Vatn sem drepur
Vatn sem drepur
VÍSINDAMENN við Mayor de San Marcos-háskólann í Perú hafa rannsakað 30 vatnssýni frá opinberum byggingum og íbúðarhúsum í höfuðborginni Lima. Að sögn tímaritsins Visión, sem gefið er út í Rómönsku Ameríku, var mikil gerla- og saurmengun í 29 sýnum. Aðeins eitt sýnanna var neysluhæft.
Heilbrigðisráðuneyti Perú hefur komist að þeirri niðurstöðu að helmingur alls vatns, sem Limabúar neyta, geti borið með sér „blóðsótt, taugaveiki, lifrarbólgu, kóleru og aðra iðrasjúkdóma.“ Á tímabilinu janúar til apríl 1991 sýktust um 150.000 manns og 1100 létust í sérlega alvarlegum kólerufaraldri í Perú.
Almennt er mælt með að vandinn sé leystur með því að sjóða neysluvatn nógu lengi til að drepa smitberana. Það er hins vegar hægara sagt en gert. Visión nefnir að fyrir „margar fjölskyldur sé það nánst hreinn munaður að sjóða vatn í tíu mínútur vegna þess að steinolía kostar meira en einn dollar hvert gallon“ sem er stór hundraðshluti meðalvikulauna.
Mengað drykkjarvatn er alls ekki takmarkað við fátæku ríkin í heiminum. Að sögn dagblaðsins The New York Times er „áætlað að [í Bandaríkjunum] neyti yfir 250.000 börn svo mikils blýs með drykkjarvatni ár hvert að það geti tálmað hugar- og líkamsþroska þeirra.“ Og í Evrópu hafa menn vaxandi áhyggjur af mengun áa og fljóta. Tímaritið New Scientist segir að „verulegur hluti neysluvatns Evrópubúa komi frá jarðlögum sem sé hætt við alvarlegri málm- og efnamengun.“
Í Opinberunarbókinni 14:7 talar Biblían um að Jehóva sé sá er „gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“ Hann hefur líka mátt til að breyta beisku og menguðu vatni í sætt og hreint vatn. (2. Mósebók 15:22-25; 2. Konungabók 2:19-22) Það mun hann gera á heimsmælikvarða eftir að hann hefur eytt þeim sem eru núna að eyða jörðina. — Opinberunarbókin 11:18.