Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Mahóníverslun ógnar

Um 250.000 indíánar í skógunum Amasonsvæðisins í Brasilíu eiga á hættu að þurfa að hrökklast frá hefðbundnum heimkynnum sínum. Að sögn yfirmanns indíánadeildar stjórnarinnar stafar „mesta hættan“ af mahóníversluninni. Að sögn Lundúnablaðsins The Guardian hafa um 3000 kílómetrar af óleyfilegum vegum verið lagðir um suðurhluta Paráríkis í tengslum við óleyfilegt skógarhögg. Í hvert sinn sem mahónítré er fellt verða tré af allt að 20 öðrum tegundum fyrir tjóni. Þegar ágjarnir trjákaupmenn ryðja skóg opna þeir landnemum og gullleitarmönnum leið, og jafnframt sögunarverksmiðjum í þúsundatali. Miðað við núverandi notkun endast mahónítrén aðeins í 32 ár til viðbótar þannig að framtíð þeirra er óviss líkt og framtíð indíánanna.

Atvinnuleysi og heilsa

Atvinnuleysi meðal ungs fólks er eitt af alvarlegustu vandamálum Vesturlanda, að sögn dr. Anne Hammarström við Karolinska Institute í Stokkhólmi. Samkvæmt rannsóknum hennar, sem skýrt var frá í British Medical Journal, hafa ungir, atvinnulausir karlmenn tilhneigingu til að fara út í óheilbrigt líferni, svo sem aukna drykkju og afbrot. Atvinnuleysi hefur önnur áhrif á ungar konur en hjá þeim verða líkamlegir sjúkdómar tíðari samfara sektarkennd og áhyggjum af því að þær séu fjölskyldum sínum til byrði. Karlmenn fá talsvert meiri athygli almennings því að viðbrögð þeirra við atvinnuleysi eru augljósari, að sögn Hammarström. Hún leggur til að „heilbrigðisyfirvöld gefi meiri gaum að áhrifum atvinnuleysis á konur.“ Læknatímaritið segir að lokum að „eina lausnin, sem skilar fullum árangri, sé atvinna sem máli skiptir.“

Vont loft

„Loftmengun veldur æ alvarlegri heilsuvandamálum í sumum af stærstu borgum heims og er núna nálega óhjákvæmilegur hluti borgarlífsins um heim allan.“ Þetta stóð í skýrslu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna gáfu sameiginlega út fyrir skömmu. Skýrslan, sem byggð var á vísindalegum rannsóknum í 20 borgum, gefur til kynna að umferð vélknúinna ökutækja sé verulegur mengunarvaldur. Þar er einnig bent á að vélknúnum ökutækjum, sem eru 630 milljónir talsins nú sem stendur, muni sennilega fjölga um helming á næstu 20 eða 30 árum. Loftmengun hefur alvarleg áhrif á öndunarfæri og hjarta- og æðakerfi og veldur auknum sjúkdómum, örorku og dauða.

Þvoðu þér um hendurnar!

Enda þótt tækniframfarir læknavísindanna hafi náð umtalsverðum árangri í baráttunni gegn sjúkdómum segja vísindamenn að sápa og vatn séu enn einhver áhrifaríkustu verkfærin til að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma. Franska dagblaðið Le Figaro segir að í nýlegri rannsókn á hreinlæti fólks í Frakklandi, Þýskalandi og Hollandi hafi rannsóknarmenn látist vera viðgerðarmenn eða ræstingamenn á almennum salernum hótela, veitingahúsa, skrifstofa, skóla og verksmiðja. Þeir uppgötvuðu að 1 af hverjum 4 þvær sér ekki um hendurnar eftir að hafa farið á salernið og að fjórðungur þeirra sem þvær sér notar ekki sápu. Vísindamenn segja að um heim allan virðist mannshöndin vera algengasta smitleið sjúkdóma.

Vonir stjarnfræðinga

Í tíu ára áætlun undir stjórn Geimferðastofnunar Bandaríkjanna áforma stjarnfræðingar að eyða 100 milljónum Bandaríkjadala (um 6,3 milljörðum ÍSK) í þeim tilgangi að reyna að nema útvarpsútsendingar vitsmunavera á öðrum reikistjörnum. Að sögn dagblaðsins International Herald Tribune áforma þeir að nota útvarpssjónauka í Argentínu, Ástralíu, Indlandi, Rússlandi, Púertóríkó og Bandaríkjunum til að fylgjast samtímis með milljónum örbylgjurása. Sumir vísindamenn eru bjartsýnir og spá skjótum árangri en aðrir benda á að þær 50 rannsóknir, sem gerðar hafi verið frá 1960, hafi reynst árangurslausar.

Óvirkur heili ryðgar

Gerir langvinnt athafnaleysi heilanum gott? Alls ekki, segir prófessor Bernd Fischer við Medizin-Messe í Düsseldorf í Þýskalandi. Samkvæmt niðurstöðum hans hafa „tilraunir sýnt að hæfni mannsins til að hugsa dvínar mælanlega eftir aðeins nokkurra klukkustunda algert örvunarleysi,“ að því er sagði í frétt dagblaðsins Der Steigerwald-Bote. Prófessorinn ráðleggur þeim sem ímynda sér að besta fríið felist í því að liggja í leti, að hugsa sig um tvisvar. Blaðið sagði: „Undir sumum kringumstæðum tekur það heilann allt að þrjár vikur að ná fyrri afkastagetu eftir langt frí og aðgerðarleysi, líkt og óæfður vöðvi.“ Íþróttir, leikir og áhugavert lesefni var sagt koma í veg fyrir að heilinn ryðgaði í fríum.

Blóð ættingja engu betra

Rannsóknir bandarískra yfirvalda, sem náðu til yfir einnar milljónar blóðgjafa á fimm svæðum í Bandaríkjunum, hefur sýnt fram á að sú almenna trú að blóð frá ættingjum og vinum sé öruggara en blóð frá ókunnugum eigi alls ekki við rök að styðjast. Til dæmis sýndi ein mæling að 2,6 af hundraði blóðgjafa frá ættingjum og vinum væru smitaðar sermiguluveiru í samanburði við 1,8 af hundraði frá ókunnum blóðgjöfum. Blóðgjafir ættingja og vina reyndust líka oftar bera sárasóttarsmit, lifrarbólgusmit af C-stofni og krabbameinsvaldandi veiru, HTLV-1. „Maður dregur ekki úr áhættunni með því að biðja vini eða ættingja að gefa sér blóð,“ segir Lyle Petersen hjá bandarísku sóttvarnamiðstöðvunum.

Hjálp sem aldrei berst

Aðeins 7 af hundraði þess fjár, sem safnað er á alþjóðavettvangi til aðstoðar hungruðum og fátækum í Afríku, kemst alla leið til þeirra sem það er ætlað að hjálpa, viðurkennir Ferhat Yunes, varaforseti Afríska þróunarbankans. Eymd milljóna afrískra barna gerir harmleikinn enn átakanlegri. Spænska dagblaðið El País segir að í Afríku séu alls 30 milljónir vannærðra barna og 40 milljónir að auki þrífist ekki vegna lélegs viðurværis. Fulltrúar 44 Afríkuríkja, sem komu saman í Dakar í Senegal, mæltu með að horfið yrði frá miðstýrðri dreifingu hjálpargagna og dregið úr framlögum til varnarmála sem væru tvær mikilvægar leiðir til að bæta hlutskipti þessara barna.

Jörðin á barmi glötunar

Sem stendur fjölgar jarðarbúum um næstum 100 milljónir á ári og áætlað er að árið 2050 verði tala jarðarbúa komin yfir 10 milljarða, að því er segir í frétt í British Medical Journal. Hið konunglega breska vísindafélag í Lundúnum og Bandaríska vísindaakademían gáfu út sameiginlega yfirlýsingu, sem á sér ekkert fordæmi, þar sem sagði að slík fjölgun gæti valdið óbætanlegu umhverfistjóni, einkum ef þróunarlöndin, þar sem mannfjölgunin er örust, eyddu upp auðlindum með sama hraða og iðnaðarþjóðirnar. Akademíurnar lögðu til að vísindi og tækni myndu gegna veigamiklu hlutverki en töldu ekki skynsamlegt að treysta þeim einum „til að leysa vandamál sem skapast af örri fólksfjölgun, bruðlunarsamri notkun auðlinda og skaðlegu hátterni manna.“ Í yfirlýsingunni sagði að ef ekkert breyttist „kynni svo að fara að vísindi og tækni gætu hvorki komið í veg fyrir óbætanlega hrörnun umhverfisins eða áframhaldandi fátækt stórs hluta af heiminum.“ „Ef við gerum ekki alvarlegar tilraunir til að hafa hemil á fólksfjölguninni verður allt annað aukaatriði,“ sagði Sir Michael Atiyah, forseti Hins konunglega breska vísindafélags í Lundúnum.

Hulin hætta

„Reykingamenn eiga á hættu að þeim sé ranglega sagt að þeir séu hraustir þótt aukin hætta sé á að þeir fái hjartaáfall,“ segir í grein í The New York Times. Hvers vegna? Vegna þess að tjón, sem reykingar valda á hinum örsmáu æðum hjartans (slagæðlingum), kemur ekki fram í venjulegum hjartarannsóknum. Þegar reykingamenn verða fyrir líkamlegu eða tilfinningalegu álagi getur hjartavöðvinn orðið fyrir blóðsvelti og þar með aukast líkurnar á hjartaáfalli. Rannsókn sem gerð var við Hjartastofnun Iowa í Des Moines sýnir að þessi hætta er fyrir hendi jafnvel þegar reykingamaðurinn er ekki að reykja og að hættan eykst enn meðan reykt er. Undir álagi opnast slagæðlingar hjartans og geta fjórfaldað blóðflæðið til hjartavöðvans miðað við venjulegt stig. Hjá reykingamönnum minnkar blóðflæðið um 30 af hundraði.

Hver vill fá krakkana?

„Þú mátt fá krakkana, elskan, ég skal taka peningana.“ Þessi fyrirsögn í dagblaðinu Mainichi Daily News lýsti í hnotskurn svörum margra japanskra kvenna við því hvað þær vildu fá ef þær skildu. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun auglýsingafyrirtækisins Hakuhodo voru bankainnistæður, reiðufé og sumarhús efst á óskalistanum. Synir voru í fjórða sæti, síðan dætur, íbúðir, sjónvarpstæki, listaverk og handtöskur. Feðurnir hafa líka lítinn tíma til að sinna börnum sínum. Í annarri könnun, sem gerð var á vegum Tokai-bankans, kom í ljós að 69 af hundraði japanskra feðra sögðust eiga of annríkt í vinnunni til að eyða tíma í að tala við börnin sín. Tuttugu og tveir af hundraði sögðust hvort eð er ekki eiga neitt sameiginlegt með börnum sínum til að tala um.