekki börnin ykkar á þessum mótunarárum þegar viðleitni ykkar til að gera ykkar besta fyrir þau mun bera hvað bestan ávöxt, ykkur og þeim til blessunar. — Samanber Matteus 7:16-20.
[Neðanmáls]
a Í bók sinni miðar hann við forskóla sem er eins árs undirbúningsskóli áður en regluleg skólaganga hefst við 5, 6 eða 7 ára aldur.