Hvaða breytingum hefur heimurinn tekið?
Hvaða breytingum hefur heimurinn tekið?
HEFUR heimurinn, eins og þú þekkir hann, breyst? Gríski heimspekingurinn Heracleitos sagði: „Ekkert er varanlegt nema breytingarnar.“ Breytingar eru fastur þáttur í lífi okkar allra.
Hvaða breytingar hefur þú séð ef þú lítur um öxl yfir síðustu 10, 20, 30 eða fleiri ár? Kannski hefur þú séð breytingar í formi nýjunga og hvarfi gamalgróinna lífsgilda. Vafalaust þykja þér sumar breytingarnar vera til góðs en aðrar til ills.
Ef þú ert kominn yfir sjötugt hefur þú séð margt breytast frá því sem var á uppvaxtarárum þínum. Þú manst þá tíma þegar sjónvarpið var ekki til og flugvélarnar snigluðust áfram á 150 kílómetra hraða miðað við klukkustund, þegar millilandaferðir voru aðallega farnar sjóleiðina, fíkniefnanotkun takmarkaðist við ópíumbælin og bílar voru sjaldséðir. Já, heimurinn hefur svo sannarlega breyst.
Hið breytta neysluþjóðfélag
En menn þurfa ekki að vera komnir á sjötugsaldur til að hafa séð heiminn taka breytingum. Fyrir aðeins 45 árum voru vestrænar vörur og kunnátta allsráðandi á heimsmörkuðum. Núna hafa ríki Suðaustur-Asíu tekið forystuna í framleiðslu bifreiða, tölva, ljósmyndavéla, sjónvarpstækja og margs konar raftækja.
Þessi breyting kom vel fram í máli víðföruls Kínverja sem sagði í viðtali við Vaknið!: „Fyrir aðeins 30 eða 40 árum var það draumur hins dæmigerða Kínverja að eignast reiðhjól og saumavél. Þau voru stöðutákn þess tíma. Núna er draumurinn að eignast litsjónvarpstæki, myndbandstæki, kæliskáp og vélhjól.“ Kröfur og smekkur neysluþjóðfélagsins, jafnt í Kína sem annars staðar, hefur breyst.
Víða um lönd hefur þessi viðhorfsbreyting haldist í hendur við bættan efnahag. Pedro, liðlega fertugur Katalóníumaður, segir: „Fyrir 30 árum var það keppikefli manna á Spáni að eignast að minnsta kosti Seat [Fiat] 600. Núna er það draumur Spánverja að eignast þýskan BMW!“ Jagdish Patel, sem búsettur er í Bandaríkjunum, segir um ferð sem hann fór nýverið til heimalands síns, Indlands: „Það kom mér á óvart að sjá alla bílana á vegum Indlands. Enn má sjá gömlu Hindustan-farartækin á þjóðvegunum en núna eru líka á ferðinni nútímabílar, létt bifhjól og vélhjól sem eru framleidd á Indlandi með leyfi erlendra fyrirtækja.“
Breytingar á vettvangi vísindanna
Ekki eru meira en 25 ár síðan margir litu á tunglið sem hrífandi leyndardóm. Nú hafa menn hins vegar skilið eftir fótspor sín á tunglinu, sett upp mælitæki í framandi landslagi þess og tekið heim með sér grjót til rannsókna. Ferðir bandarísku geimskutlunnar eru orðnar fastur þáttur tilverunnar og þarlendir vísindamenn tala um að setja upp varanlega geimstöð og senda leiðangur til Mars.
Hafði nokkur heyrt minnst á alnæmi fyrir 15 árum? Núna er sjúkdómurinn orðinn heimsplága og milljónir manna óttast smit.
Pólitískar breytingar
Aðeins rúm fjögur ár eru liðin síðan múr, sem virtist órjúfanlegur, skipti Berlín í tvennt. Þá voru til hin kommúnísku Sovétríki og kalda stríðið. Núna hefur Berlín verið valin höfuðborg
sameinaðs Þýskalands og 11 af 15 fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna hafa myndað Samveldi sjálfstæðra ríkja.Fyrir aðeins fáeinum árum voru Sameinuðu þjóðirnar fyrst og fremst baráttuvettvangur auðvaldsaflanna og hinna kommúnísku þjóðafylkinga. Hin svonefndu óháðu ríki fylgdust með átökunum úr fjarlægð en forðuðust að skipa sér eindregið með öðrum hvorum aðilanum. Núna tala þjóðir austurs og vesturs um frið og öryggi og Sameinuðu þjóðirnar eru farnar að láta skína meira í tennurnar. Þær geta sent herlið til átakasvæða hvarvetna í heiminum. Fyrir þrem árum voru til ríki sem hétu Júgóslavía og Tékkóslóvakía. Núna eru þau bæði klofin í smærri, sjálfstæð ríki.
Hafa allar þessar breytingar fært heiminn umtalsvert nær ósviknum friði, réttlæti og sanngjarnri skiptingu matvæla og auðlinda? Er heimurinn orðinn siðmenntaðri en hann var? Er hægt að ganga um götur án þess að óttast afbrotamenn? Höfum við lært nógu mikið til að hætta að hata hvert annað út af kynþætti, trú, stjórnmálaafstöðu, lífsháttum eða tungumáli? Hafa breytingarnar haft í för með sér raunverulegar framfarir fyrir mannkynið í heild og fyrir heimili okkar, jörðina? Hvert stefnum við? Í greinunum á eftir munum við kanna þessi mál og fleiri.