Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fyrst ég lagði af geta allir gert það!

Fyrst ég lagði af geta allir gert það!

Fyrst ég lagði af geta allir gert það!

Hefur þú óbeit á baðvoginni? Ég hafði það. Ég man að ég starði á hana með hryllingi í fyrra er vísirinn steig hærra en nokkru sinni fyrr — í næstum 110 kílógrömm. Ég hugsaði með mér: ‚Ég er þyngri en þungaviktarheimsmeistarinn í hnefaleikum og þyngri en margir atvinnumenn í amerískum fótbolta. Þetta er ekki bara fáránlegt. Þetta er að verða hættulegt!‘

Ef til vill þekkir þú einhvern eins og mig — skrifstofumann sem er að nálgast miðjan aldur, var athafnasamur í æsku en nú gefinn fyrir slitróttar æfingar milli langra tarna í dagblaðalestri. Blóðþrýstingurinn hár, kólesteról í blóði „nokkuð“ mikið, 20 kílógrömmum of þungur og enn á þeirri skoðun að ástandið sé ekki svo alvarlegt.

Ástandið er samt alvarlegt. Daglega deyr fólk eins og ég af völdum hjartaáfalla — fjöldinn allur fær hjartaáfall. Ég gæti bent á tölfræðilegar upplýsingar um hætturnar samfara hverju aukakílói, en vandinn er ekki tölfræðilegur. Hann er, hreint út sagt, ekkjur og munaðarleysingjar. Vandinn er börn, eins og litlu stelpurnar mínar tvær, sem vaxa úr grasi án pabba síns.

Hugleiðið það, pabbar.

Þegar ég hafði ákveðið að grenna mig minntist ég þeirra frábæru upplýsinga sem er að finna í greinaröðinni: „Er baráttan við aukakílóin vonlaus?“ í janúar-mars tölublaði Vaknið! 1990 — sérstaklega ‚fjögurra sigurvænlegra ráða‘ í baráttunni við bumbuna. Þau eru: (1) rétt fæða, (2) á réttum tíma, (3) í réttu magni og (4) með réttri hreyfingu.

Þessar ráðleggingar hrífa! Ég losnaði við 30 kílógrömm með því að fylgja þeim, og þú getur líka grennst. Í leiðinni lærði ég ýmislegt sem gæti komið þér að gagni.

Megrunin hefst á milli eyrnanna

Flest okkar sem erum of þung söfnuðum aukakílóunum hægt, nokkrum á ári. Það byrjaði gjarnan á fertugsaldrinum. Við fórum af og til í megrun og losnuðum við nokkur kíló, aðeins til að fá þau aftur með vöxtum. Þegar það henti mig hafði það í för með sér einhvers konar áunnið úrræðaleysi — ég fékk á tilfinninguna að engin ráð dygðu, svo hvers vegna að vera að reyna?

Leiðin til að brjótast út úr þessu áunna úrræðaleysi er að hefja megrunina, ekki um mittismálið heldur á milli eyrnanna, með því að breyta því hvernig þú hugsar um mat. Það getur kostað þig að horfast í augu við ýmsar grimmilegar staðreyndir, en án þess er megrunin líklega dauðadæmd frá upphafi.

Það sem opnaði augu mín var að halda bókhald yfir allt sem ég át og drakk í eina viku. Ég borðaði að vísu hóflega á flestum matartímum en stöðugt nart á kvöldin gerði að engu það gagn sem mér kann að hafa tekist að gera með sjálfstjórn yfir daginn. Ég varð steinhissa þegar ég tók saman hitaeiningarnar í ostinum, hnetunum, hnetusmjörinu og smákökunum sem ég lét ofan í mig eftir kvöldmat. Og það sem verra var, þetta nasl var fullt af fitu og sykri. Enginn megrunarkúr kæmi að gagni fyrir mig nema kvöldnaslið væri tekið úr umferð. Hljómar þetta kunnuglega?

Næsta sársaukafulla uppgötvunin sem ég gerði var að ég myndi ekki léttast og halda mér þannig nema ég hætti alveg að neyta áfengra drykkja. Áfengi er ekki bara hitaeiningaríkt og breytist auðveldlega í fitu, heldur þarf ekki meira en eitt vínglas að kvöldi til að veikja sjálfstjórn mína og ásetning um að narta ekkert. Vínglas er ekki bara vínglas. Fyrir mig má segja að það sé líka sex smákökur og skál af hnetum! Ég komst að raun um að jurtate getur verið ágætur staðgengill. Jafnvel núna, er ég hef náð markþyngd minni, drekk ég minna áfengi en áður.

Þetta heiðarlega mat sannfærði mig um gildi tveggja viðmiðunarreglna í megrunarkúrnum:

1. Forðastu allt nart á kvöldin.

2. Forðastu allt áfengi.

Þekktu megrunarspillana

Frakkar eiga sér málshátt, En mangeant, l’appetit vient, sem þýðir að því meira svengir sem etur. Þetta er bókstaflega reynsla margra okkar. Við erum ef til vill ekki svöng er við setjumst að borði með uppáhaldsréttinum okkar en það gerist eitthvað þegar við byrjum að borða og allt í einu erum við orðin glorsoltin. Við troðum því í okkur þar til allur maturinn er búinn, eða kvalinn maginn í okkur biðst vægðar eftir fjóra skammta. Hvað gerðist?

Hjá mér var vandamálið brauð, sérstaklega heimabakað brauð. Elskuleg eiginkona mín, sem bakar svo ljúffeng brauð, þurfti að hætta bakstri um tíma. Það eru nú takmörk fyrir því hve mikla freistingu maðurinn getur staðist! Þitt vandamál gæti verið súkkulaði eða eitthvað annað. Aðalatriðið er að þekkja óvin sinn. Búðu til lista yfir fæðutegundir sem gera þig soltinn þegar þú borðar þær, og forðastu þær. Það er um nóg annað að velja. Ég komst að raun um að salöt og gufusoðið grænmeti bragðast vel og seðja mig án þess að vekja hjá mér græðgi í meira.

Að komast yfir örðugasta hjallann

Jójó-megrun, það að léttast og þyngjast strax aftur, er leikur flónsins og þjónar engum tilgangi öðrum en að mata krókinn hjá megrunarmöngurunum sem blómstra í flestum vestrænum iðnríkjum. Þar sem ég hafði tekið út minn skammt af jójó-megrun var ég ákveðinn í að í þetta sinn yrði það öðruvísi. En hvernig?

Ekki skammast þín fyrir að biðja um hjálp. Talaðu við lækninn þinn. Finndu fólk sem mun hrósa þér og verðlauna í hverri viku meðan þú ert að losna við kílóin. Það gæti verið vinur sem er líka í megrun, fjölskyldumeðlimur eða fólk á virtri megrunarmiðstöð. Samvinna og stuðningur annarra hjálpar manni yfir örðugasta hjallann — yfir þröskuldinn sem manni hefur ekki tekist í fyrri megrunartilraunum að komast yfir. Þegar hér er komið er þér farið að líða betur og menn farnir að hrósa þér fyrir útlitið. Héðan í frá hefur þú sálfræðilegan meðbyr en ekki mótbyr.

Önnur mikilvæg hjálp til að komast yfir þröskuldinn er skynsamlegt mataræði sem lætur manni ekki finnast maður hungraður og líða skort. Ég komst að raun um að besta ráðið sem ég gat fengið um mataræði var einfaldlega útfærsla á atriðunum sem komu fram í janúar-mars eintaki Vaknið! 1990 um rétta fæðu. Megrunarfæði mitt samanstendur af fitulitlu morgunkorni eða brauðbollu með hálfu greipaldini í morgunmat, vel útilátnu salati með fitulítilli salatsósu í hádegismat og gufusoðnu grænmeti með mögru kjöti í kvöldmat, án brauðs eða ábætis. Tólf hundruð til 1500 hitaeiningar á dag er strangur megrunarkúr en varla harðneskjulegur. Epli er hentugur aukabiti milli mála og í þeim sjaldgæfu tilfellum þegar ekki er hægt að leiða hjá sér hungurverkina nota ég alltaf eitt af leynivopnunum mínum, frábært megrunarleyndarmál sem þú ættir líka að þekkja.

Leynivopnin

Hvert er leyndarmálið? Það er efni sem er gott fyrir þig, mettar þig næstum samstundis, inniheldur alls engar hitaeiningar og er ódýrt! Vatn. Það er undravert hvað sex til átta vatnsglös á dag geta gert til að hjálpa manni að ná árangri í megrunarkúrnum. Þegar líkaminn hefur á annað borð áttað sig á að vatnsglas er fastákveðið svar manns við hungurverkjum fara þeir að láta undan. Vatn hjálpaði mér meira en nokkuð annað að komast yfir ævilangan ávana minn, kvöldnartið.

Annað leynivopn til að hafa stjórn á þyngdinni til langs tíma litið er regluleg hreyfing. Það hafa auðvitað allir heyrt að hreyfing hjálpi til við megrun, en hvert er leyndarmálið? Hér er það hin stórkostlega andlega hvatning sem maður fær af því að líða betur og líta betur út. Sú umbun meira en bætir upp skortinn á einhverjum ákveðnum fæðutegundum. Hún hjálpar manni að halda sínu striki og öfunda ekki einu sinni alla í kringum mann þegar þeir eru að borða súkkulaðibúðing en maður sjálfur melónu.

Megrun og hreyfing vinna fullkomlega saman. Að megrast þýðir ekki að maður þurfi að vera veiklulegur. Regluleg hreyfing gerir mann hraustlegan í útliti og stælir vöðvana. Reyndar gáfu stæltari vöðvar öðrum þá hugmynd um mig að ég léttist hraðar en ég gerði í raun! Ég fann að ég þurfti sambland íþrótta sem ég gat notið með öðrum, eins og tennis, og æfingar sem ég gat gert sjálfur hvenær sem var, svo sem lyftingar. Æfingarnar létu megrunina virðast árangursríkari, og eins lét megrunin æfingarnar líta út fyrir að vera árangursríkari með því að afhjúpa vöðva sem höfðu verið grafnir í spiki í tíu ár. Er þyngdin var komin úr 110 kílógrömmum í 80 kílógrömm fór ég að hlakka til að fara í æfingarnar með hraustum unglingum úr nágrenninu til að sjá hvort þeir hefðu við mér!

Hafir þú verið of þungur eins lengi og ég, varstu ef til vill orðinn vanur því að finnast þú þungur á þér og þreyttur á hverjum morgni þegar þú fórst á fætur, dragnast um allan daginn og móka í hægindastólnum á kvöldin. Að bera 20 til 30 aukakíló á sér er eins og að dragnast um hlekkjaður við stálkúlu. Ég var hreinlega búinn að gleyma hvernig það var að rjúka fram úr rúminu að morgni, ákafur í að fara á fætur, með meira en næga krafta fyrir allan daginn. Núna veit ég það.

Baráttan endalausa

Að ná markþyngd sinni er eins og að vinna langdregna orrustu. En þótt þessi fyrsta orrusta sé yfirstaðin er raunverulega baráttan rétt að hefjast. Við sem erum komin á miðjan aldur og erum í kyrrsetuvinnu þurfum alltaf að aðgæta hvað við borðum ef við ætlum að halda frá okkur kílóunum sem við losnuðum við með erfiðismunum. Galdurinn er sá að hugsa um megrunina sem æviverkefni. Það má takmarka hana við það að halda sömu þyngd í stað þess að léttast, en henni er aldrei lokið. Ef þú snýrð aftur til fyrri matarvenja þinna snúa kílóin aftur til þín.

Hví ekki að halda upp á það er þú nærð markþyngd þinni með því að kaupa þér ný föt? Losaðu þig svo við gömlu fötin. Að geyma þessi gömlu pokalegu föt bara til vonar og vara er eins og að áforma fall. Klæðstu fötum sem eru ekki mjög víð; þau gera þér fljótlega viðvart ef óvelkomnir sentimetrar taka að bætast aftur við. Vertu ákveðinn í að breyta yfir í fitu- og sykurlítinn mat til lífstíðar þótt mataræði þitt til að halda kjörþyngd sé fjölbreyttara en það sem þú hafðir til að léttast. Hættu ekki heldur að hreyfa þig reglulega. Það er lykillinn að góðri líðan. — Aðsent.