Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Framlög til góðgerðarmála — kristileg skylda?

Framlög til góðgerðarmála — kristileg skylda?

Sjónarmið Biblíunnar

Framlög til góðgerðarmála — kristileg skylda?

INNAN við tíu ár eru liðin frá því að PTL-klúbburinn (Praise the Lord eða „Lofið Drottin“), sem var með aðalstöðvar í suðausturhluta Bandaríkjanna, falaðist eftir framlögum sem trúarleg góðgerðarstofnun. PTL notaði gervihnattasjónvarp og póstþjónustuna til að safna hundruðum milljóna dollara sem streymdu inn í fjárhirsluna — undir því yfirskini að það væri til þess að kosta útbreiðslu fagnaðarerindisins.

Þú getur gert þér í hugarlund hvernig þeim þúsundum manna, sem höfðu sent peninga til PTL-klúbbsins, var innanbrjósts þegar þeir lásu fréttir eins og þá sem kom í fréttaskeyti Associated Press þar sem sagði að Jim Bakker, fyrrverandi forseta PTL, og eiginkonu hans, Tammy, „hafi að sögn verið greiddar 1,6 milljónir dollara í laun og fríðindi árið 1986.“ Og ekki nóg með það heldur bætti fréttaskeytið við: „Þessar greiðslur voru inntar af hendi enda þótt stofnunin skuldaði að minnsta kosti 50 milljónir dollara . . . Um 265.000 dollarar höfðu verið lagðir fyrir handa [Jessica] Hahn til að tryggja að hún þegði yfir kynferðissambandi sínu við Bakker.“

Áður en fangelsisdómur var kveðinn upp yfir Bakker fyrir að svíkja fylgjendur sína sagði dómarinn sem réttaði yfir honum: „Þau okkar, sem tilheyra trúfélagi, hafa fengið meira en nóg af því að láta betliprédikara og -presta hafa sig að ginningarfíflum.“

Trúfélögin eru ekki ein um það að höfða til tilfinninga gjafaranna og stinga svo stærstum hluta peninganna í eigin vasa. Ekki er óalgengt að þeir sem standa fyrir fjáröflun haldi eftir yfir 90 af hundraði þeirra framlaga sem þeir fá.

Er það þá nokkur furða að fólk sé búið að fá sig fullsatt á slíkri góðgerðarstarfsemi? En hvað eiga kristnir menn að gera? Er þeim skylt að gefa góðgerðarstofnunum peninga? Hvaða viðmiðunarreglur setur Biblían til að tryggja viturlega notkun fjármuna til hjálpar bágstöddum? Hver er besta og hentugasta leiðin til að hjálpa öðrum?

Að gefa — já og nei

Biblían hvetur okkur svo sannarlega til að vera góðviljuð og örlát við bágstadda. Allt frá fornu fari hafa þjónar Guðs verið hvattir til að vera „örlátir, fúsir að miðla öðrum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:18; 5. Mósebók 15:7, 10, 11) Kristnum mönnum er meira að segja sagt í 1. Jóhannesarbréfi 3:17: „Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?“

Já, gefðu en vertu gætinn! Beiðnum um framlög til líknarfélaga, trúfélaga og hjálparstofnana rignir yfir okkur; flest reyna að höfða til okkar með tilþrifum. En þegar við íhugum hvort við ætlum að gefa peninga eða ekki er gott að muna eftir orðskvið Biblíunnar: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ (Orðskviðirnir 14:15) Með öðrum orðum er ekki hyggilegt að taka allt gott og gilt sem þessi líknarfélög segja. Hvernig verður söfnunarfénu raunverulega varið? Eru umrædd samtök þess eðlis að kristinn maður geti stutt þau? Blanda þau sér í stjórnmál og þjóðernishyggju eða eru þau tengd falstrúarbrögðum? Er yfirlýstur málstaður þeirra raunhæfur og stríðir ekki gegn meginreglum Biblíunnar?

Sumar hjálparstofnanir geta unnið bágstöddu fólki mikið gagn. Þegar náttúruhamfarir hafa orðið eða alvarleg veikindi steðjað að hafa kristnir menn oft notið góðs af starfi slíkra hjálparstofnana. Sumar hjálparstofnanir eru hins vegar með háan stjórnunarkostnað eða eyða miklu í sjálfa fjáröflunina þannig að einungis lítill hluti söfnunarfjárins er í reynd notaður í þeim tilgangi sem auglýstur er. Til dæmis kom í ljós í nýlegri könnun, er náði til 117 af stærstu samtökum í Bandaríkjunum sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, þeirra á meðal góðgerðarfélaga, að yfir fjórðungur þeirra greiðir æðstu yfirmönnum sínum yfir 200.000 dollara (14 milljónir ÍSK) í árslaun. Við endurskoðun kemur oft í ljós að eytt hefur verið fé í kaup á munaðarvörum og fjármunir notaðir til að halda uppi ríkmannlegum lífsstíl stjórnendanna. Það er erfitt að ímynda sér að framlög til slíkra félaga uppfyllti þá kröfu Biblíunnar að hjálpa bágstöddum, og skiptir þá ekki máli hvaða nafni góðgerðarfélagið nefnist.

Öfgalaust viðhorf

Þótt enginn vilji sóa fjármunum sínum — eða það sem verra er, að sjá þá hafna í veski ágjarnra manna — þarf einnig að gæta þess að verða ekki kaldranalegur gagnvart því að láta fé af hendi rakna til annarra. Notaðu ekki lélega fjármálastjórn eða jafnvel óheiðarleika sumra „góðgerðarfélaga“ sem afsökun fyrir því að líta niður á bágstadda eða til að bæla niður samúðarkennd. Orðskviðirnir 3:27, 28 ráðleggja: „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það. Seg þú ekki við náunga þinn: ‚Far og kom aftur! á morgun skal ég gefa þér‘ — ef þú þó átt það til.“ (Samanber 1. Jóhannesarbréf 3:18.) Gakktu ekki út frá því sem gefnum hlut að allar góðgerðarstofnanir fari annaðhvort illa eða óheiðarlega með peninga. Kynntu þér staðreyndirnar og ákveddu síðan sjálfur hvort þú ætlar að gefa eða ekki.

Margir kjósa að hjálpa með persónulegum, beinum gjöfum til þurfandi einstaklinga og fjölskyldna. Þannig getur gjafarinn verið viss um að féð verði skynsamlega notað og komi þegar í stað að gagni. Það býður einnig upp á tækifæri til að byggja upp og láta í ljós góðvild jafnt í orði sem verki. Jafnvel þótt þú hafir ekki miklu úr að spila sjálfur getur þú samt sem áður notið gleðinnar samfara því að gefa. Næst þegar þú fréttir af einhverjum sem þarfnast raunverulega slíkrar hjálpar skaltu gefa það sem þú getur í anda 2. Korintubréfs 8:12: „Því að ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til.“

Hafðu líka hugfast að það eru ekki alltaf peningar sem koma að mestu gagni. Jesús sagði fylgjendum sínum að ‚fara og prédika: „Himnaríki er í nánd.“ . . . Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.‘ (Matteus 10:7, 8) Eins er það nú á tímum að kristnir menn gera sér ljóst að sá tími, kraftar og fjármunir, sem varið er til stuðnings því að prédika Guðsríki — sem bætir tilveru manna og veitir von — er góðgerðarstarfsemi af bestu gerð.

Sjónarmið Biblíunnar er því það að vera vingjarnlegur, örlátur og hagsýnn. Hún minnir okkur á að oft sé þörf á efnislegri hjálp og að þeirri þörf skuli sinnt. En láttu þér samt ekki finnast að þér sé skylt að gefa öllum sem falast eftir peningum. Hugleiddu hvernig þú getir best notað ráðstöfunarfé þitt þannig að þú þóknist Guði og að fjölskylda þín og náungi þinn hafi sem mest gagn af. (1. Tímóteusarbréf 5:8; Jakobsbréfið 2:15, 16) Líktu eftir Jesú með því að vera vakandi fyrir og bregðast vel við þörfum annarra — andlegum og efnislegum. Eins og Hebreabréfið 13:16 orðar það: „En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“