Lokkandi heimur skemmtanalífsins
Lokkandi heimur skemmtanalífsins
HOLLYWOOD! Hvar sem þú býrð í heiminum setur þú þetta nafn sennilega í samband við kvikmyndir og skemmtanir. Þessi útborg Los Angeles í Kaliforníu er stundum kölluð glysborgin eða heimshöfuðborg skemmtanalífsins. Í hugum margra eru Hollywood og skemmtanaiðnaður nánast samheiti. Hún virðist svo sannarlega hjúpuð töfraljóma, heimsmiðstöð óhóflegrar sýndarmennsku. Eins og rithöfundur sagði: „Ímynd Hollywood sem framleiðanda glitrandi kvikmyndadrauma er orðin heimsþekkt.“
Skemmtanaiðnaðurinn er stór í sniðum
En það er ekki aðeins ímynd Hollywood sem er heimsþekkt. „Hollywood“ er líka umfangsmikill útflutningsiðnaður sem nær til allra heimshorna. Að sögn tímaritsins Time er skemmtiefni önnur mesta útflutningsvara Bandaríkjanna á eftir flugvélum og geimtæknibúnaði. Skemmtanaiðnaðurinn rakar saman hundruðum milljarða Bandaríkjadala á ári og verulegur hluti — um 20 af hundraði — kemur frá öðrum löndum.
Bandaríkin taka til sín 35 af hundraði tekna af bókamörkuðum heims, 50 af hundraði tekna af tónlist, 55 af hundraði tekna kvikmynda- og myndbandamarkaðarins og 75 til 85 af hundraði tekna af sjónvarpsefni.
Í skiptum fyrir þessar gríðarlegu fúlgur sér Hollywood um að skemmta heiminum. Ekki svo að skilja að heimurinn sé alltaf ánægður með það — ófáar þjóðir nöldra gremjulega yfir heimsvaldastefnu Bandaríkjamanna í menningarmálum þegar æskan tekur amerískar glansmyndir fram yfir þjóðlegar listir og venjur. Reyndar er það ekki svo að allt skemmtiefni komi frá Bandaríkjunum því að margar þjóðir hafa eigin skemmtanaiðnað sem býður upp á kvikmyndir, sjónvarp, tónlist, bækur, íþróttir og fleira.
Skemmtiefni er auðfengið nú á dögum
Óháð því hver skemmtir heiminum eða hver ætti að gera það er athyglisvert hve auðfengið og aðgengilegt skemmtiefni er orðið. Svo mikið er í boði núna að það er einna líkast því að bylting hafi orðið. Hve mikla möguleika hefðir þú haft á því fyrir einni öld að sjá eða heyra æfðan og hæfileikaríkan listamann koma fram? Jafnvel þótt þú hefðir búið í einhverju af auðugustu löndum heims hefðir þú sennilega verið í skemmtanasvelti í augum margra af núlifandi kynslóð. Til dæmis hefðir þú þurft að leggja það á þig að fara í óperuhúsið eða á sinfóníutónleika. Núna nægir okkur lítið ferðatæki til að hlusta á hvaða tónlist sem til er og við getum hent okkur niður í stofusófann, þrýst á hnapp og látið nánast hvaða skemmtiefni sem hugsast getur flæða yfir okkur.
Fjölmörg heimili í iðnríkjum heims eru búin að minnsta kosti einu sjónvarpstæki, myndbandstæki, geislaspilara eða segulbandstæki, auk annarra raftækja. Í uppvaxtarumhverfi sumra barna eru sjónvarpsskjáir næstum jafnalgengir og speglar. Í þróunarlöndunum er algengt að þorp eða bæjarhverfi hafi sérstaka sjónvarpsmiðstöð þar sem fólk safnast saman á kvöldin til að horfa á skemmtiefni. Mannkynið er orðið einn allsherjar sjónvarpsfíkill. Skemmtiefni fyllir æ fleiri frístundir hjá fólki.
Er eitthvað athugavert við það? Hefur skemmtiefni nútímans einhverjar hættur í för með sér eða er skemmtiefnið einungis orðið svo mikið að það er orðið erfitt að velja úr? Við skulum skoða öfgalaust hinn lokkandi heim skemmtanalífsins.