Skaðlaus skemmtun eða eitur fyrir hugann?
Skaðlaus skemmtun eða eitur fyrir hugann?
Skemmtikraftur á rokktónleikum setti konu í kassa og byrjaði síðan að höggva í kassann með öxi. Eitthvað sem líktist blóði spýttist upp í skemmtikraftinn sem síðan skyrpti því yfir áheyrendur.
Nítján ára piltur skaut sig árið 1984. Foreldrar hans halda því fram að textinn við lag, sem kallaðist “Suicide Solution“ (Sjálfsmorð er lausn), hafi hvatt hann til þess.
Táningatímarit birti frásögur af afbrigðilegu kynlífi hljómsveitar í búningsherbergi hennar og einnig í hljóðveri meðan á upptöku stóð. Á plötuumslagi var klúr mynd af kynfærum karls og konu.
OFBELDI, sjálfsvíg og kynlíf samfara kvalalosta — þetta eru aðeins dæmi um þau óheilnæmu viðfangsefni sem fjallað eru um á rokkplötum, tónlistarmyndböndum og tónleikum. Þegar deilur verða út af þessu spillandi efni og koma jafnvel til kasta dómstóla, reyna listamenn og útgefendur að eyða þessum hneykslanlegu atriðum með útskýringum. Til dæmis er klúr mynd núna sögð eiga að styðja staðhæfingu um „hugarfarlega spillingu bandarísks þjóðfélags og hvernig það muni að lokum tortíma okkur.“ Á sama hátt eru orð, sem eru í sumri tónlist greinileg myndhvörf fyrir kynfæri karlmanns (svo sem byssur eða hnífar), nú sögð eiga að skiljast bókstaflega.
Listamenn og útgefendur komast kannski undan refsidómi, en skyldi almenningur láta blekkja sig? Hvað um þig? Getur þú neitað því að ofbeldi, kynlíf og dulspeki séu snar þáttur í þungarokkinu sem verslað er með nú á dögum?
Þungarokk og rapp
Margar tegundir rokktónlistar hafa komið fram gegnum árin. Tvær tegundir, þungarokk og rapp, hafa upp á síðkastið sætt gagnrýni fyrir hneykslanlegan ósóma.
Þungarokk er yfirleitt kraftmikil, hávær rafeindatónlist með hörðum taktslögum. Að sögn tímaritsins Time „spila þungarokkstónlistarmenn aðallega á firringarkennda draumóra
hvítra karla með því að lýsa sér sem vonsviknum utangarðsmönnum er hafi snúið baki við spilltri siðmenningu.“ Stórum hluta þungarokks er ætlað að hneyksla. Sumir textarnir eru ekki prenthæfir. Læknatímarit í Texas sagði að margir textar þungarokksins lofsyngi „óhefðbundin viðhorf til kynlífs, ofbeldis, haturs og dulspeki.“Ofbeldið, sem tengist þungarokkinu, er annað áhyggjuefni. Sem dæmi má nefna að þegar stöðva þurfti hljómleika vegna þess að söngvarinn veiktist gerðu áheyrendur uppþot og kveiktu jafnvel í hljómleikahöllinni. Á öðrum tónleikum köfnuðu þrír unglingar þegar aðdáendur þustu að sviðinu í þúsundatali, ruddust yfir þá sem voru fremstir og tróðu þá undir.
Í rapptónlistinni þylur einn eða fleiri söngvari textann við taktfastan undirleik sem oft er búin til með tölvutækni sem kölluð er „sampling.“ Flestir rapptónlistarmenn eru svartir en áheyrendur jafnt hvítir sem svartir. Stöku sinnum kveður við jákvæðan tón í boðskap rapptónlistarinnar, svo sem fordæming á misnotkun barna og fíkniefnaneyslu. Oftast snýst rappið þó um uppreisn gegn yfirvaldi, ofbeldi, kvennahatur og kynþáttahatur. Blótsyrði og klúrar kynlífslýsingar eru algengar.
Ofbeldi hefur stundum verið vandamál á rapptónleikum. Á einum tónleikum réðust 300 meðlimir óaldarflokks á áheyrendur sem snerust til varnar með járnstólum uns lögreglan kom á vettvang og batt enda á tónleikana. Fjörutíu og fimm manns slösuðust.
Á síðasta ári hvöttu lögreglustjórasamtök New Yorkríkis til þess að öll fyrirtæki í eigu Time Warner, Inc., yrðu sniðgengin uns fyrirtækið hætti sölu rapplagsins „Cop Killer“ (Lögreglumorðingi). Formaður samtakanna, Peter Kehoe, sagði: „Þessi upptaka spýr hatri
og hún hvetur til og lofsyngur morð á lögreglumönnum. Þetta lag mun beinlínis hafa í för með sér að lögreglumenn verði drepnir.“ Loks var þetta lag tekið af markaðinum.Eru áhrifin einhver?
Hvaða áhrif skyldi það hafa á áheyrendur og áhorfendur þegar tónlistarmenn syngja um hið illa eða jafnvel leika það á sviðinu? Hér koma nokkrar athugasemdir og frásagnir:
Dr. Carl Taylor, aðstoðarprófessor í refsirétti við Michigan State University, fullyrðir að rokkstjörnur séu að „stuðla að ákveðnum lífsstíl. . . . Hljómlistarmenn hafa áhrif á krakkana, mjög mikil áhrif.“
Drengur, sem lifði af sjálfsmorðstilraun, sagði að tónlistin hafi komið sér og vini sínum (sem tókst að svipta sig lífi) til að trúa að „dauðinn sé lausnin á vandamálum lífsins.“
Árið 1988 drápu þrír unglingar vin sinn að gamni sínu. Einn þeirra sagði að hrifning hans af dauðanum hefði hafist með þungarokki.
Eftir rapptónleika æddi hópur unglinga um götur og braut rúður. Yfirmaður hjá lögreglunni í Pittsburgh í Pennsylvaníu sagði: „Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að rapptónlist eggjar til ofbeldis.“
Rannsóknir á satansdýrkun meðal unglinga leiddi í ljós að margir, sem stunda satansdýrkun, eru stórfíkniefnaneytendur og hlusta á þungarokk sem lofsyngur fíkniefni og hvetur til kynferðislegs siðleysis. Af því leiðir að varnarlitlir unglingar laðast að satansdýrkuninni.
Þegar unglingar fara út í fíkniefnanotkun, afbrot eða svipta sig lífi er að sjálfsögðu ólíklegt að það sé tónlistinni einni að kenna. Hnignun fjölskyldulífs og þjóðfélagsins í heild á vafalaust stóran þátt í því. En tónlistin getur verið eins konar hvati sem kemur varnarlitlum unglingum til að gera hluti sem þeir myndu að öðrum kosti ekki einu sinni láta sér detta í hug. Hefur fólk, sem vandamál lífsins hafa þegar dregið kjarkinn úr, þörf á tónlist sem hvetur það til að láta undan niðurdrepandi tilhneigingum?
Kjarni málsins er sá að slæm tónlist getur verið eitur fyrir huga þeirra sem hlusta á hana. Munum að boðskapur slíkrar tónlistar er mun áhrifaríkari en annars væri fyrir þá sök að hann kemur frá stjörnum, hetjum sem eru nánast dýrkaðar af aðdáendum sínum.
Hvað um þig?
Hvers konar tónlist hlustar þú á? Kannski ert þú nú þegar varkár í vali þínu á tónlist og það er hrósunarvert. Ef þú ert á hinn bóginn einn þeirra sem hlustar á spillandi eða jafnvel vafasama tónlist, hefur hún þá haft neikvæð áhrif á þig? Getur þú sagt í fullri hreinskilni
að viðhorf þín hafi ekki breyst til hins verra, jafnvel þótt hegðun þín sé óbreytt? Þegar allt kemur til alls getur það að hlusta aftur og aftur á óheilnæmt efni haft þau áhrif að manni hætti að finnast það svo slæmt.Tökum sem dæmi ungan mann sem reyndi að láta líf sitt sem kristinn maður fara saman við daglegan kost þungarokks og rapps. Hann lét ekki reka sig út í morð, sjálfsvíg eða satansdýrkun, en taktu eftir hver áhrifin urðu á viðhorf hans. Hann sagði: „Þessi tónlist er ákaflega dýrsleg. Þótt ég sýndi ró og stillingu á yfirborðinu gaf ég gerspilltum og ofbeldisfullum tilhneigingum lausan tauminn undir niðri. . . . Ég lifði í draumaheimi sem einkenndist af hatri. Það leið ekki sá dagur að ég íhugaði ekki alvarlega að svipta mig lífi.“ Hann ákvað að gerbreyta um tónlistarval. Þegar hann gerði það breyttust viðhorf hans mjög til hins betra.
Þeir sem halda uppi vörnum fyrir siðspillandi tónlist reyna að réttlæta hinar ófegurri hliðar rokktónlistarinnar. En hvaða ályktun dregur þú? Getur þú lokað augum og eyrum fyrir hinum gríðarlegu spillingaráhrifum boðskaparins sem hún ber? Gætir þú sótt hljómleika af því tagi, sem lýst var hér á undan, án þess að óttast um öryggi þitt? Og hvað um tengslin milli slíkrar tónlistar og svívirðilegs hátternis flytjenda hennar og áheyrenda?
Ef þú lætur þér annt um heilsuna forðast þú sjálfsagt mat sem gæti gert þér illt, jafnvel þótt hann bragðist vel. Óheilnæm tónlist, hvort heldur rokk eða einhver önnur, ógnar hugarfarslegu heilbrigði þínu. Vilt þú gera þig berskjaldaðan fyrir skemmtiefni sem eitrar hugann? Að sjálfsögðu ekki. Hvað getur þú þá gert til að hafa heilbrigt, öfgalaust viðhorf í þessu máli? Hugleiddu þau atriði sem bent er á í næstu grein.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Hvað er satansdýrkun?
Satansdýrkun, sem hvatt er til í textum sumra þungarokkslaga, er engin skaðlaus skemmtun. Texas Medicine/The Journal útskýrir að slík dýrkun geti birst í allt frá „skaðlausum trúarathöfnum upp í það að drekka blóð fengið með sjálfsmisþyrmingu eða dýrafórnum.“ Satansdýrkendur boða „hollustu við djöfulinn. Sérstakar helgiathafnir eru viðhafðar til að beina krafti frá Satan til fylgjendanna. . . Kennisetningin um val- og viljafrelsi merkir að gera hvað sem manni dettur í hug án þess að hugsa nokkuð um Guð, sektarkennd eða samvisku.“ Afleiðingin er sú að sumir fara að fremja afbrot án nokkurrar sektarkenndar.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Þú myndir ekki fylla magann af sorpi. Hvers vegna þá að fylla hugann með því?
[Mynd á blaðsíðu 7]
Ætti þér að líða vel á tónleikum af þessu tagi?