Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þeir hrósuðu sigri andspænis dauðanum

Þeir hrósuðu sigri andspænis dauðanum

Þeir hrósuðu sigri andspænis dauðanum

„Nasistum til mikillar undrunar var ekki heldur hægt að útrýma vottum Jehóva. Því fastar sem þrýst var á þá, þeim mun fastari urðu þeir fyrir svo að þeir urðu harðir sem demantur í andspyrnu sinni. Hitler slöngvaði þeim út í heimsslitafræðilega baráttu og þeir varðveittu trú sína. . . . Reynsla þeirra er verðmætt efni fyrir alla þá sem rannsaka hvernig menn lifa af undir gífurlegu álagi, því að þeir lifðu af.“ — Haft eftir sagnfræðingnum dr. Christine King í tímaritinu Together.

VOTTAR JEHÓVA ættu að teljast sá hópur sem mest hefur verið ófrægður og ofsóttur í sögu 20. aldarinnar. Þeir hafa verið misskildir og oft misþyrmt einfaldlega vegna kristilegrar hlutleysisafstöðu sinnar og því að þeir neita herþjálfun og þátttöku í hernaði. Með því að halda sig algerlega utan við öll pólitísk tengsl hafa þeir kallað yfir sig bræði alræðisstjórnenda víða um lönd. Þrátt fyrir það hefur strangt hlutleysi þeirra og óbilandi ráðvendni verið eitt af framlögum þeirra til sögu nútímans. a

Breski sagnfræðingurinn Arnold Toynbee skrifaði árið 1966: „Á okkar tímum hafa verið til kristnir píslarvottar í Þýskalandi sem hafa frekar látið lífið en að sýna hinni hömlulausu þjóðernishyggju mannguðsins Adolfs Hitlers lotningu.“ Staðreyndirnar sýna að vottar Jehóva voru áberandi hluti þessara fórnarlamba. Nokkrar reynslufrásagnir ættu að sýna hvernig þeir mættu ofsóknum og jafnvel dauða vegna ráðvendni sinnar — og ekki aðeins á nasistatímanum. Sagan af því hvernig þeir hrósuðu sigri víða um lönd andspænis dauðanum á sér enga hliðstæðu.

Saga Ananii Grogul frá Úkraínu

„Foreldrar mínir gerðust vottar Jehóva í síðari heimsstyrjöldinni árið 1942. Ég var þá 13 ára. Skömmu síðar var faðir minn handtekinn, hnepptur í fangelsi og síðar fluttur til sovésku búðanna í Úralfjöllum. Árið 1944, þegar ég var 15 ára, kölluðu hernaðaryfirvöld mig til undirbúningsþjónustu í hernum. Þar eð ég var þegar kominn með sterka trú á Jehóva neitaði ég að fara í herþjálfun. Af þeim sökum var ég dæmdur í fimm ára fangelsi þótt ungur væri.

Þá rann upp árið 1950 sem var sérstaklega erfitt. Ég var handtekinn aftur og dæmdur til 25 ára fangelsisvistar vegna starfsemi minnar sem vottur. Ég var þá 21 árs. Ég lifði af sjö ára og fjögurra mánaða dvöl í vinnubúðum. Ég sá marga deyja, bólgna af hungri og útkeyrða af erfiðisvinnu.

Ástandið tók að breytast eftir dauða Stalíns árið 1953, og árið 1957 slepptu yfirvöld mér úr fangelsi. Ég gekk aftur út í ‚frelsið.‘ En núna sendu þau mig í tíu ára útlegð til Síberíu.“

Systir mín pynduð grimmilega

„Í Síberíu hitti ég fyrir yngri systur mína sem var orðin öryrki. Hún hafði verið handtekin árið 1950, nákvæmlega tveim vikum á eftir mér. Rannsóknin á máli hennar braut algerlega í bága við lög. Hún var sett í einangrunarklefa og síðan var rottum sleppt inn í klefann hennar. Þær kroppuðu í fæturna á henni og skriðu um líkama hennar. Loks létu kvalarar hennar hana standa í köldu vatni sem náði upp á brjóst og horfðu á hana þjást. Hún var dæmd í 25 ára fangelsi fyrir prédikunarstarf sitt. Hún lamaðist á báðum fótum en gat notað handleggi og hendur. Í fimm ár héldu þeir henni á spítala í vinnubúðum en að lokum var hún afskrifuð eins og hún væri dauð. Þeir fluttu hana til foreldra okkar sem höfðu verið sendir í lífstíðarútlegð til Síberíu árið 1951.“

Aftur til Úkraínu og áframhaldandi ofsóknir

„Í Síberíu hiddi ég Nadíu sem varð eiginkona mín og ól okkur börn. Jafnvel í Síberíu héldum við prédikunarstarfi okkar áfram. Mér var trúað fyrir því að framleiða og fjölrita biblíurit. Við Jakob, yngri bróðir minn, vorum uppteknir allar nætur við að fjölrita Varðturninn í kjallara sem grafinn hafði verið undir húsinu. Við höfðum tvær ritvélar og heimagerða fjölritunarvél. Lögreglan leitaði reglulega á heimili okkar en fór alltaf tómhent.

Útlegð mín í Síberíu tók enda. Ég fluttist með allri fjölskyldu minni til Úkraínu en ofsóknirnar eltu okkur. Mér var falið að starfa sem farandumsjónarmaður. Ég varð að ráða mig í vinnu til að sjá fjölskyldu minni farborða. Nokkrum sinnum í mánuði komu menn frá öryggislögreglunni (KGB) á vinnustað minn og reyndu að telja mig á að afneita trú minni. Einu sinni fann ég fyrir hjálp Jehóva á sérstakan hátt. Ég var handtekinn og það var farið með mig á skrifstofu öryggislögreglunnar í Kíev þar sem mér var haldið í sex daga. Allan tímann var reynt að rugla mig með guðlausum áróðri. Þeir töluðu á sinn guðlausa hátt um Varðturninn og önnur rit Varðturnsfélagsins. Álagið varð næstum óbærilegt. Þegar ég fór á salernið féll ég á kné, brast í grát og sárbændi Jehóva um hjálp. Ég bað ekki um að mér yrði sleppt heldur um styrk til að halda út og svíkja ekki bræður mína.

Þá kom lögregluforinginn til að hitta mig, settist andspænis mér og spurði hvort ég væri í raun og veru sannfærður um það sem ég væri að verja. Ég bar stuttlega vitni fyrir honum og lýsti yfir að ég væri reiðubúinn að deyja fyrir sannleikann. Hann svaraði: ‚Þú ert lánsamur maður. Ef ég væri bara sannfærður um að þetta væri sannleikurinn væri ég reiðubúinn að sitja í fangelsi ekki bara í 3 eða 5 ár heldur að standa á öðrum fæti í fangelsi í 60 ár.‘ Hann sat hugsi um stund og hélt svo áfram: ‚Þetta er spurning um eilíft líf. Getur þú ímyndað þér hvað eilíft líf þýðir í raun og veru?‘ Hann þagði stutta stund og sagði svo: ‚Farðu heim!‘ Þessi orð veittu mér óvæntan kraft. Ég var ekki hungraður lengur. Mig langaði bara til að fara. Ég var sannfærður um að það væri Jehóva sem hafði styrkt mig.

Á síðustu árum hefur ástandið breyst í Sovétríkjunum fyrrverandi. Núna höfum við fullt af biblíuritum. Við getum sótt svæðismót og umdæmismót og tekið þátt í alls konar prédikunarstarfi, meðal annars hús úr húsi. Jehóva hefur svo sannarlega veitt okkur sigur andspænis mörgum prófraunum!“

Ráðvendnin reynd í Afríku

Síðla á sjöunda áratugnum braust út borgarastyrjöld í Nígeríu sem olli mikilli eyðileggingu. Sökum vaxandi mannfalls tóku hermenn Bíafra, en svo kallaðist fylki sem hafði lýst yfir sjálfstæði, að kveðja unga menn í herinn með valdi. Þar eð vottar Jehóva eru hlutlausir í stjórnmálum og neita þátttöku í hernaði voru margir vottar í Bíafra hundeltir, þeim var misþyrmt og þeir voru myrtir. Einn votta Jehóva sagði: „Við vorum eins og rottur. Við urðum að fela okkur hvenær sem við heyrðum hermenn nálgast.“ Oft vannst enginn tími til að hlaupa í felur.

Einn föstudagsmorgun árið 1968 var Philip, 32 ára þjónn orðsins í fullu starfi, staddur í þorpinu Umuimo þar sem hann var að prédika fyrir rosknum manni þegar Bíafrahermenn þustu inn í þorpið til að safna mönnum í herinn.

„Hvað ertu að gera?“ spurði foringi hópsins. Philip sagðist vera að tala um hið komandi ríki Jehóva.

„Þetta er ekki rétti tíminn til að prédika!“ hrópaði annar hermaður. „Núna er stríð og við viljum ekki sjá hrausta menn þvælast um og gera ekki neitt.“ Síðan flettu hermennirnir Philip klæðum, bundu hendur hans og leiddu hann burt. Israel, 43 ára kristnum öldungi, vannst heldur enginn tími til að fela sig. Hann var gripinn þar sem hann var að matbúa handa börnunum sínum. Klukkan tvö síðdegis höfðu hermennirnir safnað saman yfir hundrað karlmönnum. Þeir neyddu bandingja sína til að hlaupa 25 kílómetra leið til herbúðanna í Umuacha Mgbedeala. Ef einhver dróst aftur úr var hann hýddur.

Israel var sagt að hann ætti að bera þunga vélbyssu; Philip skyldi fá þjálfun í meðferð léttrar vélbyssu. Þegar þeir útskýrðu að þeir gætu ekki gengið í herinn vegna þess að Jehóva bannaði það fyrirskipaði foringinn að þeir skyldu læstir inni. Klukkan fjögur síðdegis var öllum, sem hafði verið safnað til herþjónustu, þeirra á meðal þeim sem voru í fangaklefanum, skipað að standa í röð. Hermennirnir báðu síðan hvern einasta mann að undirrita blað þar sem stóð að hann hefði fallist á að ganga í herinn. Þegar kom að Philip til að skrifa undir vitnaði hann í orðin í 2. Tímóteusarbréfi 2:3, 4 og sagði liðsforingjanum sem var yfir búðunum: „Ég er nú þegar ‚góður hermaður Krists.‘ Ég get ekki barist fyrir Krist og líka fyrir annan mann. Ef ég geri það mun Kristur líta á mig sem landráðamann.“ Liðsforinginn sló hann í höfuðið og sagði: „Skipun þín sem hermaður Krists er felld úr gildi! Nú ert þú hermaður Bíafra.“

Philip svaraði: „Jesús hefur enn ekki tilkynnt mér að skipun mín sem hermaður Krists sé fallin úr gildi og hún stendur því óhögguð uns ég fæ slíka tilkynningu.“ Þá lyftu hermennirnir Philip og Israel upp og hentu þeim í jörðina. Mennirnir tveir voru dregnir dasaðir burt og þeim blæddi úr augum, nefi og munni.

Fyrir aftökusveit

Síðar þennan sama dag stóðu Israel og Philip frammi fyrir aftökusveit. En hermennirnir skutu þá ekki. Þess í stað börðu þeir þá með hnefum og byssuskeftum. Þá ákvað liðsforinginn að hýða þá til bana. Hann fól 24 hermönnum það verkefni. Sex áttu að hýða Philip og aðrir sex að hýða Israel. Þeir 12, sem eftir voru, áttu að sjá um að til væru ný prik og hlaupa í skarðið þegar hinir þreyttust.

Philip og Israel voru bundnir á höndum og fótum. Israel segir svo frá: „Ég veit ekki hve mörg högg við fengum þetta kvöld. Þegar einn hermaður var orðinn þreyttur tók annar við. Þeir hýddu okkur lengi eftir að við misstum meðvitund.“ Philip segir: „Matteus 24:13, sem talar um þolgæði allt til enda, kom upp í huga mér meðan á pyndingunni stóð og það styrkti mig. Ég fann ekki nema í fáeinar sekúndur til sársauka af völdum barsmíðarinnar. Það var eins og Jehóva hefði sent einn af englum sínum til að hjálpa okkur líkt og hann gerði á tímum Daníels. Annars hefðum við ekki lifað af þessa hræðilegu nótt.“

Þegar hermennirnir voru búnir að fá nægju sína voru Israel og Philip álitnir dauðir. Það rigndi. Það var ekki fyrr en næsta morgun sem þessir tveir kristnu menn komust aftur til meðvitundar. Þegar hermennirnir sáu að þeir voru enn á lífi drógu þeir þá aftur í fangaklefann.

‚Það er komin nálykt af ykkur nú þegar‘

Hold þeirra var rautt og skinnlaust af barsmíðinni og þeir voru flakandi í sárum frá hvirfli til ilja. Israel segir: „Við fengum ekki að þvo sárin. Eftir nokkra daga tóku flugur að sækja í sárin án afláts. Við gátum ekkert borðað vegna pyndinganna. Það leið heil vika áður en okkur tókst að kyngja nokkru nema vatni.“

Á hverjum morgni hýddu hermennirnir þá með svipu — 24 högg hvorn. Í kvalafýsn sinn kölluðu hermennirnir það „morgunverð“ eða „heitt morgunte.“ Um hádegisbil fóru hermennirnir daglega með þá út á engið þar sem þeir voru í hitabeltissólinni fram til klukkan 13. Eftir að slík meðferð hafði staðið í nokkra daga kallaði liðsforinginn þá fyrir sig og spurði hvort þeir hefðu skipt um skoðun. Þeir neituðu.

„Þið eigið eftir að deyja í klefanum ykkar,“ sagði liðsforinginn. „Það er reyndar komin nálykt af ykkur nú þegar.“

Philip svaraði: „Jafnvel þótt við deyjum vitum við að Kristur, sem við erum að berjast fyrir, mun reisa okkur upp.“

Hvernig lifðu þeir af þessa hræðilegu meðferð? Israel segir: „Við Philip uppörvuðum hver annan út í gegnum prófraun okkar. Í byrjun sagði ég við hann: ‚Óttastu ekki. Jehóva mun hjálpa okkur hvernig sem fer. Það mun ekkert geta fengið mig til að ganga í herinn. Jafnvel þótt ég þurfi að deyja mun ég ekki munda byssu með þessum höndum.‘“ Philip sagðist hafa einsett sér hið sama. Þeir rifjuðu upp og ræddu saman um ýmsa ritningarstaði.

Nýr liðsforingi ákvað að flytja um hundrað nýliða til Ibema, þjálfunarbúða á Mbanosvæðinu þar sem nú heitir Imoríki. Israel segir frá því sem gerðist: „Stóri herflutningabíllinn var tilbúinn og allir nýliðarnir voru komnir upp í hann. Konan mín, June, hljóp til hermannanna og hugrökk í bragði sárbændi hún þá um að fara ekki burt með okkur. Þegar þeir vildu ekki hlusta á hana kraup hún nálægt bílnum, baðst fyrir og lauk bæninni með greinilegu amen. Síðan ók herflutningabíllinn burt.“

Vinsamlegur málaliði

Herflutningabíllinn kom til búðanna í Ibema síðdegis næsta dag. Maðurinn, sem virtist yfirmaður þar, var ísraelskur málaliði. Þegar hann sá hve illa leiknir og veikburða Philip og Israel voru kom hann til þeirra og spurði hvers vegna þeir væru svona hræðilega á sig komnir. Þeir útskýrðu að þeir væru vottar Jehóva og hefðu neitað að taka þátt í herþjálfun. Hann sneri sér reiðilega að hinum yfirmönnunum þar. „Bíafra á örugglega eftir að tapa þessu stríði,“ sagði hann. „Hvert það land, sem á í stríði og hrellir votta Jehóva, tapar örugglega. Það á ekki að kalla votta Jehóva í herinn. Ef vottur samþykkir að fara í stríð, þá er það í besta lagi. En ef hann neitar á að láta hann í friði.“

Læknirinn í búðunum spurði hvort vottarnir tveir hefðu verið bólusettir og fengið heilbrigðisvottorð. Fyrst svo var ekki hafnaði málaliðinn öllum nýliðunum og skipaði að þeir yrðu fluttir aftur til Umuacha.

„Farið og þjónið Guði ykkar“

Síðar ákváðu eiginkona Israels og móðir Philips að heimsækja búðirnar í Umuacha í von um að frétta eitthvað. Þegar þær nálguðust heyrðu þær að uppnám var í búðunum. Vörðurinn við hliðið sagði: „Vottur Jehóva! Bænum þínum hefur verið svarað. Hópurinn, sem var sendur burt fyrir þrem dögum, hefur verið sendur til baka.“

Þennan sama dag var Philip og Israel sleppt úr búðunum. Liðsforinginn sagði við June: „Veistu að það var bænin þín sem gerði tilfæringar okkar að engu.“ Síðan sagði hann við Israel og Philip: „Farið og þjónið Guði ykkar og haldið áfram að vera Jehóva ykkar ráðvandir.“

Israel og Philip náðu sér og héldu áfram í kristnu starfi. Eftir stríðið gerðist Israel þjónn orðsins í fullu starfi í tvö ár og hefur þjónað áfram sem kristinn öldungur. Philip þjónaði sem farandumsjónarmaður í tíu ár og prédikar enn í fullu starfi. Hann er líka safnaðaröldungur.

Þeir neituðu að gefa fé til vopnakaupa

Zebulan Nxumalo og Polite Mogane eru tveir ungir þjónar orðsins í fullu starfi í Suður-Afríku. Zebulan segir svo frá: „Sunnudagsmorgun einn kom hópur manna að húsinu okkar og krafðist 20 rand (um 500 ÍSK) til vopnakaupa. Við báðum þá kurteislega að koma aftur um kvöldið því að við værum of uppteknir til að ræða málin við þá á þessari stundu. Okkur til undrunar samþykktu þeir það. Um kvöldið komu 15 karlmenn. Svipurinn á þeim var slíkur að þeim var greinilega fyllsta alvara. Eftir að hafa kynnt okkur kurteislega spurðum við hvað þeir vildu. Þeir sögðu að þeir þyrftu að fá peninga til að kaupa öflugri og betri vopn til að berjast við andstæðinga sína í stjórnmálum.

„Ég spurði þá: ‚Er hægt að slökkva eld með bensíni?‘

‚Nei, það er ekki hægt,‘ svöruðu þeir.

Við útskýrðum að á sama hátt myndi ofbeldi einungis hvetja til ofbeldis og hefndaraðgerða.

Þessi orð virtust fara í taugarnar á allmörgum þeirra sem voru viðstaddir. Krafa þeirra breyttist nú í hótun. ‚Þessi skoðanaskipti eru tímasóun,‘ sögðu þeir reiðilega. ‚Þetta er skylduframlag og ekkert hægt að semja um það. Annaðhvort borgið þið eða takið afleiðingunum!‘“

Zebulan heldur áfram: „Okkur leist ekki á blikuna, en í sömu mund kom foringi þeirra inn. Hann vildi fá að vita hvað væri að. Við útskýrðum afstöðu okkar og hann hlustaði með athygli. Við nýttum okkur dyggilegan stuðning þeirra við pólitíska sannfæringu sína sem dæmi. Við spurðum þá hvernig þeir héldu að þjálfaður hermaður úr samtökum þeirra myndi bregðast við ef hann yrði tekinn til fanga og neyddur til að afneita sannfæringu sinni. Þeir sögðu að slíkur maður ætti að vera reiðubúinn að deyja fyrir sannfæringu sína. Þeir brostu þegar við hrósuðum þeim fyrir svarið; þeir áttuðu sig ekki á því að þeir höfðu gefið okkur gullið tækifæri til að lýsa afstöðu okkar með dæmi. Við útskýrðum að við værum ólíkir kirkjum kristna heimsins. Við værum stuðningsmenn Guðsríkis og ‚stjórnarskrá‘ okkar byggðist á Biblíunni sem fordæmdi hvers kyns morð. Þar af leiðandi værum við ekki tilbúnir til að gefa einn einasta eyri til vopnakaupa.

Þegar hér var komið sögu og umræðurnar höfðu náð hámarki var komið fleira fólk inn í húsið þannig að við vorum farnir að ávarpa stóran áheyrendahóp. Þeir vissu ekki hve innilega við báðum Jehóva um að þessar umræður myndu enda vel.

Eftir að við höfðum skýrt afstöðu okkar rækilega kom löng þögn. Loks sagði foringinn við hópinn sinn: ‚Herrar mínir, ég skil afstöðu þessara manna. Ef við vildum fá peninga til að reisa elliheimili eða ef einhvern af nágrönnum okkar vantaði peninga til að fara á spítala myndu þessir menn gefa okkur rausnarleg framlög. En þeir eru ekki tilbúnir til að gefa okkur peninga til að drepa. Ég hef ekkert á móti trú þeirra.‘

Þar með stóðu þeir allir upp. Við kvöddum þá með handabandi og þökkuðum þeim fyrir þolinmæðina. Háskaleg staða, sem hefði getað kostað okkur lífið, hafði endað með stórsigri.“

Skrílsárásir undir forystu presta

Pólskur vottur Jehóva, Jerzy Kulesza, segir svo frá:

„Faðir minn, Aleksander Kulesza, var góð fyrirmynd um kostgæfni og það að láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir. Í hans augum var þjónusta á akrinum, kristnar samkomur og einka- og fjölskyldunám heilagt. Hvorki bylur né frost né stormur né hiti var hindrun fyrir hann. Á veturna spennti hann á sig skíðin, tók bakpoka með biblíuritum og lagði upp í nokkurra daga ferð til afskekktra svæða í Póllandi. Oft stóð hann frammi fyrir ýmsum hættum, meðal annars ofbeldisfullum skæruliðaflokkum.

Stundum æstu prestar til andstöðu gegn vottunum og komu af stað skrílsárásum. Yfirleitt hæddu þeir þá, köstuðu grjóti að þeim eða börðu þá. En vottarnir komu heim, glaðir yfir að hafa þolað illt vegna Krists.

Á þessum fyrstu árum eftir síðari heimsstyrjöldina voru yfirvöld ekki fær um að halda uppi lögum og reglu í landinu. Það var allt á tjá og tundri. Lögreglan og öryggissveitir stjórnuðu á daginn en skæruliðar og ýmsir óaldarflokkar störfuðu á nóttinni. Þjófnaðir og rán voru algeng og oft voru menn teknir af lífi án dóms og laga. Hinir varnarlausu vottar Jehóva voru auðveld bráð, einkum af því að sumir hópanna, sem voru undir forystu presta, einbeittu sér að vottunum. Þeir réttlættu innrásir á heimili okkar með því yfirvarpi að þeir væru að verja kaþólska trú feðra sinna. Við slík tækifæri brutu þeir glugga, stálu búpeningi og eyðilögðu fatnað, matvæli og rit. Þeir köstuðu biblíum í brunninn.“

Óvænt píslarvætti

„Dag einn í júnímánuði 1946, áður en við hittumst til að fara hjólandi til einangraðs svæðis, heimsótti ungur bróðir, Kazimierz Kądziela, okkur og talaði lágri röddu við föður minn. Faðir minn sendi okkur af stað en kom okkur á óvart með því að fara ekki með okkur. Við fengum að vita ástæðuna síðar. Þegar við snerum heim aftur fréttum við að Kądzielafjölskyldunni hefði verið misþyrmt illilega kvöldið áður og að faðir minn hefði farið til að annast alvarlega særða bræður og systur.

Ég táraðist þegar ég gekk síðar inn í herbergið þar sem þau lágu. Blóðslettur voru á veggjum og lofti. Fólk vafið í sárabindi lá í rúmunum, blátt og marið af barsmíðunum, bólgið og með brotna limi og rifbein. Það var varla þekkjanlegt. Systir Kądziela, móðirin í fjölskyldunni, hafði orðið mjög illa úti. Faðir minn var að aðstoða þau, og áður en hann fór stundi hann upp þessum þýðingarmiklu orðum: ‚Ó Guð minn, ég er svo heill og hraustur [hann var þá 45 ára og hafði aldrei kennt sér meins] og hef ekki haft þau sérréttindi að þjást fyrir þig. Hvers vegna þurfti það að lenda á þessari rosknu systur?‘ Hann vissi ekki hvað beið hans.

Þegar sólin gekk til viðar héldum við heim sem var þriggja kílómetra leið. Fimmtíu manna vopnaður hópur hafði umkringt húsið okkar. Wincenciukfjölskyldan var líka leidd inn þannig að við vorum níu þar. Hvert og eitt okkar var spurt: ‚Ert þú vottur Jehóva?‘ Þegar við svöruðum játandi vorum við barin. Síðan skiptust tveir af þessum hrottum á að berja föður minn og á meðan spurðu þeir hann hvort hann ætlaði að hætta að lesa Biblíuna og prédika hana. Þeir vildu fá að vita hvort hann myndi fara í kirkju og játa syndir sínar. Þeir hæddu hann og sögðu: ‚Í dag ætlum við að vígja þig til biskups.‘ Faðir minn sagði ekki aukatekið orð og stundi ekki í eitt einasta skipti. Hann þoldi pyndingar þeirra þögull eins og lamb. Í dögun, um stundarfjórðungi eftir að þessir trúarlegu ójafnaðarmenn voru farnir, dó hann, sundurbarinn. En áður en þeir fóru völdu þeir mig sem næsta fórnarlamb. Ég var þá 17 ára. Ég missti nokkrum sinnum meðvitund meðan þeir börðu mig. Líkami minn var blár og marinn af völdum barsmíðarinnar frá mitti og upp úr. Okkur var misþyrmt í sex klukkustundir fyrir það eitt að vera vottar Jehóva!“

Stuðningur trúfastrar eiginkonu

„Ég var einn af hópi 22 votta sem voru lokaðir í tvo mánuði inni í dimmum klefa sem var innan við 10 fermetrar að flatarmáli. Undir lokin var matarskammturinn okkar minnkaður. Daglega fengum við smáskammt af brauði og litla könnu með beisku kaffi. Það var aðeins hægt að leggjast til svefns á köldu steinsteypugólfinu þegar einhver var tekinn úr klefanum að næturlagi til yfirheyrslu.

Ég var fangelsaður fimm sinnum fyrir kristna starfsemi, samanlagt í átta ár. Það var farið með mig eins og sérstakan fanga. Í skýrslunni um mig var athugasemd í þessa veru: ‚Hrellið Kulesza svo mikið að hann missi löngunina til að taka nokkurn tíma upp þessa starfsemi aftur.‘ En í hvert sinn sem mér var sleppt úr haldi bauð ég mig fram til kristinnar þjónustu. Yfirvöldin gerðu eiginkonu minni, Urszulu, og tveim litlum dætrum okkar einnig lífið erfitt. Í tíu ár gerði fógetafulltrúi til dæmis hluta af launum eiginkonu minnar, sem hún hafði unnið fyrir hörðum höndum, upptæk. Það var sagt vera skattur á mig vegna útgáfu ólöglegra biblíurita. Allt var gert upptækt nema það sem álitið var lífsnauðsynjar. Ég er Jehóva þakklátur fyrir hugrakka eiginkonu mína sem þraukaði þolinmóð með mér gegnum allar þessar kvalir og var mér raunveruleg stoð og stytta allan tímann.

Við höfum unnið andlegan sigur hér í Póllandi; við höfum núna löglega deildarskrifstofu Varðturnsfélagsins í Nadarzyn í grennd við Varsjá. Eftir áratugalangar ofsóknir eru núna meira en 108.000 vottar þar sem starfa saman í 1348 söfnuðum.“

Hvers vegna svona margir píslarvottar?

Sagan af ráðvendni votta Jehóva núna á 20 öldinni myndi fylla margar bækur — þúsundir hafa dáið sem píslarvottar eða þolað fangavist og ólýsanlegar pyndingar og nauðganir og verið rændir eigum sínum í löndum svo sem Malví og Mósabík, á Spáni á valdatíma fasista, í Evrópu undir stjórn nasista, í Austur-Evrópu í valdatíð kommúnista og í Bandaríkjunum á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. En hvers vegna? Vegna þess að ósveigjanlegir stjórnmála- og trúarleiðtogar hafa verið ófúsir til að virða agaða samvisku kristinna manna sem neita að þjálfa sig til hernaðar og taka engan þátt í stjórnmálastarfsemi. Það er nákvæmlega eins og Kristur sagði í Jóhannesi 15:17-19 að það myndi verða: „Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan. Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“

Þrátt fyrir allar þessar ofsóknir um heim allan hefur vottum Jehóva fjölgað — úr 126.000 í 54 löndum árið 1943 í næstum 4.500.000 í 229 löndum árið 1993. Þeir hafa sigrað jafnvel þegar þeir hafa staðið andspænis dauðanum. Þeir eru staðráðnir í að halda áfram því einstaka fræðslustarfi sínu að kunngera fagnaðarerindið um ríkið uns Jehóva segir að því sé lokið. — Jesaja 6:11, 12; Matteus 24:14; Markús 13:10.

[Neðanmáls]

a Með ráðvendni er átt við „óhagganlega fastheldni við strangar siðferðis- eða siðareglur.“ — The American Heritage Dictionary, þriðja útgáfa.

[Rammi á blaðsíðu 22]

Píslarvætti í Þýskalandi

AUGUST DICKMANN var 23 ára þegar SS-foringinn Heinrich Himmler fyrirskipaði að hann skyldi skotinn frammi fyrir öllum hinum vottunum í fangabúðunum í Sachsenhausen. Gustav Auschner, sem var sjónarvottur að því, segir: „Þeir skutu bróður Dickmann og sögðu okkur að við yrðum allir skotnir ef við skrifuðum ekki undir yfirlýsingu um að við afneituðum trú okkar. Það yrði farið með okkur í sandgryfju í 30 eða 40 manna hópum og við yrðum allir skotnir. Næsta dag færðu SS-mennirnir okkur öllum blað til að skrifa undir eða verða skotnir ella. Þið hefðuð átt að sjá hve langleitir þeir voru þegar þeir urðu frá að hverfa án einnar einustu undirskriftar. Þeir höfðu vonast til að hræða okkur með hinni opinberu aftöku. En við vorum hræddari við að misþóknast Jehóva en við byssukúlur þeirra. Þeir skutu ekki fleiri okkar opinberlega.“

[Rammi á blaðsíðu 25]

Goldið hæsta verði

STUNDUM getur sigur andspænis dauðanum kostað það að gjalda hæsta verði — með lífi sínu. Bréf frá Nseleni-söfnuðinum í norðurhluta Natalhéraðs í Suður-Afríku segir þessa dapurlegu sögu: „Við skrifum þetta bréf til að segja ykkur frá missi okkar elskulega bróður, Moses Nyamussua. Hann vann við logsuðu og bílaviðgerðir. Einu sinni bað pólitískur hópur hann að logsjóða heimasmíðaðar byssur fyrir þá sem hann neitaði að gera. Þá, þann 16. febrúar 1992, héldu þeir baráttufund þar sem sló í brýnu með þeim og andstæðingunum. Þetta sama kvöld voru þeir á heimleið eftir bardagann og rákust á bróðurinn þar sem hann var á leiðinni út í verslanamiðstöðina. Þeir drápu hann þar með spjótum sínum. Hvaða ástæðu höfðu þeir til þess? ‚Þú neitaðir að logsjóða byssurnar okkar og nú eru félagar okkar fallnir í bardaga.‘

Þetta var mikið áfall fyrir bræður okkar,“ segir bróðir Dumakude, ritari safnaðarins. „En,“ bætir hann við, „við munum samt halda þjónustu okkar áfram.“

[Rammi á blaðsíðu 27]

Píslarvætti í Póllandi

ÁRIÐ 1944, þegar þýskar hersveitir voru á hröðu undanhaldi og víglínan nálgaðist bæ í austurhluta Póllands, neyddi setuliðið óbreytta borgara til að grafa skurði til varnar gegn skriðdrekum. Vottar Jehóva neituðu að taka þátt í því. Stefan Kieryło, ungur vottur — skírður aðeins tveim mánuðum áður — var þvingaður í vinnuflokk en tók hugrakkur sömu hlutleysisafstöðuna. Margt var gert til að reyna að brjóta ráðvendni hans á bak aftur.

Hann var bundinn nakinn við tré í mýrlendi þannig að mýbit og önnur skordýr gætu ráðist á hann. Hann þoldi þessar og aðrar pyndingar þannig að hann var látinn í friði. Þegar háttsettur foringi kom til að kanna vinnusveitina sagði einhver honum að það væri þar maður sem myndi alls ekki hlýða skipunum hans. Stefan var skipað þrívegis að grafa skurðinn. Hann neitaði jafnvel að taka sér skóflu í hönd. Hann var skotinn til bana. Hundruð manna, sem horfðu á þetta, þekktu hann persónulega. Píslarvættisdauði hans bar vitni um þann mikla styrk sem Jehóva getur gefið.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Ananii Grogul

[Mynd á blaðsíðu 26]

Jerzy Kulesza