Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Hreyfing og svefn

„Hreyfing gæti verið lykillinn að betri svefni hjá rosknum karlmönnum,“ segir í tímaritinu Arthritis Today. Í rannsókn, sem gerð var fyrir skömmu í Norður-Karó­línu í Bandaríkjunum, var 24 karlmönnum á aldrinum 60 til 72 ára skipt í tvo hópa. Í að minnsta kosti eitt ár stundaði annar hópurinn kröftuga líkamsrækt þrisvar sinnum í viku eða oftar en hinn hópurinn hreyfði sig lítið eða óreglulega. Þeir sem hreyfðu sig reglulega og kröftuglega reyndust að meðaltali helmingi fljótari að sofna en þeir sem lítið hreyfðu sig. Einu gilti hvort litið var á þá daga sem þeir stunduðu líkamsræktina eða aðra daga. Tímaritið bætir við: „Þeir áttu einnig færri andvökustundir á nóttinni.“

Versta plága sögunnar

Vísindamenn staðfesta enn á ný að spánska veikin hafi verið mjög mannskæð. Að sögn The New York Times Magazine létust 196.000 manns í Bandaríkjunum einum í októbermánuði árið 1918. „Í lok vetrarins 1918-19 höfðu tveir millj­arð­ar manna um heim allan sýkst af inflúensunni og á bilinu 20 til 40 milljónir látist,“ segir tímaritið. John R. La Montagne, talsmaður bandarísku ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunarinnar í Bethesda í Maryland, benti á að spánska veikin árið 1918 hafi verið „versta farsótt sögunnar.“ Að vísu reyndist svartidauði, sem braust út árið 1347 og geisaði í fjögur ár, mannkyninu þungur í skauti, en að sögn tímaritsins ‚drap farsóttin árið 1918 jafnmarga á einu ári og létust á fjórum árum af völdum svartadauða.‘

Hættulegur akstur

Að sögn suður-afríska dagblaðsins The Star tekur fólk sér ýmislegt fyrir hendur undir stýri, svo sem að lesa á vegakort, tala inn á segulbandstæki, tala í farsíma og konur skipta um sokkabuxur. Þetta er gert jafnvel á 100 kílómetra hraða miðað við klukkustund. Sérfræðingur í umferðaröryggismálum segist oft sjá fólk nota báðar hendur við að hreinsa tennurnar með tannþræði meðan það ekur bifreið! Ökumenn hafa einnig sést bursta tennurnar og skola munninn. Kona klippti hár sonar síns meðan hún var að aka honum í skólann. Móðir sást skipta um bleiu á barni sínu á 90 kílómetra hraða miðað við klukkustund. Hvers vegna taka ökumenn slíka áhættu? Embættismaður sagði að langar vegalengdir og umferðartafir freisti ökumanna til að „nýta“ tímann sem þeir sitja í bílnum. Hann benti hins vegar á að þetta gæti valdið alvarlegum slysum.

Banvæn herbergi

„Tóbaksreykur í umhverfinu verður fleirum að bana en nokkurt annað mengunarefni af mannavöldum,“ segir dr. Michael Popkiss sem er embættislæknir í Höfðaborg í Suður-Afríku. Hann lét þessi orð falla í tilefni af úgáfu smárits sem Tób­aks­stofn­un­in í Suður-Afríku hafði látið dreifa, en þar var því haldið fram að um væri að kenna slæmri loftræstingu. Dr. Popkiss sagði að „tóbaksreykur innanhúss færi að jafnaði yfir þau mörk sem sett væru um hreinleika lofts“ og geti valdið lungnakrabbameini og hjartaáföllum, auk þess að hindra eða draga úr lungnavexti hjá börnum. Hann sagði að engin leið væri til að loftræsta byggingar eða sía loft þannig að það yrði algerlega laust við tób­aks­reyk. Hann bætti við: „Áhrifaríkasta aðferðin til að halda loftinu hreinu er að stöðva mengunarefnin við upptök sín.“

Verkamenn faraós áttu ekki sjö dagana sæla

Nýlegar rannsóknir á beinagrindum þeirra sem unnu við byggingu píramída, grafhýsa og mustera faraós sýna að þeir voru vannærðir, hrjáðir sjúkdómum og útkeyrðir. Margir verkamannanna þjáðust af liðagigt, segir egypskur mannfræðingur, Azza Sarry ­el-Din. Rannsóknir hennar leiða einnig í ljós að verkamennirnir voru ofkeyrðir. „Hryggurinn í þeim var boginn af því að bera þungar byrðar,“ og „þeir voru með beinabólgu sem olli óþægindum,“ segir hún. Merki um þessa sjúkdóma fundust við rannsóknir á hauskúpum, hryggj­ar­lið­um og fingur- og tábeinum sem grafin voru upp úr grafreitum í grennd við þessar stórbyggingar. Ekki fundust hins vegar merki um slíka sjúkdóma í grafreitum yfirstéttarfólks. Mannfræðingurinn telur að lífslíkur verkamannanna hafi legið á bilinu 18 til 40 ár en forréttindastéttirnar aftur á móti lifað í 50 til 70 ár.

Símbréf til Guðs?

Er hægt að senda Guði símbréf? Ísraelska símafélagið Bezeq er greinilega þeirrar skoðunar. Í janúar síðastliðnum kom Bezeq á fót þjónustu sem gerir fólki kleift að senda Guði skilaboð gegnum bréfsímanúmer í Jerúsalem, að sögn dagblaðsins International Herald Tribune. Starfsmaður tekur við símbréfinu, brýtur það saman og lætur stinga því í eina af rifunum í Grátmúrnum sem talinn er leifar musteris Jehóva er rómverskur her lagði í rúst árið 70. Að sögn dagblaðsins er sá siður að stinga skriflegum bænum í sprungur í veggnum „gæfumerki“ hinna trúuðu sem sækjast eftir hjálp Guðs í leit að maka, bættri heilsu eða ýmsu öðru. Sextíu símbréf bárust fyrsta daginn sem þessi þjónusta var veitt.

Hvernig Evrópubúar verja tímanum

Í árslok 1991 lagði Information et Publicité spurningar fyrir liðlega 9700 Evrópubúa í 20 löndum, í þeim tilgangi að afla upplýsinga um daglegt líf Evrópubúa. Hvaða munur er á daglegu lífi fólks frá einu landi til annars? Süddeutsche Zeitung skýrir frá því að Grikkir gangi síðastir til náða (0:40) en Ungverjar séu með þeim fyrstu til að fara á fætur (5:45). Írar og Lúxemborgarar sofa meir en flestir aðrir. Slóvakar, Svisslendingar og Tékkar horfa hvað minnst á sjónvarp, aðeins tvær stundir á dag, en Bretar hafa „imbakassann í gangi í næstum fjóra klukkutíma á dag.“ Í Svíþjóð nota menn yfir fimm klukkustundir á dag í lestur og útvarpshlustun en Danir nota um eina og hálfa klukkustund á dag af frítíma sínum í kvikmyndahúsi, leikhúsi eða einhverju slíku.

Stjörnuspámenn misreikna sig aftur

Snemma árs 1992 tók Félag vísindalegra rannsókna á dulvísindum í Þýskalandi saman um 50 spár stjörnuspámanna víða að úr heiminum, til að leggja mat á þær eftir að árinu var lokið. Samtökin höfðu gert svipaða athugun árið 1991. (Sjá Vaknið! júlí-september 1992, bls. 31) Reyndust spárnar fyrir árið 1992 nákvæmari en fyrir árið 1991? Því fór fjarri. „Árið 1991 mátti segja að óljósar spár hafi ræst að minnsta kosti að hluta, en núna hitti ekki ein einasta spá í mark,“ að sögn dagblaðsins Süddeutsche Zeitung. Því var meðal annars spáð um árið 1992 að George Bush yrði endurkjörinn og að Hvíta húsið myndi eyðileggjast í eldi. Félagið leyfði sér jafnvel að koma með eigin spá um árið 1993: „Stjörnuspámennirnir munu líka hafa alrangt fyrir sér á næsta ári.“

Svefnskuld

„Þeir sem hafa ekki sofið nóg geta gengið, heyrt og séð eins og allir aðrir. Hins vegar sýna rannsóknir að árvekni þeirra og hæfni til að rökhugsa og taka ákvarðanir dvínar,“ segir tímaritið Veja. Í grein í blaðinu er vitnað í sérfræðing sem varar við hættunni sem fylgi því að fá ekki nægan svefn. Könnun á vegum dr. Denis Martinez, sem er formaður Brasilíska svefnfélagsins, sýnir að „2 af hverjum 10 vinnuslysum stafa af ónógum svefni að nóttu.“ Dr. Martinez varar við því að þeir sem fá lítinn svefn og „vinni til dæmis á þrem vinnustöðum . . . séu einfaldlega að selja vinnumarkaðinum heilsu sína.“

Grunsamlegir fæðingargallar í Ungverjalandi

Á árunum 1989 og 1990 var hátt hlutfall nýbura í litlum bæ í suðvesturhluta Ungverjalands með alvarlega fæðingargalla. Ellefu af 15 börnum, sem fæddust á því tímabili, voru með Downs-heilkenni og vansköpuð lungu, hjarta og meltingarfæri. Þetta var 223 sinnum hærri tíðni en annars staðar í landinu. Andrew Czeizel einangraði ásamt hópi ungverskra og þýskra vísindamanna hugsanlegan sökudólg: þríklórfón sem er plágueyðir. Svo virðist sem fiskeldisstöð bæjarins hafi árið 1988 tekið upp nýja aðferð við notkun þríklórfóns: fisknum var dýft í efnið óþynnt og síðan látinn aftur í vatnið með þúsundfalt meira magn efnisins en talið er æskilegt hámark. „Þetta er eitur,“ segir Czeizel um þríklórfón. Að sögn tímaritsins New Scientist breytist það hægt í annað efni sem er hundrað sinnum hættulegra og getur borist gegnum legköku móður til fósturs.

Lifandi risi

Hver er stærsta lífvera á jörðinni? Árið 1992 héldu sumir að þeir hefðu fundið líklegan sigurvegara: risasvepp sem nær yfir um 12 hektara skógarbotn í Michigan í Bandaríkjunum. Tímaritið Nature sagði fyrir skömmu frá enn sigurstranglegri keppinaut: þyrpingu espitrjáa í Utah. Þessi tré eru öll einræktuð og erfðafræðilega alveg eins. Allir stofnarnir 47.000 spretta upp af einu rótarkerfi. Vísindamaðurinn dr. Jeffry Mitton við Coloradoháskóla lýsir þessu sem einni lífveru „sem getur bók­staf­lega klifrað yfir fjöll og komist yfir engi.“ Talið er að hún nái yfir 43 hektara og vegi um 6000 tonn. Þótt einstök tré lifi að meðaltali í 65 ár kann lífveran sjálf að vera mörg þúsund ára gömul.