Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hinn fullkomni leiðarvísir um siðferði

Hinn fullkomni leiðarvísir um siðferði

Hinn fullkomni leiðarvísir um siðferði

SKIPSTJÓRI þarf áreiðanleg sjókort og örugg tæki til að halda réttri stefnu. Eins þurfa menn áreiðanlegan leiðarvísi til að taka þær siðferðilegu ákvarðanir sem mæta þeim á degi hverjum. Leiðarvísir um siðferði má ekki vera óútreiknanlegur eða sjálfum sér ósamkvæmur, og hann þarf að duga í öllum menningarsamfélögum eða þjóðfélögum. Fullkominn leiðarvísir um siðferði verður að vera hafinn yfir kynþætti eða menningu.

Það er kaldhæðnislegt að Biblían — bókin sem milljónir manna hafa hafnað, bókin sem sumir kalla bara fallega líkingasögu, bókin sem hefur sætt meiri gagnrýni en nokkur önnur bók mannkynssögunnar — hún er þessi fullkomni leiðarvísir um siðferði. Biblían lýsir yfir að hún sé siðferðilegur leiðarvísir skaparans handa manninum, „lampi“ sem getur lýst upp leið okkar um „rétta vegu.“ — Sálmur 23:3; Sálmur 119:105.

Eru nokkur rök fyrir þessari staðhæfingu? Eru sannanir fyrir því að staðlar Biblíunnar skari fram úr þeirri siðfræði sem menn eru höfundar að?

Biblían og kynferðismál

Tökum kynferðismál sem dæmi. Biblían fyrirskipar bindindi á kynlíf utan hjónabands og segir: „Flýið saurlifnaðinn!“ (1. Korintubréf 6:18; Efesusbréfið 5:5) Hún ráðleggur hjónum: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) Biblían sýnir enn fremur að hver sá sem óhlýðnast þessum fyrirmælum vinnur sjálfum sér tjón og fótumtreður réttindi annarra. — Orðskviðirnir 6:28-35; 1. Þessaloníkubréf 4:3-6.

Hin hrikalegu vandamál, svo sem þunganir meðal unglinga, eyðni, herpes, sárasótt (sýfilis) og aðrir samræðissjúkdómar, auk sífellt tíðari hjónaskilnaða, sýna og sanna að þessi ráð eru enn í fullu gildi núna á tíunda áratugnum. Sá sem heldur sér við siðferði Biblíunnar umflýr margs konar hugarangur og sársauka. Og það sem meira máli skiptir; hann varðveitir góða samvisku. (1. Pétursbréf 3:16) „Ég hef sjálfsvirðingu og nýt þess að gera það sem er rétt í augum Guðs,“ segir Jónatan sem er 24 ára. Hann er einn af vottum Jehóva. „Ungt fólk er að deyja unnvörpum úr eyðni þannig að það getur bókstaflega bjargað lífi mínu að lifa siðferðilega hreinu lífi.“

Guðhrædd hjón hafa komist að raun um að það hefur góð áhrif á hjónaband þeirra að fylgja siðferðiskröfum Biblíunnar. Tuttugu og þriggja ára gift kona segir: „Við hjónin höfðum aldrei haft kynmök við nokkurn áður en við giftumst. Mér finnst við hafa átt eitthvað sérstakt að deila hvort með öðru, eitthvað sem fátt ungt fólk getur deilt með maka sínum nú til dags. Ég veit að það hefur styrkt kærleiksböndin milli okkar.“

Biblían og viðskipti

Biblían hefur líka sínar eigin reglur um siðferði í viðskiptum. Enda þótt hún viðurkenni að óheiðarlegt fólk kunni að virðast dafna hvetur hún okkur eigi að síður til að vera heiðarleg. (Sálmur 73:1-28) „Tvenns konar vog [rétt vog notuð við kaup og röng vog notuð við sölu] og tvenns konar mál, það er hvort tveggja [Jehóva] andstyggð.“ (Orðskviðirnir 20:10) Vottar Jehóva forðast því vafasama viðskiptahætti.

Að vísu getur það kostað kristinn mann óþægindi að vera heiðarlegur. Hann getur átt erfitt með að keppa við kaupsýslumenn sem ekki eru eins heiðarlegir. Öðrum getur þótt heiðarleiki hans undarlegur, jafnvel heimskulegur, en hann varðveitir góða samvisku — sem er langtum verðmætari en peningar. Hann hefur hugarró og getur sofið vært. Hann er ekki kvalinn nagandi ótta við að upp um hann komist og honum verði refsað fyrir óheiðarleikann. — Samanber Orðskviðina 3:21-26.

Margir vottar hafa einnig komist að raun um að það er hægt að halda sér við siðferði Biblíunnar og samt komast vel af fjárhagslega. Heiðarlegur maður ávinnur sér oft traust starfsmanna sinna, viðskiptavina, aðfangasala og lánardrottna. Það getur komið honum að góðu gagni.

Sá á fund sem finnur?

Eins og áður er nefnt hefur sú hugsun að sá eigi fund sem finnur gert annars heiðarlegt fólk að þjófum. Biblían sagði hins vegar þjónum Guðs til forna: „Þegar þú sér naut eða sauð bróður þíns á slæðingi, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim, heldur skalt þú reka þau aftur til bróður þíns. En ef bróðir þinn býr eigi í grennd við þig eða ef þú þekkir hann ekki, þá skalt þú taka það heim til þín og hafa hjá þér, uns bróðir þinn leitar þess. Þá skalt þú fá honum það aftur. Eins skalt þú og fara með asna hans, og eins skalt þú fara með klæðnað hans, og eins skalt þú fara með hvern þann týndan hlut, er bróðir þinn hefir misst og þú fundið. Þú mátt eigi leiða það hjá þér.“ — 5. Mósebók 22:1-3.

Vottar Jehóva fylgja þessari meginreglu nú á dögum. Vottur í Brooklyn í New York fann poka með jafnvirði 1.750.000 króna liggjandi á götunni. Án þess að nokkur tæki eftir hafði hann dottið út úr brynvörðum flutningabíl sem varð fyrir smávegis umferðaróhappi. Jafnvel þótt féð væri í notuðum smáseðlum — og því ógerlegt að rekja það — afhenti hann lögreglunni peningana. Vinnufélagar hans atyrtu hann fyrir það. Svo furðulegt sem það var gerði lögreglan gys að honum fyrir heiðarleika hans. En þessi kristni maður útskýrir: „Ég reyni að fylgja kenningum Biblíunnar í mínu daglega lífi.“ Biblían segir í Hebreabréfinu 13:18: „Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel [„hegða okkur heiðarlega,“ NW].“

Á við alls staðar og alltaf!

Biblían gefur líkar heilbrigðar viðmiðunarreglur um aðrar siðferðilegar spurningar. Hún hvetur til góðvildar, sanngirni, réttvísi, sannsögli, virðingar, velsæmis, ábyrgðarkenndar og umhyggju fyrir náunganum. Ráð hennar í siðferðismálum birtast í hnotskurn í gullnu reglunni: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ — Matteus 7:12.

Í samræmi við uppruna sinn duga viðmiðunarreglur Biblíunnar í hvaða landi og hvaða menningu sem er. Í bókinni Christianity’s Contributions to Civilization segir Charles D. Eldridge: „Bækur ritaðar í einu landi verða sjaldan vinsælar í öðrum löndum; þær eru eins og tré sem þola ekki flutning úr einum jarðvegi í annan . . . Um Biblíuna gegnir allt öðru máli: Hún hefur verið gróðursett í sérhverjum jarðvegi undir sólinni án þess að missa að alvarlegu marki lífskraft sinn eða töfra.“

Biblían er þannig einstök að því leyti að hún höfðar til manna alls staðar og alltaf og er hafin yfir tungumál, menningu og kynþætti. Einn biblíuritaranna orðar það þannig: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Að vísu er Biblían stundum torskilin. Maður til forna, sem las Biblíuna af kappi, var spurður hvort hann skildi það sem hann var að lesa. Hann svaraði: „Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?“ — Postulasagan 8:29-35.

Þessi maður fékk persónulega hjálp til að skilja Biblíuna. Núna er slík persónuleg aðstoð fáanleg gegnum biblíufræðslustarf votta Jehóva. Nú þegar hafa þeir hjálpað milljónum manna í yfir 200 löndum að afla sér þekkingar á orði Guðs. Þeir bjóða þér líka að kynnast þessari helgu bók betur með því að heimsækja næsta ríkissal.

Það er athyglisvert að sagt hefur verið að það megi ‚læra siðferðilega rétta hegðun af góðu fordæmi eða með því bara að „vera með“ fólki með gott siðferði.‘ Þetta er enn ein góð ástæða til að kynnast þeim sem sækja ríkissalinn í þínu byggðarlagi. Ekki svo að skilja að vottar Jehóva séu í eðli sínu betri en annað fólk, heldur hitt að gott siðferði þeirra ber vitni um kraftinn í orði Guðs. — 2. Korintubréf 4:7.

Siðferði heimsins mun halda áfram að hraka. Biblían spáir: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni.“ (2. Tímóteusarbréf 3:13) Þú þarft hins vegar ekki að láta þessa skaðlegu flóðbylgju hrífa þig með sér. Guð hefur látið í té áreiðanlegan áttavita, óskeikulan leiðarvísi. Ætlar þú að fylgja honum?

[Innskot á blaðsíðu 17]

Biblían lýsir yfir að hún sé siðferðilegur leiðarvísir skaparans handa manninum, „lampi“ sem getur lýst upp leið okkar.

[Innskot á blaðsíðu 19]

„Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ — Matteus 7:12.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Guðhrædd hjón hafa komist að raun um að það hefur góð áhrif á hjónaband þeirra að fylgja siðferðiskröfum Biblíunnar.