Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ráðvendni varðveitt á valdatímum nasista í Þýskalandi

Ráðvendni varðveitt á valdatímum nasista í Þýskalandi

Ráðvendni varðveitt á valdatímum nasista í Þýskalandi

Á KÖLDUM apríldegi árið 1939 var ég sendur til Sachsenhausen-fangabúðanna í Þýskalandi. Ásamt öðrum nýjum föngum var ég leiddur fyrir fangabúðastjórann, illskeyttan mann sem var uppnefndur Ferhyrningurinn sökum þess hve þrekvaxinn hann var. Í „móttökuræðu“ sinni jós hann yfir okkur skömmum og lýsti þeim grimmilegu þjáningum sem við gætum búist við.

„Þið getið fengið hvað sem þið viljið frá mér,“ hrópaði hann, „skot í hausinn, skot í brjóstið, skot í magann!“ Og hann aðvaraði: „Drengirnir mínir eru góðar skyttur. Þeir senda ykkur rakleiðis til himna! Héðan komist þið ekki nema sem liðin lík.“

Eftir þetta var ég sendur í „einangrun“ en það var afgirt svæði innan búðanna. Þar voru vottar Jehóva geymdir ásamt öðrum föngum sem álitnir voru hættulegir. Þegar þangað kom löðrungaði ungur SS-maður (SS-menn voru liðsmenn í stormsveitum Hitlers) mig margsinnis af því að ég hafði neitað að undirrita yfirlýsingu um að ég afneitaði trú minni.

Otto Kamien frá Herne vingaðist við mig og hjálpaði mér að sauma í fangabúninginn fanganúmerið mitt og purpuralita þríhyrninginn sem var auðkenni votta Jehóva í búðunum. Hann kenndi mér einnig að búa um rúmið mitt — fangar voru barðir eða jafnvel drepnir fyrir að búa ekki rétt um rúmið sitt.

Otto aðvaraði: „Af og til munu þeir spyrja þig hvort þú sért enn vottur Jehóva. Vertu einbeittur, vertu staðfastur og segðu hátt og skýrt: ‚Ég er enn vottur Jehóva.‘“ Hann bætti við: „Ef þú ert einbeittur og staðfastur lætur djöfullinn þig í friði.“ (Jakobsbréfið 4:7) Hvatningarorð Ottos hjálpuðu mér að varðveita ráðvendni við Guð næstu sex árin sem ég eyddi í þrennum fangabúðum.

Þegar ég horfi um öxl til þessara erfiðu ára er mér ljósara nú en nokkru sinni fyrr að það var aðeins með Guðs hjálp að ég varðveitti ráðvendni. En hvernig bar það til að ég skyldi vera handtekinn þann 20. janúar 1938?

Bernskuár mín

Nokkrum árum áður en ég fæddist árið 1911 gerðust foreldrar mínir, sem bjuggu í Königsberg í Austur-Prússlandi, Bibelförscher (biblíunemendur) eins og vottar Jehóva voru kallaðir á þeim tíma. Ég átti þrjá bræður og tvær systur og móðir mín fór oft með okkur á samkomur. Því miður hætti faðir minn fljótlega að fylgja fjölskyldunni í sannri guðsdýrkun. Bræður mínir og önnur systir mín urðu kostgæfir boðberar Guðsríkis en svo fór að við Lisbeth misstum áhugann á þeim sannindum Biblíunnar sem við höfðum lært.

Ég var rúmlega tvítugur þegar Hitler komst til valda í Þýskalandi og fólk var beitt miklum þrýstingi. Ég vann sem viðgerðarmaður á stóru bifreiðaverkstæði í Königsberg. Þegar Foringinn flutti ræður við sérstök tækifæri urðu allir á verkstæðinu að safnast saman. Það varð líka algengt að nota kveðjuorðin „Heil Hitler!“ Loks var mér skipað að gangast undir þjálfun fyrir herþjónustu þannig að ég varð að taka afstöðu til spurningarinnar: Með hverjum stend ég?

Af Postulasögunni 4:12 vissi ég að heil eða hjálpræði kom ekki frá Hitler heldur aðeins fyrir milligöngu Jesú Krists. Ég gat því ekki sagt „Heil Hitler“ og gerði það aldrei. Ég sinnti ekki heldur fyrirskipuninni um að mæta til þjálfunar fyrir herþjónustu.

Á árunum 1936 og 1937 voru móðir mín, yngri systir mín Helene og bræður mínir, Hans og Ernst, handteknir. Þaðan í frá vildi ég líka taka afstöðu með hinum sanna Guði. Ég byrjaði að lesa Biblíuna á kvöldin og bað Jehóva um að hjálpa mér. Lisbeth fór líka að sýna meiri áhuga en áður.

Ég tek afstöðu

Þegar stundin rann upp tók ég afdráttarlausa afstöðu með Jehóva og neitaði að þjóna í her Hitlers, enda þótt ég væri enn ekki skírður. Ég var handtekinn og afhentur hernum. Fimm vikum síðar dæmdi herdómstóll í Rastenburg mig til eins árs fangelsisvistar.

Ég var settur í einangrunarklefa í aðalfangelsinu í Stuhm í Vestur-Prússlandi. Mér var hughreysting í því að geta náð augnasambandi við trúfasta votta frá Königsberg, sem ég hafði þekkt frá barnæsku, í æfingatímanum í fangelsisgarðinum. Síðan voru bræður mínir — Paul, Hans og Ernst — allir settir í þetta sama fangelsi vegna trúar sinnar á Guð. Hans tókst stundum að smygla til mín brauðbita meðan ég var í einangrun.

Er refsivistinni lauk yfirheyrði Gestapo í Königsberg mig margsinnis. Þar eð ég neitaði að skipta um skoðun var farið með mig í fangabúðirnar í Sachsenhausen. Þar var ég látinn vinna við byggingu bílageymslu og þrælaði frá því klukkan sex að morgni til sex að kvöldi. Sökum hinnar ómanneskjulegu meðferðar reyndu sumir fangar að flýja þótt þeir vissu að þeir yrðu skotnir ef þeir næðust. Einu sinni sá ég fanga svipta sig lífi með því að kasta sér á rafmagnsgirðinguna.

Þrýstingurinn eykst

Í september 1939 braust síðari heimsstyrjöldin út og þrýstingurinn á okkur í Sachsenhausen magnaðist. Vinnuálagið var aukið og hlýju ullarfötin tekin af okkur. Þann 15. september ætluðu nasistar að nota kristinn bróður okkar, August Dickmann, sem hafði neitað herþjónustu, sem víti til varnaðar. Allir voru því kallaðir sérstaklega saman til að vera vitni að aftöku hans.

Nokkur hundruð af okkur vottunum voru sjónarvottar að því þegar aftökusveitin skaut og August féll örendur til jarðar. Eftir það voru allir fangarnir látnir fara nema vottar Jehóva. Ferhyrningurinn spurði þá hver væri tilbúinn til að undirrita yfirlýsingu um að hann hafnaði trú sinni og gefa til kynna að hann vildi verða hermaður. Ekki einn einasti undirritaði og Ferhyrningurinn var ævareiður.

Veturinn 1939 var harður. Við vorum illa klæddir og vannærðir þannig að sumir dóu. Margir af hinum eldri bræðrum okkar létust, en í samanburði við aðra fangahópa var dánartíðnin lág meðal okkar vottanna. Jafnvel hinn hraustlegi Ferhyrningur veiktist og dó í febrúar 1940.

Fluttur í aðrar búðir

Fáeinum dögum eftir að Ferhyrningurinn dó voru 70 okkar fluttir til lítilla fangabúða í Wewelsburg í grennd við Paderborn. Við höfðum vonað að ástandið yrði bærilegra þar en því var öfugt farið. Við fengum minni mat og erfiðari vinnu í grjótnámu. Suma daga vorum við holdvotir vegna snjókomu og rigningar. Á þessum sérstaklega erfiða tíma dró ég ábreiðuna upp fyrir höfuð á kvöldin og úthellti hjarta mínu kjökrandi frammi fyrir Jehóva. Í hvert sinn sem ég gerði það fann ég fyrir innri ró og hugarfriði. Þannig fékk ég ‚hjálp frá Guði á hagkvæmum tíma.‘ — Hebreabréfið 4:16.

Jehóva sá til þess að við værum andlega heilbrigðir. Vottar frá fangabúðunum í Buchenwald voru sendir til Wewelsburg og höfðu meðferðist andlega fæðu í formi biblíurita. Við fórum í smáum hópum í svefnskálann þar sem við numum Varðturninn saman með leynd. Jafnvel líkamlega fæðan í búðunum skánaði örlítið.

Ég þakkaði Jehóva fyrir gæsku hans þegar annar vottur sá til þess að ég fengi að vinna með honum á járnsmíðaverkstæðinu. Fangarnir fengu betri matarskammt á verkstæðunum þar sem aðallega vottar unnu. Auk þess var hlýtt þar og fangarnir voru ekki reknir áfram með harðri hendi. Það gerði mér svo gott líkamlega að eftir sex mánuði var ég aftur orðinn þrekinn þótt ég hefði ekki verið orðið annað en skinnið og beinin.

Fréttir af bræðrum mínum

Meðan ég var í Wewelsburg frétti ég gegnum Lisbeth systur mína að Ernst bróðir okkar hefði varðveitt ráðvendni sína við Jehóva allt til dauða. Hann hafði verið hálshöggvinn í Berlín þann 6. júní 1941, eftir fjögurra ára fangavist. Þegar aðrir vottar fréttu þetta komu þeir til mín og óskuðu mér til hamingju. Jákvætt viðhorf þeirra snart mig djúpt. Hollusta var okkur meira virði en lífið.

Tveim árum síðar, þann 1. febrúar 1943, var Hans bróðir minn skotinn í Quednau í grennd við Königsberg. Hans var 34 ára og hafði verið í haldi í fimm ár. Síðar sagði sjónarvottur að aftökunni mér að liðsforingi hefði spurt Hans hver væri hinsta ósk hans. Hans bað um leyfi til að biðjast fyrir og var veitt það. Bænin hafði slík áhrif á hermennina að þegar liðsforinginn skipaði þeim að skjóta hlýddi ekki einn einasti. Hann endurtók skipunina og þá var einu skoti hleypt af sem hitti Hans. Liðsforinginn dró þá fram skammbyssuna sína og drap hann sjálfur.

Fleiri dæmi um ráðvendni

Af vottunum, sem fluttir voru frá Buchenwald til Wewelsburg, voru 27 valdir til herþjónustu og sendir til að þjóna í ýmsum herdeildum. Allir neituðu að gegna herþjónustu; aðeins einn féllst á þjónustu án þátttöku í bardögum. Hinum 26 var hótað lífláti en án árangurs. Eftir að þeir komu aftur til búðanna í Wewelsburg hótaði búðastjórinn: „Þið verðið allir komnir undir græna torfu innan mánaðar.“

Þessir trúföstu bræður fengu síðan sérstaklega illa meðferð. SS-menn upphugsuðu alls konar leiðir til að þjaka þá, útkeyra og kvelja til bana. Þó lifðu allir þessir 26! Síðar voru sumir, sem ekki voru vottar, látnir sæta sömu meðferð og innan skamms var dánartalan orðin há meðal þeirra.

Ráðvandar systur mínar

Í apríl 1943 var ég fluttur til Ravensbrück-fangabúðanna. Þær voru fyrst og fremst ætlaðar konum en þar var einnig smá deild handa körlum. Ég var látinn vinna á bifreiðaverkstæðinu, beint fyrir framan kvennabúðirnar. Kristnar systur, sem gengu hjá, tóku fljótlega eftir purpuralita þríhyrningnum mínum. Það veitti mér mikla gleði að skiptast á laumulegum kveðjum eða hlýlegu brosi við þær! Þær fréttir bárust fljótlega út að ég væri sonur Rehwald ömmu. Já, móðir mín var þarna í fangabúðunum ásamt Helene systur minni og mágkonu minni, ekkju Hans bróður míns!

Kristnar systur okkar gátu stungið að mér nærfötum og af og til brauðbita. Einu sinni bjuggu þær svo um hnútana að ég gæti talað leynilega við ástkæra móður mína. Við hefðum lent í miklum vandræðum ef upp hefði komist um fund okkar. Hvílíkir fagnaðarfundir! Nokkrum mánuðum síðar, skömmu áður en fangarnir voru frelsaðir, dó móðir mín. Hún hafði varðveitt ráðvendni til dauða.

Loksins frjáls!

Í apríl 1945 voru Rússar og Bandaríkjamenn teknir að nálgast Ravensbrück. Mér var falin dráttarvél og dráttarvagn til að hjálpa við að tæma búðirnar. Eftir ævintýralega ferð sagði SS-foringinn, sem ábyrgðina bar, að Bandaríkjamenn væru nærri og að okkur væri öllum frjálst að gera það sem við vildum.

Við komumst loks til Schwerin í Mecklenburg-ríki þar sem við hittum fjölmarga votta sem höfðu verið í búðunum í Sachsenhausen, þeirra á meðal Paul bróður minn. Hann hafði lifað dauðagönguna frá Sachsenhausen og fleiri raunir. Nokkrum dögum síðar náðum við lest til Berlínar og fundum vottafjölskyldu sem tók okkur að sér.

Þessi fjölskylda gerði margt til að hjálpa bræðrum og systrum sem voru frelsuð úr fangabúðum og fangelsum. Árið 1946 kvæntist ég Elli, dóttur þessara hjóna. Loks voru gerðar ráðstafanir til að ég léti skírast en slíkt hafði ekki verið gerlegt í fangabúðunum.

Það hefur verið mjög hrífandi fyrir mig gegnum árin að hitta bræður á fjölmennum mótum sem ég var með í fangabúðum! Sumir höfðu hætt lífinu fyrir bræður sína og þeir voru mér sérstaklega hjartfólgnir. Samanlögð fangavist þeirra sex meðlima fjölskyldu okkar sem höfðu verið handteknir — móður minnar, Helene systur minnar og minnar, auk bræðra minna, Pauls, Hans og Ernsts — nam samtals 43 árum. Og Lisbet systir mín varðveitti einnig ráðvendni sína við Guð uns hún lést árið 1945.

Við reiddum okkur á styrk Jehóva

Eftir að við Elli giftumst höfðum við þau sérréttindi að þjóna í allmörg ár á Betel í Magdeburg og í brautryðjandastarfi uns við eignuðumst syni okkar tvo. Við erum mjög þakklát fyrir að annar þeirra, Hans-Joachim, skuli þjóna sem öldungur og eiginkona hans sem brautryðjandi. Því miður hefur hinn sonur okkar ekki haldið sér á þeirri kristnu braut sem við beindum honum inn á.

Yfir 45 ár hafa flogið síðan ég var í fangabúðunum. En jafnvel núna er Guð allrar óverðskuldaðrar gæsku ekki búinn að ljúka þjálfun minni. (1. Pétursbréf 5:10) Ég hef oft verið minntur á orð Páls postula í 1. Korintubréfi 10:12: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“

Ég er nú orðinn 81 árs og er þakklátur fyrir að ég skuli enn geta átt þátt í vitnisburðarstarfinu og þjónað sem öldungur. Og ég er þakklátur fyrir að hafa getað hjálpað fjölda fólks til vígslu og skírnar. Ég lít líka á það sem merki um óverðskuldaða gæsku Jehóva. — Frásaga Josefs Rehwald.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Josef Rehwald árið 1945.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Rewaldfjölskyldan um árið 1914. Josef situr í kjöltu móður sinnar.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Josef og Elli Rehwald á mótinu í Berlín árið 1991 ásamt syninum Hans-Joachim og konu hans, Ursulu.