Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna svona margar falskar viðvaranir?

Hvers vegna svona margar falskar viðvaranir?

Hvers vegna svona margar falskar viðvaranir?

Heimsendir — hve nálægur?

SAGA segir að strák, sem gætti fjár þorpsbúa í þorpi einu, hafi langað til að hleypa smáfjöri í tilveruna. Hann tók upp á því einn góðan veðurdag að hrópa: „Úlfur! úlfur!“ þótt enginn væri úlfurinn. Þorpsbúar komu hlaupandi með barefli til að hrekja úlfinn burt en fundu engan. Stráknum þótti þetta svo skemmtilegt að hann endurtók sama leikinn síðar. Aftur komu þorpsbúar hlaupandi með kylfurnar en uppgötvuðu aftur að viðvörunin hafði verið tómt plat. Seinna kom úlfur og drengurinn hrópaði: „Úlfur! úlfur!“ en þorpsbúar þóttust vita að nú væri verið að plata þá enn einu sinni og sinntu honum ekki. Þeir höfðu verið gabbaðir of oft.

Þannig er komið fyrir þeim sem boða heimsendi. Í aldanna rás, allt frá dögum Jesú, hefur heimsendi verið spáð svo oft án þess að hann kæmi að margir taka slíkar spár ekki alvarlega lengur.

Gregoríus I, sem var páfi frá 590 til 604, sagði í bréfi til einvaldsherra í Evrópu: „Vér viljum einnig að yðar hátign sé kunnugt, eins og vér höfum lært frá orði almáttugs Guðs í Heilagri ritningu, að endalok núverandi heims eru nálæg og að óendanlegt ríki hinna heilögu er í nánd.“

Á 16. öld spáði Marteinn Lúther, upphafsmaður lúthersku kirkjunnar, að heimsendir væri yfirvofandi. Samkvæmt einni heimild sagði hann: „Ég er fyrir mitt leyti sannfærður um að dómsdagur er rétt framundan.“

Sagt er um einn af fyrstu baptistahópunum: „Anabaptistar á fyrri hluta sextándu aldar trúðu að þúsundáraríkið myndi renna upp árið 1533.“

„Edwin Sandys (1519-1588), erkibiskup af York og yfirbiskup af Englandi . . . segir . . . ‚Vér megum vera fullvissir um að þessi koma Drottins er nálæg.‘“

Haft er eftir William Miller sem talinn er stofnandi aðventistakirkjunnar: „Ég er fullkomlega sannfærður um að einhvern tíma milli 21. mars 1843 og 21. mars 1844, eftir tímareikningi Gyðinga, muni Kristur koma.“

Eru þeir sem báru fram slíka spádóma sjálfdæmdir sem falsspámenn, samkvæmt skilgreiningunni í 5. Mósebók 18:20-22, úr því að spádómarnir rættust ekki? Þar stendur: „En sá spámaður, sem dirfist að tala í mínu nafni það, er ég hefi eigi boðið honum að tala, og sá sem talar í nafni annarra guða, sá spámaður skal deyja. Ef þú segir í hjarta þínu: ‚Hvernig fáum vér þekkt úr þau orð, er [Jehóva] hefir ekki talað?‘ þá vit, að þegar spámaður talar í nafni [Jehóva] og það rætist eigi né kemur fram, þá eru það orð, sem [Jehóva] hefir eigi talað.“

Til eru þeir sem slá fram heimsendisspádómum til að vekja athygli manna og afla sér fylgis, en þeir eru einnig til sem eru fullkomlega sannfærðir um að spár þeirra séu sannar. Þeir eru að lýsa væntingum sem þeir byggja á eigin túlkun sumra ritningartexta eða viðburða. Þeir fullyrða ekki að spár þeirra séu bein opinberun frá Jehóva og að þeir séu í þeim skilningi að spá í nafni Jehóva. Þess vegna ætti ekki í slíkum tilvikum, þegar orð þeirra rætast ekki, að líta á þá sem falsspámenn eins og þá sem varað er við í 5. Mósebók 18:20-22. Þeir eru skeikulir menn og hafa mistúlkað hlutina. a

Sumir láta það ekki á sig fá þótt fyrri spár hafi brugðist og virðast sækja hvatningu í nálægð ársins 2000. Nýjar heimsendisspár hafa því komið fram nýlega. The Wall Street Journal birti þann 5. desember 1989 grein sem hét: „Aldamótafár: Spámönnum fjölgar, heimsendir í nánd.“ Nálægð ársins 2000 hefur komið ýmsum vakningarprédikurum til að spá því að Jesús sé að koma og að tíundi áratugurinn verði „meiri hörmungatíð en heimurinn hefur áður kynnst.“ Þegar þetta er skrifað er nýjasta dæmið frá Kóreska lýðveldinu þar sem Trúboð hinna komandi daga spáði því að Kristur myndi koma á miðnætti þann 28. október 1992 og taka hina trúuðu til himna. Nokkrir aðrir dómsdagshópar hafa komið fram með svipaðar spár.

Það er miður að falskar viðvaranir skuli flæða yfir okkur. Þær hafa svipuð áhrif og hróp fjárhirðisins: „Úlfur! úlfur!“ — fólk hættir að taka mark á þeim og þegar ósvikin aðvörun kemur tekur fólk ekki heldur mark á henni.

Hvers vegna hafa menn haft svona ríka tilhneigingu til að koma með falskar viðvaranir í aldanna rás, eins og Jesús sagði myndu verða? (Matteus 24:23-26) Eftir að Jesús hafði sagt fylgjendum sínum frá ýmsum atburðum, sem myndu vera merki endurkomu hans, sagði hann þeim það sem lesa má í Matteusi 24:36-42: „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn. Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. . . . Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“

Þeim var sagt að halda ekki aðeins vöku sinni og vera viðbúnir heldur fylgjast eftirvæntingarfullir með framvindu mála. Rómverjabréfið 8:19 segir: „Því að sköpunin bíður þess með ákafri eftirvæntingu að synir Guðs opinberist.“ (NW) Mannlegt eðli er þannig að þegar við höfum brennandi löngun eða von um eitthvað og bíðum þess óþreyjufull er afar freistandi að láta sér finnast það vera alveg að koma, jafnvel þótt ónóg rök séu fyrir því. Í ákefð okkar gætum við sent út falska viðvörun.

Hvað mun þá greina réttu viðvörunina frá þeim fölsku? Því er svarað í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

a Vegna ákafa síns að sjá endurkomu Jesú hafa vottar Jehóva nefnt dagsetningar eða ártöl sem reyndust röng. Sökum þessa hafa sumir kallað þá falsspámenn. Þeir hafa þó aldrei í þessum tilvikum ætlað sér þá dul að spá ‚í nafni Jehóva.‘ Aldrei sögðu þeir: ‚Þetta eru orð Jehóva.‘ Varðturninn, opinbert málgagn votta Jehóva, hefur sagt: „Við höfum ekki spádómsgáfu.“ (Janúar 1883, bls. 425) „Ekki viljum við heldur að lotning sé borin fyrir ritverkum okkar eða þau álitin óskeikul.“ (15. desember 1896, bls. 306) Varðturninn hefur líka sagt að sú staðreynd að sumir hafi anda Jehóva merki „ekki að þeir er þjóna núna sem vottar Jehóva séu innblásnir. Það merkir ekki að greinarnar í þessu tímariti, Varðturninum, séu innblásnar, óskeikular og villulausar.“ (15. maí 1947, bls. 157) „Varðturninn heldur því ekki fram að orð hans séu innblásin og hann er ekki heldur kreddubundinn.“ (15. ágúst 1950, bls. 263) „Bræðurnir, sem semja þessi rit, eru auðvitað ekki óskeikulir. Rit þeirra eru ekki innblásin eins og rit Páls og annarra biblíuritara. (2. Tím. 3:16) Þess vegna hefur stundum reynst nauðsynlegt að leiðrétta sjónarmiðin þegar skilningurinn á Ritningunni hefur vaxið. (Orðskv. 4:18)“ — 1. júní 1982, bls. 6.