Fórnarlömb eða píslarvottar — hver er munurinn?
Fórnarlömb eða píslarvottar — hver er munurinn?
GRIMMD manna hefur gegnum alla mannkynssöguna valdið körlum, konum og börnum óendanlegum þjáningum. Fórnarlömbin skipta milljónum. Hvort sem ástæðurnar hafa verið pólitískar, þjóðernislegar, trúarlegar eða stafa af kynþáttafordómum hefur verið úthellt saklausu blóði og er enn. Hatur má sín betur en kærleikur og skilningur. Hleypidómar kæfa umburðarlyndi. Og drápin halda áfram.
Á liðnum öldum barðist her gegn her og óbreyttir borgarar drógust fremur lítið inn í átökin. Núna á 20. öldinni, þegar farið var að varpa sprengjum úr lofti, beita stórskotaliðstækjum og flugskeytum, hafa svo margir óbreyttir borgarar fallið að í niðurstöðum einnar rannsóknar segir: „Nú eru langflest fórnarlömb styrjalda óbreyttir borgarar. Á þessari öld hafa mun fleiri óvopnaðir, óbreyttir borgarar fallið í stríði en atvinnuhermenn.“
Saklaust fólk hefur verið fallbyssufóður stríðsvélarinnar sem stjórnmálamennirnir hafa sett í gang. Aðeins á okkar öld hefur fórnarlömbum styrjalda fjölgað gríðarlega; yfir hundrað milljónir hafa fallið og hundruð milljóna særst og orðið fyrir því áfalli að missa ástvini.Auk fórnarlamba þeirra átaka, sem orðið hafa á okkar tímum, hafa einnig verið píslarvottar. a Hver er munurinn? Milljónir manna — Gyðingar, Slafar, sígaunar, kynvillingar og aðrir — dóu sem fórnarlömb á nasistatímanum í Þýskalandi fyrir það eitt að þeir voru það sem þeir voru. Þeir áttu sér ekkert athvarf, ekki um neitt að velja. Undir þessu illa kerfi beið þeirra ekkert annað en dauðinn. Sumir þurftu hins vegar ekki að deyja. Þeir áttu sér undankomuleið en kusu að nota hana ekki vegna þeirra meginreglna sem þeir aðhylltust.
Eitt frægt dæmi var kaþólski presturinn Maximilian Kolbe sem hjálpaði flóttamönnum Gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni. Árið 1941 var hann „fluttur til [fangabúða nasista í] Auschwitz þar sem hann bauðst til að deyja í staðinn fyrir dæmdan fanga, Franciszek Gajowniczek. Fyrst var hann sveltur og síðan sprautaður með fenóli og brenndur.“ (Encyclopædia Britannica) Hann varð píslarvottur sem fórnaði sjálfum sér — undantekning hinnar almennu reglu í kirkjum kaþólskra og mótmælenda.
Vottar Jehóva sættu hræðilegum ofsóknum á nasistatímanum í Þýskalandi (1933-45) fyrir það að þeir skyldu voga sér að vera hlutlausir og neita að starfa við stríðsrekstur Hitlers. Þúsundir votta voru sendar í hinar hræðilegu fangabúðir þar sem margir voru líflátnir og aðrir dóu sökum illrar meðferðar. En þeir þurftu ekki að þjást og deyja. Þeir gátu valið. Þeim var boðin undankomuleið. Þeir þurftu ekki annað en að undirrita skjal þess efnis að þeir afneituðu trú sinni og þá voru þeir frjálsir ferða sinna. Langflestir kusu að skrifa ekki undir og urðu bæði fórnarlömb ógnarstjórnar nasista og píslarvottar. Þótt allir píslarvottar séu fórnarlömb gátu aðeins fáein fórnarlömb kosið og kusu í reynd að verða píslarvottar. Þeir sigruðu þótt þeir stæðu augliti til auglitis við dauðann.
Hlutlaus vitnisburður margra, sem ekki voru vottar, sannar þetta. „Svissneski presturinn Bruppacher sagði árið 1939 að ‚enda þótt menn, sem kalla sig kristna, hafi fallið á úrslitaprófinu eru þessir óþekktu vottar Jehóva sem kristnir píslarvottar óhagganlegir í andstöðu sinni gegn samviskuþvingun og heiðinni skurðgoðadýrkun . . . Þeir þjást og þeim blæðir út vegna þess að sem vottar Jehóva og væntanlegir þegnar ríkis Krists neita þeir að dýrka Hitler og hakakrossinn.‘“
En það er ekki bara í Þýskalandi á nasistatímanum sem vottar Jehóva hafa varðveitt ráðvendni sína frammi fyrir dauðanum. Þeir hafa þurft að sýna hugrekki andspænis kommúnisma, fasisma og annars konar pólitískri harðstjórn, og frammi fyrir trúarlegri andstöðu. Jafnvel í hinum svokölluðu lýðræðisríkjum Vesturlanda hafa vottarnir verið beittir ofbeldi. Í greininni á eftir er fjallað ýtarlega um nokkur tilfelli þar sem vottar hafa gengið með sigur af hólmi andspænis dauðanum.
[Neðanmáls]
a Fórnarlamb er „sá sem einhver annar veldur tjóni eða drepur . . . Sá sem bíður tjón eða er látinn þjást af völdum athafnar, aðstæðna, valdbeitingar eða ástands.“ Píslarvottur er á hinn bóginn „sá sem kýs að þjást frekar en að afneita trúarlegum frumreglum. . . . Sá sem færir stórar fórnir eða þjáist mikið í þágu trúar, málstaðar eða meginreglu.“ — The American Heritage Dictionary of the English Language, þriðja útgáfa.
[Innskot á blaðsíðu 20]
Jafnvel í hinum svokölluðu lýðræðisríkjum Vesturlanda hafa vottarnir verið beittir ofbeldi.
[Mynd á blaðsíðu 19]
Eftir síðari heimsstyrjöldina sakfelldu austur-þýskir dómstólar votta Jehóva ranglega sem ameríska njósnara.
[Rétthafi]
Neue Berliner Illustrierte