Öfgalaust viðhorf til skemmtunar
Öfgalaust viðhorf til skemmtunar
„VINNA er góð, svo framarlega sem maður gleymir ekki að lifa,“ segir afrískt máltæki. Það er mikill sannleikur í þessum orðum því að margir eru svo uppteknir af vinnu að þeir ‚gleyma að lifa.‘ Þeir gera sig að vinnufíklum og hugsa varla um annað en vinnu og aftur vinnu.
Lítum til dæmis á vandamál sem komið hefur upp í Japan, landi sem er þekkt fyrir strangt vinnusiðferði. Oft er til þess ætlast að starfsmenn vinni yfirvinnu öll kvöld og helgar. Kanadíska fréttatímaritið Maclean’s segir að japanskir launamenn skili að meðaltali 2088 vinnustundum á ári en kanadískir launamenn aftur á móti 1654 vinnustundum. Síðan segir blaðið: „Japönsk fyrirtæki eiga við sérkennilegt vandamál að stríða: sumir starfsmenn verða fyrir karoshi, deyja úr ofþreytu. Dagblöð sögðu frá mönnum milli fertugs og fimmtugs sem fengu hjartaáföll eða slag eftir að hafa unnið 100 daga í einni lotu án þess að eiga nokkurn frídag.“ Japanska atvinnumálaráðuneytið þurfti jafnvel að leggja út í auglýsingaherferð með grípandi slagorðum í því skyni að hvetja fólk til að taka sér frí um helgar og slaka á. Þetta er harla ólíkt Vesturlöndum þar sem þarf að tala fólk til svo að það fáist til að vinna fulla vinnuviku!
Kostir afþreyingar
Sérfræðingar líta yfirleitt á vinnufíkn sem sjúkdóm, ekki dyggð, og það með réttu. Bæði börn og fullorðnir þurfa að leika sér, fá afþreyingu. Hvers vegna? Hvað hefur fólk út úr tómstundagamni? Kennslubók um þetta efni telur upp eftirfarandi: „Sjálfstjáning, félagsskapur, samhæfing huga og líkama, heilbrigði, nauðsynlegur hrynjandi eða mótvægi við stranga vinnuáætlun, hvíld og slökun, tækifæri til að reyna eitthvað nýtt, kynnast nýju fólki, byggja upp vináttubönd, treysta fjölskylduböndin, komast í snertingu við náttúruna, . . . og hreinlega að láta sér líða vel án þess að velta fyrir sér hver ástæðan sé. Allt er þetta gagn sem fólk hefur af tómstundum sínum.“
Félagsfræðingar hafa skrifað margar bækur um tómstundir og afþreyingu og eru sammála um að frístundir séu nauðsynlegar bæði einstaklingnum og samfélaginu. En auðvitað skilur enginn mannlegt eðli betur en skapari mannkynsins. Hvaða álit ætli hann hafi á málinu?
Ólíkt því sem sumir virðast halda hefur Biblían alls ekkert á móti skemmtun og afþreyingu. Hún segir okkur að Jehóva sé hamingjusamur Guð og vilji að þjónar hans séu það líka. (Sálmur 144:15b; 1. Tímóteusarbréf 1:11) Í Prédikaranum 3:1-4 lesum við að það ‚að hlæja hafi sinn tíma‘ og ‚að dansa hafi sinn tíma.‘ Hebreska orðið, sem hér er þýtt „hlæja,“ er skylt orðum sem merkja „leikur.“ Sama biblíubók segir okkur að það sé „ekkert betra til með mönnum en að eta og drekka og láta sálu sína njóta fagnaðar af striti sínu.“ — Prédikarinn 2:24.
Ein af algengari frístundaiðkunum fólks nú á tímum er að slaka á og njóta þess að horfa á aðra sýna listir sínar og hæfni. Það er heldur engin nýlunda. Biblían sýnir að um þúsundir ára hafa menn haft yndi af því að horfa á aðra dansa, syngja, leika á hljóðfæri eða keppa í íþróttum.
Sem afþreying getur skemmtun gert okkur mjög gott. Hver hefur ekki einhverja ánægju af því að að sjá færan íþróttamann leika listir sínar, horfa á ballettdansmey svífa með tignarlegum hreyfingum, sitja spenntur á sætisbrúninni og horfa á góða og heilbrigða ævintýramynd eða hlusta á létta og dillandi laglínu sem ómar í huganum löngu eftir að laginu er lokið? Og vafalaust hafa flest okkar notið þess að slaka á yfir góðri bók og fletta æ hraðar eftir því sem við sökkvum okkur meir niður í vel skrifaða sögu.
Skemmtun af þessu tagi getur hjálpað okkur að slaka á, og meira en það. Hún getur líka örvað okkur, upplífgað okkur, snortið hjartað, komið okkur til að hlæja — og jafnvel upplýst okkur. Við getum til dæmis lært töluvert um mannlegt eðli af bókmenntum. Íslendingasögurnar og verk Shakespeares eru gott dæmi um það.
Hætturnar samfara skemmtun
Öfgalaust viðhorf til skemmtiefnis nútímans kallar samt sem áður á að við viðurkennum hætturnar jafnt sem kostina. Margt hefur verið sagt um spillandi áhrif skemmtiefnis, en almennt má skipta hættunum í tvo almenna flokka: magn og gæði — hið mikla framboð skemmtiefnis og svo innihald þess. Athugum fyrst gæðin.
Við lifum erfiða tíma sem Biblían kallar „örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Það kemur ekki á óvart að skemmtiefni nútímans skuli endurspegla tíðarandann, oft ljótustu hliðarnar. Hrottalegt ofbeldi, óskammfeilið siðleysi og lægstu hvatir mannsins — svo sem kynþáttahatur — hefur allt smeygt sér inn í vinsælt skemmtiefni og mengað það í mismiklum mæli. Þegar öfgarnar eru mestar er það sem ætti að vera skemmtiefni lítið annað en klám og sori. Skoðum fáein dæmi.
Kvikmyndir: Þrír þeirra manna, sem tilnefndir voru á síðasta ári til mestu heiðursverðlauna Hollywood, óskarsverðlaunanna sem „besti leikarinn,“ höfðu leikið siðblinda morðingja og morðin voru öll sýnd í smáatriðum á hvíta tjaldinu. Sagt er að einn þeirra bíti stykki úr andliti konu um leið og hann nauðgar henni. Ein af arðsömustu kvikmyndum síðasta árs hét Basic Instinct (Ógnareðli). Ef marka má umsagnir blaða er vægt að orði kveðið með þessu heiti. Myndin hefst á djörfu kynlífsatriði þar sem kona stingur bundinn elskhuga sinn aftur og aftur með oddhvössum klakabrjót og slettir blóði yfir sig alla.
Tónlist: Bæði rapp og þungarokk hafa sætt vaxandi gagnrýni undanfarið af svipuðum orsökum. Kynferðisleg misnotkun og niðurlæging kvenna, ofbeldi og hatur gagnvart ýmsum kynþáttum og lögreglunni og jafnvel Satansdýrkun er allt að finna lofsungið í rapptónlist og þungarokki. Sums staðar verður að setja aðvörunarmiða á hljómplötur með slíku efni. En eins og rapptónlistarmaðurinn Ice-T er sagður hafa viðurkennt hefur hann hneykslanlega texta við lögin sín eingöngu til að verðskulda slíka aðvörun; það er örugg tálbeita fyrir hina forvitnu. Rokkstjarnan Prince lofsöng sifjaspell milli systkina. Oft bæta tónlistarmyndböndin einfaldlega nýrri vídd við gróft siðleysi af þessu tagi. Tónlistarmyndband poppstjörnunnar Madonnu, Justify My Love, varð illræmt fyrir að sýna kvalalosta, sjálfspíslarhvöt og kynvilluathafnir. Jafnvel MTV, bandarísk sjónvarpsstöð, sem þekkt er fyrir að sýna við og við siðlaus myndbönd án þess að víla það fyrir sér, neitaði að sýna það.
Bækur: Lítum á nokkur dæmi sem tínd eru saman úr nýlegum ritdómum um bandarískar bækur. American Psycho lýsir í smáatriðum hryllingsverkum fjöldamorðingja sem notar lík fórnarlamba sinna til óhugnanlegustu athafna. Meðal annars stundar hann mannát. Vox snýst í kringum eitt langt símtal karls og konu sem hafa aldrei hist en örva hvort annað kynferðislega með kynæsandi tali. Raptor lýsir grófum kynlífsævintýrum tveggja tvíkynjunga á sjöttu öld. (Tvíkynjungar hafa einkenni beggja kynja.)
Ástarsögur aðhyllast yfirleitt og dásama hjúskaparbrot og saurlifnað. Myndasögubækur, sem einu sinni voru tiltölulega meinlaust barnaefni, innihalda nú oft kynlífsatriði, ofbeldi og eru iðulega með dulspekilegu ívafi.Íþróttir: Kröfum um að hnefaleikar séu bannaðir er enn haldið á lofti. Enda þótt sýnt hafi verið fram á að sérhvert rothögg valdi óbætanlegum heilaskemmdum lokka há þóknun og áhorfendur í milljónatali hnefaleikamenn í hringinn aftur og aftur. Hnefaleikamenn hafa bókstaflega verið barðir í hel í hundraðatali.
Í sumum íþróttagreinum er dánartíðnin jafnvel enn hærri. Fréttir af því að ofbeldi hafi blossað upp á íþróttavöllum eða meðal áhorfenda eru ekki óalgengar. Uppþot af völdum þjóðernishyggju eða misskilins „stuðningsanda“ hafa kostað hundruð manna lífið á íþróttaleikvöngum víða um heim. Nautaat, sem þýska vikuritið Die Zeit kallar „sennilega óþverralegustu íþróttagrein sem hefur haldið velli fram á okkar daga,“ hefur nýverið átt stórauknum vinsældum að fagna á Spáni og í Suður-Frakklandi. Eftir að naut rak hinn fræga, 21 árs gamla nautabana José Cubero í gegn í hjartastað, var hann borinn í líkkistu sinni um nautaatsvöll í Madrid þar sem 15.000 aðdáendur hylltu hina föllnu hetju. Sjónvarpsupptaka af dauða hans var sýnd aftur og aftur í spænsku sjónvarpi.
Hér hefur að sjálfsögðu verið stiklað á ýmsum öfgum og þær merkja svo sannarlega ekki að allt skemmtiefni í sumum þessara flokka sé skaðlegt. En öfgalaust viðhorf til skemmtunar útheimtir að við viðurkennum að þessar öfgar eru til og eru vinsælar. Hvers vegna? Nú, hefur þú nokkurn tíma veitt athygli að það sem fólki fannst öfgafullt fyrir nokkrum árum virðist ósköp venjulegt núna? Menn venjast öfgunum smám saman og hætta að kippa sér upp við þær. Hverju ætlar þú að venjast?
Spurningin um magn
Jafnvel þótt allt skemmtiefni væri algerlega skaðlaust er magnið eftir sem áður gríðarlegt. Skemmtanaiðnaðurinn er óhemjuafkastamikill. Á Íslandi komu til dæmis út rúmlega 900 bókatitlar árið 1990. Ef þú læsir eina bók á dag tæki það þig tvö og hálft ár að lesa allan þann bókakost sem kemur út á einu ári hér á landi. Ef þú byggir í Danmörku tæki það þig næstum 30 ár að komast yfir þær 10.000 bækur sem koma út árlega þar í landi; í Bandaríkjunum dygðu þér ekki færri en 300 ár því þar eru gefnir út yfir 110.000 bókatitlar á ári! Bandaríski kvikmyndaiðnaðurinn framleiðir nokkuð yfir 400 kvikmyndir á ári. Þær eru fluttar inn til fjölmargra landa sem framleiða auk þess eigin kvikmyndir. Indverjar framleiða til dæmis hundruð kvikmynda á ári. Og hver getur komið tölu á allar þær hljómplötur, geisladiska og hljóðsnældur sem koma út á hverju ári? Svo er það sjónvarpið.
Í sumum hinna þróuðu landa er hægt að velja milli sjónvarpsrása í tugatali — kapalstöðva, gervihnattasjónvarps og svo venjulegra útsendinga. Það þýðir að skemmtiefni getur streymt linnulaust inn á heimilið allan sólarhringinn. Íþróttir, tónlist, leikrit, gamanþættir, vísindaskáldskapur, samræðuþættir og kvikmyndir er allt innan seilingar — það þarf ekki annað en að þrýsta á hnapp. Með hjálp myndbandstækjanna hafa menn svo aðgang að þúsundum kvikmynda, aragrúa kennslumyndbanda, tónlistarmyndbanda og jafnvel fræðslumyndbanda um náttúru, mannkynssögu og vísindi.
En hvernig er hægt að finna tíma fyrir allt þetta skemmtiefni? Tæknin hefur fært okkur skemmtiefni sem er alltaf innan seilingar — reyndu að ímynda þér hve steini lostinn Mozart yrði ef hann gæti heyrt einhverja af sinfóníum sínum leikna í víðómi á ferðahljómflutningstæki! Tæknin getur hins vegar ekki búið til þann tíma sem þarf til að njóta allrar þessarar skemmtunar. Í mörgum mjög tæknivæddum löndum hefur meira að segja frekar dregið úr frístundum fólks en hitt.
Ef við gætum okkar ekki getur skemmtiefni hæglega gleypt allar frístundir okkar. Og við ættum að muna að skemmtun af þessu tagi er aðeins ein tegund afþreyingar, og krefst yfirleitt engrar þátttöku af okkar hálfu. Flest þurfum við líka að komast út undir bert loft og hreyfa okkur, að vera þátttakendur í stað þess að sitja kyrr og láta aðra sjá um skemmtunina. Við þurfum að fara í gönguferðir, njóta félagsskapar góðra vina og taka þátt í leikjum.
Ef það eru mistök að láta skemmtun gleypa allar frístundir okkar er enn alvarlegra að láta hana gleypa þann tíma sem ætti að vera helgaður æðri skyldum, svo sem gagnvart skapara okkar, fjölskyldu, vinnu og vinum! Það er því alger nauðsyn fyrir okkur að hafa öfgalaust viðhorf til skemmtunar! Hvernig göngum við úr skugga um hvaða skemmtun er skaðleg fyrir okkur og hve mikið er of mikið?
[Mynd á blaðsíðu 17]
Sumt skemmtiefni getur snert hjartað og upplýst okkur.